Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Föstudagur, 14.10.2016
Framsókn vill styrkja og efla menntakerfið
Menntakerfið er ein af grunnstoðum samfélagsins. Framsóknarflokkurinn leggur ríka áherslu á að styrkja það og efla með hagsmuni nemenda og þjóðarinnar að leiðarljósi. Hann vill standa vörð um öflugt menntakerfi er leiðir til hærra menntunarstigs þjóðarinnar. Framsóknarflokkurinn telur mikilvægt fyrir samfélagið að ný þekking og hugmyndastraumar í greinum háskólastigsins berist jafnt og þétt til landsins. Í þeim tilgangi er mikilvægt að háskólasamfélagið hvetji nemendur til framhaldsnáms á háskólastigi erlendis. Leggja þarf áherslu á að fá hingað til lands erlenda fræðimenn til kennslu og rannsóknarstarfa.
Þetta og fleira kemur fram í ályktunum 34. flokksþings Framsóknar um menntamál.
Vilja menntamálin í forgang | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 24.10.2016 kl. 18:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 14.10.2016
Ljúka þarf gerð löggæsluáætlunar og vinna í samræmi við hana
Grunnskylda ríkisins er að tryggja öryggi borgaranna og forsenda þeirrar skyldu er öflug löggæsla. Því þarf að tryggja löggæslunni nægilega góð starfsskilyrði. Drög að nýrri löggæsluáætlun fyrir Ísland liggur fyrir þar sem tekið er á öryggisstigi, þjónustustigi, mannaflaþörf og fjárveitingum. Ljúka þarf gerð þessarar áætlunar og vinna í samræmi við hana. Þetta og fleira kemur fram á bls. 23 neðarlega í ályktunum 34. flokksþings Framsóknar.
Hafa áhyggjur af auknu framboði fíkniefna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 13.10.2016
Auka þarf mátt millistéttarinnar m.a. með lækkun lægsta skattþreps
Í fámennu samfélagi þar sem kunningsskapur, skyldleiki og önnur tengsl eru mikil er jafnræði félagsleg nauðsyn. Á Íslandi ættum við að vera í fremstu röð hvað jöfnuð snertir. Þess vegna þarf að auka mátt millistéttarinnar með því m.a. að lækka lægsta skattþrepið. Slík aðgerð gæti tekið til um 80% launamanna og myndi létta á skattgreiðslum stórs hóps. Þetta og fleira kemur fram í bréfi sem Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins sendi til flokksmanna í dag.
Miðvikudagur, 12.10.2016
Íslensk króna er framtíðargjaldmiðill landsins
Íslensk króna er framtíðargjaldmiðill landsins og mikilvægt er að treysta umgjörð hennar með þjóðhagsvarúðartækjum svo komið verði í veg fyrir óeðlilegar sveiflur á genginu. Mikilvægt er að gera langtímaáætlanir í ríkisfjármálum og stefna á sjálfbæran rekstur ríkissjóðs. Mikilvægt er að lækka skuldir ríkissjóðs m.a. með verðmætasköpun og aðhaldi því fjármunum er betur varið til samfélagslegra verkefna en til greiðslu vaxta.
Þetta og fleira kemur fram á bls. 4-5 í ályktunum 34. flokksþings Framsóknar.
Þriðjudagur, 11.10.2016
Framsókn geldur varhug við auknum einkarekstri í heilbrigðiskerfinu
Framsókn geldur varhug við auknum einkarekstri í heilbrigðiskerfinu og bendir á að í nágrenni Reykjavíkur eru vannýtt sjúkrahús sem gætu með bættu skipulagi og auknum fjárheimildum komið að gagni við að eyða biðlistum eftir einfaldari aðgerðum. Brýnt er að greina vanda fatlaðs fólks og lífeyrisþega sem býr við þungan lyfjakostnað. Greiða á tannlækningar allra barna undir 18 ára aldri sem og aldraðra og fatlaðs fólks að fullu af Sjúkratryggingum. Gera þarf átak í þjónustu sálfræðinga og geðlækna um allt land.
Þetta og fleira kemur fram á bls. 15-16 í ályktunum 34. flokksþings Framsóknarflokksins um heilbrigðismál.
