Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008
Mánudagur, 28.1.2008
Úr snjó og vetri og aftur til sumarsins '73:
Víkjum nú aðeins athygli okkar frá snjó og vetri og hverfum aftur til sumarsins 1973. Þetta var sólríkt og gott sumar. Útvarpið var oft haft í gangi og þar voru leikin vinsælustu lögin. Eitt laganna sem oft hljómaði var glænýtt lag: "Tie a yellow ribbon round the old oak tree". Höfundar lagsins eru Irwin Levine og L. Russel Brown og flutt af Tony Orlando og Dawn. Mér fannst þá og finnst þetta enn vera frábærlega skemmtilegt og hlýlegt lag og fannst það þá auðvitað vera spilað allt of sjaldan. Þá skildi ég minnst af textanum en hreifst af bjartsýninni sem stafar frá laglínunni og flutningnum. Textinn fjallar um fanga sem búinn er að afplána fangavist og hann kemur heim í rútu. Hann hefur skrifað á undan sér til sinnar heittelskuðu og sagt henni að binda gulan borða um stóra eikartréð og ef hún geri það þá viti hann að hann megi snúa aftur. Ef borðinn verði ekki á sínum stað þá muni hann ekki fara úr rútunni en halda áfram og taka á sig alla sök. Þegar hann kemur heim blasa við honum hundrað gulir borðar í kringum eikartréð.
Það að fagna heimkomu með gulum borða á sér ýmis tilefni og hefðir eins og sjá má á Wikipedia slóðinni fyrir neðan. Lagið sjálft var geysivinsælt. Platan seldist í meira en 3 milljónum eintaka í maí '73 og þegar vinsældir þess rénuðu var áætlað að það hefði verið spilað um 3 milljón sinnum.
Heimildir:
http://en.wikipedia.org/wiki/Yellow_ribbon
http://en.wikipedia.org/wiki/Tony_Orlando_and_Dawn
Tónlist | Breytt s.d. kl. 21:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 27.1.2008
Hvað dvaldi almannavarnir 25. janúar?
Föstudaginn 25. janúar gekk óveður yfir landið og færð spilltist svo að Reykjanesbrautin og Hellisheiði lokuðust en það tókst að halda Þrengslunum opnum. Fjöldi fólks tepptist í bílum sínum og þurfti að bíða hjálpar við erfiðar aðstæður þar til veður lægði. Við þessar og líkar aðstæður er heppilegast að loka erfiðum leiðum sem fyrst fyrir fólksbílum svo hægt sé að koma í veg fyrir öngþveiti, erfiðleika og hættu sem og til að lögregla og sjúkrabílar geti notað leiðirnar ef á þurfi að halda. Einnig ættu almannavarnir að koma ákveðnum og skýrum skilaboðum til almennings og fræðsluyfirvalda í gegnum fjölmiðla þegar svona ástand skapast og gætu þar notað RÚV með mun markvissari hætti en nú er gert, svo sem með því að rjúfa dagskrá og lesa upp símanúmer sem almenningur getur hringt í til að vara við hættuástandi.
Sjá líka þessa bloggfærslu hér sem fjallar um ástandið á Eyrarbakkaveginum þennan morgun.
Laugardagur, 26.1.2008
Af hverju kemur vonda veðrið okkur alltaf jafn mikið á óvart?
Á Selfossi var ástandið ekki slæmt hvað varðar samgöngur í gærmorgun, þar voru götur ruddar og lítið fjúk en strax og kom út fyrir bæinn var ástandið mun verra, skafrenningur og skafbylur, skyggni lítið, hálka, myrkur og þæfingsfærð fyrir fólksbíla. Ástandið á Eyrarbakkaveginum var ekki burðugt. Á móts við Stekka hafði snjóplógur farið útaf og fyrir sunnan var þæfingsfæri. Á móts við snjóplóginn voru fólksbílar að festast í snjó á veginum. Ég var á jeppa og keyrði niður að Stokkseyri snemma á 8. tímanum og lagði af stað uppúr aftur rétt fyrir 8. Þá voru komnar langar raðir á móts við Stekka, bílar voru fastir og einn hafði lent útaf. Ef fólkið í fólksbílunum hefði vitað hvernig aðstæður voru þarna þá er ég nokkuð viss að margir hefðu frestað för sinni en ekkert heyrðist um þetta í RÚV, en talað var um erfiðleika á Reykjanesbraut, á Hellisheiði og í Þrengslum. Enn og aftur þarf ég að greiða afnotagjaldið með það á tilfinningunni að ég sé ekki að fá andvirðið til baka í því öryggi sem lögboðið er svo sem sjá má í 8. gr. laga nr. 6 frá 2007 um RÚV.
Þegar svona gerist þá vakna efasemdir um að samfélagið sé að nýta sér þær upplýsingar sem fáanlegar eru bæði með veðurspám og svo um aðstæður á hverjum stað frá fólki á staðnum. Bæði eru veðurspár orðnar mun öruggari en áður var og svo hefur farsímatæknin breytt miklu. Í síðasta óveðurskafla sem varð fyrir 8 árum hér á Suðurlandi hefur farsímaeign örugglega ekki verið jafn útbreidd og hún er núna. Veðurspáin kvöldið áður varaði við stormi á bilinu 13-20 metrum og að verst yrði við ströndina. Snjór var jafnfallinn og laus um 20 sentimetra þykkur á þessu svæði og því nokkuð fyrirsjáanlegt hvað myndi gerast. Við býsnumst gjarnan yfir því fólki sem leggur á fjöll í slæmri spá en gerum sjálf svo nákvæmlega það sama við okkar eigin bæjardyr þó fyrirsjáanlegt sé að aðstæður geti orðið bæði hættulegar og heilsuspillandi ekkert síður en á fjöllum og ætlumst jafnframt til að aðrir geri slíkt hið sama. Af hverju er öryggi og heilsa fólks ekki látin njóta alls mögulegs vafa? Hér er þörf á bæði umræðu og hugarfarsbreytingu sem fyrst.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 22.1.2008
Hesturinn minn heitir Flóki
En við höfum ekki sömu lifað árin eins og Blesi og ljóðmælandinn í 'orfeus og evridís' frægu kvæði Megasar af plötunni 'Á bleikum náttkjólum'. Hesturinn þessi er að verða 9 vetra gamall, er fæddur 1999 en ég er fæddur nokkru fyrr. Þetta er eini hesturinn sem ég á og ég er fyllilega sáttur við það því það er töluverð vinna að eiga hest. Maður þarf að vakna snemma á morgnana til að gefa honum hey og svo þarf að fæða hann á kvöldin líka. Síðan þarf að snyrta í kringum hann, hleypa honum út á daginn þegar gott er veður og klóra honum og klappa og skella sér á bak af og til. Þetta er allt skemmtilegt en ég vil ekki margfalda þetta með 2 hvað þá n þar sem n er heil tala stærri en 2.
Ég lít á það sem forréttindi að geta gefið mínum hesti sjálfur og annast hann daglega og þegar vel er að gáð þá þarf einn hestur töluverða athygli. Ég hef því ekki skipst á um að gefa eins og margir gera og er að þessu leyti dálítið sérvitur. Það eru fleiri hestar í hesthúsinu en af því að ég á þá ekki og aðrir hirða um þá þá sýni ég þeim minni athygli heldur en mínum hesti. Þetta finnur hesturinn minn og hann verður æfur af afbrýðisemi ef einhver hinna hestanna stillir sér upp við keðjuna þegar ég er að fara að hleypa honum eða stíufélaga hans inn í húsið.
Hingað til hefur mér fundist Flóki vera frekar lítið gefinn fyrir klappið þó hann vilji greinilega ekki að ég klappi öðrum hestum. En í dag sýndi hann mér merkileg vingjarnlegheit sem hann hefur aldrei gert áður. Ég var að moka snjó frá hesthúsinu til að hægt væri að fara með hjólbörur meðfram húsinu og hvað gerði karlinn? Hann stóð við hliðina á mér allan tímann og rak snoppuna af og til laust í mig á meðan ég mokaði. Þetta var sérlega vingjarnlegt og hann var greinilega að minna á sig og sýna mér samstöðu við moksturinn. Svona getur þetta tekið tíma. Ég eignaðist Flóka í apríl í fyrra og það er fyrst núna eftir níu mánaða samveru sem hann sýnir þessi vingjarnlegheit. Á þessum tíma hefur hann oft látið mig vita að hann sé ekki fyllilega sáttur við mig, bæði finnst honum að ég leyfi allt of mörgum hestum að vera í hesthúsinu, sem hann álítur greinilega vera sitt og honum finnst líka að hann eigi að ráða, af því hann var fyrsti hesturinn til að koma í húsið í haust. Að þessu leyti hef ég brugðist honum, að hans mati. Það er greinilegt. En sumir sættast þó það taki tíma.
Sunnudagur, 20.1.2008
Afmæli Braga 2007
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 22:50 | Slóð | Facebook
Fimmtudagur, 17.1.2008
Lagið „Mañana“ með Bay City Rollers
Ég ætlaði að fara að blogga um lagið góða Mañana með Bay City Rollers sem fékk mjög mikla spilun í útvarpi árið 1972 og 1973 og fór að leita á því á YouTube en fann ekki þrátt fyrir nokkra leit. Mañana sló í gegn í söngkeppni sem Radio Luxembourg hélt árið 1972. Á Wikipediu kemur fram að lagið hafi fengið mikla spilun á nokkrum stöðum í Evrópu og í Ísrael. Það kom mér nokkuð á óvart að 45 snúninga plata lagsins hafði ekki komist á lista í Bretlandi yfir söluhæstu plöturnar, a.m.k. miðað við þá miklu spilun sem lagið fékk á Íslandi og á Radio Luxembourg.
Það voru nokkur lög sem heyrðust mjög oft hér á landi þessi árin og Mañana var eitt þeirra. Þetta var fyrir daga rásar 2 og Ríkisútvarpið reyndi að standa sig vel og koma til móts við óskir um vinsæl lög með þætti sem Jón B. Gunnlaugsson stjórnaði en hlustendur hringdu inn og báðu um óskalög. Ég man ekki lengur hvað þátturinn hét en man ekki betur en hann hafi verið mjög vinsæll, alla vega man ég að á útvarpið var oftast á í skólabílnum sem keyrði okkur krakkana úr skólanum á Selfossi í Gaulverjabæjarhreppinn og þá var þessi þáttur hlustaður upp til agna.
Heimildir:
http://en.wikipedia.org/wiki/Bay_City_Rollers
http://en.wikipedia.org/wiki/Radio_Luxembourg_%28English%29
Uppáhaldslög | Breytt 17.5.2008 kl. 18:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 15.1.2008
Forleikur að Holberg svítu nr. 40 eftir Edvard Grieg
Holberg svítan eftir Edvard Grieg sem skrifuð var 1884 í tilefni af tvö hundruðustu ártíð dansk-norska leikskáldsins Ludwig Holberg er áheyrilegt verk og þó það hafi öðlast minni frægð en t.d. tónlist úr Pétri Gaut er það ekki síður athyglisvert og fallegt. Upprunalega var verkið samið fyrir píanó en í dag er það oft flutt af strengjasveit. Eftirfarandi upptöku fann ég á YouTube og valdi hana af nokkrum sem í boði voru vegna þess að upptakan nær töluverðri breidd, nær t.d. djúpu strengjunum vel og pizzicato köflunum sem virðast hverfa nánast alveg í öðrum upptökum sem ég fann þarna. YouTube upptökur eru yfirleitt 'teknar á staðnum' á litlar vélar og því er ekki að búast við miklum upptökugæðum en þó skilar tónlistin sér oft furðanlega miðað við aðstæður. Hérna er verkið flutt af strengjasveit Corelli tónlistarskólans "Pinarolium Sinfonietta". Stjórnandi er Claudio Morbo.
Heimild: Wikipedia: http://en.wikipedia.org/wiki/Holberg_Suite
Tónlist | Breytt s.d. kl. 21:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 13.1.2008
David Lloyd flytur konsert fyrir víólu nr. 1 í G dúr eftir Telemann
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 1.1.2008
Óviðunandi frammistaða RÚV í óveðrinu á Austurlandi
Í óveðrinu sem gekk yfir Austurland 30. 12. síðastliðinn var það ekki RÚV heldur mbl.is sem varð haldreipi fólks sem setið hafði tímunum saman í rafmagnsleysi. Sjá þessa bloggfærslu hér.
Er hið margumrædda öryggishlutverk RÚV kannski í og með það að vera pólitískt öryggistæki ráðandi stjórnmálaafla þegar þau þurfa að koma viðhorfum sínum á framfæri? Segja má að enn ein röksemdin fyrir frjálsum ljósvakamiðlum sé sú að heppilegast sé að þeir séu óháðir ríkisvaldinu. Sjá nánar greinina þar sem vitnað er í Amy Goodman í efnisflokknum um Ríkisútvarpið á þessari bloggsíðu.
Ég tek fram að ekki ber að skilja þessi spurningarorð sem gagnrýni á það fólk sem núna situr í Stjórnarráðinu né heldur ber að skoða þetta sem gagnrýni á starfsfólk Ríkisútvarpsins.
Ríkisútvarpið | Breytt s.d. kl. 21:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)