Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Þriðjudagur, 22.5.2018
Forsendur sátta um miðsvæðið á Selfossi
Í greinargerð nýsamþykkts skipulags fyrir miðsvæðið á Selfossi er því haldið fram að miðsvæði einkennist einna helst af umferðarmiklum götum og stórum bílastæðum. Er miðsvæðið því ekki talið búa yfir sérkennum sem vert er að byggja tillögugerð á.
Ef horft er á loftmynd af hinu umrædda svæði sem afmarkast af Eyravegi og Austurvegi til norðurs og aðliggjandi íbúðarlóðum við Tryggvagötu til austurs, Sunnuvegi til suðurs og Kirkjuvegi til vesturs má taka undir þetta sjónarmið. Fæstir horfa samt á svæðið af himni ofan. Stór hluti þess blasir aftur á móti við þegar komið er yfir brúna að norðan en frá því sjónarhorni munu líklega flestir sjá það. Það er því eðlilegt að hönnunarforsendur svæðisins séu settar í samhengi við ekki bara svipfögur hús sem blasa við á svæðinu sjálfu heldur einnig á aðliggjandi svæðum.
Ég hef leyft mér að halda því fram að í aðkomunni norðan frá sé einstæða fegurð að finna þ.e.a.s. ef horft er framhjá hótelbyggingunni og bakhluta Austurvegar 3-5. Sveigur árinnar og brúin, en einnig mannvirkin sem sjást frá veginum varpa sterkri mynd í huga vegfarandans. Þessu sjónarmiði kom ég til skila með bókun í fundargerð skipulags- og byggingarnefndar Svf. Árborgar, 48. fundi 16. febrúar 2018 og sem Fréttablaðið greindi einnig frá í frétt sinni í blaðinu 23.02.2018. Í þessari sterku og fallegu mynd eru að mínu mati verðmæti falin sem hægt er að byggja á enn meiri verðmæti til framtíðar eins og ég kom til skila í síðustu bloggfærslu.
Þau hús sem nefnd eru í bókuninni eru Ráðhúsið og húsin þrjú í framhaldi af því sem eru innan skipulagsreitsins. Einnig voru nefnd Selfosskirkja, Tryggvaskáli, Kaffi krús, Landsbankinn og Gamli bankinn. Í viðbót við þau mætti einnig nefna Selfossbæina, Litla leikhúsið við Sigtún og húsið Ingólf sem eitt sinn prýddi svæðið. Ef gamla mjólkurbúið rís á svæðinu mun það einnig styrkja þessa klassísku sunnlensku og selfyssku ásýnd svæðisins.
Ef ætlunin er að byggja hús á miðsvæðinu og sér í lagi hús í gömlum stíl þá er sjálfsagt að hönnun og útlit þeirra kallist á við útlit þeirra húsa sem hér hafa verið nefnd og að svipmót hinna nýju húsa kalli ekki fram stílbrot við svipmót þessara húsa. Það er afar mikilvægt að tryggja að áframhaldandi þróun í byggingarstíl á svæðinu verði á forsendum byggðarinnar á svæðinu. Að þróunin verði ekki látin eftir hönnuðum sem fá frjálsar hendur um stíltilraunir sínar eins og hótelbyggingin ber merki um og einnig að þeir fái ekki að hanna bæði aðalskipulag og deiliskipulag fyrir sig sjálfa á þeim forsendum um útlit bygginga sem þeim hugnast best sjálfum eins og núverandi skipulag er dæmi um.
Skýr sýn og framtíðarstefna á þessum forsendum myndi auðvelda vinnu við þróun og endurhönnun þeirra deiliskipulaga við Austurveg og Eyraveg sem munu þarfnast endurnýjunar og gæti einnig verið leið til sátta í skipulagsmálum. Hér þarf að finna hinn gullna meðalveg sem liggur einhvers staðar á milli verndunar annars vegar og hinna frjálsu handa framkvæmdaaðila hins vegar. Ég efa ekki að þeir hönnuðir finnast sem eru tilbúnir að spreyta sig á því verkefni.
Mánudagur, 7.5.2018
Heildstætt svipmót miðbæjar Selfoss gæti skapað verðmæti til framtíðar
Það er eðli verðmæta að úr þeim má gera enn meira virði til framtíðar. En það er líka nokkuð ljóst að ef fólk gerir sér ekki grein fyrir að í þeirra ranni sé verðmæti að finna þá munu líklega fáir benda þeim á það. Ennþá má segja að byggðir Árborgar búi yfir heildstæðu svipmóti og verðmætum sérkennum. Margir sjá í þessum sérkennum menningarverðmæti sem hægt er að byggja á til framtíðar. Nú þegar laðar svipmót og sérkenni strandbyggðanna til sín ferðafólk.
Það urðu mér því mikil vonbrigði að sjá að í greinargerð um breytingu á aðalskipulagi fyrir miðbæ Selfoss sem nýlega var samþykkt stendur að miðsvæðið búi ekki yfir sérkennum sem vert sé að byggja framtíðaruppbyggingu svæðisins á og að markmið aðalskipulagsins sé að reisa þétta byggð með fjölbreyttu yfirbragði ólíkra húsa. Því er reyndar bætt við að þau hús sem þarna eigi að rísa eigi að taka mið af núverandi byggð. Þessi texti greinargerðarinnar er mótsagnakenndur og því er hætt við að framkvæmdaaðilar muni ráða því sem þeir vilja ráða um útlit húsa á svæðinu. Sannfæringar minnar vegna gat ég því ekki annað en greitt atkvæði gegn tillögunni á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 16. febrúar síðastliðinn.
Áður hafði ég gert athugasemd við deiliskipulagstillögu miðbæjarins í þá veru að í henni væri ekki sett fram leiðsögn um útlit fyrirhugaðra bygginga til að samræmis yrði gætt í heildarsvip og byggingarstíl. Í svari sem bæjarlögmaður tók saman og fulltrúar D - lista í nefndinni samþykktu kom eftirfarandi fram:
Í umræddri deiliskipulagsbreytingu var ákveðið að gera ekki fastmótaðar útlitskröfur á byggingum. Framkvæmdaraðilar hafa því frjálsar hendur með hvernig þeir haga útliti bygginga á svæðinu innan marka laga og reglugerða. Skipulags- og byggingarnefnd skal meta útlitshönnun bygginga en markmiðið er fjölbreytt yfirbragð byggðar eins og fram kemur í kafla 3.4 í greinargerð deiliskipulagstillögunnar.
Hætt er við að þrátt fyrir varnaglana tvo, þann í aðalskipulaginu sem segir að byggðin eigi að taka mið af núverandi byggð og hinn í deiliskipulaginu sem segir að skipulags- og byggingarnefnd skuli meta útlitshönnun bygginga að það verði á brattann að sækja fyrir pólitískt kjörna fulltrúa að hafa áhrif á það hvernig byggingar svæðisins munu líta út.
Í þessu sambandi hefur ávallt verið talað um að á svæðinu eigi að rísa kjarni húsa í gömlum stíl. Í orðalagi bæði hins nýsamþykkta aðalskipulags og deiliskipulags er samt ekki staðinn nægilega öflugur vörður um heildstætt útlit svæðisins. Þvert á móti er fjölbreytt yfirbragð byggðar tryggt.
Góðar fyrirætlanir geta breyst og þróast og eignir geta skipt um hendur. Ekki er tryggt að framkvæmdaaðilar framtíðarinnar á svæðinu verði allir sammála því að viðhalda því svipmóti sem hin fegurstu eldri núverandi hús í miðbæ Selfoss eða næsta nágrenni hans gefa tilefni til og einnig ekki heldur að viðhalda þeim sérkennum sem byggðakjarni í gömlum stíl gæti gefið tilefni til. Afleiðingin gæti orðið sundurleitt samansafn húsa að útliti og gerð og í hinum ýmsu stílbrigðum á svæðinu.
Það þarf að vanda enn betur til bæði aðalskipulags og deiliskipulags á þessu svæði, byggja inn í þessi skipulög varnagla sem vernda sérkenni byggðarinnar og tryggja heildstætt svipmót svæðisins, svipmót sem myndi kallast á við þau hús og sérkenni sem fegurst þykja á miðsvæðinu og í nágrenni þess. Þannig gæti heildstætt svipmót miðbæjar Selfoss skapað verðmæti til framtíðar.
Viðbót 31.07.2018: Sjá meðfylgjandi mynd af bréfi frá skipulags- og byggingarfulltrúar svf. Árborgar:
Stjórnmál og samfélag | Breytt 31.7.2018 kl. 09:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 2.1.2018
Um skipulag við Austurveg á Selfossi
Í störfum mínum í skipulags- og byggingarnefnd Árborgar hef ég m.a. lagt herslu á að framfylgja ákvæði í aðalskipulagi svæðisins þar sem segir að markmið sé að draga byggðasérkenni skýrt fram og byggja framtíðarsýn á þeim. Þrátt fyrir að þetta standi í kafla um skipulagsskilmála íbúðarsvæða hef ég litið svo á að sú hugsun sem þarna birtist eigi einnig við um miðsvæði og fjölfarnar götur.
Ástæða fyrir því að ég nefni þetta eru efasemdir sem vöknuðu við að horfa á breytingaferli sem deiliskipulag Austurvegar 39-41 á Selfossi (á móti Lyfju) gekk í gegnum. Þessar tvær lóðir tilheyra í aðalskipulagi svæði fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi auk íbúðabyggðar. Deiliskipulag var til fyrir lóðirnar sem gerði ráð fyrir tveggja til þriggja hæða byggingum fyrir verslun og þjónustu auk íbúða. Í okt. 2015 kom tillaga um að breyta deiliskipulaginu og leyfa þriggja til fjögurra hæða fjölbýlishús.
Þegar breytingartillagan barst andmælti ég, greiddi atkvæði gegn henni og lét bóka að ekki væri að rétt að breyta skipulagi á miðsvæði nema ríkir og almennir hagsmunir kölluðu á þær breytingar, að æskilegt væri að þjónusta og verslun væru sem mest miðsvæðis og óheppilegt væri að taka þessa þætti úr skipulagi tveggja lóða við Austurveg því í framtíðinni myndi það rýra aðdráttarafl götunnar og staðarins í heild sem miðstöðvar fyrir verslun, þjónustu og menningarstarfsemi. Einnig að óæskilegt væri að fjölbýlishús væru staðsett mjög nálægt miklum umferðargötum vegna hávaða og rykmengunar. Tillagan var þó samþykkt því fulltrúar D- og S-lista studdu hana.
Það var ekki léttbært að greiða atkvæði gegn áformum sem fyrirsjáanlegt var að hefðu virðisaukandi áhrif inn í samfélagið. Þarna koma íbúðir sem knýjandi þörf er fyrir. Það er samt mikilvægt að horfa til langs tíma og taka sem flest sjónarmið til skoðunar, einnig útlitslegu atriðin. Gera má ráð fyrir að hægt hefði verið að finna heppilegri staðsetningu blokkanna, að áður en fjárfestarnir keyptu lóðirnar hafi þeir kynnt sér það skipulag sem í gildi var og gert sér grein fyrir að ekki væri sjálfgefið að því yrði breytt. Fyrsta blokkin af þrem er núna að rísa þarna og geta vegfarendur því myndað sér skoðanir á málinu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 27.10.2016
Nýju húsnæðislögin fjögur í stuttu máli
Markmið nýrra laga um almennar íbúðir er að bæta húsnæðisöryggi efnaminni fjölskyldna og einstaklinga með auknu aðgengi að hentugu íbúðarhúsnæði til leigu og að tryggja að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu leigjenda.
Lög um húsnæðisbætur hafa það markmið að lækka húsnæðiskostnað efnaminni leigjenda með greiðslu húsnæðisbóta. Lögin eru einnig liður í því að jafna húsnæðisstuðning hins opinbera við ólík búsetuform.
Markmiðið með lögum um breytingu á húsaleigulögum er að auka réttaröryggi leigjenda og koma á meiri festu í samskiptum leigjenda og leigusala svo komast megi hjá ágreiningi.
Lög um breytingu á lögum um húsnæðissamvinnufélög voru samþykkt á Alþingi í apríl sl. Markmið þeirra er að að auðvelda húsnæðissamvinnufélögum að starfa á Íslandi, að auka vernd búseturéttarhafa og skýra nánar réttarstöðu þeirra, annarra félagsmanna sem og húsnæðissamvinnufélaganna sjálfra. Einnig er markmiðið að stuðla að sjálfbærum rekstri slíkra félaga.
Tekið af vef Velferðarráðuneytisins.
Þriðjudagur, 25.10.2016
Góður árangur Framsóknar á síðasta kjörtímabili
Tekið var á skuldavanda heimilanna, leiðréttingin varð að veruleika, kaupmáttur launa hefur hækkað um rúmlega 20% á kjörtímabilinu. Áætlun um losun fjármagnshafta var hrundið í framvkæmd, 15.000 ný störf urðu til, verðbólgu var haldið í skefjum. Kröfuhafar samþykktu hundruð milljarða stöðugleikaframlög til ríkisins og aflandskrónueigendur fengu skýra valkosti. Samningur um loftslagsmál var undirritaður.
Úr bæklingnum "xB Framsókn fyrir fólkið" okt. 2016.
Mánudagur, 24.10.2016
Hluta námslána verður breytt í styrk og áhersla lögð á iðn- og verknám
Framsóknarflokkurinn vill að farið verði í heildarmat á fyrirkomulagi iðnmenntunar í landinu. Sértaklega verði tryggt að skólar sem leggi áherslu á iðn- og verknám fái nægilegt fjármagn til að halda úti öflugri verklegri kennslu.
