Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2011

Stjórnlagaþingmenn athugið: Beint lýðræði er raunhæfur valkostur

Árið 2008 skrifaði ég pistil um gildi þess að skila auðu í Alþingiskosningum. Ástæðan er sú að það sýnir sig aftur og aftur að stjórnmálamönnum fulltrúalýðræðisins er ekki treystandi. Annað hvort ganga þeir á bak orða sinna eða þeir gera málamiðlanir sem kjósendum þeirra hugnast ekki. Ég man t.d. eftir manni sem galt VG atvæði sitt fyrir síðust kosningar því hann er eindreginn fullveldissinni og taldi að atkvæði hans nýttist best þannig til að koma í veg fyrir aðildarumsókn að ESB. Eftirleikinn þekkja allir. Nú stuðlar atkvæði þessa manns að því að Ísland er í miðju umsóknarferli að ESB aðild.

Önnur rök eru þau að stjórnmálamenn fulltrúalýðræðisins taka gjarnan frumkvæði að íþyngjandi og stefnumarkandi ákvörðunum í heimildaleysi og án umboðs frá kjósendum. Dæmi um þetta eru nýjar hugmyndir stjórnvalda um vegatolla. Fyrir síðustu kosningar bar ekki mikið á umræðu vegatolla, a.m.k. fór hún alveg framhjá mér, en núna virðist fátt geta stöðvað þær fyrirætlanir og leitun er að því fólki sem er hlynnt vegatollum. Þetta er gott dæmi um hvernig fulltrúarnir eigna sér valdið og í raun taka sér vald sem þeir hafa ekki. Í þessu tilfelli væri sáraeinfalt að komast að vilja almennings t.d. með góðri skoðanakönnun, en það hugnast valdhöfum ekki.

Þriðju rökin má tína til en þau eru að stjórnmálamenn fulltrúalýðræðisins hafa orðið berir að því að setja hagsmuni flokksins í fyrsta sæti en hagsmuni þjóðarinnar í annað sæti.  Lægra verður vart sokkið og þetta sýnir svo um villst að vankantar fulltrúalýðræðisins eru að leiða þjóðina aftur og aftur í meiriháttar vandræði.  

Það má með nokkrum rökum halda því fram að fulltrúalýðræðið sé arfur síðustu þriggja alda og tími sé kominn til að nýta stórbætta samskiptatækni sem og samgöngur til að byggja upp beint lýðræði. Beint lýðræði ætti að vera eitt af verkefnum nýja stjórnlagaþingsins og vonandi verður nýja stjórnarskráin þannig upp byggð að ef um fulltrúalýðræði verði að ræða að þá geti fulltrúarnir hvorki komist upp með svik, undanbrögð né látalæti af neinu tagi gagnvart kjósendum. 

 

 


Wikilekinn - nýjustu fréttir?

Mál Wikileaks hefur fengið mikla umfjöllun og athygli í fjölmiðlum hérlendis og því er eðlilegt að menn velti fyrir sér að hve miklu leyti það á erindi við landsmenn. Lánabók Kaupþings var eðlilega áhugaverð en spurning hvort rannsóknarmenn sérstaks saksóknara hefðu ekki komið höndum yfir hana hvort sem var fyrr eða síðar. 

Einnig hefur komið í ljós að sendimenn Bandaríkjanna spá í stjórnmál og stjórnmálamenn þess lands sem þeir eru í og eru ýmsar lýsingar þeirra hentar á lofti. En hvað er nýtt við það? Er það ekki hlutverk sendimanna og sendiráða að verða sérfræðingar ríkisstjórnar sinnar í stjórnmálum og menningu þess lands sem þeir eru í? 

Myndbandið með skotárásinni í Írak var vitaskuld hræðileg uppljóstrun og sýndi að því er virðist fram á óhugnanlegan stríðsglæp. En hvað er nýtt við stríðsglæpi? Þeir eiga sér stað í hverju einasta stríði, það er gömul saga og ný. M.a. af þeim sökum eru margir algerlega á móti hernaðarlegri valdbeitingu í hvaða formi sem hún birtist.  Af þeim sökum er fjöldi manna í Bandaríkjunum og Vestur-Evrópu á móti þess háttar valdbeitingu. Í stríði getur enginn komið í veg fyrir stríðsglæpi nema hermennirnir sjálfir,  það nægir ekki að hóta kæru eða símtali við sýslumanninn.

