Hvernig breyttust jólasveinarnir og af hverju?

Oft hef ég hugsað um þá algeru umbreytingu sem varð á gömlu íslensku jólasveinunum, Stúf, Stekkjastaur, Skyrgámi og þeim bræðrum öllum sonum Grýlu og líklega Leppalúða. 

Umbreytingu þessara karla má líkja við algera viðhorfsbyltingu eða umsnúning á lífsgildum. Þeir leggja af tröllskap sinn og fláræði Grýlu kerlingarinnar sem var eitthvert versta tröllaskass sem sögur fara af og verða þess í stað alger andstæða þess sem þeir voru áður. Þeir umbreytast í glaðlega karla sem keppast við að gleðja mann og annan en þó aðallega börnin. Hvað svo sem það var sem gerðist þá má segja að það hljóti að hafa verið eitthvað gott. Fóru þeir kannski í skóla eða var það skóli lífsins sem hafði þessi góðu áhrif? Þeir hafa að sögn verið til í mörg hundruð ár og enginn skyldi vanmeta lífsreynsluna - en það skrýtna er að það er ekki lengra síðan en á fyrri hluta síðustu aldar sem þeim bræðrum var lýst sem sísvöngum matarþjófum og hrekkjakörlum í landsfrægum jólasveinavísum Jóhannesar úr Kötlum.

Ég hallast því að því að þeir bræðurnir hafi gengið í skóla eða að minnsta kosti farið á námskeið þar sem markmiðið með náminu hefur verið breytt viðhorf og bætt hegðun. Ef þetta er ekki raunin þá hlýt ég að hyggja að þeir hafi kynnst einhverjum sem hefur haft þessi góðu áhrif á þá.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband