Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Laugardagur, 11.4.2009
Er breska pundið besti kosturinn?
Umræður um hvað gera skuli í gjaldeyrismálum virðast vera komnar í öngstræti og þrætur um aðild að ESB. Í þessu sambandi má benda á að nýlega benti breski Evrópuþingmaðurinn David Hannan á sterk rök fyrir því að Íslendingar eigi að taka upp breska pundið. Frétt þess efnis birtist um þetta á mbl.is hér og grein Davids er að finna hér. Rök hans eru í stuttu máli þessi:
1. Bretland er stærsta viðskiptaland Íslands. 19% af útflutningi Íslands fara til Bretlands. Þá eru fjárfestingar Íslendinga meiri í Bretlandi en í öðrum ríkjum samanlagt.
2. Upptaka pundsins er ekki eins dýr og aðild að ESB. Íslendingar munu halda yfirráðum yfir auðlindum sínum og þurfa ekki að greiða stórfé í sjóði ESB.
3. Líkur eru á að Bretar væru í besta falli ánægðir með þá aðgerð en í versta falli stæði þeim á sama. Okkur líkar vel við ykkur," segir Hannan og bætir við að ólíkt mörgum ESB-ríkjum hafi Bretar aldrei séð ofsjónum yfir velgengni Íslendinga eða litið á sjálfstæði Íslands sem ógn við Evrópuþróunina. Ermarsundseyjarnar og Mön eru í gjaldmiðilssambandi við Bretland en standa utan Evrópusambandsins. Þær eru miklu ríkari en við en okkur er alveg sama."
Varðandi fyrstu rökin þá hlýtur að vera hagkvæmt fyrir útflytjendur vöru að þurfa ekki að kaupa íslenskar krónur af bönkum þegar gjaldeyrir er fluttur heim. Þannig næst fram sparnaður sem gerir útflutningsgreinarnar samkeppnishæfari og ætti að auka umfang og veltu í frum- og útflutningsframleiðslugreinum fremur en bankageiranum eins og verið hefur hingað til.
Heimild: http://www.mbl.is/mm/vidskipti/frettir/2009/02/15/island_aetti_ad_taka_upp_breska_pundid/
Laugardagur, 28.3.2009
Um siðferðileg álitaefni við upphaf lífs
Þó lítið beri á almennri umræðu um fóstureyðingalöggjöfina og ekki fréttist af því að stóru flokkarnir hyggist taka hana til endurskoðunar þá þarf það ekki að þýða að um hana ríki breið og almenn sátt. Þessi umræða er viðkvæm því þar takast á öndverð sjónarmið m.a. með tilliti til þess hver staða fóstursins er á fyrstu vikunum og hvort og hvenær beri að líta svo á að fóstur njóti persónuverndar.
Núgildandi lög sem eru nr. 25, frá 22. maí 1975 heimila fóstureyðingar af félagslegum ástæðum. Fóstureyðing felur í sér deyðingu okfrumu eða fósturs sem er sjálfstætt líf og til að þetta geti orðið þarf að gera læknisaðgerð. Þarna er því verið að beita læknisþekkingu og sjúkrahúsaðstöðu til neyðarlausnar á aðstæðum sem metnar eru vandamál af félagslegum ástæðum. Hér er því spurning hvort ekki sé ástæða til að yfirfara og endurmeta í ljósi reynslunnar hvort ekki sé hægt að greiða úr hinu félagslega vandamáli með félagslegum úrræðum, frekar en að beita læknisaðgerðum.
Í lögunum segir ennfremur:
Áður en fóstureyðing má fara fram, er skylt að konan, sem sækir um aðgerðina, hafi verið frædd um áhættu samfara aðgerðinni og hún hafi hlotið fræðslu um, hvaða félagsleg aðstoð henni stendur til boða í þjóðfélaginu. Öll ráðgjöf og fræðsla skal veitt á óhlutdrægan hátt.
Við þennan lestur vaknar sú spurning hvaða aðili það sé sem á að veita fræðsluna. Ef það er aðili á vegum sjúkrahússins sem hana framkvæmir þá er spurning hvernig sá aðili á að geta veitt fullkomlega óhlutdræga fræðslu því hann er jafnframt hagsmunaaðili, þ.e. hefur atvinnuhagsmuni, óbeina þó, af því að þessar aðgerðir séu framkvæmdar. Með því að segja þetta er ég ekki að halda fram að fræðslan hafi verið hlutdræg en það ættu menn að sjá ef þeir skoða málið að það er sjálfsagt að bæta því í lögin að óháður aðili eigi að standa að þessari fræðslu. Hver gæti hugsanlega tapað á þannig óhlutdrægni? Líklega enginn.
Orðið sem notað er yfir aðgerðina 'fóstureyðing' er einnig í sjálfu sér vandamál því þessi orðanotkun breiðir yfir hinn raunverulega verknað sem felur í sér að binda enda á líf sem sannanlega er mannlegt. Deyðing hlýtur að vera sársaukafull eða í það minnsta erfið, svo vægt sé til orða tekið, fyrir það líf sem fyrir henni verður. Að nota orðið 'eyðing' yfir það að binda enda á líf sem sannanlega er mannlegt þó það sé ungt er óvirðulegt og hlutgerir fóstrið. Slík hlutgerving á mannlegu lífi er lítillækkandi og stendur í vegi upplýsingar, en gefur meðvirkni undir fótinn. Orðið 'meðgöngurof' sem lagt hefur verið til er heldur skárra en 'fóstureyðing' því það er ekki jafn óvirðulegt þó það, eins og 'fóstureyðing' haldi áfram huliðshjálmi yfir því sem raunverulega fer fram. Nær væri að tala um fósturdeyðingu.
Miðvikudagur, 25.3.2009
Um ágreining hagfræðinga austan hafs og vestan og aðferðir þeirra
Erfitt er fyrir leikmenn að gera sér grein fyrir forsendum hagfræðinganna og þessa ágreinings, en skiljanlegt er að Bandaríkjamenn byggi á reynslu sinni af kreppunni miklu og New Deal áætlun Roosevelt forseta sem almennt er talið að hafi rofið vítahring víxlverkandi lækkana og hruns. Í þessu sambandi er vert að hafa í huga að kreppan mikla hófst með hruni í október 1929 en efnahagsáætlun forsetans var ekki hrundið í framkvæmd fyrr en á árunum 1933-1938.
Hugsast getur að báðar fylkingarnar hafi rétt fyrir sér að nokkru leyti en tímasetningin á því hvenær gripið skuli inn í sé lykilatriði. Hugsast getur að það sé ekki skynsamlegt að verja miklum fjármunum í varnaraðgerðir á meðan hrunið er enn í gangi en þeim mun skynsamlegra að hefjast handa þegar ljóst er að markaðir eru farnir að verða stöðugir á nýjan leik og gjaldþrot eru orðin fátíð.
Málið er að hagfræðingar virðast ekki hafa meiru úr að moða en kenningum en ekkert hefur heyrst af því að þeir notist við nein sérstök spálíkön eða hermiforrit. Síðan geta menn fátt annað gert en aðhyllast kenningarnar eða vera ósammála þeim.
Það er í rauninni merkilegt að enn skuli ekki vera búið að búa til raunhæf spá- eða hermilíkön af efnahagskerfum þjóðanna. Verkefnið er að vísu stórt en hvorki óviðráðanlegt né óraunhæft. Það sýna veðurspárkerfin og einnig fullkomnir tölvuleikir svo sem skákforrit. Með því að byggja ýmsar breytur inn í slík líkön og með aðgengi að nægu vélarafli ætti að vera hægt að segja fyrir um hvaða áhrif ýmsar efnahagslegar aðgerðir og breytistærðir hafa á markaði og þjóðfélagshópa með meiri áreiðanleika en áður hefur þekkst. Hugsanlega er þarna sóknarfæri og mögulegur samstarfsflötur fyrir rannsóknarstofnanir í tölvufræðum og efnahagsfræðum.
Mánudagur, 23.3.2009
Framtíðin í ljósvakamálunum
Það má kannski segja að svipað gildi um ljósvakamiðla og stjórnmálaflokka að það sé heppilegra að þeir séu fleiri en færri svo meiri líkur en minni séu á því að kjósendur og hlustendur finni eitthvað við sitt hæfi. Ef lög tryggðu að smáir ljósvakamiðlar ættu sér tilverugrundvöll og vaxtarmöguleika án þess að eiga á hættu stöðugar sameiningar eða yfirtökur stórra aðila með tilheyrandi róti á starfsmannahaldi og starfsemi þá væri mikið unnið. Samþjöppun á fjölmiðlamarkaði ætti frekar að hindra með því að tryggja tilverurétt smærri aðila heldur en setja strangar og íþyngjandi reglur um eignarhald á fjölmiðlum umfram ákvæði samkeppnislaga.
Ég hef skrifað nokkuð um Ríkisútvarpið. Atburðirnir í kjölfar niðurskurðartillagnanna hjá RÚV þegar fjöldinn allur af félagasamtökum mótmælti því að skera niður á svæðisstöðvum RÚV úti á landi sýna svo ekki verður um villst hvert straumurinn liggur í menningarmálum ljósvakans. Það virðast margir á þeirri skoðun að landsbyggðarstöðvarnar beri að efla frekar en hitt. Þess má geta til upplýsingar að á Suðurlandi er engin slík fjórðungsstöð starfandi. Svo virðist sem þau mótmæli hafi komið bæði þáverandi stjórnvöldum sem og stjórnendum RÚV ohf algerlega í opna skjöldu.
Hugmyndir mínar byggja í stuttu máli á því að byggja upp flóru sjálfstæðra aðila, sem þrátt fyrir að vera ekki stórir eru stöndugir og hafa burði til að vera til í áratugi ef þeir fara vel með fé. Þessir aðilar gætu sem best myndað efnismarkað sín á milli svo að vinsælir útvarpsþættir gætu heyrst á fleiri stöðvum en þeirri sem framleiðir efnið.
Ljósvakamiðlarnir eiga að sitja við sama borð hvað varðar framlög frá ríkinu. Einn þessara miðla getur sem best verið í eigu ríkisins, þ.e. RÚV og þá á þeim forsendum að tryggja þurfi öryggi almennings og dreifingu til fjarlægra staða. Ef þessa jafnræðis er gætt þá geta þeir allir verið á auglýsingamarkaði. Framlög ríkisins til ljósvakamiðlanna ættu síðan að vera í réttu hlutfalli við flutning þessara miðla á innlendu efni eða efni sem tengist Íslandi á einhvern hátt. Þessir
miðlar gætu sem best sameinast um rekstur öflugrar og óháðrar fréttastofu eða notið þeirrar þjónustu frá RÚV en haft frjálsar hendur þar fyrir utan. Það er í rauninni skammarlegt að þeir peningar sem innheimtir voru sem afnotagjöld en núna nefskattur séu notaðir til að flytja landanum textaðar erlendar sápuóperur í ríkissjónvarpinu kvöld eftir kvöld svo árum skiptir.
Í þessu sambandi er nærtækt að horfa til þess að leggja RÚV þær skyldur á herðar að byggja upp starfsstöð í hverjum landsfjórðungi, því auk þess að byggja upp fjölbreytni og menningarlegt sjálfstæði landsbyggðarinnar byggir slíkt fyrirkomulag einnig upp aukið öryggi þegar náttúruhamfarir bresta á. Sjá t.d. pistilinn þar sem ég mæli með því að öflugum miðbylgjusendum verði komið fyrir í hverjum landsfjórðungi.
Flest útvarpsviðtæki sem seld eru á Íslandi í dag eru bara með AM/FM móttöku sem gerir að verkum að langbylgjustöðvarnar eru smátt og smátt að verða úreltar þó sjómenn og ferðamenn noti þær eflaust mikið. En horfa ber á að öflug miðbylgjustöð er líka langdræg og ef hún er vel staðsett þá gætu fjórar slíkar stöðvar trúlega þjónað jafn vel eða betur en gert er með núverandi fyrirkomulagi tveggja langbylgjustöðva.
Ýmis önnur félagaform en hlutafélagaformið henta trúlega betur til reksturs menningarstarfsemi á vegum ríkisins. Arðurinn af starfseminni kemur fram í auknum lífsgæðum, gagnrýnni hugsun og víðsýni þegnanna og er að því leyti eftirsóknarverður þó erfitt sé að leggja á hann efnahagslegan mælikvarða.
Þegar landið fer að rísa á nýjan leik í efnahagsmálum þarf að stofna ljósvakasafn sem hefur það hlutverk að safna ljósvakaefni sem flutt er á íslensku eða hefur að öðru leyti ótvíræð tengsl við íslenska menningu. Þjóðarbókhlaðan gegnir nú þegar þessu hlutverki hvað varðar prentað mál og ljósvakasafnið yrði því aðeins útvíkkun á sömu hugsun þegar kemur að ljósvakaefni. Hugsanlega er hægt að fara að athuga þessi mál strax ef vitað er hvert á að stefna.
RÚV yrði þá nokkurs konar þjónustu- og öryggismiðstöð rekin af ríkinu en myndi sjá um rekstur öflugrar fréttastofu þar sem gerðar verða miklar kröfur til menntunar starfsmanna og óhlutdrægni í efnistökum. Þeir myndu einnig vera þjónustuaðilar og sjá um að leigja út efni úr ljósvakabankanum til hinna smærri aðila sem vilja sína til þess að miðla gömlum menningarperlum.
Ef þessar leiðir eru farnar þá gæti landið farið að rísa hjá litlu útvarpsstöðvunum og þær eignast tilverugrundvöll sem annars væri ekki til staðar. Þær gætu boðið upp á prýðilega þjónustu á ýmsum svæðum og byggt upp fjölbreytta og sérstæða en jafnframt sjálfstæða flóru menningar sem ekki er ríkisstýrð þó hún væri ríkisstyrkt að hluta. Fjölbreytt flóra minni en stöndugri aðila ætti líka að stuðla að meiri möguleikum fyrir lýðræðið og þá sem vilja koma skoðunum sínum á framfæri. Með þessu móti yrði jafnræði gert hærra undir höfði en nú er.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 21.3.2009 kl. 23:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 8.2.2009
Rafrænt kosningakerfi gæti auðveldað þjóðaratkvæðagreiðslur til muna
Nýlegir stórviðburðir í stjórnmálaheimi landsins þar sem ríkisstjórn þurfti að víkja í kjölfar mikilla almennra mótmæla sýna svo ekki verður um villst að á einhvern hátt þarf lýðræðið að vera virkara en það er og stjórnvöld að geta endurnýjað umboð sitt til þjóðarinnar á skilvirkari hátt en í núverandi kerfi leiki nokkur vafi á því að það sé til staðar. Rafrænar kosningar gætu leikið þar stórt hlutverk.
Í þessu sambandi er vert að hafa í huga að vegna nútímatækni er auðveldara og raunar auðveldara en nokkru sinni áður að kanna hug þjóðarinnar. Núverandi kerfi sem byggir á handvirkri talningu atkvæðaseðla úr pappír er býsna öruggt, stendur fyrir sínu en er þungt í vöfum og dýrt. Með lítilli fyrirhöfn ætti að vera hægt að koma upp rafrænum kosningastöðvum þar sem kjósandi fær afhentan kóða. Þennan kóða myndi hann stimpla inn á tölvu og þá myndi birtast honum rafrænn atkvæðaseðill sem hann gæti merkt við og skilað.
Með nægilegri fyrirhyggju ætti að vera hægt að búa til bæði einfalt og öruggt kerfi. Að sjálfsögðu þyrfti kerfið síðan að virka þannig að ekki væri hægt að rekja einstök atkvæðaskil til staðar og tíma. Niðurstöðurnar yrðu sendar dulkóðaðar til miðstöðvar landskjörstjórnar. Hægt er að hugsa sér að nýta venjulegar tölvur til framkvæmdarinnar og ættu t.d. tölvur í skólum landsins að geta dugað í flestum tilfellum. Þannig þyrfti þjóðin ekki að leggja út í stórfelldan kostnað við tækjakaup.
Atkvæðaseðlar á pappír geta síðan verið til staðar á hverjum kjörstað ef alvarlegar tæknibilanir verða svo sem rafmagnsleysi. Rafræna kerfið ætti því að geta tekið við og talið mjög stórt hlutfall atkvæðaseðla og ólíklegt er að hlutfall pappírsseðla yrði yfir 10% af heildarfjölda greiddra atkvæða, trúlega mun lægra. Þetta fyrirkomulag myndi spara kostnað við talningu og niðurstöður gætu legið fyrir mun fyrr en í núverandi kerfi.
Með þessu fyrirkomulagi ættu þjóðaratkvæðagreiðslur að geta verið mun fyrirhafnarminni, ódýrari og því hægt að halda þær oftar en með núverandi fyrirkomulagi. Þessu þyrftu stjórnvöld að huga að.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Laugardagur, 24.1.2009
Ljósvakinn og lýðræðið
Það má kannski segja að svipað gildi um ljósvakamiðla og stjórnmálaflokka að það sé heppilegra að þeir séu fleiri en færri svo meiri líkur en minni séu á því að kjósendur og hlustendur finni eitthvað við sitt hæfi. Ef lög tryggðu að smáir ljósvakamiðlar ættu sér tilverugrundvöll og vaxtarmöguleika án þess að eiga á hættu stöðugar sameiningar eða yfirtökur stórra aðila með tilheyrandi róti á starfsmannahaldi og starfsemi þá væri mikið unnið.
Ég ef í fyrri pislum skrifað nokkuð um Ríkisútvarpið. Atburðirnir í kjölfar 550 milljón króna niðurskurðartillagnanna hjá RÚV þegar fjöldinn allur af félagasamtökum mótmælti því að skera niður á svæðisstöðvum RÚV úti á landi sýna svo ekki verður um villst hvert straumurinn liggur í menningarmálum ljósvakans. Það virðast margir á þeirri skoðun að landsbyggðarstöðvarnar beri að efla frekar en hitt. Þess má geta til upplýsingar að hér á Suðurlandi er engin slík fjórðungsstöð starfandi.
Hugsast getur að stjórnvöld og stjórnmálaflokkarnir séu að átta sig á því að það þarf að mynda heildstæða stefnu í íslenskum ljósvaka- og fjölmiðlamálum og ná um hana víðtækri og breiðri sátt. Gallinn er bara sá að hvorki stjórnvöld né stjórnmálaflokkarnir virðast hafa skýrar hugmyndir um hvert eigi að stefna. Ég bendi þeim því á að lesa pistlana í efnismöppunni minni um Ríkisútvarpið. Kannski fá þeir einhverjar hugmyndir sem þeir geta byggt á. Þær hugmyndir byggja í stuttu máli á því að byggja upp flóru smærri aðila, sem þrátt fyrir smæðina eru stöndugir og hafa burði til að vera til í áratugi ef þeir fara vel með fé. Þessir aðilar gætu sem best myndað efnismarkað sín á milli svo að vinsælir útvarpsþættir gætu heyrst á fleiri stöðvum en þeirri sem framleiðir efnið.
Í þessu sambandi er nærtækt að horfa til þess að byggja upp útvarpsstöð í hverjum landsfjórðungi, því auk þess að byggja upp fjölbreytni og menningarlegt sjálfstæði landsbyggðarinnar byggir slíkt fyrirkomulag einnig upp aukið öryggi þegar náttúruhamfarir bresta á. Sjá t.d. pistilinn þar sem ég mæli með því að öflugum miðbylgjusendum verði komið fyrir í hverjum landsfjórðungi. Menningarleg slagsíða í þágu höfuðborgarsvæðisins í dagskrá og áherslum RÚV er greinileg. Nægir þar að nefna langdregin atriði í áramótaskaupinu sem snerust alfarið um argaþras í borgarpólitík Reykjavíkur.
Eignarhald ljósvakastöðva gæti sem best verið blandað. Í raun skiptir það ekki höfuðmáli hver á stöðina ef reksturinn er tryggður og hann má sem best styðja með ríkisframlögum að hluta til eða í hlutfalli við framboð stöðvarinnar af íslensku menningarefni. Samþjöppun á fjölmiðlamarkaði ætti frekar að hindra með því að tryggja tilverurétt smærri aðila heldur en setja strangar og íþyngjandi reglur um eignarhald á fjölmiðlum umfram ákvæði samkeppnislaga. Það verður þó að segjast að ýmis önnur félagaform en hlutafélagaformið henta trúlega betur til reksturs menningarstarfsemi. Arðurinn af starfseminni kemur fram í auknum lífsgæðum, gagnrýnni hugsun og víðsýni þegnanna og er að því leyti eftirsóknarverður þó erfitt sé að leggja á hann efnahagslegan mælikvarða.
