Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Hið andlega lausafé

Fyrir einu ári birti ég ljóðið Ellimörkin? hér á blogginu. Þetta var á meðan góðærið svokallaða var enn hér á landi og fjöldinn allur af gljáandi nýjum pallbílum með stórar innfluttar hestakerrur í eftirdragi eða fjórhjólavagna renndi stoltur eftir götunum. Í kjölfar bankahrunsins er þetta orðið sjaldgæfari sjón og því ákvað ég að yrkja ljóðið upp í tilefni af breyttum tímum:

Ellimörkin - einu ári síðar.

Glæsikonur líta ekki lengur glaðlega til mín
og pallbílar góðærisins eru horfnir af götunum, hestakerrurnar líka.
Í búðunum íslenskur matur, í baðherberginu vigtin samt ennþá,
og í ræktina þarf ég lengur ekki að fara því nú hjóla ég í vinnuna.
Rófustappa slátur og mysa á borðum og á laugardagskvöldinu eru það
gömlu myndbandsspólurnar úr Góða hirðinum sem fátt toppar.
Ég býð nokkrum góðum vinum í heimsókn,
set snjáðar vínýlplötur á fóninn og 
Johnny Cash syngur 'Peace in the valley'. Hið
andlega lausafé flæðir í gnægtum og fyllir sálarbankana.
Næst fer kvæðamannafélagið Iðunn á fóninn og
við kveðum nokkrar góðar stemmur
- hljómatöfrar heilla rispum blandaðir.
Gömul, nei það erum við sko aldeilis ekki.


Útvarp Saga: Einn besti útvarpsþátturinn

Síðastliðin ár hef ég átt þess kost að fylgjast með Útvarpi Sögu og hlusta þá gjarnan á endurflutning um helgar. Þar er einn útvarpsþáttur sem er sérlega athyglisverður og það er þáttur Sigurðar G. Tómassonar og Guðmundar Ólafssonar hagfræðings þar sem þeir spjalla saman og spila tónlist. Eins og alþjóð er kunnugt eru þeir báðir fjölfróðir og víðlesnir og því gaman að fylgjast með samtali þeirra sem er áheyrilegt og skemmtilegt. Ég giska á að þetta geti margir tekið undir þó þeir séu ekki sammála þeim félögum um allt enda felst skemmtun og fróðleiksfýsn ekki endilega í því að vera sammála ræðumönnum.

Eitt af því sem borið hefur á góma í spjalli þeirra félaga er efnahagsmál og gagnrýni á stjórnvöld sem er rökstudd og ennfremur er ágengra spurninga spurt sem ég heyri sjaldan eða aldrei svarað þó vera megi að það hafi verið gert. Styrkur Útvarps Sögu sem frjálsrar og óháðrar útvarpsstöðvar hefur komið betur og betur í ljós með þessu og nú er svo komið að stjórnmálamenn úr ýmsum áttum hafa sóst eftir að flytja pistla í stöðinni og á hana er hlustað sem stöð hins talaða máls og til að heyra skoðanir af ýmsu tagi viðraðar. Þessi eiginleiki er nánast alveg horfinn úr RÚV-Rás1 og þessi efnisþáttur hefur flust yfir í Sjónvarpið að hluta til. Margir muna enn eftir þáttum á Rás-1 þar sem hver sem vildi gat komið og flutt pistil. Um daginn og veginn minnir mig að þessir þættir hafi heitið. Því miður er þetta horfið og verið getur að þetta hafi lognast út af hugsanlega vegna þess að menn vildu vera settlegir í Ríkisútvarpinu, ég veit það ekki en athyglisvert væri að fregna af hverju málin þróuðust þannig, sérstaklega í ljósi útvarpslaganna en samkvæmt þeim á Ríkisútvarpið einmitt að vera vettvangur ólíkra skoðana en í dag er það Útvarp Saga sem ber höfuð og herðar yfir hinar útvarpsstöðvarnar hvað varðar hið frjálsa talaða orð á Íslandi í dag.


Langbylgjustöðin á Eiðum nægir ekki þegar Gufuskálar detta út

Nýlega var tilkynnt á langbylgjustöð RÚV á Gufuskálum að vegna viðhalds og viðgerða ætti að fella niður útsendingar um nokkra stund og á meðan var fólki bent á að stilla á langbylgjustöðina á Eiðum sem sendir út á 207 khz með 100 kw sendistyrk en það er þriðjungur af afli stöðvarinnar á Gufuskálum.  Nú er það svo að langbylgjuútvörp eru misjöfn að gæðum. Ég hef verið að prófa móttökuskilyrði Eiðastöðvarinnar hér á Selfossi og þau eru misjöfn eftir útvarpsviðtækjum. Ég náði Eiðum prýðilega á bílútvarp en á tveimur innitækjum voru móttökuskilyrðin slæm. Þetta sýnir að þessar tvær langbylgjustöðvar eru tæplega nægilegar til að halda uppi öryggisþjónustu til fjarlægra staða landsins. Ekki þarf annað en Gufuskálar detti út og þá er stór hluti af landinu án öruggra útvarpssendinga og þurfa að reiða sig á fjarlæga og skammdræga FM senda eða Eiðastöðina sem er of afllítil til að geta þjónað vesturhluta landsins nægilega vel.

Ég hef haldið því fram í nýlegum pistlum að það þurfi að setja miðbylgjusenda í alla landsfjórðunga. Bæði er það til að ná vel til sem flestra tækja því mörg eru ekki með langbylgju og einnig myndu fjórir sendar tryggja meira öryggi en tveir. Langdrægni miðbylgjunnar er að vísu minni en langbylgjunnar en hún er þó þokkalega góð og fullnægjandi til að þjóna einum landsfjórðungi. Ef sendir dettur út ættu nálægustu sendar líka að geta dekkað það svæði sem dettur út.

Það má samt segja að það sé miður hve mörg útvarpstæki eru án langbylgjunnar því hún hentar trúlega best til langdrægra sendinga sem nýtast vel hérlendis, en þetta er raunveruleikinn og það verður að horfast í augu við hann. Það gæti samt verið hægt að halda langbylgjusendunum við líka þó þessum fjórum miðbylgjusendum yrði bætt við.  Kannski væri  hægt að fjármagna þetta með því að draga úr fjölda FM senda og takmarka þá við þéttbýlissvæðin. Ávinningurinn yrði aukið öryggi og hljómgæðin yrðu viðunandi vegna nálægðar við sendinn þrátt fyrir að um miðbylgjusendingu væri að ræða.


Þarf aukna ímyndarvitund í barnatímum RÚV Sjónvarps?

Eitt af þeim atriðum sem RÚV - Sjónvarp á hrós skilið fyrir eru góðir barnatímar. Þar hafa margar skemmtilegar persónur bæði raunverulegar og leiknar stigið á stokk og skemmt börnum landsins síðustu áratugina með söng, sögum og fróðleik. Þetta er þarft starf og nauðsynlegt enda er mælt fyrir um það í lögum um RÚV en þar segir í 6. grein:

   6. Að flytja fjölbreytt skemmtiefni við hæfi fólks á öllum aldri. Sérstaklega skal þess gætt að hafa á boðstólum fjölbreytt efni við hæfi barna, jafnt í hljóðvarpi sem sjónvarpi.[1]

Þó ég sé ekki sammála því að það sé hlutverk ríkisútvarps að flytja fjölbreytt skemmtiefni við hæfi fólks á öllum aldri þá er síðari hluti málsgreinarinnar vel við hæfi.

En það er eitt atriði sem hefur valdið mér nokkrum áhyggjum í gegnum árin en það er ímynd þeirra barna sem koma fram í barnatímanum. Oft eru þetta ljóshærð börn og gjarnan stúlkur. Það þyrfti að hyggja að því að í hópi áhorfenda eru ungir þeldökkir Íslendingar og það er mikilvægt að þeir eigi sína fulltrúa líka í barnatímunum svo þeir eigi jafna möguleika að byggja upp jákvæða sjálfsmynd til jafns við hina. Því þyrftu þeldökk börn, eða dökkhærð að sjást oftar í barnatímum RÚV - Sjónvarps og einnig þarf að huga að því að kynjahlutfall þeirra sem fram koma sé jafnt svo hvorki halli á stúlkur né pilta, konur eða karla.  

[1] Lög um Ríkisútvarpið ohf.


Er öryggishlutverk RÚV fyrir borð borið?