Mánudagur, 10.10.2016
Innflytjendur kjöts upplýsi um magn vaxtahvetjandi lyfja, hormóna og sýklalyfja
Á nýliðnu flokksþingi Framsóknar var ályktað um gæði innlendrar matvælaframleiðslu og upplýsingaskyldu þeirra sem flytja inn kjöt:
Gera verður kröfu um að gæði verði ávallt höfð að leiðarljósi við framleiðslu matvæla. Heilbrigði íslensks búfjár er verðmæti sem verður að varðveita. Innlendir dýrastofnar eru lausir við marga sjúkdóma sem herja á dýr í nágrannalöndum. Lyfja- og eiturefnanotkun við matvælaframleiðslu á Íslandi er með því minnsta sem þekkist í heiminum. Draga þarf markvisst fram sérstöðu íslenskrar framleiðslu með áherslu á rekjanleika, heilnæmi og gæði.
Gera þarf kröfu um að þeir sem flytja inn kjöt upplýsi neytendur um magn vaxtahvetjandi lyfja, hormóna og sýklalyfja sem valdið geta sýklalyfjaóþoli í mönnum. Neytendur eiga rétt á að vita við hvaða aðstæður og aðbúnað matur, innlendur sem útlendur, er framleiddur. Tryggja þarf að ekki sé flutt inn kjöt af dýrum sem alin eru við lakari aðstæður, en kröfur eru gerðar um hér á landi. Skýra kröfu verður að gera um upprunamerkingar á öllum matvælum.
Sjá nánar hér: http://framsokn.is/pdf/alyktanir-34-Flokksthings-Framsoknarmanna-2016.pdf
Sunnudagur, 9.10.2016
Ályktanir 34. flokksþings Framsóknarmanna
Nú eru ályktanir 34. flokksþings Framsóknar komnar á netið. Í þessum ályktunum er stefna flokksins mörkuð. Mikil og góð málefnavinna átti sér stað á þinginu. Undirritaður var í nefnd þar sem fjallað var um innanríkismál og sveitarstjórnarmál. Þrátt fyrir að aðeins eitt ár væri liðið frá síðasta flokksþingi var tímabært að uppfæra ályktanirnar og sérstaklega í ljósi komandi kosninga.
Ályktanir 34. flokksþings Framsóknarmanna
Þriðjudagur, 15.12.2015
Frelsi til að velja lítið - mun nýtnihyggja leysa húsnæðisvandann?
Á síðustu öld og fram á þessa jókst fermetrafjöldi íbúðarhúsnæðis á hvern íbúa þrátt fyrir að á sama tíma hafi fjölskyldustærð minnkað. Í þessu felst þversögn sem erfitt er að skýra öðruvísi en að nýtnihyggja hafi vikið fyrir neysluhyggju. Húsgögn, hús og lóðir fóru stækkandi og að líkindum hefur þessi eigna- og eyðslubólga haft sitt að segja í aðdraganda síðustu fjármálakreppu sem byrjaði sem kreppa húsnæðislánasjóða í Bandaríkjunum.
Þrátt fyrir afleiðingar kreppunnar á neysluhyggjan enn talsverð ítök. Hún kemur fram í þeirri skoðun að hlutir og húsnæði þurfi að vera stórir til að teljast boðlegir. Nóg framboð er af stórum eignum á húsnæðismarkaðnum en að sama skapi er lítið framboð af litlum eignum. [1] Lögð er áhersla á efnisleg gæði á kostnað áhugamála, frítíma og fjölskyldu.
Sumarið 2014 birtist grein í Kvennablaðinu sem heitir Smáhýsahreyfingin.[2] Ég hvet fólk að lesa hana en þar má sjá dæmi um hvernig fólk hafnar neysluhyggjunni og kýs að lifa smátt. Að eiga val um þetta atriði er mikilvægt því í ljós kemur að því færri hluti sem fólk á því meiri frítíma hefur það.
Það er frelsi fólgið í því að geta valið að verja ekki bestu árum ævinnar í að vinna fyrir vöxtum, verðbótum eða húsaleigu vegna vannýttra rúmmetra í of stórri íbúð. Í dag er þetta val um að fá að eiga eða leigja minna vandfundið á markaðnum. Það sést á því að í fjölmiðlum hefur komið fram að fólk á í erfiðleikum með að láta enda ná saman eftir að búið er að greiða húsaleigu- eða lán. Þetta gerist þrátt fyrir að yfir 2000 íbúðir séu til sölu á höfuðborgarsvæðinu og yfir 100 íbúðir á Selfossi. [3]
Mín skoðun er sú að 20 milljónir fyrir nýja "litla" íbúð sé of hátt verð [4]. Stór hluti vandans er sú neysluhyggna hugmynd að 60 fermetrar sé lítið. Ég er samt ekki að segja að verðlagning íbúðanna sé röng eða ósanngjörn, húsnæðið er m.a. of dýrt af því það er of stórt. Minna ætti að geta verið ódýrara. [5] Þarna spila líka grænu sjónarmiðin inn en umhverfisfótspor húsa ætti að geta minnkað í hlutfalli við stærð.
Þessar aðstæður benda til að auka þurfi framboð lítilla húsa eða íbúða. En ef byggja á minna þá liggur frumkvæðið ekki endilega hjá ríkisvaldinu heldur fremur hjá lánastofnunum, fjárfestum, landeigendum, hönnuðum og sveitarfélögum. Landeigendur eða fjárfestar gætu ákveðið að ráða hönnuði til að deiliskipuleggja vistvæn smáhúsahverfi. Sveitarfélögin geta síðan lagt sitt af mörkum með því að yfirfara og samþykkja skipulagið. Nýlegar hugmyndir sem verið er að skoða á Hellu [6] sýna að þessi þróun er þegar hafin.
[1]. Fasteignaleit mbl.is gaf mér í desember 2015: 20-60 fm: 12 eignir á Selfossi en 67 á höfuðborgarsvæðinu. 70-125 fm: 30 eignir á Selfossi en 841 á höfuðborgarsvæðinu. 150-300 fm: 58 eignir á Selfossi en 700 eignir á höfuðborgarsvæðinu. Hakað var við allar íbúðagerðir.
[2]. Kvennablaðið: http://kvennabladid.is/2014/08/14/smahysahreyfingin/ . Sjá einnig vefsíðuna http://www.tumbleweedhouses.com/ en þar eru dæmi um snjallar útfærslur smáhýsa. [3]. Skv. leitarvél Fasteignaleitar á mbl.is í desember. Allar gerðir íbúðarhúsnæðis voru valdar.
[4]. M.v. byrjunarlaun myndi það taka 26 ár að greiða 20 m. kr. lán ef reiknað er með 0% vöxtum og verðbólgu ef gert er ráð fyrir að þriðjungur af nettólaunum (~190 þús, þ.e. uþb. 63 þús. á mán. eða samtals 760 þús. á ári.) fari í að greiða af húsnæðisláninu. Raunin er sú að þegar verðbætur og vextir bætast við fara greiðslur langt yfir þennan umrædda þriðjung. Í eftirfarandi tengli kemur einnig fram að alls eyðir fólk á almennum leigumarkaði á bilinu 30-70% af ráðstöfunartekjum sínum í leigugreiðslur. Æskilegt þyki hins vegar að þetta hlutfall sé ekki yfir 20-25%: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/12/15/skekkt_mynd_af_leigumarkadi/
[5]. Sjá t.d. þennan fund: https://www.velferdarraduneyti.is/frettir-vel/nr/35308
[6]. Sunnlenska fréttablaðið, 9.des.2015 bls. 7: "Hugmyndir að umhverfisvænu smáhúsahverfi á Hellu": http://www.sunnlenska.is/frettir/18157.html
Miðvikudagur, 8.10.2014
Færa má langbylgjuna yfir á miðbylgju (AM)
Hægt væri að færa langbylgjusendingarnar yfir á miðbylgju (AM). Flest útvarpsviðtæki eru með þeim möguleika enn þann dag í dag. Miðbylgjusendingarnar eru að vísu ekki jafn langdrægar og langbylgjan en til að mæta því mætti e.t.v. auka afl sendanna. Að líkindum er ekki dýrt að breyta Gufuskálasendinum sem og þeim á Eiðum því aðeins þarf að breyta tíðni útsendingarinnar. Síðar mætti svo athuga að bæta við tveim AM sendum í viðbót, einum á Suðurlandi og einum á Norðurlandi. Líklega er hægt að fá svona búnað notaðan í dag, þar sem margar stöðvar eru að skipta yfir í stafrænt.
Sjá einnig blogg mitt um málefni langbylgjunnar frá árinu 2008: http://ragnargeir.blog.is/blog/ragnargeir/entry/687892/
Yfirlit yfir önnur blogg mín um Ríkisútvarpið: http://ragnargeir.blog.is/blog/ragnargeir/category/1661/
Langbylgjan nauðsynleg landsmönnum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 30.5.2014