Færsluflokkur: Menning og listir
Þriðjudagur, 2.8.2011
Hví ekki sýna leikverk Þjóðleikhússins í sjónvarpinu?
Um helgina horfði ég, lauslega þó, á skemmtilegan sjónvarpsþátt sem sýndi innra starf Þjóðleikhússins í tilefni af 60 ára afmæli þess og undirbúning fyrir sýningu Íslandsklukkunnar. Þetta leiðir hugann að þeirri spurningu af hverju ekki er hægt að sjónvarpa sýningum leikhússins sem eru teknar upp hvort eð er?
Hægt væri að bíða með sjónvarpa upptökunni í 1-2 ár frá því að sýningum á verkinu væri hætt til að tryggja að útsendingar hefðu hverfandi áhrif á miðasölu og aðsókn að sýningum. Nú er siður að útvarpa frá sinfóníutónleikum. Hugsanlega eru höfundarréttarsjónarmið sem hindra útsendingar leikverka en það ætti að vera hægt að leysa slík mál hjá þjóð sem ber metnað í brjósti gagnvart sinni eigin menningu og greiða höfundum þau laun sem þeim ber. Öðrum eins upphæðum er trúlega varið til kaupa á erlendum framhaldsþáttum eða íþróttaviðburðum. Þannig er krónum sem teknar eru með skattvaldi af þjóðinni varið til að styrkja erlenda menningarstarfsemi.
Miðað við efnahagsþróun síðustu ára verður að segjast eins og er það það er vart á færi annarra en vel stæðra þjóðfélagsþegna og þeirra sem eru miðaldra eða eldri að njóta menningarviðburða. Ferð fjögurra manna fjölskyldu til Reykjavíkur utan af landi auk kaupa á tónleika- eða leikhúsmiða fyrir alla er því miður það dýr pakki að það er frekar eitthvað ódýrara sem verður fyrir valinu.
Í leikhúsunum er unnið mikið og gott menningarlegt starf og svona útsendingar myndu tryggja að margir nytu þess starfs sem ekki njóta þess nú miðað við núverandi fyrirkomulag ríkissjónvarpsins.
Fimmtudagur, 6.1.2011
Af hverju er skaupið svona spennandi?
Ég velti því fyrir mér af hverju áramótaskaupsins er alltaf beðið með svo mikilli eftirvæntingu og hallast helst að því að ástæðunnar sé að leita í þeirri tegund gríns sem skaupið einkennist af. Þetta eru mestan part brandarar með pólitísku ívafi og gjarnan pólitískri ádeilu.
Ástæða þess að grín af þessari tegund er vinsælt er að öllum líkindum sú að pólitísk umræða er ófullburða hérlendis. Hún einkennist ótrúlega oft af ásökunum um fordóma eða öfgar, deilum, ádeilu eða jafnvel árásum. Af þeim sökum eru trúlega margir sem sitja á sínum skoðunum og flíka þeim ekki ótilneyddir. Þegar kemur að gríninu er umburðarlyndið meira og þar brýst þessi pólitíska spenna út og líklega líka í öðrum skapandi listum.
Skemmst er að minnast hvernig listamenn og aðrir menntamenn fyrrum Sovétríkjanna, sérstaklega rithöfundar þurftu annað hvort að að flýja land vegna ádeilu sinnar á stjórnvöld eða laga list sína að ritskoðun og rétthugsun stjórnvalda. Þá blómstruðu bókmenntir sem komu skoðunum á framfæri undir rós með einhverjum hætti.
Af þessum sökum er það líklega ekki tilviljun að borgarstjóri Reykjavíkur er fyrrum atvinnugrínisti. Hann tók ríkan þátt í því að finna pólitískri gremju fólks farveg með list sinni og uppskar velþóknun og virðingu fólks í staðinn. Sigur flokks hans sýnir svo ekki verður um villst að sú velþóknun og aðdáun sem hann hafði unnið sér inn var af pólitískum toga, að minnsta kosti að hluta til.