Auk þess þarf að skoða með hvaða hætti best er að haga starfsþjálfun utan veggja skólanna með það að markmiði að veita nemendum góða starfstengda þjálfun. Það þarf að ýta úr vör fræðslu meðal barna og unglinga um iðnnám og fjölbreytt störf í iðnaði.
Komið verði á fót samstarfsvettvangi menntamálayfirvalda, kennara og hagsmunaaðila í atvinnulífi. Sá vettvangur nýtist til mótunar á framtíðarsýn, mótun menntastefnu og uppbyggingu öflugrar sí- og endurmenntunar. Lögð verði áhersla á nýsköpun, menntun frumkvöðla og tryggja aðgengi að starfsfærnimati.
Úr kosningastefnuskrá Framsóknar og ályktunum 34. flokksþingsins bls. 21
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 23.10.2016
Fæðingarorlof verði 12 mánuðir og greiðsluþak hækkað í 600 þúsund
Fæðingarorlof verði 12 mánuðir og greiðsluþak hækkað í 600 þúsund krónur, barnabætur hækkaðar og barnaföt verði án virðisaukaskatts. Mikilvægt er að stuðla að því að sveitarfélögin geti boðið upp á leikskóla strax að loknu fæðingarorlofi, þannig að samfella verði tryggð í umönnun barna. Brýnt er að leikskólar séu mannaðir fagfólki. Framsóknarmenn vilja að foreldrar sem þurfa að dvelja fjarri heimili sínu vegna fæðingar barns fái styrk úr fæðingaorlofssjóði til að mæta þeim tíma þannig að fæðingaorlof sé nýtt í þágu barns að lokinni fæðingu.
Úr kosningastefnuskrá Framsóknar og ályktunum 34. flokksþingsins bls. 18.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 24.10.2016 kl. 18:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 22.10.2016
Taka skal upp komugjald á ferðamenn sem nýtt verður til innviða
Innheimta skal komugjald farþega strax á næsta ári með það að markmiði að vernda náttúruna og tryggja nauðsynlega uppbyggingu viðkvæmra ferðamannastaða. Stýra þarf álagi á fjölmennustu ferðamannastaði landsins. Framsóknarflokkurinn leggur áherslu á að opnaðar verðir nýjar gáttir í millilandaflugi til og frá Íslandi. Með opnun nýrra gátta verði horft sérstaklega til vetrarferðamennsku og lengingu ferðamannatímabilsins, ásamt því að ferðamannastraumnum og álagi verður betur stýrt um landið.
Úr kosningastefnuskrá Framsóknar og ályktunum 34. flokksþingsins bls. 12.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 24.10.2016 kl. 18:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 22.10.2016
Fjármunum er betur varið til samfélagslegra verkefna en til greiðslu vaxta
Framsóknarflokkurinn leggur áherslu á gerð langtímaáætlana í ríkisfjármálum og sjálfbæran rekstur ríkissjóðs. Útgjöld verða að haldast í hendur við tekjur. Hagstjórn þarf að vera ábyrg og ríkisfjármál öguð. Flokksþing fagnar sérstaklega þeim árangri sem náðst hefur á kjörtímabilinu með hallalausum rekstri ríkissjóðs og lækkun skulda. Mikilvægt er að lækka skuldir ríkissjóðs enn frekar m.a. með aukinni verðmætasköpun þjóðarbúsins og með skynsamlegu aðhaldi í rekstri hins opinbera. Flokksþingið styður metnaðarfull markmið ríkisstjórnarinnar um lækkun skulda, enda er fjármunum betur varið til brýnni samfélagslegra verkefna en til greiðslu vaxta.
Úr ályktunum 34. flokksþings Framsóknarflokksins bls. 4-5.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 24.10.2016 kl. 18:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 21.10.2016
Peningastefnuna þarf að endurskoða - vextir endurspegli breyttan veruleika
Peningastefnuna þarf að endurskoða, raunvextir á Íslandi þurfa að endurspegla breyttan efnahagslegan veruleika. Gera þarf úttekt á fyrirkomulagi peningamyndunar og mögulegum umbótum á því samanber þingsályktunartillögu Frosta Sigurjónssonar og fleiri þingmanna á síðasta þingi. Skoða þarf kosti þess að færa peningamyndun alfarið til Seðlabankans.
Úr kosningastefnuskrá Framsóknarflokksins og ályktunum 34. flokksþings hans bls. 6.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 24.10.2016 kl. 18:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)