Núverandi frammistaða RÚV á menningarsviðinu er viðunandi eins og hún er en hún gæti verið miklu betri ef fjölbreytninni væri fyrir að fara. Ég bendi t.d. á pistilinn RÚV - Menningarleg Maginotlína í þessu sambandi.
Á sama hátt má líklega segja að til lengri tíma sé heppilegra að stjórnvöld hlúi að tilveru lítilla stjórnmálahreyfinga og þær njóti jafnræðis á við hina stóru. Það tryggir að líkindum fjölbreyttari nýliðun í flokkakerfinu og vinnur gegn stöðnun, klíkumyndun og áhrifum flokkseigendafélaga í hinum stærri og eldri stjórnmálahreyfingum.
Föstudagur, 12.12.2008
Um tillögur og aðgerðaráætlun íslenskrar málnefndar
Þetta [að Windows sé á ensku] er gerólíkt því sem gerist í flestum
grannlöndum okkar þar sem almennir tölvunotendur nota undantekningarlítið flestan hugbúnað á móðurmáli sínu. [2, bls. 48]
Ég leyfi mér að efast um að þetta sé nákvæmt stöðumat hjá ÍM hvað Grænland eða Færeyjar varðar sem eru okkar næstu grannlönd. Hvað varðar fjarlægari grannlönd á þetta trúlega betur við en þó ef orðinu "algengan" er skotið inn milli orðanna "flestan" og "hugbúnað" og lýsingarorðin "gerólíkt" og "undantekningarlítið" eru felld niður eða lágstemmdari orð sett í þeirra stað. Flóra þess hugbúnaðar sem í boði er er svo mikil og fjölbreytt að hæpið er að ætla að almennir tölvunotendur geti undantekningarlítið notað flestan hugbúnað eða vefþjónustur á móðurmáli sínu. Það má aftur á móti segja að almennir og útbreiddir hugbúnaðarpakkar sem komnir eru í mikla dreifingu bjóða yfirleitt upp á þýðingar og val á tungumálum. Það er því ekki fráleitt og að gefa sér sem forsendu að ætla að stýrikerfi og algengur hugbúnaður sé á tungumáli viðkomandi þjóða, en þegar kemur út fyrir algengustu forrit minnka líkurnar á að hægt sé að tryggja að notendur fái forrit á sinni þjóðtungu. Að mínu mati þyrfti því að umorða stöðumat ÍM til að fyrirbyggja misskilning á fyrrgreindan hátt. Í framhaldinu setur ÍM svo fram eftirfarandi markmið:
Að íslensk tunga verði nothæf - og notuð - á öllum þeim sviðum innan tölvu- og upplýsingatækninnar sem varða daglegt líf almennings.
Þetta er hægt að taka undir en í framhaldinu setur ÍM fram aðgerðaáætlun í nokkrum liðum. Fyrsta atriði í aðgerðaráætlun hennar sem hún leggur til við Menntamálaráðuneytið er:
Að allur almennur notendahugbúnaður í íslensku skólakerfi, frá leikskólum til háskóla, verði á íslensku innan þriggja ára.
Ef þessi tillaga til aðgerðar verður sett á lagafrumvarps-færiband stjórnarinnar sem er afkastamikið og verður orðið að lögum innan skamms tíma óbreytt þá er má ætla að það geti sett ráðamenn skólanna í nokkurn vanda. Ef það verður ólöglegt að þrem árum liðnum að setja upp almennan hugbúnað sem ekki er á íslensku allt frá leikskólum upp í háskóla er líklegt að það verði ekki gert. Starfsmenn skólanna munu ekki hætta á að setja upp óþýdd forrit af ótta við að þeir séu með því að fremja lögbrot. Þetta kemur til af því að orðið "almennt" er nokkuð teygjanlegt og erfitt er að halda því fram að einhver forrit séu ekki almenn. Þetta mun þá gilda jafnt um hin ýmsu "almennu" hjálparforrit í tækni og raungreinum sem eru bæði mörg og fjölbreytt sem og ýmis "almenn" sérforrit iðngreina. Þetta eru "almenn" forrit sem tiltölulega fáir nota en þau eru þrátt fyrir það nauðsynleg kennslutæki til að kynna nýjustu tækni fyrir nemendum. Augu tunguvarðanna eru bæði mörg og árvökul og því gætu komið upp árekstrar ef erlendu orði sést bregða fyrir. Jafnvel þó ríkisstjórnin myndi ákveða að koma á fót öflugu þýðingarteymi, sem er raunhæft til að standa við metnaðarfullan viljann sem tillögurnar endurspegla og þýða flest þessi almennu forrit, þá er ekki sjálfgefið að þýðingarteymið myndi fá nauðsynlegt fé til verkefnanna eða þá geta brugðist nógu hratt við. Sér í lagi er nærtækt að ætla þetta í ljósi nýjustu fjárlaga. Þó stjórnvöld ætli sér að styrkja mannaflsfrekar framkvæmdir þá er ólíklegt að hún styrki þýðingarvinnu, jafnvel þó sú vinna sé ekki síður mannaflsfrek heldur en malbikunarvinna eða vegagerð. Reynslan hefur sýnt það að þegar íslenskir stjórnmálamenn tala um framkvæmdir þá þýðir það oftast að átt er við verklegar framkvæmdir svo sem vegagerð eða steypuvinnu af einhverju tagi.
Hið opinbera getur vissulega komið á laggirnar þýðingarteymi ef viljinn er fyrir hendi. Hægt væri að ráða verktaka eða ganga til samninga við sprotafyrirtæki sem sérhæfir sig á þessu sviði eða fjölga í starfsliði ráðuneytisins allt eftir því hvernig hinn pólitíski vindur blæs. Þannig væri hægt að þýða algengustu og útbreiddustu forritin og þau sem flestir eru að nota í skólunum. Þýðingarteymi af þessu tagi er reyndar tímabært. Nú þegar eru dæmi um að aðilar innan skólakerfisins hafi sótt um styrki til þýðingar á mikið notuðum forritum, sumir hafa fengið styrk en aðrir fengið synjun. Hér væri hægt að gera betur og von mín er að metnaðarfull aðgerðaráætlun ÍM verði ekki til þess að leggja hömlur á skólamenn eins og stefnir í ef hún verður að lögum óbreytt heldur til þess að ráðuneyti menntamála og fjármála taki sjálf sinnaskiptum. Bæði er raunæft að þýða seldan sem og opinn hugbúnað en þar eru miklir möguleikar því margir hugbúnaðarpakkar sem dreift er eru með opnu leyfi og bíða þess eins að vera þýddir en eru samt ekki til á íslensku því framkvæmdin hefur hingað til eingöngu hvílt á herðum áhugamanna sem sjaldnast hafa fengið nokkurn pening fyrir þýðingar sínar. Slíkt framtak er bæði brýnt og þarft og í samhljómi við stefnu stjórnvalda um opinn hugbúnað sem sjá má hér. [1]
Afleiðingar af því að búa við strangan lagabókstaf hvað forrit í skólum varðar en ónógar fjárheimildir til þýðingarverkefna er samt ástand sem gæti varað lengi og haft mótandi áhrif svo árum skiptir. Þetta hefði kannski ekki svo alvarlegar afleiðingar í leik- eða grunnskólum en í framhalds- og háskólum er hætt við að þetta gæti sett þróun og rannsóknum stólinn fyrir dyrnar. Ef starfsmenn skólanna sjá fram á minnstu hættu á áminningum í starfi eða jafnvel dómum og sektargreiðslum stofnana sinna fyrir að setja upp forrit sem talin eru nauðsynleg en ekki á íslensku þá er nærtækt að ætla að ýmis góð en óþýdd forrit verði hvorki sett upp né notuð.
[1] Stefna ríkisstjórnar Íslands um upplýsingasamfélagið 2008-2012 á pdf.formi : http://www.forsaetisraduneyti.is/media/frettamyndir/NETRIKID_ISLAND_stefnuskra.pdf
[2] Íslenska til alls : tillögur Íslenskrar málnefndar að íslenskri málstefnu: http://bella.mrn.stjr.is/utgafur/islenska_til_alls.pdf
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 30.11.2008
Hverjir sitja í starfshópum um málefni RÚV?
Það hefur verið skammt stórra högga á milli hjá RÚV og fréttirnar af 700 milljóna sparnaðinum dundu nokkuð óvænt og snögglega yfir þó fyrirsjáanlegt væri að einhver niðurskurður yrði. Óskandi er að þeir sem fyrir niðurskurðarhnífnum verða muni finna störf sem fyrst. En nokkrar spurningar hafa sótt á mig að undanförnu sem ég hef ekki fundið svör við þrátt fyrir vefleit. Í fyrsta lagi er það hverjir eiga sæti í starfshópnum um málefni RÚV sem greint var frá nýlega að settur hefði verið á laggirnar? Í öðru lagi væri forvitnilegt að fá að vita að hve miklu leyti þessar niðurskurðartillögur tengjast þessum starfshóp? Er það starfshópurinn sem leggur línurnar um niðurskurðinn eða er það útvarpsstjóri?
Fyrir liggur líka að eftirlitsstofnun EFTA, ESA vinnur í því í samráði við íslensk stjórnvöld að finna framtíðarfyrirkomulag fyrir RÚV sem fallið geti að reglum EES.
Að sögn Inge Hausken Thygesen, upplýsingafulltrúa ESA, vinna starfsmenn ESA að málinu í samvinnu við íslensk stjórnvöld. Unnið sé með það markmið í huga að íslensk stjórnvöld og ESA komist að sameiginlegri niðurstöðu um hvernig þessum málum skuli háttað í framtíðinni. [1]
Hér virðist svo vera önnur nefnd eða starfshópur starfandi og sú spurning vaknar óhjákvæmilega hvort um sé að ræða sama starfshópinn? Það er líklegt að svo sé ekki því ESA málið hefur verið til skoðunar síðan 2002 en nýi starfshópurinn var skipaður í þessum mánuði [2]. Það væri forvitnilegt að fá upplýst hverjir eiga sæti í ESA starfshópnum því ef rétt er að hann sé að huga að langtímafyrirkomulagi ljósvakamála hérlendis þá er sá starfshópur áhrifamikill.