Fimmtudagur, 10.6.2010
Framtíðarfyrirkomulag almannaútvarps þarf að hugsa frá grunni
Stjórn RÚV virðist ekki gera sér grein fyrir því að grundvöll almannaútvarpsins á Íslandi þarf að hugsa upp á nýtt. Með núverandi fyrirkomulagi tekst almannaútvarpinu ekki að rækja lýðræðislegt öryggishlutverk sitt, ég bendi á pistlana Ljósvakinn og lýðræðið, Um hlutverk ríkisvaldsins: Hvernig á að þekkja svanasöng stofnunar? , Framtíðin í ljósvakamálum, og Fjölmiðlarnir, nú þarf að endurræsa, Nú er lag fyrir stjórnvöld að jafna hlut allra ljósvakastöðva, Aðalbjörg Sigurðardóttir um RÚV 1944 og Amy Goodman - orð í tíma töluð í og fyrir RÚV til að nefna nokkra. Fyrir hrun gerðist það ítrekað og það gerist enn að ráðamenn fái að mæta og verja sjónarmið sín gegn spurningum aðeins eins viðmælanda. Einn viðmælandi getur að sjálfsögðu aldrei komið í staðinn fyrir hóp fréttamanna sem ættu að fá að taka leiðtogann á beinið. Fákeppni á fjölmiðlamarkaði hlýtur alltaf að stuðla að lýðræðislegum sofandahætti, menningalegri fábreytni og elítustjórn. Líkur benda til að önnur öryggissjónarmið með starfsemi RÚV séu einnig ekki nógu traust, sjá pistlana Um öryggishlutverkið og langdrægni sendinga,og Óviðunandi frammistaða RÚV í óveðrinu á Austurlandi. Ýmislegt bendir einnig til að menningarleg markmið með starfsemi RÚV hafi ekki náðst á undanförnum árum, sjá pistlana Menningarlegt sjálfstæði landsbyggðarinnar er brýnt, Styrkir til fleiri aðila en RÚV stuðla að jafnræði í menningarmálum, Hlúa þarf betur að hljóðrituðum menningararfi, og RÚV - menningarleg Maginotlína til að nefna nokkra.
Það sem þarf er ný sýn, ný hugsun sem byggir á jafnræði ljósvakamiðla, menningarlegri fjölbreytni og menningarlegu sjálfstæði landsbyggðarinnar sem og uppfærðri áætlun hvað varðar öryggishlutverkið.
Eðlisbreyting á starfsemi RÚV | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 9.5.2010
RÚV: Um öryggishlutverkið og langdrægni sendinga
Í októberlok 2008 bloggaði ég um öryggishlutverk RÚV og varpaði fram þeirri hugmynd að heppilegt gæti verið að koma á fót fjórum miðbylgjusendum, einum í hverjum landsfjórðungi. Tengill á þessa færslu er hér: Er öryggishlutverk RÚV fyrir borð borið? Þegar ég skrifaði þetta var mér ókunnugt um Skjaldarvíkurstöðina í Eyjafirði sem lögð var niður árið 2000 og hafði sent út á miðbylgju frá því 1950. Ég hafði þá heldur ekki lesið ágætan pistil Egils Héðins Bragasonar sem hann skrifaði árið 2005 og fjallar um sama efni: Öryggishlutverk RÚV eru Akureyringar og Eyfirðingar afskiptir? Ég bendi lesendum hér með á þessa pistla. Frá því þeir voru skrifaðir hefur ekkert breyst hvað varðar stefnumótun um öryggishlutverk né heldur menningarhlutverk RÚV.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 11:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 28.6.2009
Er frægð Jackson 5 hópsins hérlendis ofmetin?
Óvænt fráfall Michaels Jackson var reiðarslag fyrir tónlistarheiminn og aðdáendur hans. Hæfileikar hans voru miklir og framinn glæstur þrátt fyrir ýmis sérviskuleg uppátæki söngvarans.
Mér hefur í þessu sambandi fundist nokkuð mikið vera gert úr frægð Jackson 5 hópsins og í því sambandi rétt að taka fram að þá er líklega verið að tala um frægð þeirra í Bandaríkjunum þó það sé ekki sérstaklega tekið fram. Þetta gæti valdið nokkrum misskilningi hjá þeim sem muna ekki vel eftir 8. áratugnum eða eru fæddir á þeim árum. Ég minnist þess nefnilega ekki að hafa heyrt minnst á Jackson 5 hópinn fyrr en eftir að Michael Jackson sló rækilega í gegn með sólóferli sínum um og eftir 1980.
Sönghópur sem sló aftur á móti í gegn hér á landi var Osmond fjölskyldan. Þetta var nokkuð áþekkur hópur og Jackson fjölskyldan og sumir litu á þá sem keppinauta þó svo virðist sem vinátta hafi einkennt samskipti þeirra. eins og þessi tengill bendir til. Báðir voru hóparnir stórir bandarískir systkinahópar, sprottnir upp úr trúarlegum jarðvegi, í rauninni ekki svo ólíkir hinni kaþólsku og austurrísk-bandarísku Trapp fjölskyldu sem er fyrirmynd persóna Söngvaseiðs. Móðir Jackson systkinanna var/er (?) vottur Jehóva og ól börnin skv. þeirra venjum, en Osmond fjölskyldan er í Kirkju Jesú Krists hinna síðari daga heilögu, betur þekktri sem Mormónasöfnuðinum.
Ég minnist þess sérstaklega t.d. að sumarið 1973 var lagið Long Haired Lover from Liverpool með Little Jimmy Osmond vinsælt og fékk mikla spilun í óskalagaþáttum útvarpsstöðvarinnar Útvarps Reykjavík, sem núna er betur þekkt sem Rás-1. Þá var þetta eina útvarpsstöðin sem útvarpaði á íslensku og var hún alltaf kölluð Útvarpið. Lagið ásamt fleiri lögum sem hljómaði þetta sólríka sumar er mér minnisstætt því þá byggðu foreldrar mínir fjós á Galtastöðum og útvarpið var haft í gangi á meðan við unnum að byggingunni ásamt duglega vinnuflokknum hans Guðna í Kirkjulækjarkoti.
Önnur sumur var ekki hlustað jafn mikið á útvarp því þá var lítið um að útvarpstæki væru í traktorum og reyndar ekki mikið um traktora með húsi. Rosasumrin þegar rigndi gafst meiri tími til að hlusta og einnig á hljómplötur. Eitt slíkt sumar er t.d. rosasumarið 1975 þegar Pink Floyd, Melanie og Simon & Garfunkel urðu fjölskylduvinir, en Erlingur gat keypt þessar og ýmsar fleiri plötur eftir að hann fór á sjóinn. Hann kom með þær heim að Galtastöðum og þær voru nánast spilaðar í gegn rigningarsumrin sem urðu á Suðurlandi um miðbik áratugarins.
Annar svona sönghópur var skáldaður í kringum sjónvarpsþáttaröð og hét Partridge fjölskyldan. Í henni var m.a. þekktur söngvari David Cassidy. Þessi sjónvarpsþáttaröð var sýnd hérlendis í sjónvarpsstöðinni Sjónvarpinu, núna þekktri sem Ríkissjónvarpinu, sem þá var eina íslenska sjónvarpsstöðin hérlendis.
Hvort það var skortur minn á tíma til hlustunar eða hugsanlega lítil spilun á Jackson 5 í ríkisfjölmiðlunum á fyrri hluta 8. áratugarins sem olli vanþekkingu minni á Jackson 5 þangað til eftir 1980 veit ég ekki, en mér finnst nauðsynlegt að halda þessum punkti til haga. Hafa ber í huga að útgáfufyrirtæki Jackson fjölskyldunnar var öflugt og það, ásamt síðari útgáfum Michaels Jackson hefur að líkindum ekki gert minna úr frægð fjölskyldubandsins á þessum árum en efni stóðu til. Ég tek fram að ég hlustaði ekki bara á Útvarpið á þessum árum heldur einnig Kanaútvarpið sem og Radio Luxembourg sjá þessa færslu.
Þó ég segi þetta þá er ég ekki að halda því fram að Jackson 5 hópurinn hafi verið óþekktur hérlendis. Líklegt er að hljómplötur með þeim hafi borist hingað þrátt fyrir að meira hafi borið á öðrum áþekkum fjölskyldusönghópum. Hugsanlega hefur hópurinn verið þekktur meðal tónlistaráhugamanna sem og efnameiri einstaklinga sem gátu leyft sér þann munað að kaupa hljómplötur af áhuga einum saman yfir lengra tímabil. Einnig getur verið að hópurinn hafi fengið spilun en bara ekki slegið í gegn í óskalagaþáttum á borð við þætti Jóns B. Gunnlaugssonar Eftir hádegið*, Óskalögum sjómanna, Lögum unga fólksins eða Óskalögum sjúklinga.
* Mig minnir að þetta hafi verið nafn þáttarins. Hann var geysivinsæll en ég finn engar heimildir um hann.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 14:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Mánudagur, 23.3.2009
Framtíðin í ljósvakamálunum
Það má kannski segja að svipað gildi um ljósvakamiðla og stjórnmálaflokka að það sé heppilegra að þeir séu fleiri en færri svo meiri líkur en minni séu á því að kjósendur og hlustendur finni eitthvað við sitt hæfi. Ef lög tryggðu að smáir ljósvakamiðlar ættu sér tilverugrundvöll og vaxtarmöguleika án þess að eiga á hættu stöðugar sameiningar eða yfirtökur stórra aðila með tilheyrandi róti á starfsmannahaldi og starfsemi þá væri mikið unnið. Samþjöppun á fjölmiðlamarkaði ætti frekar að hindra með því að tryggja tilverurétt smærri aðila heldur en setja strangar og íþyngjandi reglur um eignarhald á fjölmiðlum umfram ákvæði samkeppnislaga.
Ég hef skrifað nokkuð um Ríkisútvarpið. Atburðirnir í kjölfar niðurskurðartillagnanna hjá RÚV þegar fjöldinn allur af félagasamtökum mótmælti því að skera niður á svæðisstöðvum RÚV úti á landi sýna svo ekki verður um villst hvert straumurinn liggur í menningarmálum ljósvakans. Það virðast margir á þeirri skoðun að landsbyggðarstöðvarnar beri að efla frekar en hitt. Þess má geta til upplýsingar að á Suðurlandi er engin slík fjórðungsstöð starfandi. Svo virðist sem þau mótmæli hafi komið bæði þáverandi stjórnvöldum sem og stjórnendum RÚV ohf algerlega í opna skjöldu.
Hugmyndir mínar byggja í stuttu máli á því að byggja upp flóru sjálfstæðra aðila, sem þrátt fyrir að vera ekki stórir eru stöndugir og hafa burði til að vera til í áratugi ef þeir fara vel með fé. Þessir aðilar gætu sem best myndað efnismarkað sín á milli svo að vinsælir útvarpsþættir gætu heyrst á fleiri stöðvum en þeirri sem framleiðir efnið.
Ljósvakamiðlarnir eiga að sitja við sama borð hvað varðar framlög frá ríkinu. Einn þessara miðla getur sem best verið í eigu ríkisins, þ.e. RÚV og þá á þeim forsendum að tryggja þurfi öryggi almennings og dreifingu til fjarlægra staða. Ef þessa jafnræðis er gætt þá geta þeir allir verið á auglýsingamarkaði. Framlög ríkisins til ljósvakamiðlanna ættu síðan að vera í réttu hlutfalli við flutning þessara miðla á innlendu efni eða efni sem tengist Íslandi á einhvern hátt. Þessir
miðlar gætu sem best sameinast um rekstur öflugrar og óháðrar fréttastofu eða notið þeirrar þjónustu frá RÚV en haft frjálsar hendur þar fyrir utan. Það er í rauninni skammarlegt að þeir peningar sem innheimtir voru sem afnotagjöld en núna nefskattur séu notaðir til að flytja landanum textaðar erlendar sápuóperur í ríkissjónvarpinu kvöld eftir kvöld svo árum skiptir.
Í þessu sambandi er nærtækt að horfa til þess að leggja RÚV þær skyldur á herðar að byggja upp starfsstöð í hverjum landsfjórðungi, því auk þess að byggja upp fjölbreytni og menningarlegt sjálfstæði landsbyggðarinnar byggir slíkt fyrirkomulag einnig upp aukið öryggi þegar náttúruhamfarir bresta á. Sjá t.d. pistilinn þar sem ég mæli með því að öflugum miðbylgjusendum verði komið fyrir í hverjum landsfjórðungi.
Flest útvarpsviðtæki sem seld eru á Íslandi í dag eru bara með AM/FM móttöku sem gerir að verkum að langbylgjustöðvarnar eru smátt og smátt að verða úreltar þó sjómenn og ferðamenn noti þær eflaust mikið. En horfa ber á að öflug miðbylgjustöð er líka langdræg og ef hún er vel staðsett þá gætu fjórar slíkar stöðvar trúlega þjónað jafn vel eða betur en gert er með núverandi fyrirkomulagi tveggja langbylgjustöðva.
Ýmis önnur félagaform en hlutafélagaformið henta trúlega betur til reksturs menningarstarfsemi á vegum ríkisins. Arðurinn af starfseminni kemur fram í auknum lífsgæðum, gagnrýnni hugsun og víðsýni þegnanna og er að því leyti eftirsóknarverður þó erfitt sé að leggja á hann efnahagslegan mælikvarða.
Þegar landið fer að rísa á nýjan leik í efnahagsmálum þarf að stofna ljósvakasafn sem hefur það hlutverk að safna ljósvakaefni sem flutt er á íslensku eða hefur að öðru leyti ótvíræð tengsl við íslenska menningu. Þjóðarbókhlaðan gegnir nú þegar þessu hlutverki hvað varðar prentað mál og ljósvakasafnið yrði því aðeins útvíkkun á sömu hugsun þegar kemur að ljósvakaefni. Hugsanlega er hægt að fara að athuga þessi mál strax ef vitað er hvert á að stefna.
RÚV yrði þá nokkurs konar þjónustu- og öryggismiðstöð rekin af ríkinu en myndi sjá um rekstur öflugrar fréttastofu þar sem gerðar verða miklar kröfur til menntunar starfsmanna og óhlutdrægni í efnistökum. Þeir myndu einnig vera þjónustuaðilar og sjá um að leigja út efni úr ljósvakabankanum til hinna smærri aðila sem vilja sína til þess að miðla gömlum menningarperlum.
Ef þessar leiðir eru farnar þá gæti landið farið að rísa hjá litlu útvarpsstöðvunum og þær eignast tilverugrundvöll sem annars væri ekki til staðar. Þær gætu boðið upp á prýðilega þjónustu á ýmsum svæðum og byggt upp fjölbreytta og sérstæða en jafnframt sjálfstæða flóru menningar sem ekki er ríkisstýrð þó hún væri ríkisstyrkt að hluta. Fjölbreytt flóra minni en stöndugri aðila ætti líka að stuðla að meiri möguleikum fyrir lýðræðið og þá sem vilja koma skoðunum sínum á framfæri. Með þessu móti yrði jafnræði gert hærra undir höfði en nú er.
Menning og listir | Breytt 21.3.2009 kl. 23:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 12.12.2008
Um tillögur og aðgerðaráætlun íslenskrar málnefndar
Þetta [að Windows sé á ensku] er gerólíkt því sem gerist í flestum
grannlöndum okkar þar sem almennir tölvunotendur nota undantekningarlítið flestan hugbúnað á móðurmáli sínu. [2, bls. 48]
Ég leyfi mér að efast um að þetta sé nákvæmt stöðumat hjá ÍM hvað Grænland eða Færeyjar varðar sem eru okkar næstu grannlönd. Hvað varðar fjarlægari grannlönd á þetta trúlega betur við en þó ef orðinu "algengan" er skotið inn milli orðanna "flestan" og "hugbúnað" og lýsingarorðin "gerólíkt" og "undantekningarlítið" eru felld niður eða lágstemmdari orð sett í þeirra stað. Flóra þess hugbúnaðar sem í boði er er svo mikil og fjölbreytt að hæpið er að ætla að almennir tölvunotendur geti undantekningarlítið notað flestan hugbúnað eða vefþjónustur á móðurmáli sínu. Það má aftur á móti segja að almennir og útbreiddir hugbúnaðarpakkar sem komnir eru í mikla dreifingu bjóða yfirleitt upp á þýðingar og val á tungumálum. Það er því ekki fráleitt og að gefa sér sem forsendu að ætla að stýrikerfi og algengur hugbúnaður sé á tungumáli viðkomandi þjóða, en þegar kemur út fyrir algengustu forrit minnka líkurnar á að hægt sé að tryggja að notendur fái forrit á sinni þjóðtungu. Að mínu mati þyrfti því að umorða stöðumat ÍM til að fyrirbyggja misskilning á fyrrgreindan hátt. Í framhaldinu setur ÍM svo fram eftirfarandi markmið:
Að íslensk tunga verði nothæf - og notuð - á öllum þeim sviðum innan tölvu- og upplýsingatækninnar sem varða daglegt líf almennings.
Þetta er hægt að taka undir en í framhaldinu setur ÍM fram aðgerðaáætlun í nokkrum liðum. Fyrsta atriði í aðgerðaráætlun hennar sem hún leggur til við Menntamálaráðuneytið er:
Að allur almennur notendahugbúnaður í íslensku skólakerfi, frá leikskólum til háskóla, verði á íslensku innan þriggja ára.
Ef þessi tillaga til aðgerðar verður sett á lagafrumvarps-færiband stjórnarinnar sem er afkastamikið og verður orðið að lögum innan skamms tíma óbreytt þá er má ætla að það geti sett ráðamenn skólanna í nokkurn vanda. Ef það verður ólöglegt að þrem árum liðnum að setja upp almennan hugbúnað sem ekki er á íslensku allt frá leikskólum upp í háskóla er líklegt að það verði ekki gert. Starfsmenn skólanna munu ekki hætta á að setja upp óþýdd forrit af ótta við að þeir séu með því að fremja lögbrot. Þetta kemur til af því að orðið "almennt" er nokkuð teygjanlegt og erfitt er að halda því fram að einhver forrit séu ekki almenn. Þetta mun þá gilda jafnt um hin ýmsu "almennu" hjálparforrit í tækni og raungreinum sem eru bæði mörg og fjölbreytt sem og ýmis "almenn" sérforrit iðngreina. Þetta eru "almenn" forrit sem tiltölulega fáir nota en þau eru þrátt fyrir það nauðsynleg kennslutæki til að kynna nýjustu tækni fyrir nemendum. Augu tunguvarðanna eru bæði mörg og árvökul og því gætu komið upp árekstrar ef erlendu orði sést bregða fyrir. Jafnvel þó ríkisstjórnin myndi ákveða að koma á fót öflugu þýðingarteymi, sem er raunhæft til að standa við metnaðarfullan viljann sem tillögurnar endurspegla og þýða flest þessi almennu forrit, þá er ekki sjálfgefið að þýðingarteymið myndi fá nauðsynlegt fé til verkefnanna eða þá geta brugðist nógu hratt við. Sér í lagi er nærtækt að ætla þetta í ljósi nýjustu fjárlaga. Þó stjórnvöld ætli sér að styrkja mannaflsfrekar framkvæmdir þá er ólíklegt að hún styrki þýðingarvinnu, jafnvel þó sú vinna sé ekki síður mannaflsfrek heldur en malbikunarvinna eða vegagerð. Reynslan hefur sýnt það að þegar íslenskir stjórnmálamenn tala um framkvæmdir þá þýðir það oftast að átt er við verklegar framkvæmdir svo sem vegagerð eða steypuvinnu af einhverju tagi.
Hið opinbera getur vissulega komið á laggirnar þýðingarteymi ef viljinn er fyrir hendi. Hægt væri að ráða verktaka eða ganga til samninga við sprotafyrirtæki sem sérhæfir sig á þessu sviði eða fjölga í starfsliði ráðuneytisins allt eftir því hvernig hinn pólitíski vindur blæs. Þannig væri hægt að þýða algengustu og útbreiddustu forritin og þau sem flestir eru að nota í skólunum. Þýðingarteymi af þessu tagi er reyndar tímabært. Nú þegar eru dæmi um að aðilar innan skólakerfisins hafi sótt um styrki til þýðingar á mikið notuðum forritum, sumir hafa fengið styrk en aðrir fengið synjun. Hér væri hægt að gera betur og von mín er að metnaðarfull aðgerðaráætlun ÍM verði ekki til þess að leggja hömlur á skólamenn eins og stefnir í ef hún verður að lögum óbreytt heldur til þess að ráðuneyti menntamála og fjármála taki sjálf sinnaskiptum. Bæði er raunæft að þýða seldan sem og opinn hugbúnað en þar eru miklir möguleikar því margir hugbúnaðarpakkar sem dreift er eru með opnu leyfi og bíða þess eins að vera þýddir en eru samt ekki til á íslensku því framkvæmdin hefur hingað til eingöngu hvílt á herðum áhugamanna sem sjaldnast hafa fengið nokkurn pening fyrir þýðingar sínar. Slíkt framtak er bæði brýnt og þarft og í samhljómi við stefnu stjórnvalda um opinn hugbúnað sem sjá má hér. [1]
Afleiðingar af því að búa við strangan lagabókstaf hvað forrit í skólum varðar en ónógar fjárheimildir til þýðingarverkefna er samt ástand sem gæti varað lengi og haft mótandi áhrif svo árum skiptir. Þetta hefði kannski ekki svo alvarlegar afleiðingar í leik- eða grunnskólum en í framhalds- og háskólum er hætt við að þetta gæti sett þróun og rannsóknum stólinn fyrir dyrnar. Ef starfsmenn skólanna sjá fram á minnstu hættu á áminningum í starfi eða jafnvel dómum og sektargreiðslum stofnana sinna fyrir að setja upp forrit sem talin eru nauðsynleg en ekki á íslensku þá er nærtækt að ætla að ýmis góð en óþýdd forrit verði hvorki sett upp né notuð.
[1] Stefna ríkisstjórnar Íslands um upplýsingasamfélagið 2008-2012 á pdf.formi : http://www.forsaetisraduneyti.is/media/frettamyndir/NETRIKID_ISLAND_stefnuskra.pdf
[2] Íslenska til alls : tillögur Íslenskrar málnefndar að íslenskri málstefnu: http://bella.mrn.stjr.is/utgafur/islenska_til_alls.pdf
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 22:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 21.11.2008
Stórskemmtileg Eivör í Góðu kvöldi Sjónvarpsins
Þriðjudagur, 23.9.2008
Frábær dagskrá í Ríkissjónvarpinu síðdegis á sunnudaginn
Dagskrá sjónvarpsins síðdegis á sunnudaginn var var í einu orði sagt frábær. Ég horfði á tvo dagskrárliði og gat varla slitið mig frá skjánum. Fyrst sá ég mjög fróðlegan þátt frá BBC um forna menningu Indlands og Mið-Asíu og á eftir var þáttur um hljómsveitarstjórann Herbert von Karajan. Það eru mörg ár síðan mér finnst ég hafi þurft að horfa á tvo samliggjandi þætti í Ríkissjónvarpinu og varla getað slitið mig frá skjánum en svona var það síðastliðinn sunnudag.
Geri aðrir betur. Ég held samt að það sé ekki ríkið sem tryggir gæðin heldur fyrst og fremst örugg kostun þess á menningarefni sem allt eins gæti dreifst jafnt yfir alla.
Laugardagur, 30.8.2008
Amazing Blondel og gamlar LP plötur
Ein af þeim hljómsveitum sem ég hélt upp á á árum áður og geri enn er hljómsveitin Amazing Blondel. Ein af þeirra frægustu plötum bar heitið Fantasia Lindum og kom hún út árið 1971. Þegar ég fór nýlega í gegnum gamalt snældusafn sem ég átti rifjaðist þessi ágæta tónlist upp fyrir mér. Upptakan á snældunni var gölluð og því langaði mig til að athuga hvort ég gæti ekki eignast betri upptöku og fór að athuga með það á netinu. Á Ebay fann ég fljótlega útgefna diska sem flestir kostuðu milli 10 og 15 dollara, en þar var líka upprunalega platan Fantasia Lindum í tveim eintökum og í báðum tilfellum var fyrsta boð minna en 5 dollarar (um 400 kr.) Ég ákvað að bjóða í plötuna og fékk hana hingað komna á um 1000 krónur og eintakið sem ég fékk var mjög gott. Seljendur LP platna á Ebay nota gæðastaðal sem þeir bera plöturnar við og þessi plata var merkt VG++. Út frá orðspori seljenda er hægt að meta hvort umsögn þeirra sé treystandi. Í þessu tilfelli fannst mér að ég hefði gert mjög góð kaup, bæði er það að platan var gott eintak sem og að þegar ég heyri góða og lítið skemmda LP plötu spilaða þá tek ég hljóminn gjarnan fram yfir stafræna hljóðritun. Kannski er þetta einhver sérviska í mér en mér finnst þessi hljómur ekki gefa stafrænu upptökunum neitt eftir og oft finnst mér ég nema einhverja dýpt eða breidd sem ég sakna í stafrænu hljóðritununum eins og sjá má á þessari færslu.
Ég gæti látið móðan mása hér um Amazing Blondel en læt staðar numið að sinni. Langar þó ljúka þessum pistli með tveim tengingum á upptökur hljómsveitarinnar á YouTube.
Amazing Blondel - Swift,Swains,Leafy Lanes af Fantasia Lindum á YouTube.
Amazing Blondel - Celestial Light (var líka á Fantasia Lindum) á YouTube. Nýleg upptaka.