Leki myndbandsins endurspeglar kannski fyrst og fremst brotalöm í bandarísku herréttarkerfi. Það endurspeglar óánægju hermanns með framferði hersins og vantrú hans á því að herinn geti tekið á þessu máli og öðrum þeim líkum á viðunandi hátt. 

Á meðan landsmenn þurfa að sameinast um endurreisn landsins þá ættu hvorki þingmenn né fréttamenn RÚV, sem allir eru á launum almennings, að blanda sér í mál af þessu tagi sem bæði koma þeim sjálfum í vandræði sem og dreifa athygli landsmanna frá nauðsynlegum verkefnum. Það að um opinbera starfsmenn er að ræða getur einnig misskilist af aðilum utan landsins.


Skeiðað framhjá skýjakljúfum - II

Vegna áforma um byggingarframkvæmdir Miðjunnar á Selfossi skrifaði ég 13. janúar 2007 pistilinn Skeiðað framhjá skýjakljúfum.  Þær framkvæmdir sem þá voru fyrirhugaðar komust aldrei lengra en á teikniborðið. Nú greinir Sunnlenska fréttablaðið frá því að Árborg bjóðist að kaupa land Miðjunnar á 175 milljónir.

Greint er frá því að með því að gera þessi kaup verði hugsanlegt skaðabótamál Miðjunnar á hendur sveitarfélaginu úr sögunni en þetta skaðabótamál sé tilkomið vegna þess að tillaga Miðjunnar gerði ekki ráð fyrir nægilegu byggingamagni á landinu. 

Það er illskiljanlegt út frá  frásögn blaðsins hvernig sveitarfélagið getur orðið skaðabótaskylt vegna þess að fyrirtækið, hinn aðili samningsins stendur ekki við sinn hluta.  Nú er skuldastaða Árborgar afleit og í því ljósi er líklega hyggilegast að ráðast ekki í nýjar fjárskuldbindingar.

Í sama blaði Sunnlenska er greint frá því að kostnaður sveitarfélagsins vegna Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri sé kominn yfir 800 milljónir en upphaflegur áætlaður byggingakostnaður hafi verið 477 milljónir króna. Það er ótrúlegt að þetta hús sem er á mörkum þess að geta talist stórhýsi skuli mögulega geta kostað svona mikið. Það mál þyrfti að rannsaka sérstaklega til koma í veg fyrir að hliðstæð mistök eigi sér stað aftur. 

 

 


Af hverju er skaupið svona spennandi?

Ég velti því fyrir mér af hverju áramótaskaupsins er alltaf beðið með svo mikilli eftirvæntingu og hallast helst að því að ástæðunnar sé að leita í þeirri tegund gríns sem skaupið einkennist af.  Þetta eru mestan part brandarar með pólitísku ívafi og gjarnan pólitískri ádeilu.

Ástæða þess að grín af þessari tegund er vinsælt er að öllum líkindum sú að pólitísk umræða er ófullburða hérlendis. Hún einkennist ótrúlega oft af ásökunum um fordóma eða öfgar, deilum, ádeilu eða jafnvel árásum. Af þeim sökum eru trúlega margir sem sitja á sínum skoðunum og flíka þeim ekki ótilneyddir. Þegar kemur að gríninu er umburðarlyndið meira og þar brýst þessi pólitíska spenna út og líklega líka í öðrum skapandi listum.

Skemmst er að minnast hvernig listamenn og aðrir menntamenn fyrrum Sovétríkjanna, sérstaklega rithöfundar þurftu annað hvort að að flýja land vegna ádeilu sinnar á stjórnvöld eða laga list sína að ritskoðun og rétthugsun stjórnvalda. Þá blómstruðu bókmenntir sem komu skoðunum á framfæri undir rós með einhverjum hætti. 

Af þessum sökum er það líklega ekki tilviljun að borgarstjóri Reykjavíkur er fyrrum atvinnugrínisti. Hann tók ríkan þátt í því að finna pólitískri gremju fólks farveg með list sinni og uppskar velþóknun og virðingu fólks í staðinn. Sigur flokks hans sýnir svo ekki verður um villst að sú velþóknun og aðdáun sem hann hafði unnið sér inn var af pólitískum toga, að minnsta kosti að hluta til.  

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband