Er fresturinn of skammur fyrir evruna?

Í Fréttablaðinu í dag las ég að CCP telur að það geti haldið höfuðstöðvum sínum hér í tvö ár ennþá miðað við núverandi gjaldeyrishöft. Svipuð viðhorf þar sem rætt hefur verið um að best sé að opna hagkerfið með nýjum gjaldmiðli sem fyrst hefur mátt heyra í fjölmiðlum undanfarið, m.a. í Spegli RÚV nýlega.  Ef staðan er almennt þannig hjá fyrirtækjum að þau þola ekki lengur við en 2-3 ár í núverandi kerfi þá bendir það sterklega til að evran sé ekki inni í myndinni sem raunhæfur valkostur.

Þessu veldur óhjákvæmilegur tími sem aðildarumsókn að ESB hlýtur að taka, sem og tími í kjölfar þess sem fer í aðlögun hagkerfisins svo það verði hæft til að taka upp evruna. Það má vera mikil flýtimeðferð sem verður komin með Ísland inn í myntbandalag ESB áður en 2-3 ár eru liðin. Sá góði maður Benedikt Jóhannesson talaði í umræddum Spegli og lagði þar ríka áherslu að þetta þyrfti að gerast sem fyrst, annars færum við aftur á "vefstólastigið" eins og hann komst að orði.

Ég hef ekki miklar efasemdir um stöðumat Benedikts og stjórnar CCP en ég hef aftur á móti efasemdir um að tilveruna í ESB með tilheyrandi fullveldisafsali, afsali fulls forræðis yfir landbúnaðarmálum og einnig afsali yfir nýtingu sjávarauðlinda. Hvernig verður öryggismálum í ESB t.d. háttað? Mun síðar verða stofnaður Evrópuher og mun e.t.v. verða herskylda í þeim her? Verða Íslendingar þá herskyldir? Er þetta allt ásættanlegt fyrir það eitt að fá að skipta um gjaldmiðil?

Sumir ESB sinnar tala eins og þeir sjái framtíðina í kristalskúlu. Það gerðu líka þeir aðilar sem vildu koma Orkuveitu Reykjavíkur í hendur einkaaðila. Þá átti allt að gerast á leifturhraða og þá var mikið talað um mikla hagkvæmni þess að framkvæma aðgerðina. Samlíkingin er slæm. Sígandi lukka er best. Það er gott og sjálfsagt að hafa í huga að enginn, alls enginn sér framtíðina, jafnvel þó þeir hafi bestu fáanlegu tölulegar upplýsingar við höndina.

Flest bendir því til að ef ásættanleg lausn fyndist í gjaldmiðilsmálinu þá væri hægt að fara yfir ESB umræðuna á þeim rólegu nótum og á þeim tíma sem slík umræða hlýtur óhjákvæmilega að þarfnast.  

Í nýlegum pistlum: Kjósendur fái að minnsta kosti þrjá valkosti í ESB kosningum kem ég líka inn á það að ef til kosninga um ESB aðild kemur til þá þurfa þrír kostir að vera í boði, þ.e. evra í ESB, króna og svo þriðji gjaldmiðill.  Fólk verður að kjósa ESB af því að það vill ESB en ekki bara vegna þess að það vill opið hagkerfi og betri gjaldmiðil en krónuna. Annars verður um þvingaða aðild að bandalaginu að ræða.  Er breska pundið besti kosturinn? velti ég upp möguleikum breska pundsins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gísli Ingvarsson

MIg langar til að vitna í þig: "Ég hef ekki miklar efasemdir um stöðumat Benedikts og stjórnar CCP en ég hef aftur á móti efasemdir um að tilveruna í ESB með tilheyrandi fullveldisafsali, afsali fulls forræðis yfir landbúnaðarmálum og einnig afsali yfir nýtingu sjávarauðlinda. Hvernig verður öryggismálum í ESB t.d. háttað? Mun síðar verða stofnaður Evrópuher og mun e.t.v. verða herskylda í þeim her? Verða Íslendingar þá herskyldir? Er þetta allt ásættanlegt fyrir það eitt að fá að skipta um gjaldmiðil?"

Heldurðu að þú hafir kynnt þér þessi mál hlutlægt eða kanntu bara utan að áróður sem hefur verið plantaður í þig ogendurtekur nákvæmlega einsog þú værir að skrifa fyrir heimasíðu Heimssýnar?

Mér finnst þú gætir vandað aðeins málflutning þinn. Allt þetta sem þú segir er bara endurómur af því sem maður hefur lesið hjá öðrum og ekki fundist passa við raunveruleikann.

Ótti við framtíðina er manninum eðlilegur en að ala á óraunhæfum væntingum um að aðrar þjóðir vilji okkur illt og að aðrara þjóðir séu að yfirtaka okkur en ekki að við séum að leitast við að fara í samvinnu við aðrar þjóðir á jafnréttisgrundvelli að svo miklu leyti sem smáþjóð yfirleitt getur farið fram á slíkt.

Það er ljótt að hræða börn og styggja dýr. Mér finnst áróður af því tagi sem þú endurvarpar (því þetta hefur þú ekki hugsað til enda sjálfur) vera ljótur leikur. Enginn segir að ES sé himnaríki á jörð. Það er kannski himnaríki fyrir þá sem trúa á skrifræði en fyrir okkur venjulega borgara er skrifræði ill nauðsyn og alveg sérstaklega í fjölþjóðasamningagerð sem taka á eitthvart mark á.

Kommon Breska pundið! Íslendingar þurfa nýja efnahagsstefnu. Pund eða Evra eða Króna er ekki lausn í sjálfu sér. Tími pólitíska reddingaleiksins er liðinn. Nú þarf að gera breytingar sem máli skipta. Aðlögunarferli evrunnar knýr okkur til slíkra lífsnauðsynlegra breytinga. EF við meinum eitthvað með þessu þjóðlífi hérna. Takist okkur að ná skilyrðum upptöku Evru verður það mesta efnahagsbylting sem Íslendingar hafa tekist á hendur um. Verður hún okkur til góðs? Það má fjandinn vita en þá höfum við amk reynt eitthvað í alvöru. Góð tilbreyting það.

Gísli Ingvarsson, 19.4.2009 kl. 11:58

2 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Gísli, þú ættir að vanda þig betur við lesturinn. Það sem ég geri er að viðra efasemdir og spyrja spurninga. Ef þú lítur aftur yfir textann þá sérðu spurningarmerki fyrir aftan setningarnar. Ef fólk má ekki lengur hafa efasemdir um tilveruna í ESB og velta fyrir sér spurningum um hvernig tilveran þar verði þá er illa komið fyrir málfrelsi okkar. Ég væri þér kannski þóknanlegri ef ég hugsaði ekki sjálfstætt og spyrði engra spurninga. En þannig þjónkun er mér ekki í blóð borin og því verður þú að horfast í augu við það að einhver bæði hugsi, spyrji og reyni að gera sér mynd af framtíðinni og þeim erfiðu spurningum sem hún kann að hafa í för með sér. 

Ég vísa því fullyrðingu þinni um ljótan leik til föðurhúsanna. Í stað þess að tala niður til mín og gera mér upp ótta ættirðu frekar að takast á við þessar spurningar. Það að þú gerir það ekki afhjúpar veikan málstað og lítt ígrundaða framtíðarsýn fyrir íslensku þjóðina í ESB. Hafðu þetta í huga ef þú skrifar hér aftur Gísli.

Það sem vantar í málflutning ESB sinna er að útskýra betur hvernig ástandið á að lagast ef gengið er í ESB. Ég sé heldur ekki í skrifum þínum rökstuðning fyrir því að aðlögunarferli á borð við það sem þú lýsir að evrunni sé útilokað í tilfelli annarra gjaldmiðla.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 19.4.2009 kl. 14:37

3 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Ég skil það svo að ef við tökum upp dollar einhliða þá verðum við að kaupa þessa dollara einsog hvern annan gjaldeyri. Þannig getum við skipt út þeim fyri krónur. Hinsvegar getum við ekki prentað dollara eftir þörfum sjálf. Seðlabandki bandaríkjanna mundi ekki láta dollara af hendi við okkur nema sem lán gegn vöxtum. Allur okkar útflutningur færi í að halda uppi þessu kerfi og ef eitthvað á bjátaði einsog verðfall á fiski eða eitthvað annað þá gærum við ekki lengur keypt eða fengið lánað dollara og það þýðir lausarfjárskortur. Það er skelfilegt ef á það reyndi. Sama með einhliða Evrur eða pund. ESB er eina myntsvæðið sem býður uppá að hægt sé að taka skipulega upp myntina að gefnum og uppfylltum skilyrðum. Aðlögunarferlið tekur tíma og hraðinn fer eftir því hversu vel okkur gengur að ná markmiðunum. Þangað tilverður seðlabanki esb bakhjarl. Þannig skil ég nú þetta.

Gísli Ingvarsson, 19.4.2009 kl. 18:40

4 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Í sambandi við upptökuna/gjaldmiðilsskiptin þá er rætt um að í báðum tilfellum sé gengið fest á ákveðnum tímapunkti og gjaldmiðlinum skipt út. Í tilfelli evrunnar eru seðlabankar Evrópu bakhjarlar til þrautavara og það er líklega kostur, en ég hef samt efasemdir um að þeir verði tilbúnir til mikilla lána í því tilfelli að hrun væri yfirvofandi.

Í tilfelli dollars/punds yrði seðlabanki Íslands og aðrir aðilar á markaði að koma sér upp varasjóði í gjaldeyri. Í tilfelli yfirvofandi hruns yrði gengið á þann varasjóð og ekki væri um að ræða lán til þrautavara.

Í báðum tilfellum verður samt að vera til staðar varasjóður í gjaldeyri, í hinu fyrra með baktryggingu erlendra seðlabanka, í hinu fyrra trúlega heldur stærri sjóður en án baktryggingar. Bæði kerfin krefjast mikils innri aga og meiri varfærni í fjármálameðhöndlun heldur en við höfum búið við hér.

Ástæðan fyrir því að menn virðast veðja frekar á evruna er því að líkindum baktryggingin sem og aðhaldið, eða hinn ytri agi sem kemur til vegna ESB samstarfsins. Fyrri rökin eru nokkuð sterk en hin síðari grundvallast að líkindum á vantrú á að við náum að beita okkur þeim pólitíska aga sjálf sem þarf til að sigrast á vandanum. Að því leyti erum við frábrugðin þeim mönnum sem byggðu upp lýðveldið, þeir trúðu óhikað á að þeir hefðu þá getu, þann aga og það áræði sem nauðsynlegt væri til að styðja fullveldið.

Einnig hefur verið nefnt að með inngöngu í ESB muni aðrir fá meiri trú á okkur. Það eru ótrúleg rök. Enginn mun hafa meiri trú á okkur en við sjálf og okkar eigin sjálfstraust heimilar. Hver ber höfuðið hærra þegn lítillar en alveg fullvalda þjóðar eða þegn milljónaþjóðar sem veit að hann mun lítil áhrif geta haft á allri sinni ævi?

Rökin um baktrygginguna vega þungt en þau þarf samt að skoða í víðara samhengi. T.d. þessu: Viljum við fórna yfirráðum yfir sjávarauðlindinni sem við munum á endanum þurfa að gera ef við göngum í ESB, fyrir prósentumismuninn á núverandi útflutningi til evrusvæðisins og útflutningnum til Bretlands. En sá munur er 32% af útflutningi fyrir árið 2007 [1]. Sá munur getur trúlega sveiflast eitthvað milli ára. Til að finna út heildaráhrif þarf einnig að reikna hver ávinningur verður af því að halda forræði yfir sjávarauðlindinni í innlendri eigu. Einnig þarf að vega og meta hver verður greiðslujöfnuður Íslands m.t.t. ESB, mun ESB aðildin að endingu verða okkur dýr í formi skatta og gjalda eða munum við njóta það ríkulegra styrkja að þeir vega upp skattana?

Ragnar Geir Brynjólfsson, 19.4.2009 kl. 20:56

5 Smámynd: P.Valdimar Guðjónsson

Sæll Ragnar. 

Ágætis greining hjá þér á stöðunni.    Svo ég komi beint að kjarnanum þá hef ég efasemdir um ágæti þess fyrir örsmáa smáþjóð í íbúatölu talið að fara inn í þessa risasamsteypu sem ESB er.      Ekki frekar en Grænlendingar svo dæmi sé tekið, (einu sem fóru út) ekki frekar en Sviss, ekki frekar en Luxemburg, ekki frekar en Noregur.          Smáþjóð sem er að vísu blönk í augnablikinu en  á nóg af auðlindum í hafinu, landinu og menntuðu fólki.

Krónan var í sjálfu sér ekkert vandamál til skamms tíma.   Kostirnir eru tvímælalaust sveigjanleikinn sem eigin mynt gefur.     Ég trúi samt ekki öðru en við höfum lært okkar lexíu síðustu mánuði.  Botninn reyndar eftir og þessa lexíu hefðum við öll viljað vera án.     Vandamálið núna eru Jöklabréfin.  Þessir braskpeningar sem urðu innlyksa.  Nú þarf að vinna í því öllum árum að eigendur þessa fjár fjárfesti hérlendis.   Með skuldabréfaútgáfu eða á annan hátt.    Þar gefa orkulindirnar tækifæri í t.d. gagnaver og fleira.

Ég sé í sjálfu sér ekkert því til fyristöðu að stærri fyrirtæki fái að gera upp í erlendri mynt óski þau þess.  Með skilyrðum að sjálfsögðu.  Það bætir t.d. skuldastöðu Landsvirkjunar nú að hún gerir upp í dollurum að stórum hluta.

kv. Valdimar.

P.Valdimar Guðjónsson, 24.4.2009 kl. 11:33

6 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Sæll Valdimar og takk fyrir innlitið.

Já, ég tek undir með þér. Það þarf að bæta starfsumhverfi fyrirtækjanna og losna við þessar miklu sveiflur í verði gjaldmiðilsins með einhverjum ráðum. Til þess hlýtur að þurfa bæði pólitískan og samfélagslegan aga.

B.kv.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 27.4.2009 kl. 20:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband