Þriðjudagur, 14.4.2009
Kjósendur fái að minnsta kosti þrjá valkosti í ESB kosningum
Sumir stjórnmálamenn tala um að nauðsynlegt sé að sækja um aðild að ESB svo þjóðin fái að vita að hverju hún gengur hvað varðar ESB. Nú kann það að vera að margir séu hlynntir ESB aðild á þeim forsendum helstum að þar fái þjóðin tækifæri til að skipta um gjaldmiðil.
Engan af þessum ESB talsmönnum hefi ég samt heyrt ræða um nauðsyn þess að hafa fleiri kosti en evruna í boði fyrir þá kjósendur sem vilja nýjan gjaldmiðil. Ef valið stendur bara um íslensku krónuna og evru með ESB aðild þá er líklegt að ýmsir kjósi ESB aðildina nauðugir viljugir því enginn annar gjaldmiðilskostur er í boði. Ef kosningar um aðild að ESB verða á dagskrá mun einnig í þeim sömu kosningum verða að vera búið að kanna annan nýjan valkost í gjaldeyrismálum en evru. Annars skapast hætta á að um þvingaðar kosningar verði að ræða og þjóðin missi fullveldi sitt nauðug því hún hefur ekki aðra nýja kosti í gjaldmiðilsmálum en evruna.
Þessir aðilar tala réttilega um nauðsyn þess að þjóðin fái að velja, en ef val hennar á að vera frjálst þá verður hún að hafa fleiri en tvo kosti í boði í gjaldeyrismálum, þ.e. bara krónuna eða evruna. Í síðasta pistli mínum Er breska pundið besti kosturinn? benti ég á ýmis atriði sem mæla með breska pundinu. Það er eru reyndar vísbendingar um að það sé heppilegri kandídat í gjaldeyrismálum heldur en Bandaríkjadollar. Með því að skoða málin þá má segja að hægt sé að vega og meta pund og evru þannig:
Viljum við fórna yfirráðum yfir sjávarauðlindinni sem við munum á endanum þurfa að gera ef við göngum í ESB, fyrir prósentumismuninn á núverandi útflutningi til evrusvæðisins og útflutningnum til Bretlands. En sá munur er 32% af útflutningi fyrir árið 2007 [1]. Sá munur getur trúlega sveiflast eitthvað milli ára. Til að finna út heildaráhrif þarf einnig að reikna hver ávinningur verður af því að halda forræði yfir sjávarauðlindinni í innlendri eigu. Einnig þarf að vega og meta hver verður greiðslujöfnuður Íslands m.t.t. ESB, mun ESB aðildin að endingu verða okkur dýr í formi skatta og gjalda eða munum við njóta það ríkulegra styrkja að þeir vega upp skattana? Við skulum gera okkur grein fyrir því að það eru fleiri valkostir í boði en evran og það þarf að reikna þetta dæmi til enda til að þjóðin hafi raunhæfar forsendur til frjáls vals en verði ekki þvinguð með nauðung til að kjósa ESB bara vegna þess að hún vill nýjan gjaldmiðil.
1. http://www.forsaetisraduneyti.is/media/Ymislegt/Evran.pdf
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Utanríkismál/alþjóðamál, Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.