Í rauninni skiptir kannski ekki höfuðmáli hvaða einstaklingar eiga hér í hlut heldur hitt að það er pólitískur menntamálaráðherra sem í þessa starfshópa skipar. Í rauninni má segja að málefni RÚV og ljósvakamiðlunar almennt séu þess eðlis að það sé óheppilegt að sérpólitísk sjónarmið fái að ráða ferðinni varðandi framtíðarstefnumótun. Í því sambandi væri heppilegra að skipa þverpólitískt ráð til að leggja línurnar og til að sátt náist til framtíðar um ljósvakamenningu. Einnig væri heppilegt að í svona ráðum sitji ekki bara fólk skipað af stjórnmálaflokkum heldur einnig fólk skipað af hagsmunasamtökum listamanna og annarra hagsmunaaðila. Það vekur því nokkra furðu að ekki hefur komið skýrt fram á almennum vettvangi hverjir eiga sæti í þessum starfshópum og einnig er furðulegt að Alþingi skuli ekki hafa kallað eftir þessum upplýsingum. Það má þó vera að svo sé án þess að ég hafi tekið eftir því en þá hafa þingfréttamenn ekki enn miðlað þeim fróðleik út á netið því þegar orðin RÚV og starfshópur eru gúgluð þá birtist mitt eigið blogg efst á blaði. Afgangurinn eru fréttir almenns eðlis.
[1] http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/11/20/skodun_a_ruv_lykur_bratt/
[2] http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item234572/
Sunnudagur, 16.11.2008
Að skila auðu eða velja af handahófi - hugleiðing um orð dr. Aliber
Nýlega sagði mætur maður, dr. Robert Z. Aliber prófessor í Chigago að fólk valið af handahófi úr símaskrá hefði að líkindum ekki getað valdið jafn miklum efnahagslegum glundroða hérlendis og þeir sem núna eru við völd. Hér hefur dr. Aliber að líkindum talað í víðum skilningi og átt við bæði embættismenn og stjórnmálamenn. Svo virðist sem margir gætu tekið undir þetta álit um þessar mundir. Atburðir síðustu vikna sýna svo ekki verður um villst að óánægja almennings er mikil og hún brýst fram í friðsömum mótmælum. Í þessu ljósi er vart annað hægt en að velta opinskátt fyrir sér hvernig þessar aðstæður urðu til.
Um langa hríð hefur svo verið hér á Íslandi að stjórnmálaflokkarnir hafa verið áhrifamiklir og áhrif þeirra hafa vaxið í réttu hlutfalli við stærð. Þessar aðstæður hafa valdið því að til liðs við flokkana hefur gengið fólk sem gjarnan hefur átt takmörkuðu gengi að fagna annars staðar. Þetta er fólk sem oft hefur hætt skólagöngu snemma, átt stuttan eða snubbóttan starfsframa á ýmsum stöðum en er samt framagjarnt, metnaðargjarnt og á gott með að koma fyrir sig orði. Það gengur til liðs við einhvern stjórnmálaflokk, fylgir sínum leiðtoga af trúmennsku og nákvæmni og gætir sín að fara ekki út fyrir þær línur sem gefnar eru af leiðtoganum. Fólk þetta er leiðtoganum jafn nauðsynlegt og leiðtoginn er þeim. Eftir nokkurra ára dygga þjónkun við flokkinn og markviss en beinskeytt olnbogaskot til keppinautanna innan flokksins blasa verðlaunin við en það er oft á tíðum bitlingur í formi embættis innan ríkis eða bæjarfélags eða stofnunum tengdum þeim. Þeir sem hafa viðrað sjálfstæðar skoðanir innan flokkanna eða eru 'óþægir' flokksforystunni virðast ekki hafa átt frama að fagna innan flokkanna. Þeir verða undir í málefnabaráttu og þar með áhrifalausir þó þeir starfi oft áfram á þessum vettvangi í von um að tillit verði tekið til þeirra síðar.
Almenningur lítur þetta hornauga og orðin 'framagosi' eða 'flokksdindill' eru lesendum að líkindum ekki framandi. Með tíð og tíma verða þessir einstaklingar svo að vonarstjörnum og geta trúlega náð langt innan flokkanna. Eftir ævilanga þjónustu þarf svo að gera vel við viðkomandi, annað hvort með góðum starfslokasamningi eða háu, virðulegu og gjarnan rólegu embætti með von um góð eftirlaun. Þegar á móti blæs er treyst á samtryggingu flokksins og ítök hans í þjóðfélaginu og það heyrir til undantekninga ef stjórnmálamenn segi af sér. Þeir vita sem er að lítillar gagnrýni er að vænta frá hinum flokkunum því þeir búa við svipað fyrirkomulag og samtryggingu þeirra um aðgengi að kjötkötlunum er ekki hróflað við. Það eina sem getur breytt þessu fyrirkomulagi er pólitískur þrýstingur almennings en almenningur hefur verið lítilþægur og leiðitamur enda hefur pólitísk umræða og vitund fólks utan stjórnmálaflokka ekki verið mikil hér á landi síðustu áratugi.
Það sem hefur gerst í seinni tíð er að með auknum áhrifum flokksveldisins hefur þetta fyrirkomulag gengið út í öfgar. Framagosakerfið hefur þann ókost að nálægt toppi valdapýramídans, á toppinn og í valdamiklar áhrifastöður getur komist fólk sem þangað á ekki erindi. Svo virðist sem þetta hafi verið að gerast síðustu árin hér á landi og að flokkshollusta sé orðin æðri hagsmunum almennings og hagsmunum þjóðarinnar. Flest bendir til að umburðarlyndi almennings gagnvart þessu framferði sé á þrotum
Við þessar aðstæður er erfitt að sjá að lausnin felist í því að kjósa nokkurn stjórnmálaflokk en miklu fremur í því að höfða til forseta lýðveldisins sem getur veitt framkvæmdavaldinu aðhald og einnig í því að skila auðu atkvæði í þingkosningum. Hvað sem hver segir þá eru þetta þeir öryggisventlar sem stjórnarskráin býður upp á. Oft er sagt, og þá gjarnan af fylgismönnum flokkanna, að með því að skila auðu þá séu menn að kjósa stærsta stjórnmálaflokkinn en því er ég ósammála. Með því að skila auðu þá kjósa menn lýðræðið og lýðveldið en ekki stjórnmálaflokk. Flokkarnir geta eftir sem áður myndað stjórn og haft meirihluta á Alþingi en ef þeir hafa þrátt fyrir það nauman atkvæðameirihluta þjóðarinnar á bak við sig þá standa þeir veikar og geta síður böðlast áfram á kostnað minnihlutans. Með minna atkvæðahlutfall á bakvið sig þurfa þeir frekar að hlusta á hvað fólk segir og taka tillit til margvíslegra sjónarmiða almennings heldur en gert hefur verið.
Einn möguleiki er svo sá sem dr. Aliber nefnir en það er að velja fólk af handahófi. Það er útaf fyrir sig ekki slæmur valkostur sérstaklega ef í boði væri handahófsvalið fólk í þingsæti fyrir ákveðið hlutfall af auðum atkvæðum. Hægt væri að setja skilyrði um aldur og óflekkað mannorð. Ef þingmenn eru miklu fremur bundnir hollustu við stjórnarskrána og þar með þjóðina, sína eigin samvisku og við eigið mannorð en við stjórnmálaflokk þá yrðu afköst Alþingis trúlega minni, þar yrðu meiri, raunverulegri og dýpri umræður og Alþingi myndi færast frá því að vera afgreiðslustofnun fyrir ríkisstjórnina og í þá átt að öðlast heildarsýn yfir það hvert eigi að stefna. Þetta myndi neyða menn til að forðast skammtímalausnir í aðgerðum ríkisvaldsins eða lausnir sem hygla tilteknum sjónarmiðum á kostnað annarra en horfa frekar til hagsmuna þjóðarinnar á sem breiðustum grundvelli og til lengri tíma.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Sunnudagur, 26.10.2008
Útvarp Saga: Einn besti útvarpsþátturinn
Síðastliðin ár hef ég átt þess kost að fylgjast með Útvarpi Sögu og hlusta þá gjarnan á endurflutning um helgar. Þar er einn útvarpsþáttur sem er sérlega athyglisverður og það er þáttur Sigurðar G. Tómassonar og Guðmundar Ólafssonar hagfræðings þar sem þeir spjalla saman og spila tónlist. Eins og alþjóð er kunnugt eru þeir báðir fjölfróðir og víðlesnir og því gaman að fylgjast með samtali þeirra sem er áheyrilegt og skemmtilegt. Ég giska á að þetta geti margir tekið undir þó þeir séu ekki sammála þeim félögum um allt enda felst skemmtun og fróðleiksfýsn ekki endilega í því að vera sammála ræðumönnum.
Eitt af því sem borið hefur á góma í spjalli þeirra félaga er efnahagsmál og gagnrýni á stjórnvöld sem er rökstudd og ennfremur er ágengra spurninga spurt sem ég heyri sjaldan eða aldrei svarað þó vera megi að það hafi verið gert. Styrkur Útvarps Sögu sem frjálsrar og óháðrar útvarpsstöðvar hefur komið betur og betur í ljós með þessu og nú er svo komið að stjórnmálamenn úr ýmsum áttum hafa sóst eftir að flytja pistla í stöðinni og á hana er hlustað sem stöð hins talaða máls og til að heyra skoðanir af ýmsu tagi viðraðar. Þessi eiginleiki er nánast alveg horfinn úr RÚV-Rás1 og þessi efnisþáttur hefur flust yfir í Sjónvarpið að hluta til. Margir muna enn eftir þáttum á Rás-1 þar sem hver sem vildi gat komið og flutt pistil. Um daginn og veginn minnir mig að þessir þættir hafi heitið. Því miður er þetta horfið og verið getur að þetta hafi lognast út af hugsanlega vegna þess að menn vildu vera settlegir í Ríkisútvarpinu, ég veit það ekki en athyglisvert væri að fregna af hverju málin þróuðust þannig, sérstaklega í ljósi útvarpslaganna en samkvæmt þeim á Ríkisútvarpið einmitt að vera vettvangur ólíkra skoðana en í dag er það Útvarp Saga sem ber höfuð og herðar yfir hinar útvarpsstöðvarnar hvað varðar hið frjálsa talaða orð á Íslandi í dag.