Færsluflokkur: Vísindi og fræði
Þriðjudagur, 23.9.2008
Er regntíminn hafinn?
Laugardagur, 9.8.2008
Nokkur skemmtileg orð
Ég hef verið að hugleiða ýmsa skemmtilega frændsemi orða. Ég hef gaman af því að bera saman orð úr ensku og íslensku sem hljóma næstum því eins en hafa kannski aðra merkingu. Hér eru nokkur. Íslenska orðið kemur fyrst en síðan það enska:
Bað - bath; hljómar alveg eins og merkir það sama.
Flór - floor; hljómar eins en merkir ekki alveg það sama.
Rann - run; hljómar eins en hefur lítilsháttar breytta merkingu.
Fýla - feeling; Fýla í merkingunni að fara í fýlu. Breytt orð en bæði orðin túlka tilfinningar.
Svo er það íslenska orðið kapall í merkingunni hestur eða hryssa frekar. Mér var sagt í dag að í spænsku eða katalónsku þýddi orðið cabal eða caval hestur. Cavalero eða cavalier er þá maður á hesti þó oftar í merkingunni riddari. Kapall og caval hljómar mjög svipað.
California þýðir heitur ofn. Cal er sama hljóð og í kaloríur eða orka. Fornia er ofn.
Florida er blóma-eitthvað og Texas þýðir þök. Sel þetta ekki dýrara en mér var sagt. Leiðréttið mig ef ég fer með rangt mál.
Fimmtudagur, 31.7.2008
Heklugosið 17. ágúst 1980
Dagurinn 17. ágúst 1980 var sérstakur því þann dag höfðum við nokkrir vinir ákveðið að ganga á Heklu. Við ætluðum þó ekki að fara ef veður yrði óhagstætt og því átti einn okkar að hringja í hina og setja gönguna á eða af eftir aðstæðum. Dagurinn rann upp bjartur og fagur og ég hlakkaði mikið til að fá símtalið góða því mig hafði langað til að ganga á Heklu í mörg ár. Ég hafði þá átt heima alla ævi á Galtastöðum í Gaulverjabæjarhreppi (nú Flóahreppi) og Hekla því í sjónmáli alla daga þegar skyggni var hagstætt. En mínútur urðu að klukkustundum og fyrr en varði var komið hádegi. Ég skildi ekkert í vini mínum að slá fjallgönguna af í þessu góða veðri. En síðar kom í ljós að hann hafði sofið yfir sig. Við pabbi ákváðum því að fara í staðinn á hestamannamót sem var þennan dag á Hellu og lögðum af stað. Þegar við vorum komnir framhjá Skógsnesi stoppaði hann og sagði að Hekla væri farin að gjósa. Og viti menn gosmökkurinn steig hátt í loft og greinilegt að þetta var stórt og mikið gos. Við keyrðum upp að Heklu og skoðuðum gosið frá veginum. Ómar Ragnarsson kom á lítilli flugvél, lenti á veginum og tók svo á loft aftur. Þetta var minnisstæður dagur. Pabbi orti ljóðið Hekla í tilefni hans.
Það var ekki fyrr en síðar sem ég fór að hugsa með æ meira þakklæti til svefngleði vinar míns og er ekki viss um að ég væri til frásagnar ef hann hefði ekki sofið yfir sig. Allar götur síðan hef ég látið mér nægja að dáðst að Heklu úr fjarlægð og hef aldrei síðan ráðgert göngutúr upp á hana og ætla aldrei að fara þangað.
Þessi saga rifjaðist upp fyrir mér enn einu sinni um daginn þegar Magnús Tumi jarðfræðingur sagði að gjósi Hekla á sumardegi eins og árið 1980 geti tugir manna verið á göngu á fjallinu. Hann sagði að ferðamenn hafi verið á fjallinu þegar það gos hófst og þeir hafi átt fótum fjör að launa. Alls ekki sé víst að fólk á fjallinu finni þær hreyfingar sem eru undanfari goss. Hekla sé fræg fyrir hvað eldgosin byrja snöggt. Líklega er þessi drottning íslenskra eldfjalla best og fallegust í fjarlægð.
Vísindi og fræði | Breytt 1.8.2008 kl. 07:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Miðvikudagur, 30.7.2008
Hrafnarnir komnir aftur
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 10:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Miðvikudagur, 9.7.2008
Hvar eru hrafnarnir á Selfossi?
Mér var nýlega bent á af manni* sem hefur gaman af að fylgjast með hröfnum að hann hefði ekki séð neina hrafna á Selfossi eftir jarðskjálftana. Eru einhverjir Selfyssingar sem lesa þessar línur sem hafa séð hrafna á Selfossi eftir 29. maí síðastliðinn? Eins og menn vita þá hefur hingað til verið talsvert af hröfnum á Selfossi. Þeir halda trúlega til í fjallinu og fljúga niður í byggðina í leit að æti. Oft eru þeir á sveimi yfir háum húsum á svæðinu svo sem Selfosskirkju, húsi Fjölbrautaskólans og Hótelinu en núna er eins og himininn hafi gleypt þá.
--
* Hann heitir Brynjólfur Guðmundsson og var áður bóndi á Galtastöðum í Gaulverjabæjarhreppi (nú Flóahreppi).
Mánudagur, 9.6.2008
Að upplifa sterkan jarðskjálfta
Ég lýsti í þessari bloggfærslu hér hvernig tilfinningu ég fékk fyrir jarðskjálftanum 28. maí sl. Þar minntist ég á titring og veltu. Fyrsta tilfinningin er eins og ef jarðvegsþjöppu sé snúið við og maður standi á þjöppuplötunni. Við þannig aðstæður finnst mikill titringur, en jafnframt er vægari tilfinning fyrir bylgjuhreyfingu í jörðinni. Á meðan titringurinn ríður yfir er eins og í gegnum jörðina fari með miklum hraða lág bylgja sem orsakar yfirborðshreyfingu líkt og aðrar bylgjur. Þaðan kemur sú tilfinning að maður sé ekki staddur í húsi heldur skipi.
Við þessar kringumstæður er líklega öruggast að gera minnst annað en að standa kyrr og að reyna að vara sig á fallandi hlutum. Að reyna að komast út úr húsi getur að líkindum haft ýmsa hættu í för með sér vegna fáts og óðagots. Þetta verður fólk þó að meta sjálft m.t.t. aðstæðna því auðvitað er hugsanlegt að hús hrynji þó líkur á því séu ekki miklar a.m.k. ekki hér á Íslandi. En dæmin um skólahúsin sem hrundu í jarðskjálftunum í Kína sýna því miður að allt getur gerst.
Vísindi og fræði | Breytt 12.6.2008 kl. 22:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Fimmtudagur, 29.5.2008
Jarðskjálftinn undir Ingólfsfjalli 29. maí 2008
Þegar jarðskjálftinn reið yfir var ég að labba út úr FSu að fara heim í kaffi og var staddur við útidyrnar kennaramegin. Þá byrjaði húsið að titra með miklum hamagangi og hávaða. Ég beið á meðan þetta reið yfir og reyndi að hafa vara gegn fallandi hlutum sem voru þó engir. Þetta er þriðji jarðskjálftinn sem ég upplifi í þessari byggingu og alltaf finnst mér eins og húsið sé eins og skip í sjó. Í þetta skiptið var eins og húsið ruggaði til hliðanna. Það er mikið járnabundið og ruggaði í heilu lagi eins og skip sem fékk á sig hliðaröldu. Fyrir utan dyrnar voru málarar að störfum sem flýttu sér niður úr stigum sínum. Við litum til Ingólfsfjalls og þá sá ég sjón sem mig langar ekki að sjá aftur. Allt fjallið var þakið skriðum frá toppi og niðurúr og það mátti greina mikinn fjölda hnullunga og bjarga á hraðferð niður. Af þessu steig mikill reykur upp og drunur. Myndirnar sem voru sýndar í sjónvarpinu sýndu aðeins reykinn sem lá í loftinu eftir að ósköpin gengu yfir. Það hefði verið mjög óspennandi að vera staddur uppi í Ingólfsfjalli þessar mínútur og ég vona sannarlega að enginn hafi verið þar.
Árið 2000 urðu skjálftarnir í miklu meiri fjarlægð hér fyrir austan og höggið af þeim var ekki eins mikið og höggið af þessum. Á undan þeim skjálfta heyrði ég þó hvin en á undan þessum heyrði ég ekkert, líklega af því hversu nálægt hann var.
Miðvikudagur, 7.5.2008
Um örnefnið „Almannagjá“ og kenningar um staðsetningu almennings á Alþingi hinu forna
Sumrin 1984-1986 var ég sumarstarfsmaður í Þjóðgarðinum á Þingvöllum og vann þar ýmis störf svo sem að tína rusl í Almannagjá og nágrenni. Þá fór ég að velta fyrir mér kenningum sem hingað til hafa verið viðteknar um að lögsögumaðurinn á Alþingi hinu forna hafi staðið á Lögbergi og talað til mannfjölda sem á að hafa staðið niðri í hlíðinni austan megin við gjána, dreifður um þar fyrir neðan og allt niður að Öxará. Balarnir þar stóðu hærra á miðöldum því land seig á Þingvöllum eins og kunnugt er í jarðskjálftunum miklu undir lok 18. aldar. Þessar kenningar rifjuðust upp í fyrrakvöld þegar ég sá Sigurð Líndal í sjónvarpinu reifa þetta við danska kóngafólkið og þar minntist hann líka á þá kenningu sína að lögsögumaðurinn hafi snúið baki í fólkið í hlíðinni og talað í áttina að gjárveggnum til að nýta hljómburðinn í hinum háa vestari bakka gjárinnar.
Nú er það svo að sá sem leggur leið sína um Almannagjá og Lögberg og grenndina þar fyrir neðan, og fer þarna um í alls konar veðri veitir því auðveldlega athygli að það sem sagt er í gjánni berst sérlega vel eftir henni endilangri nema veðurhljóð sé þeim mun meira. En reyndar er það svo að ef hvasst er þarna þá er besti og skjólsælasti staðurinn bæði fyrir rigningu og roki niðri í gjánni, þ.e. niðri í Almannagjá. Þetta geta menn sem best prófað sjálfir því umferð gangandi vegfarenda er umtalsverð og tal fólksins heyrist best niðri í gjánni sjálfri og berst vel. Við góðar aðstæður gerist það jafnvel að það sem sagt er stundarhátt niðrundir Haki heyrist alla leið að beygjunni sem verður á gjánni skömmu áður en komið er að Öxará og það án þess að menn ætli að reyna mikið á röddina.
Þessar voru hugleiðingar mínar þegar ég dundaði við ruslatínsluna og í framhaldi af því fór ég að velta fyrir mér örnefninu 'Almannagjá' og hvað það segði. Ég velti því fyrir mér spurningunni: Hver er í Almannagjá ef ekki almenningur? En eins og kunnugt er þá er talið að talsverður fjöldi fólks hafi verið á þinginu að hlýða á lögin og dómana eins og sjá má hér:
Alþingi Íslendinga er í senn elsta stofnun þjóðarinnar og sú æðsta. Það er talið stofnað á Þingvöllum árið 930, og markar sá atburður upphaf þjóðríkis á Íslandi. Í upphafi var Alþingi allsherjarþing þar sem æðstu höfðingjar komu saman til löggjafarstarfa og til að kveða upp dóma. Auk þess var öllum frjálsum mönnum og ósekum heimilt að koma áþingið, og þangað sóttu auk goða bændur, málsaðilar, kaupmenn, iðnaðarmenn, sagnaþulir og ferðalangar. Oft hefur því verið fjölmennt á Alþingi.Þeir sem sóttu Alþingi dvöldust í búðum á Þingvöllum um þingtímann. Innan þinghelgiskyldu allir njóta griða og frelsis til að hlýða á það sem fram fór.Miðstöð þinghaldsins var Lögberg. Þar átti lögsögumaðurinn fast sæti, en hann var æðsti maður þingsins. Hlutverk hans var meðal annars að fara upphátt með gildandi lög Íslendinga, þriðjung þeirra ár hvert. Lögin um þinghaldið, þingsköpin, fór hann með fyrir þingheim árlega. [Leturbr. RGB] [1]
[1] Sjá: http://www.althingi.is/pdf/isl.pdf
Vísindi og fræði | Breytt 12.6.2008 kl. 22:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 20.11.2007
Hrina smáskjálfta skammt austan við Selfoss
Í dag hófst hrina smáskjálfta skammt austan við Selfoss, nánar tiltekið á móts við Laugardæli um 1-2 km. austan við þéttbýlið á Selfossi. Hrinan hófst laust eftir kl. 10 í morgun og hefur staðið yfir í allan dag. Stærstu skjálftarnir hafa verið 1,7 og 1,6 á óyfirförnum kvarða Veðurstofunnar sjá hér:
http://www.vedur.is/skjalftar-og-eldgos/jardskjalftar/#view=table
Á jarðskjálftasjánni sést að skjálftarnir mynda nokkuð regluleg mynstur í grófa NA-SV stefnu.
Heimild: Jarðskjálftavefur Veðurstofu Íslands.
Mánudagur, 14.5.2007
Metanmáinn Títan
Á Títan er bálahvasst, fimbulkalt, himininn er appelsínugulur, gosvirkni spýtir metangasi út í loftjúpinn og sumir telja að "hraunið" samanstandi af ammoníaksblönduðu vatni! Yfirleitt er þar þurrt og kalt en á nokkurra alda fresti geisa þar ofboðsleg stórviðri, metanið þéttist og myndar ár og vötn. Hljómar ekki mjög spennandi. Líklega verða seint lögð drög að mannaðri för þangað.
Í desember og marsheftum tímaritsins Sky and Telescope frá í fyrra (2006) eru fróðlegar greinar um niðurstöður rannsókna á Títan - einu af tunglum Satúrnusar.
Þangað til í júlí 2004 var Títan stærsta tungl reikistjörnunnar Satúrnusar hulinn heimur. En síðan þá hefur Cassini könnunarfarið frá NASA beint ratsjánni að tunglinu alls þrisvar sinnum af átta skiptum sem það hefur farið nálægt. Radarmyndir frá Cassini m.a. frá því 7. september ásamt niðurstöðum úr ferð Huygens könnunarfarsins sem Evrópska geimrannsóknarstofnunin sendi þangað eru að ljúka upp nýrri sýn á heim tunglsins. Huygens lenti á Títan hinn 14. janúar 2004. Títan er með lofthjúp og fast yfirborð líkt og t.d. jörðin og Mars. Hitinn á yfirborðinu var um -180 gráður en hæstur -86 gráður í 250 km. hæð. Loftþrýstingur var um 1,5 loftþyngd við yfirborð. Lofthjúpur Títan samanstendur að mestu af köfnunarefni líkt og lofhjúpur Jarðar, hann er líka vökvaknúinn en á Títan er það metan (CH4) sem myndar vökvann en ekki vatn eins og á jörðinni.
Huygens farið varð vart við spennuhögg í 60 km. hæð sem gæti hafa stafað af eldingum. Vindstyrkur var mikill og á köflum hraðari en snúningur tunglsins, en slíkt þekkist líka á Venusi. Í 120 kílómetra hæð mældist vindstyrkurinn 430 km. á klukkustund. Lofthjúpurinn er lagskiptur og blésu vindar frá vestri til austurs niður í 7 km. hæð en þar fyrir neðan blésu þeir frá austri til vesturs. Í 5 km. hæð mældist lítill vindur eða aðeins um 3,5 km. á klst. Mælingar benda til að upphaflega hafi lofthjúpur Títan innihaldið mun meira köfnunarefni (nitrogen) en núna. Líklegt er talið að það hafi farið út í geiminn. Með því að mæla hlutfall kolefnis-12 á móti kolefni-13 ályktuðu vísindamennirnir að ástæða metansins væri ekki lífræn efnaskipti (biota) heldur gæfi þessi niðurstaða tilefni til að ætla að efnið bættist sífellt í andrúmsloftið, t.d. frá gosvirkni. Í lofthjúpnum fannst einnig ammoníak (NH3), "hydrogen cyanide" (HCN) og líklega nokkur önnur mólikúl með vetni og kolefni. Þetta eru fyrstu beinu vísbendingarnar sem finnast sem benda til að flókið lífrænt efni myndist í efnahvörfum í lofthjúpi Títan. Mælingar gefa til kynna að metan sé þrisvar sinnum þéttara við yfirborðið en uppi í lofthjúpnum en þar niðri þéttist það og myndar vökva.
Birtan á yfirborðinu er svipuð og hún er á jörðinni um 10 mínútum eftir sólarlag. Kvöldroðinn er blár og himininn er appelsínugulur. Yfirborðið er brúnt. Könnunarfarið lenti á stað þar sem gleypni yfirborðsins svipaði til blauts sands.
Radarmyndir Cassini frá 7. september sýna mynstur sem svipar til árfarvega og vatna. Samt greindist enginn vökvi í þessum farvegum. Af þessu hafa menn dregið þá ályktun að ekki hafi rignt nýlega á þessum stöðum. Þar sem aðeins lítið magn af sólarorku berst til yfirborðs tunglsins er talið að mjög lítið magn metans gufi upp á hverju ári - rétt nóg til að þekja tunglið allt með eins sentimeters djúpum metansjó. Því er talið að yfirborðið sé venjulega þurrt en þegar loftið verður mettað af metani myndist ofsaleg veður sem valdi því að mikill úrkomu kyngir niður á stuttum tíma. Ef köfnunarefnið kemur frá ammoníakseldfjöllum þá getur það skýrt fyrirbæri á yfirborðinu sem svipa til hraunlaga en er í raun ammoníaksblandað vatn. Ammoníak virkar sem frostlögur á vatnið og veldur því að þessi efni flæða sem "hraun" um yfirborðið.
Títan er því greinilega athyglisverður staður, en ekki að sama skapi neitt spennandi fyrir okkur mannfólkið að vera á.
Í nóvember 2006 hefti tímaritsins Astronomy (bls. 30) er sagt frá nýjum myndum sem hafa borist frá Cassini. Þær voru teknar 21. júlí sl. Myndirnar voru af heimskautasvæðum Títan og sýna dökka fleti sem vísindamenn telja að geti verið metanvötn. Vötnin sýna engin frávik á radar sem bendir til að um slétta vökvafleti sé að ræða. Vötnin eru sum hver um 30 kílómetra í þvermál og þau eru á svæði sem er milli 75° og 80° norðlægrar breiddar. Mörg eru egglaga eða í beygjum en önnur líkjast eldgígum. Þetta er talið renna stoðum undir þá tilgátu að metanregn falli á Títan. Endurteknar myndir af sömu svæðum munu renna frekari stoðum undir þessar kenningar. Ef í ljós kemur að um vökva er að ræða þá er Títan eini þekkti staðurinn í sólkerfinu utan jarðar þar sem yfirborðsvökvi hefur fundist. Greininni í Astronomy fylgir mynd og hún líkist mest loftmynd af Flóanum - lágsveitum Árnessýslu af því sem ég hef séð af slíkum loftmyndum. Dökkir óreglulegir fletir á ljósari bakgrunni.
Höfundur er áhugamaður um málefnið.
Heimildir:
"Understanding Titan's Terrain", Sky and Telescope, desember 2005. Bls. 18.
"Titan Revisited, Sky and Telescope, mars 2006. Bls. 16
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 16:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)