Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Lög um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð

12. okt. sl. samþykkti Alþingi lög um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð. Þau mynda grundvöll úrræðisins "Fyrsta fasteign" sem oddvitar síðustu ríkisstjórnar kynntu í ágúst sl. Í lögunum er mælt fyrir um þrjár leiðir við ráðstöfun á viðbótariðgjaldi í lífeyrissjóð. Þær eru 1) heimild til úttektar á uppsöfnuðu viðbótariðgjaldi séreignasparnaðar til kaupa á fyrstu íbúð, 2) heimild til að ráðstafa viðbótariðgjaldi inn á höfuðstól láns og 3) heimild til að ráðstafa viðbótariðgjaldi sem afborgun inn á óverðtryggt lán, sem tryggt er með veði í fyrstu íbúð, og sem greiðslu inn á höfuðstól þess. 

Sjá nánar hér: 
Vefur fjármálaráðuneytisins
Frétt Vísis og Mbl. um málið. 
Ferill málsins á þingi.


Lífreyrir hækkar í 280 þús. 1. jan. '17 og 300 þús. 1. jan. '18

Eitt af þeim málum sem tókst að ljúka fyrir þinglok var stjórnarfrumvarp sem félagsmálaráðherra Eygló Harðardóttir lagði fram á Alþingi 2. sept. sl. Frumvarpið var svo samþykkt sem lög 13. okt. sl. Samkvæmt lögunum verða elli- og örorkulífeyrisþegum sem halda einir heimili og eru með fullan búseturétt hér á landi tryggðar 280.000 kr. á mánuði frá 1. janúar 2017 og ári síðar hækkar sú fjárhæð í 300.000 kr. Sjá nánar hér á vef Velferðarráðuneytisins. Þetta atriði er númer 3 í kosningastefnuskrá Framsóknar


Skattaívilnanir til efnahagslega veikra svæða

Eitt af þeim málum sem Framsókn setur á oddinn* i komandi kosningum er að skoðað verði hvort beita megi skattaívilnunum til fyrirtækja og einstaklinga á efnahagslega veikum svæðum á landsbyggðinni. Ásgerður Kristín Gylfadóttir frá Höfn, frambjóðandi Framsóknar í Suðurkjördæmi skrifaði grein í Mbl. 12. okt. sl. Þar lýsti hún því hve erfitt getur verið að fá fagfólk til starfa og búsetu úti á landi og algengt sé að læknar sinni heilsugæslu að heiman með því að vera 5-7 daga í héraði með störfum á höfuðborgarsvæðinu. Hún nefndi einnig atriði** sem flokksþing Framsóknar samþykkti nýlega sem ályktun en það er að veita afslátt af námslánum kjósi fólk að setjast að á ákveðnum svæðum sem þarfnast stuðnings. 

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson oddviti Framsóknar í NA-kjördæmi skrifaði einnig grein í Mbl. 15. okt. sl. (bls. 27) og nefndi þessi atriði en einnig að þriðjungur veiðigjalda ætti að renna til sveitarfélaga utan höfuðborgarsvæðisins, þriðjungur í þróunarverkefni hringinn í kringum landið og þriðjungur í sóknarverkefni sem geri byggðirnar eftirsóknarverðari. Einnig að opna þurfi nýjar fluggáttir til landsins á Akureyri og Egilsstöðum og gera flugvellina þar betur samkeppnishæfa. Hann nefnir að færa þurfi sveitarfélögunum auknar beinar tekjur af vaxandi ferðaþjónustu því megnið af innviðauppbyggingunni falli til utan Reykjavíkur en megnið af tekjunum séu lögð á í borginni.

*  Sjá 9. punktinn í kosningastefnuskrá Framsóknar. 
** Sjá ályktanir 34. Flokksþings Framsóknar, bls. 28.


Framtíðarþróun trjágróðurs í þéttbýlinu á Selfossi

Á Selfossi hefur vaxið upp hinn myndarlegasti þéttbýlisskógur. Trén eru flestum til ánægju. Þau mynda náttúrulegt og lífrænt umhverfi, draga úr hljóðmengun og veita skjól. Í sumum tilfellum er skuggavarp þeirra og lauffall á haustin þó orðið athugunarefni. Þetta haustið hefur lauffall orðið mikið á stuttum tíma og er asparlaufið mest áberandi. Laufmagnið hefur líklega aldrei verið meira og tíðar rigningar og stormar á stuttum tíma hafa haft sitt að segja núna í miðjum október.

Á sunnudaginn var gekk ég um götur Selfoss og það verður að segjast að það var lítil prýði af niðurrigndum asparlaufahrúgum á gangstéttum og í göturæsum. Nú gæti verið lag fyrir okkur Selfyssinga að huga meira að plöntun annarra tegunda en aspa og jafnframt huga að grisjun þeirra þar sem þær standa of þétt eða á óheppilegum stöðum.

Aspirnar hafa gert og gera sitt gagn hér, eru búnar að mynda skjólgóðan skóg sem getur greitt öðrum tegundum götu. Á eftirfarandi tengli er samantekt á þeim tegundum sem gætu hentað í þéttbýli: [Tengill]. Á áðurnefndri göngu minni dáðist ég t.d. að fallegum grenitrjám og vel snyrtum furutrjám. Grenið missir hvorki barr sitt né grænan lit og skýlir því betur á veturna en naktar aspir. 


Byggður verði nýr Landspítali og framlög til heilbrigðisstofnana aukin

Íslenska heilbrigðiskerfið á að vera í fremstu röð og ávallt á að vera í boði eins góð heilbrigðisþjónusta og mögulegt er. Nýleg úttekt á starfsemi Landsspítalans verði höfð að leiðarljósi. Efla ber þjónustu heilsugæslunnar, þá verður að leggja meiri áherslu á menntun starfsmanna framtíðarinnar í heilbrigðiskerfinu, m.a. með auknum framlögum til heilbrigðissviða háskólanna.

Úr kosningastefnuskrá og ályktunum 34. flokksþings Framsóknar um heilbrigðismál.


Unnið verður eftir sóknaráætlun í loftslagsmálum

Framsókn ætlar að vinna eftir sóknaráætlun í loftslagsmálum* sem er að fullu fjármögnuð til næstu þriggja ára í samræmi við skuldbindingar Íslands í Parísarsamkomulaginu. Áætlunin byggir á verkefnum sem draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í samgöngum, sjávarútvegi, landbúnaði og við landnotkun. Innviðum fyrir rafbíla verður komið upp, auknu fé verður varið í landgræðslu og til skógræktar, einnig verður gert átak til að draga úr matarsóun. 

Sjá 10. lið kosningastefnuskrárinnar.
Sjá sóknaráætlunina hér.


Möguleikar fólks til að byggja sjálft hafa verið skertir

Þessu veldur lítið framboð leigulóða á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni þess og hugsanlega einnig auknar og nokkuð strangar kröfur um gæðaeftirlit í byggingarreglugerðinni frá 2012. Fjárfestar og félög hafa að mestu séð um uppbygginguna á þessum svæðum.  Fyrirhugaðar byggingar opinberra og hálf-opinberra aðila á leiguíbúðum koma ekki til móts við óskir þeirra sem kjósa einbýli og vilja byggja sjálfir. Lóðir í einkasölu eru almennt of stórar og dýrar. Hugsanleg lausn væri að auka framboð lítilla leigulóða þar sem gert væri ráð fyrir litlum einbýlum á bilinu frá 40-100 fm. og tryggja að einungis einstaklingar gætu fengið þeim úthlutað. Samtímis þyrfti að koma í veg fyrir raðumsóknir tengdra aðila. 


mbl.is Víðast ódýrara að byggja en kaupa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver mun skrifa bréf núna?

Nýlega skrifuðu nokkrir þingmenn okkar bréf til þingmanna pólska þingsins vegna frumvarps um fóstureyðingar sem lá fyrir pólska þinginu og þeir voru ósammála. Hvað þá nú, er ekki tímabært að gott fólk leggist á árarnar til að beina þrýstingi að stjórnvöldum í Pakistan, en hæstiréttur þar í landi hefur frestað því að taka fyrir áfrýjun dauðadóms yfir kristinni fimm barna móður sem dæmd var til dauða fyrir guðlast eftir að hún lenti í rifrildi við múslímska konu vegna vatnsskálar. 


mbl.is Hvað verður um Bibi?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Greiðar samgönguleiðir eru lífæð búsetu í landinu

Vegakerfið hefur stórlega látið á sjá vegna viðhaldsleysis á aðeins örfáum árum. Mikilvægt er að fjárfesta í uppbyggingu og viðhaldi vegakerfisins. Auka þarf umferðaröryggi og vinna kerfisbundið eftir sérstakri umferðaröryggisáætlun. Á næsta ári skal ráðast í sérstakt átaksverkefni til að bregðast við því hættuástandi sem víða hefur skapast í vegakerfinu. Sérstök áhersla verði lögð á gerð aðreina og bættra vegmerkinga. Tryggja verður að á hverjum tíma sé að minnsta kosti unnið að tveimur jarðgöngum í landinu og áfram haldið þar til brýnustu verkefnum á því sviði er lokið. Í því sambandi sé sérstaklega lögð áhersla á að rjúfa einangrun byggðalaga á Austurlandi og Vestfjörðum.

Úr ályktunum 34. flokksþings Framsóknar um samgöngur.


mbl.is Álftafjarðargöng undirbúin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fíkniefnamálin: Hin portúgalska leið hentar ekki óbreytt hérlendis

Píratar vilja taka upp portúgölsku leiðina í fíkniefnamálum*. Sú leið var tekin upp eftir að um 1% þarlendra hafði ánetjast heróíni. Samkvæmt þessari leið eru leyfðir neysluskammtar gramm af heróíni, alsælu, amfetamíni, tvö grömm af kókaíni eða 25 grömm af kannabis! Fráleitt er að ætla að leyfa svo mikið magn hérlendis enda aðstæður aðrar en í Portúgal. Aftur á móti er sá hluti stefnunnar er snýr að afglæpavæðingu og skaðaminnkun þess verður að skoða. T.d. sá þáttur hennar að skylda þá sem teknir eru með skammta að mæta fyrir nefnd félagsráðgjafa, geðlæknis og saksóknara og hlíta úrræðum þeirra. Hugsanlegt er að þessi úrræði geti skilað betri niðurstöðum í málum ungmenna fremur en dómar og afleiðingar þeirra. 

* Liður 2 undir "Declarations" í Fíkni- og vímuefnastefnu Pírata sem tengt er á hér að ofan. 


mbl.is VG og Píratar hnífjöfn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband