Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009
Laugardagur, 28.3.2009
Um siðferðileg álitaefni við upphaf lífs
Þó lítið beri á almennri umræðu um fóstureyðingalöggjöfina og ekki fréttist af því að stóru flokkarnir hyggist taka hana til endurskoðunar þá þarf það ekki að þýða að um hana ríki breið og almenn sátt. Þessi umræða er viðkvæm því þar takast á öndverð sjónarmið m.a. með tilliti til þess hver staða fóstursins er á fyrstu vikunum og hvort og hvenær beri að líta svo á að fóstur njóti persónuverndar.
Núgildandi lög sem eru nr. 25, frá 22. maí 1975 heimila fóstureyðingar af félagslegum ástæðum. Fóstureyðing felur í sér deyðingu okfrumu eða fósturs sem er sjálfstætt líf og til að þetta geti orðið þarf að gera læknisaðgerð. Þarna er því verið að beita læknisþekkingu og sjúkrahúsaðstöðu til neyðarlausnar á aðstæðum sem metnar eru vandamál af félagslegum ástæðum. Hér er því spurning hvort ekki sé ástæða til að yfirfara og endurmeta í ljósi reynslunnar hvort ekki sé hægt að greiða úr hinu félagslega vandamáli með félagslegum úrræðum, frekar en að beita læknisaðgerðum.
Í lögunum segir ennfremur:
Áður en fóstureyðing má fara fram, er skylt að konan, sem sækir um aðgerðina, hafi verið frædd um áhættu samfara aðgerðinni og hún hafi hlotið fræðslu um, hvaða félagsleg aðstoð henni stendur til boða í þjóðfélaginu. Öll ráðgjöf og fræðsla skal veitt á óhlutdrægan hátt.
Við þennan lestur vaknar sú spurning hvaða aðili það sé sem á að veita fræðsluna. Ef það er aðili á vegum sjúkrahússins sem hana framkvæmir þá er spurning hvernig sá aðili á að geta veitt fullkomlega óhlutdræga fræðslu því hann er jafnframt hagsmunaaðili, þ.e. hefur atvinnuhagsmuni, óbeina þó, af því að þessar aðgerðir séu framkvæmdar. Með því að segja þetta er ég ekki að halda fram að fræðslan hafi verið hlutdræg en það ættu menn að sjá ef þeir skoða málið að það er sjálfsagt að bæta því í lögin að óháður aðili eigi að standa að þessari fræðslu. Hver gæti hugsanlega tapað á þannig óhlutdrægni? Líklega enginn.
Orðið sem notað er yfir aðgerðina 'fóstureyðing' er einnig í sjálfu sér vandamál því þessi orðanotkun breiðir yfir hinn raunverulega verknað sem felur í sér að binda enda á líf sem sannanlega er mannlegt. Deyðing hlýtur að vera sársaukafull eða í það minnsta erfið, svo vægt sé til orða tekið, fyrir það líf sem fyrir henni verður. Að nota orðið 'eyðing' yfir það að binda enda á líf sem sannanlega er mannlegt þó það sé ungt er óvirðulegt og hlutgerir fóstrið. Slík hlutgerving á mannlegu lífi er lítillækkandi og stendur í vegi upplýsingar, en gefur meðvirkni undir fótinn. Orðið 'meðgöngurof' sem lagt hefur verið til er heldur skárra en 'fóstureyðing' því það er ekki jafn óvirðulegt þó það, eins og 'fóstureyðing' haldi áfram huliðshjálmi yfir því sem raunverulega fer fram. Nær væri að tala um fósturdeyðingu.
Miðvikudagur, 25.3.2009
Um ágreining hagfræðinga austan hafs og vestan og aðferðir þeirra
Erfitt er fyrir leikmenn að gera sér grein fyrir forsendum hagfræðinganna og þessa ágreinings, en skiljanlegt er að Bandaríkjamenn byggi á reynslu sinni af kreppunni miklu og New Deal áætlun Roosevelt forseta sem almennt er talið að hafi rofið vítahring víxlverkandi lækkana og hruns. Í þessu sambandi er vert að hafa í huga að kreppan mikla hófst með hruni í október 1929 en efnahagsáætlun forsetans var ekki hrundið í framkvæmd fyrr en á árunum 1933-1938.
Hugsast getur að báðar fylkingarnar hafi rétt fyrir sér að nokkru leyti en tímasetningin á því hvenær gripið skuli inn í sé lykilatriði. Hugsast getur að það sé ekki skynsamlegt að verja miklum fjármunum í varnaraðgerðir á meðan hrunið er enn í gangi en þeim mun skynsamlegra að hefjast handa þegar ljóst er að markaðir eru farnir að verða stöðugir á nýjan leik og gjaldþrot eru orðin fátíð.
Málið er að hagfræðingar virðast ekki hafa meiru úr að moða en kenningum en ekkert hefur heyrst af því að þeir notist við nein sérstök spálíkön eða hermiforrit. Síðan geta menn fátt annað gert en aðhyllast kenningarnar eða vera ósammála þeim.
Það er í rauninni merkilegt að enn skuli ekki vera búið að búa til raunhæf spá- eða hermilíkön af efnahagskerfum þjóðanna. Verkefnið er að vísu stórt en hvorki óviðráðanlegt né óraunhæft. Það sýna veðurspárkerfin og einnig fullkomnir tölvuleikir svo sem skákforrit. Með því að byggja ýmsar breytur inn í slík líkön og með aðgengi að nægu vélarafli ætti að vera hægt að segja fyrir um hvaða áhrif ýmsar efnahagslegar aðgerðir og breytistærðir hafa á markaði og þjóðfélagshópa með meiri áreiðanleika en áður hefur þekkst. Hugsanlega er þarna sóknarfæri og mögulegur samstarfsflötur fyrir rannsóknarstofnanir í tölvufræðum og efnahagsfræðum.
Mánudagur, 23.3.2009
Framtíðin í ljósvakamálunum
Það má kannski segja að svipað gildi um ljósvakamiðla og stjórnmálaflokka að það sé heppilegra að þeir séu fleiri en færri svo meiri líkur en minni séu á því að kjósendur og hlustendur finni eitthvað við sitt hæfi. Ef lög tryggðu að smáir ljósvakamiðlar ættu sér tilverugrundvöll og vaxtarmöguleika án þess að eiga á hættu stöðugar sameiningar eða yfirtökur stórra aðila með tilheyrandi róti á starfsmannahaldi og starfsemi þá væri mikið unnið. Samþjöppun á fjölmiðlamarkaði ætti frekar að hindra með því að tryggja tilverurétt smærri aðila heldur en setja strangar og íþyngjandi reglur um eignarhald á fjölmiðlum umfram ákvæði samkeppnislaga.
Ég hef skrifað nokkuð um Ríkisútvarpið. Atburðirnir í kjölfar niðurskurðartillagnanna hjá RÚV þegar fjöldinn allur af félagasamtökum mótmælti því að skera niður á svæðisstöðvum RÚV úti á landi sýna svo ekki verður um villst hvert straumurinn liggur í menningarmálum ljósvakans. Það virðast margir á þeirri skoðun að landsbyggðarstöðvarnar beri að efla frekar en hitt. Þess má geta til upplýsingar að á Suðurlandi er engin slík fjórðungsstöð starfandi. Svo virðist sem þau mótmæli hafi komið bæði þáverandi stjórnvöldum sem og stjórnendum RÚV ohf algerlega í opna skjöldu.
Hugmyndir mínar byggja í stuttu máli á því að byggja upp flóru sjálfstæðra aðila, sem þrátt fyrir að vera ekki stórir eru stöndugir og hafa burði til að vera til í áratugi ef þeir fara vel með fé. Þessir aðilar gætu sem best myndað efnismarkað sín á milli svo að vinsælir útvarpsþættir gætu heyrst á fleiri stöðvum en þeirri sem framleiðir efnið.
Ljósvakamiðlarnir eiga að sitja við sama borð hvað varðar framlög frá ríkinu. Einn þessara miðla getur sem best verið í eigu ríkisins, þ.e. RÚV og þá á þeim forsendum að tryggja þurfi öryggi almennings og dreifingu til fjarlægra staða. Ef þessa jafnræðis er gætt þá geta þeir allir verið á auglýsingamarkaði. Framlög ríkisins til ljósvakamiðlanna ættu síðan að vera í réttu hlutfalli við flutning þessara miðla á innlendu efni eða efni sem tengist Íslandi á einhvern hátt. Þessir
miðlar gætu sem best sameinast um rekstur öflugrar og óháðrar fréttastofu eða notið þeirrar þjónustu frá RÚV en haft frjálsar hendur þar fyrir utan. Það er í rauninni skammarlegt að þeir peningar sem innheimtir voru sem afnotagjöld en núna nefskattur séu notaðir til að flytja landanum textaðar erlendar sápuóperur í ríkissjónvarpinu kvöld eftir kvöld svo árum skiptir.
Í þessu sambandi er nærtækt að horfa til þess að leggja RÚV þær skyldur á herðar að byggja upp starfsstöð í hverjum landsfjórðungi, því auk þess að byggja upp fjölbreytni og menningarlegt sjálfstæði landsbyggðarinnar byggir slíkt fyrirkomulag einnig upp aukið öryggi þegar náttúruhamfarir bresta á. Sjá t.d. pistilinn þar sem ég mæli með því að öflugum miðbylgjusendum verði komið fyrir í hverjum landsfjórðungi.
Flest útvarpsviðtæki sem seld eru á Íslandi í dag eru bara með AM/FM móttöku sem gerir að verkum að langbylgjustöðvarnar eru smátt og smátt að verða úreltar þó sjómenn og ferðamenn noti þær eflaust mikið. En horfa ber á að öflug miðbylgjustöð er líka langdræg og ef hún er vel staðsett þá gætu fjórar slíkar stöðvar trúlega þjónað jafn vel eða betur en gert er með núverandi fyrirkomulagi tveggja langbylgjustöðva.
Ýmis önnur félagaform en hlutafélagaformið henta trúlega betur til reksturs menningarstarfsemi á vegum ríkisins. Arðurinn af starfseminni kemur fram í auknum lífsgæðum, gagnrýnni hugsun og víðsýni þegnanna og er að því leyti eftirsóknarverður þó erfitt sé að leggja á hann efnahagslegan mælikvarða.
Þegar landið fer að rísa á nýjan leik í efnahagsmálum þarf að stofna ljósvakasafn sem hefur það hlutverk að safna ljósvakaefni sem flutt er á íslensku eða hefur að öðru leyti ótvíræð tengsl við íslenska menningu. Þjóðarbókhlaðan gegnir nú þegar þessu hlutverki hvað varðar prentað mál og ljósvakasafnið yrði því aðeins útvíkkun á sömu hugsun þegar kemur að ljósvakaefni. Hugsanlega er hægt að fara að athuga þessi mál strax ef vitað er hvert á að stefna.
RÚV yrði þá nokkurs konar þjónustu- og öryggismiðstöð rekin af ríkinu en myndi sjá um rekstur öflugrar fréttastofu þar sem gerðar verða miklar kröfur til menntunar starfsmanna og óhlutdrægni í efnistökum. Þeir myndu einnig vera þjónustuaðilar og sjá um að leigja út efni úr ljósvakabankanum til hinna smærri aðila sem vilja sína til þess að miðla gömlum menningarperlum.
Ef þessar leiðir eru farnar þá gæti landið farið að rísa hjá litlu útvarpsstöðvunum og þær eignast tilverugrundvöll sem annars væri ekki til staðar. Þær gætu boðið upp á prýðilega þjónustu á ýmsum svæðum og byggt upp fjölbreytta og sérstæða en jafnframt sjálfstæða flóru menningar sem ekki er ríkisstýrð þó hún væri ríkisstyrkt að hluta. Fjölbreytt flóra minni en stöndugri aðila ætti líka að stuðla að meiri möguleikum fyrir lýðræðið og þá sem vilja koma skoðunum sínum á framfæri. Með þessu móti yrði jafnræði gert hærra undir höfði en nú er.
Sjónvarp | Breytt 21.3.2009 kl. 23:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 21.3.2009
Til hamingju Hash Collision!
Liðið Hash Collision sigraði í dag í alfa-deild forritunarkeppni framhaldsskólanna. Liðið skipa þeir Jónatan Óskar Nilsson og Sigurður Fannar Vilhelmsson nemendur í FSu á Selfossi og Gabríel A. Pétursson nemandi í FSn í Grundarfirði. Þetta er glæsilegur árangur hjá þeim félögum ekki síst vegna þess að þetta árið var metþátttaka í keppninni.
Heimild: www.forritun.is
Skólamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)