Færsluflokkur: Vísindi og fræði
Sunnudagur, 31.12.2006
Hverjir munu komast til stjarnanna?
Í októberhefti tímaritsins Sky & Telescope er greint frá því að Andrómeda vetrarbrautin stefni í átt til vetrarbrautar okkar og árekstur sé nær óumflýjanlegur. Spurningin sé aðeins hvenær hann verði [1]. Sem stendur er Andrómeda í um 2,5 milljóna ljósára fjarlægð en hún nálgast okkur með 120 kílómetra á sekúndna hraða (432000 kílómetra á klukkustund) en það er 4800 faldur mesti leyfilegur íslenskur hámarkshraði sem er 90 km. á klukkustund. Hætt er við að í þessu tilfelli dugi ekki að hringja í sýslumanninn.
Lengi hefur verið talið að líftími sólarinnar sé um 10 milljarðar ára og að sá tími sé um það bil hálfnaður. Miðað við þá útreikninga ættu að vera um 5 milljarðar ára eftir af tíma jarðarinnar þangað til hún stiknar vegna hinnar ört stækkandi sólar. Þessar nýju fréttir gætu bent til að tími jarðarinnar verði ef til vill ekki svo langur. Erfitt er að tímasetja áreksturinn nákvæmlega en í greininni eru leiddar líkur að því að fyrsta nánd við Andrómedu verði eftir þrjá milljarða ára. Ef áreksturinn verður ekki þá, þá verður hann trúlega nokkur hundruð milljónum ára síðar. Að lokum munu vetrarbrautirnar renna saman í eina. Við fyrstu nánd munu flóknar þyngdaraflsverkanir þeyta jörðinni framhjá miðju vetrarbrautarinnar. Næturhimininn mun smám saman breytast frá því að sýna tvær nálægar vetrarbrautir sem renna saman, þegar jörðin er langt í burtu frá miðjunni í það að sýna himin alprýddan björtum stjörnum þegar farið er framhjá miðjunni. Hvað gerist nákvæmlega er ómögulegt að segja. Hugsanlega munu þessir ofurkraftar þeyta sólinni út úr vetrarbrautinni en einnig er hugsanlegt að hún hitti fyrir svarthol á þessu ferðalagi sínu og þá er ekki að spyrja að leikslokum. Fjarlægðin milli stjarna í vetrarbrautunum er þó svo mikil að árekstur er ekki líklegasta útkoman.
Þessi pistill birtist í fullri lengd á kirkju.net: [Tengill]
[1] The Great Milky Way Andromeda Collision. John Dubinski. Sky & Telescope. October 2006, bls. 30-36.
Vísindi og fræði | Breytt 17.3.2007 kl. 22:38 | Slóð | Facebook