Við skulum vona að nú rætist ekki gamla orðtækið að allt sé þá þrennt er. Suðurlandsskjálfti, bankahrun og hvað svo? Vonandi ekki harðindavetur, Kötlugos, eða einhver önnur óáran sem alltaf má búast við hérlendis. Undir slíkum kringumstæðum getur verið mjög mikilvægt að öll útvarpsviðtæki sem hægt er að nálgast geti náð útsendingum og séu með algengu tíðnissviði. Á mörgum útvarpstækjum er engin langbylgja en á þeim öllum er FM bylgja og miðbylgja (AM).  Í nýlegum pistli Var FM væðing landsbyggðarinnar mistök? færi ég rök fyrir því að heppilegast sé fyrir RÚV að koma upp öflugum miðbylgjusendi (AM) í hverjum landsfjórðungi ásamt því að efla staðbundna dagskrárgerð. Þetta væri hægt að fjármagna með því að selja skemmti- og afþreyingarstöðina Rás-2 eða breyta henni og flytja út á land og dreifa starfsemi hennar á þessa staði. Ástæðan fyrir því að ég tel nauðsynlegt að setja miðbylgjusendi í hvern landsfjórðung er sú að þeir eru mun langdrægari en FM sendar og ef einn nálægur dettur út þá ætti að vera hægt að ná amk. einum öðrum slíkum sendi vegna langdrægninnar. Ég minni á að undir góðum kringumstæðum má ná miðbylgjusendingum færeyska útvarpsins en þær nást vel á Austurlandi og ég hef náð þeim hér á Selfossi.

Áherslur stjórnvalda hvað varðar stefnumótun fyrir RÚV hin síðari ár sæta nokkurri furðu svo vægt sé til orða tekið og segja má að lítið hafi breyst frá því Rás 2 hóf göngu sína. Jú, gamla öfluga langbylgjustöðin á Vatnsendahæð var orðin úrelt og því lögð niður og nú hefur lítil langbylgjustöð á Snæfellsnesi átt að þjóna landinu og miðunum hvað öryggi og langdrægni varðar. Þegar rök fyrir áframhaldandi stuðningi ríkisvaldsins fyrir RÚV eru skoðuð sést að ekki er lítið gert úr öryggishlutverki stofnunarinnar og stjórnmálamenn hafa þetta gjarnan á takteinum sem rök fyrir gjaldtöku og skattlagningu almennings í formi afnotagjalda. En greinilegt er að aðrir fjölmiðlar standa sig ekki síður vel þegar kemur að þessum þætti. Í jarðskjálftunum hér á Suðurlandi árið 2000 var það fyrsta sem datt út FM sendir RÚV. Í óveðrum síðasta vetrar voru nokkur dæmi þar sem frjálsir fjölmiðlar komu betur til móts við öryggisþarfir fólks heldur en RÚV gerði. Sem dæmi um þetta má nefna óveður á Austurlandi í lok desember sem og hér á Suðurlandi í janúar. Um þessa atburði skrifaði ég pistlana Óviðunandi frammistaða RÚV í óveðrinu á Austurlandi og Af hverju kemur vonda veðrið okkur alltaf jafn mikið á óvart?

Ég lýk þessum pistli með því að taka fram að gagnrýni minni er ekki beint gegn starfsfólki RÚV sem vinnur gott starf heldur er henni beint gegn hinu pólitíska valdi sem ábyrgð ber á stofnuninni og lagaramma hennar.


Ríkisútvarpið í nýju ljósi efnahagsmála

Í ljósi atburða í efnahagsmálum landins sem orðið hafa síðustu daga og vikur er ólíklegt að formlegt eignarhald ríkisins breytist að neinu marki hvað RÚV varðar. Í þessari stöðu er því lítið annað að gera en horfa fram á óbreytt ástand en með einni breytingu þó. Ef RÚV ætlar að vera jafn mikið inni á auglýsingamarkaði og það hefur verið er ekkert sjálfsagðara en að hinir ljósvakamiðlarnir fari líka á ríkisstyrki þannig að allir fjölmiðlar sitji við sama borð hvað varðar slíka styrki óháð eignarhaldi. Þ.e. ríkisstofnunin fengi þá framlag í réttu hlutfalli við framlag sitt af innlendu efni rétt eins og aðrir ljósvakamiðlar. Rökin fyrir því að ríkisvaldið haldi uppi almannaútvarpi eru aðallega af menningarlegum toga og einnig er öryggishlutverk útvarpsins ótvírætt. Hægt að álykta að ekki ætti að greiða ljósvakamiðlum neitt fyrir flutning á erlendu afþreyingarefni svo sem sápuóperum og skemmtiefni heldur fyrir flutning á innlendu efni og hugsanlega einnig fyrir flutning á vönduðu erlendu fræðslu- og menningarefni. Einnig er bráðnauðsynlegt að efla starfsstöðvar útvarpsins í landsfjórðungunum fjórum utan höfuðborgarsvæðisins. Í síðasta pistli mínum Var FM væðing landsbyggðarinnar mistök? kem ég inn á það að til að halda uppi tryggri almannaþjónustu þurfi sterka miðbylgjusenda í alla landsfjórðunga og einnig sjálfstæða dagskrárgerð. Það væri ein öflugasta leiðin og jafnframt ódýrasta sem hægt væri að fara til að efla menningarlegt sjálfstæði landsbyggðarinnar. Fjölbreytt dagskrárgerð sem bæri einkenni hvers landsfjórðungs gæti einnig orðið eftirsóknarvert ljósvakaefni á höfuðborgarsvæðinu og þannig yrði það ekki lengur bara veitandi heldur einnig þiggjandi í menningarmálum.

