Heklugosið 17. ágúst 1980

Dagurinn 17. ágúst 1980 var sérstakur því þann dag höfðum við nokkrir vinir ákveðið að ganga á Heklu. Við ætluðum þó ekki að fara ef veður yrði óhagstætt og því átti einn okkar að hringja í hina og setja gönguna á eða af eftir aðstæðum. Dagurinn rann upp bjartur og fagur og ég hlakkaði mikið til að fá símtalið góða því mig hafði langað til að ganga á Heklu í mörg ár. Ég hafði þá átt heima alla ævi á Galtastöðum í Gaulverjabæjarhreppi (nú Flóahreppi) og Hekla því í sjónmáli alla daga þegar skyggni var hagstætt. En mínútur urðu að klukkustundum og fyrr en varði var komið hádegi. Ég skildi ekkert í vini mínum að slá fjallgönguna af í þessu góða veðri. En síðar kom í ljós að hann hafði sofið yfir sig. Við pabbi ákváðum því að fara í staðinn á hestamannamót sem var þennan dag á Hellu og lögðum af stað. Þegar við vorum komnir framhjá Skógsnesi stoppaði hann og sagði að Hekla væri farin að gjósa. Og viti menn gosmökkurinn steig hátt í loft og greinilegt að þetta var stórt og mikið gos. Við keyrðum upp að Heklu og skoðuðum gosið frá veginum. Ómar Ragnarsson kom á lítilli flugvél, lenti á veginum og tók svo á loft aftur. Þetta var minnisstæður dagur. Pabbi orti ljóðið Hekla í tilefni hans.

Það var ekki fyrr en síðar sem ég fór að hugsa með æ meira þakklæti til svefngleði vinar míns og er ekki viss um að ég væri til frásagnar ef hann hefði ekki sofið yfir sig. Allar götur síðan hef ég látið mér nægja að dáðst að Heklu úr fjarlægð og hef aldrei síðan ráðgert göngutúr upp á hana og ætla aldrei að fara þangað.

Þessi saga rifjaðist upp fyrir mér enn einu sinni um daginn þegar Magnús Tumi jarðfræðingur sagði að gjósi Hekla á sumardegi eins og árið 1980 geti tugir manna verið á göngu á fjallinu. Hann sagði að ferðamenn hafi verið á fjallinu þegar það gos hófst og þeir hafi átt fótum fjör að launa. Alls ekki sé víst að fólk á fjallinu finni þær hreyfingar sem eru undanfari goss. Hekla sé fræg fyrir hvað eldgosin byrja snöggt. Líklega er þessi drottning íslenskra eldfjalla best og fallegust í fjarlægð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Merkileg saga. Næsta gos í Heklu ætti að vera árið 2010 +/- 1 ár ef hún heldur sinni rútínu frá árinu 1970. Göngumenn á Heklu mættu því fara að hugsa sig tvisvar um.

Emil Hannes Valgeirsson, 1.8.2008 kl. 00:50

2 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

það styttist nú óðum í Heklugos spái ég. Ég hef einstaklega gott útsýni, í góðu skyggni, á Heklu og er klár með myndavélina, þarf að setja símanúmer á fréttastofunum á speed dial svo ég geti tilkynnt þetta strax og sent fyrstu myndir á bloggið.  Vonandi verður enginn uppi þegar þetta byrjar. Mér þykir óskaplega vænt um Heklu og hún er falleg, en ég er Þingeyingur og Herðubreið er perlan mín svo eru það fjöllin í Mývatnssveit sem heilla mig mikið.

Ásdís Sigurðardóttir, 1.8.2008 kl. 00:57

3 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir innlitin. Já ég heyrði eða las einhvers staðar að Hekla væri búin að ná þeirri lyftingu sem hún þyrfti til að gos gæti orðið. Þetta þýðir líklega að nægilegt magn af kviku er komið í kvikuþróna til að gos geti byrjað á hverri stundu núna. Miðað við lotuna á Heklu þá passar 2010+/- 1. Gott að heyra að þú ert viðbúin Ásdís . En það þarf mikla þolinmæði að bíða eftir eldfjalli. Hugsanlega lætur hún bíða eftir sér í langan tíma líka því auk þess að vera fyrirsjáanleg þá getur hún líka verið óútreiknanleg og ákveðið að fara í frí. Hvernig sem á málið er litið þá er eitt víst: Ganga á Heklu er áhættusöm.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 1.8.2008 kl. 08:03

4 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Hér eru linkar á gönguferðir sem ég hef faið á Heklu. Á eitthvað meira af myndum af svæðinu en ekki tími til að finna þær.

http://www.photo.is/07/09/1/index_11.html

Hér má svo sjá 4 bíla sem óku á Heklu topp 1997

http://www.photo.is/books/4x4/pages/32-A-Heklutoppi.html

Kjartan Pétur Sigurðsson, 1.8.2008 kl. 09:39

5 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir innlitið Kjartan. Þetta eru aldeilis fínar myndir þarna á photo.is. Ég skoðaði líka loftmyndirnar. Já Hekluferðir eru sérstakur kafli út af fyrir sig. Þær eru ekki bara skemmtilegar jeppa eða útsýnisferðir heldur má líka flokka þær sem áhættuferðir.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 2.8.2008 kl. 09:46

6 Smámynd: Rúna Guðfinnsdóttir

Bróðir minn var á rúntinum með fjölskylduna og sér þotu fljúga yfir og elti hana með augunum. Allt í einu koma drunur og reykjarmökkur upp af fjallinu og þá sá hann sæng sína útbreidda.....Rússarnir voru komnir Startled

Rúna Guðfinnsdóttir, 2.8.2008 kl. 09:52

7 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Þetta er skemmtileg saga Rúna.  Bróðir þinn hefur upplifað einstakt augnablik þarna! Takk fyrir innlitið.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 2.8.2008 kl. 12:02

8 Smámynd: Rúna Guðfinnsdóttir

Mér hefur alltaf þótt vænt um þessa sögu. Hann meinti þetta svo mikið og hélt  í alvöru að Rússarnir væru komnir  

Rúna Guðfinnsdóttir, 2.8.2008 kl. 13:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband