Fimmtudagur, 16.4.2009
Gæti Varnarmálastofnun sameinast Landhelgisgæslunni?
Heyrst hefur í umræðu og fregnir hafa borist af því að Vinstri grænir vilji leggja Varnarmálastofnun niður og færa verkefni hennar annað, m.a. til Flugstoða sem eru einkahlutafélag og Björgunarmiðstöðvarinnar í Skógarhlíð [1].
Í þessu sambandi er vert að hafa í huga að í ljósi nýlegs atviks þegar tveir kjarnorkukafbátar rákust á í Biskayaflóa að nauðsyn þess að hafa eftirlit með óvæntum ferðum hernaðartækja er alltaf til staðar þó deila megi um hversu stranga eftirfylgni slíkt eftirlit þurfi að hafa. Varla þarf að útlista fyrir nokkrum þann umhverfisskaða sem kjarnorkuslys innan íslensku landhelginnar gæti haft.
Ef herveldin fá óáreitt að telja að íslenska landhelgin sé eftirlitslaust svæði, nánast eins og alþjóðlegt hafsvæði má gera ráð fyrir því að það verði álitið hagstæður staður til athafna á borð við þær sem fram fóru í Biskayaflóanum. Sú spurning hlýtur því að vakna hvort ekki sé eðlilegt ef rætt er um að leggja Varnarmálastofnun niður að heppilegra sé að sameina hana Landhelgisgæslunni og flytja verkefni hennar þangað? Þannig gæti eflaust náðst fram sparnaður með því að hafa eina yfirstjórn og eina stofnun í stað tveggja. Einnig mætti huga að því að hið mikla loftrýmiseftirlit sem fram fer er trúlega gagnslítið m.t.t. fyrirbyggjandi áhrifa og hefur í raun sömu stöðu hernaðarlega séð og heræfingar. Það sem gera þarf er að byggja upp kerfi sem gefur kost á mótvægisaðgerðum þegar vart verður við óvænt hernaðartæki eða aðra grunsamlega umferð og þá ekki bara í lofti heldur einnig í og á sjónum innan landhelginnar.
[1] http://www.visir.is/article/20081219/FRETTIR01/794207672
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Utanríkismál/alþjóðamál, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Heill og sæll; Ragnar Geir, æfinlega !
Hygg; að frekar skyldi efla Landhelgisgæzlu - en farga mætti flottræfla og snobb stofnuninni; Varnarmálastofnun, eitt pírum pára, NATÓ aðildarinnar, frá hverri, við hefðum átt, að vera búin að segja okkur frá, fyrir margt löngu.
Með; hinum beztu kveðjum, austur yfir fljót /
Óskar Helgi Helgason
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 16.4.2009 kl. 14:50
Heill og sæll Óskar og takk fyrir innlitið.
Já það er nokkuð til í þessu, eins og Nató hefur verið rekið síðustu árin. Stríð leysa aldrei neinn vanda og best hefði verið fyrir Bush stjórnina og alla hlutaðeigandi að forðast ófriðinn. Nú ætlar Obama að draga bandaríska herinn frá Írak, bæta sambandið við Írani og er það vel. Verst að ekki skuli vera hægt að fara frá Afghanistan líka.
Það er samt erfitt fyrir okkur að ætla að halda uppi sannfærandi öryggi á okkar stóra haf- og landsvæði ef ekki kemur til einhver aðstoð frá næstu þjóðum, t.d. með því að leggja til tæki og mannafla. Nató virðist kjörið til þess samstarfs og því ættu Íslendingar einmitt að leggjast gegn því að bandalagið sé notað sem málaliðabandalag í styrjöld. Hið gamla hlutverk Nató, þ.e. varnar- og fælingarbandalag var lang giftusamlegast og skilaði varanlegum friði í okkar heimshluta þó svo að hann væri vopnaður. M.a. þess vegna var það andstætt okkar hagsmunum til lengri og skemmri tíma að við skyldum forspurð vera sett inn á lista 'viljugra þjóða' til innrásar í Afghanistan af þeim Davíð og Halldóri.
Sömuleiðis bestu kveðjur, vestur yfir fljót /
Ragnar Geir Brynjólfsson
Ragnar Geir Brynjólfsson, 16.4.2009 kl. 21:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.