 


Var FM væðing landsbyggðarinnar mistök?

Þeir lesenda sem muna þann tíma þegar Útvarp Reykjavík var eina útvarpsstöðin muna líka eftir langbylgjustöðinni stóru á Vatnsendahæð sem síðar var flutt vestur á Snæfellsnes og er þar enn. Núna er sú stöð rekin fyrst og fremst á öryggisforsendum sem og til að þjóna dreifðum byggðum þar sem ekki næst til FM senda. En áður en FM sendarnir komu var langbylgjustöðin sú eina hér á Suðvesturhorninu og síðan minnir mig að það hafi verið stöð á Austurlandi sem sendi út á miðbylgju. Þ.e. það voru aðeins tveir sendar sem þjónuðu mest öllu landinu og miðunum eða því sem næst.

Þegar FM (Frequency Modulation) tæknin kom til sögunnar náði hún skjótt miklum vinsældum, fyrst og fremst vegna þess að tóngæðin í FM útsendingunum tóku útsendingargæðum AM (Amplitude modulation) langt fram. En bæði langbylgjan og miðbylgjan flokkast sem AM sendingar. Ókostur FM sendinganna er aftur á móti sá hve skammdrægir sendarnir eru og að fjöll skyggja á útsendinguna. Fyrstu FM sendar RÚV voru greinilega vandaðir og öflugir en í seinni tíð hefur sendistyrk þeirra að líkindum farið aftur. Fyrstu FM sendarnir voru Mono sendar en sendar nútímans eru Stereo sendar sem eru enn viðkvæmari fyrir truflunum, löngum vegalengdum og mishæðum í landslaginu. Það er orðið erfitt að ná nægum tóngæðum úr meðalgóðum útvarpstækjum, t.d. hér á Selfossi og í nágrenni og einnig spillir fyrir að alltaf þarf að vera að skipta um tíðni á útvarpstækjunum þegar farið er á milli staða t.d. á bíl. Suð og truflanir frá tölvum er orðið áberandi truflanavaldur og það svo mjög að það er orðið erfitt að hlusta á FM útsendingar RÚV hér á Suðurlandi nema í góðum tækjum. 

FM tæknin hefur trúlega orðið ofan á fyrst og fremst vegna þess hve tónlist hljómar miklu betur í FM sendingu heldur en í AM sendingu en í útvarpi sem byggir að stórum hluta á töluðu orði eru þessar forsendur ekki jafn sterkar.  Í seinni tíð grunar mig að þeir sem á útvarp hlusta hlusti ekki á það vegna tónlistarinnar fyrst og fremst heldur vegna hins talaða orðs ekki síður. Í dag eru svo fjölmargar leiðir fyrir tónlistarunnendur að eignast eða hlusta á sína uppáhaldstónlist að útvarp er ekki jafn mikilvægt hvað það varðar og áður. Hægt er að hluta á stafræna tónlist af diskum, tölvum, netinu og tónhlöðum í miklum tóngæðum og algengt er að í bílum séu t.d. geislaspilarar.

Í þessu ljósi langar mig að velta upp þeirri spurningu hvort ekki væri heppilegast að RÚV sem á að þjóna mikilvægu öryggishlutverki komi upp öflugum AM sendi í hverjum landsfjórðungi, t.d. miðbylgjusendi frekar en langbylgjusendi? Það helgast af því að í mörgum tækjum er ekki langbylgja eins og var áður heldur aðeins miðbylgja og FM bylgja. Þannig sendir myndi vera öruggari hvað varðar langdrægni en hinir strjálu FM sendar sem eru á fjölmörgum tíðinssviðum sem fáir muna eftir hvar eru. Það yrði því auðveldara að finna þessa senda á AM tíðnissviðinu, muna hvar þeir eru og staðsetning á landinu skiptir minna máli því öflugur miðbylgjusendir, t.d. í Vestmannaeyjum ætti að nást vel um mest allt Suðurland og einnig langt út á sjó. Kostnaður við öflugan miðbylgjusendi ætti ekki að vera svo miklu meiri en við FM sendana sem væri þá hægt að fækka á móti eða takamarka þá við þéttbýlisstaðina þar sem skammdrægni þeirra kemur ekki jafn mikið að sök. Þessi tæknilega uppbygging gæti haldist í hendur við áherslubreytingu í starfsemi RÚV sem þarf auðvitað að felast í því að það verði raunverulegt ríkisútvarp en ekki bara Reykjavíkurútvarp með máttvana hjáleigur fyrir vestan, norðan og austan og enga hér fyrir sunnan.


Lækka þarf hámarkshraða á Suðurlandsvegi strax milli Hveragerðis og Selfoss

Nú hefur Rannsóknarnefnd umferðarslysa gefið út varnaðarskýrslu um Suðurlandsveg. Í nýlegri frétt á mbl.is segir m.a:

Mikilvægt er að brugðist sé við hratt og markvisst því fjöldi slysa og alvarleiki þeirra er slíkur að ekki verður við unað. Undanfarin ár hefur nefndin farið á vettvang alvarlegra umferðarslysa á milli Hveragerðis og Selfoss.

Að mati nefndarinnar er aðgreining akstursstefna áhrifaríkasta leiðin til að auka umferðaröryggi á þessum hættulega vegkafla. Hafin er hönnun tvöföldunar vegarins á þessum stað en Rannsóknarnefnd umferðarslysa hefur miklar áhyggjur af öryggi vegfarenda á þessum kafla vegna eðlis og fjölda slysa sem nefndin hefur rannsakað þar.

Síðastliðin fimm ár hefur nefndin farið fimm sinnum á vettvang alvarlegs umferðarslyss á þessum 12 km kafla, þar af hafa fjögur slys orðið undanfarin tvö ár. Telur nefndin nauðsynlegt að bregðast við sem skjótast með bráðabirgðalausnum til að auka öryggi á veginum og komast hjá frekara manntjóni þar til búið sé að opna veg sem aðskilur akstursstefnur. Í því samhengi leggur nefndin til að hámarkshraði verði lækkaður á kaflanum í 70 km/klst. samhliða öflugri löggæslu og unnið verði að því að bæta tengingar inn á veginn með betri merkingum og auknu rými," að því er segir í skýrslunni. [Leturbr. RGB].

Nú er bara að bíða eftir að samgönguráðherra og vegagerðin taki af skarið hið fyrsta og drífi í því að fara eftir tillögu RNU. Það ætti varla að vera meira en dagsverk að skipta um hraðaskiltin á þessari leið og hver dagur sem líður með 90 km. hámarkshraða á þessum vegi er einum degi of mikið. Þetta hef ég þrisvar bent á hér á blogginu, fyrst með pistli frá í október í fyrra, í pistli sem birtist í maí á þessu ári sem ég endurbirti í ágúst á þessu ári. Mig langar einnig að nota tækifærið og gagnrýna að víða hér á Suðurlandi skuli látið nægja að setja biðskyldumerki á vegi sem koma þvert á veg þar sem er 90 km. hámarkshraði. Á þessum stöðum ætti að vera stöðvunarskylda. Kannski finnst einhverjum það óþarfi en athugið lesendur góðir að ef fólk venur sig á að stöðva þegar það kemur þvert á hraðbrautina, jafnvel þó engin umferð sé þá mun það alltaf gera það undir öllum kringumstæðum og það er mikilvægt að það sé stöðvað undir öllum kringumstæðum, þ.e. að fólk sé ekki vant því að geta keyrt þvert inn á háhraðaveg án þess að stöðva. Biðskyldumerkin ætti aðeins að nota þar sem hraði er 70 eða minni.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband