Er breska pundið besti kosturinn?

Umræður um hvað gera skuli í gjaldeyrismálum virðast vera komnar í öngstræti og þrætur um aðild að ESB. Í þessu sambandi má benda á að nýlega benti breski Evrópuþingmaðurinn David Hannan á sterk rök fyrir því að Íslendingar eigi að taka upp breska pundið. Frétt þess efnis birtist um þetta á mbl.is hér og grein Davids er að finna hér. Rök hans eru í stuttu máli þessi:

1. Bretland er stærsta viðskiptaland Íslands. 19% af útflutningi Íslands fara til Bretlands. Þá eru fjárfestingar Íslendinga meiri í Bretlandi en í öðrum ríkjum samanlagt.

2. Upptaka pundsins er ekki eins dýr og aðild að ESB. Íslendingar munu halda yfirráðum yfir auðlindum sínum og þurfa ekki að greiða stórfé í sjóði ESB.

3. Líkur eru á að Bretar væru í besta falli ánægðir með þá aðgerð en í versta falli stæði þeim á sama.  „Okkur líkar vel við ykkur," segir Hannan og bætir við að ólíkt mörgum ESB-ríkjum hafi Bretar aldrei séð ofsjónum yfir velgengni Íslendinga eða litið á sjálfstæði Íslands sem ógn við Evrópuþróunina. „Ermarsundseyjarnar og Mön eru í gjaldmiðilssambandi við Bretland en standa utan Evrópusambandsins. Þær eru miklu ríkari en við en okkur er alveg sama."

Varðandi fyrstu rökin þá hlýtur að vera hagkvæmt fyrir útflytjendur vöru að þurfa ekki að kaupa íslenskar krónur af bönkum þegar gjaldeyrir er fluttur heim. Þannig næst fram sparnaður sem gerir útflutningsgreinarnar samkeppnishæfari og ætti að auka umfang og veltu í frum- og útflutningsframleiðslugreinum fremur en bankageiranum eins og verið hefur hingað til.

Heimild: http://www.mbl.is/mm/vidskipti/frettir/2009/02/15/island_aetti_ad_taka_upp_breska_pundid/

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kjartan Birgisson

Ertu ekki að jóka? Setti ekki Gordon Brown á okkur terroistalög fyrir stuttu.

Kjartan Birgisson, 11.4.2009 kl. 14:06

2 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir innlitið Kjartan. Nei, þetta er ekki brandari, frekar vangaveltur um  hagsmuni, nokkurs konar kalt mat. Ég viðurkenni reyndar ákveðna bjartsýni í því að telja að hægt verði að ljúka málum við Breta með sátt og þegar til lengri tíma litið þá sé um beina viðskiptahagsmuni að ræða, sérstaklega útflytjenda. Rökin halda þó tekið sé tillit til hryðjuverkalaga og Icesave.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 11.4.2009 kl. 16:08

3 identicon

Já þegar ég er í nammibúð getur verið erftt að velja hvaða nammi ég vil fá mér. Þetta er svoldið svipað er það ekki. Við getum bara skipt í hvaða mynt sem við viljum er það ekki? Ég skal spara ykkur skrifin og svara eigin spurningu. NEI.

Evrópusambandið er eina apparatið sem er að bjóða Íslendingum að taka upp þeirra mynt tvíhliða. Ef við tækjum upp Breska pundið þá væri það einhliða og er það í raun ekki valkostur. Myndi þýða að við færum á hausinn einfaldlega ef einstaklingar vildu taka peninginn sinn út af bankabókinni.

Munurinn á einhliða og tvíhliða upptöku er sá að einhliða er í raun ekki valkostur. Þess vegna er umræðan um upptöku nýs gjaldmiðils og Evrópusambandið ein og hin sama enda er evra innan Evrópusambandsins eini kosturinn ef ekki á að halda áfram með krónuna, höftin, verðtrygginguna og óstöðuleikann.

 Vinsamlegast ekki blogga um hluti sem þú skilur ekki. Eina sem svoleiðis blogg gera er að valda því að aðrir skilji hlutina eins illa og þú.

egill (IP-tala skráð) 11.4.2009 kl. 21:57

4 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Egill, það eru til dæmi um einhliða upptöku gjaldmiðla og því hlýtur það að vera framkvæmanlegt með einhverju móti, þó ekki mæli ég gegn því að sú framkvæmd hlýtur að vera vandasöm og fela í sér breytingar og aðlögun.

Lokaorðum þínum Egill vísa ég á bug og áminni þig jafnframt um að sýna kurteisi viljir þú að athugasemdir þínar fái að standa. Það að þú vilt þagga niður í mér bendir til að málstaður þinn sé veikburða. Hérlendis ríkir málfrelsi og fólki er heimilt að blogga um allt milli himins og jarðar, þar með talið vangaveltur sínar og einnig að velta upp spurningum. Ég bendi jafnframt á að í innleggi þínu eru órökstuddar fullyrðingar óskyldar efni pistilsins sem í engu hrekja þau rök sem ég tíni til fyrir upptöku bresks punds.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 11.4.2009 kl. 23:42

5 identicon

Ég er ekki að segja að ég yrði ekki fullkomlega ánægður með Dollar, Evru, Pund eða svissneska franka. Ég er bara að segja að það verður að gera það með tvíhliða upptöku sem er bara í boði innan Evrópusambandsins. Þess vegna er þessi bloggfærsla svoldið misvísandi til þeirra sem ekki skilja málið . Ekkert persónulegt en þessi umræða er ekki til neins án þess að við áttum okkur á því að það er ekki í boði að taka t.d. upp punið einhliða.

Ef við hefðum t.d. tekið upp pundið (eða annan gjaldmiðil) einhliða fyrir bankahrunið hefði t.d. innlenda áhlaupið sem varð í kjölfar bankahrunsins orðið til þess að ríkið hefði ekki getað tryggt innistæður í bönkunum, ekki einu sinni innlendar innistæður. Sem sagt dagana eftir bankahrunið þegar almenningur fór í bankana og tók íslensku krónurnar sínar út og setti þær undir rúmmið sitt hefði ríkið ekki getað greitt út innlendu innistæðurnar.

Svo jú það er framkvæmalegt en mjög hættulegt enda gæti ríkið ekki tryggt með góðu móti innlendar innistæður og hættan á því að einstaklingar missi trú á bankakerfinu og geri áhlaup mikil.

Egill (IP-tala skráð) 12.4.2009 kl. 00:01

6 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Daniel Hannan

Hjörtur J. Guðmundsson, 12.4.2009 kl. 08:20

7 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Evra með inngöngu í Evrópusambandið er ekki kostur þar sem 1) ókostir inngöngu eru einfaldlega svo gríðarlegir og 2) vegna þess að ef einhver gjaldmiðill í heiminum er ónýtur vegna baklands á brauðfótum þá er það evran.

Þeim fjölgar fyrir vikið sífellt fræðimönnunum, stjórnmálamönnunum og fjármálastofnununum sem hafa vaxandi áhyggjur af framtíð evrunnar. Meira að segja framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er í þeim hópi.

Nú er ég krónusinni, en þess má þó geta að tvíhliða upptaka annars gjaldmiðils er alveg möguleg t.d. í samstarfi við bandarísk stjórnvöld. Sá möguleiki hefur einfaldlega ekkert verið kannaður. Hefur málið verið kannað hjá stjórnvöldum í Vostúni? Nei.

Þess utan má nefna það að Gordon Brown og ríkisstjórn hans eru ekki Bretar. Það er ekki ósennilegt að flokkur hans verði ekki einu sinni í næstu ríkisstjórn þar í landi en boða verður til þingkosninga í Bretlandi í síðasta lagi í júní á næsta ári.

Hjörtur J. Guðmundsson, 12.4.2009 kl. 08:27

8 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Ragnar það á að skoða þennan möguleika eins og hvern annan. Hins vegar líst mér ekki á samstarf við Breta á meðan jafnaðarmenn eru þar við völd. Síðar, af hverju ekki? Áður en við tökum upp gengi annars gjaldmiðils, verðum við að hreynsa út úr kerfinu, s.s. jöklabréfin.

Sigurður Þorsteinsson, 12.4.2009 kl. 08:29

9 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir innlitin og athugasemdirnar.

Egill, þú endurtekur órökstuddar fullyrðingar um að tvíhliða upptaka Evru sé eini kosturinn. Ég var búinn að segja að einhliða upptaka gjaldmiðla hefur verið framkvæmd áður og því hlýtur það að vera hægt. Þessi punktur er samt fyrir utan umræðuefnið og mig langar að biðja þig að halda þig við efni bloggfærslunnar. 

Þær ímynduðu aðstæður sem þú dregur upp af Íslandi með pund í miðju efnahagshruninu hafa ekki vægi í þessari umræðu af þeirri einföldu ástæðu að þær aðstæður voru ekki til staðar. Ég reikna með að ef pund  yrði tekið upp þá yrði fjármálaramminn hannaður með tilliti til þess og mjög líklega gerður styrkari en hann var fyrir hrun. Þessar aðstæður sem þú lýsir yrðu því ólíklegar og hætturnar yrðu einhverjar aðrar og nýjar sem við ættum erfitt með að sjá fyrir. Okkur gengur yfirleitt vel að verjast því sem við búumst við en erfiðlega að verjast hinu óvænta.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 12.4.2009 kl. 09:23

10 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Hjörtur: Daniel Hannan? Það stendur David Hannan í fréttinni. Við getum kallað hann bara Hannan til öryggis.

Við erum greinilega sammála þegar kemur að evrunni. Því má bæta við innlegg þitt að evra hefur sömu ókosti og króna þegar kemur að viðskiptum við Breta sem eru okkar helstu viðskiptaaðilar. Það þarf að skipta pundunum í krónur eða evrur ef þær verða teknar upp. Sá kostnaður er ekki mikill ef skipt er 100 krónum en er orðinn umtalsverður strax og 1 milljón er skipt. Þetta er kostnaðurinn sem útflytjendur hafa þurft að greiða fyrir krónuna og þessir peningar hafa ekki runnið til ríkisins, nei heldur til bankanna.

Sama yrði uppi á teningnum ef dollar yrði tekinn upp. Áfram þyrfti að skipta bróðurparti erlendra viðskipta í aðra mynt. Pundið er því óumdeilanlega besti kosturinn.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 12.4.2009 kl. 09:30

11 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Sigurður, já nákvæmlega. Það eru rök fyrir bjartsýninni en eins og þú bendir á þá getur leiðin að markinu verið torsótt. En ef markmiðið er til staðar þá verður ferðin þangað auðveldari.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 12.4.2009 kl. 09:33

12 identicon

'Þær ímynduðu aðstæður sem þú dregur upp af Íslandi með pund í miðju efnahagshruninu hafa ekki vægi í þessari umræðu af þeirri einföldu ástæðu að þær aðstæður voru ekki til staðar. Ég reikna með að ef pund  yrði tekið upp þá yrði fjármálaramminn hannaður með tilliti til þess og mjög líklega gerður styrkari en hann var fyrir hrun. Þessar aðstæður sem þú lýsir yrðu því ólíklegar og hætturnar yrðu einhverjar aðrar og nýjar sem við ættum erfitt með að sjá fyrir. Okkur gengur yfirleitt vel að verjast því sem við búumst við en erfiðlega að verjast hinu óvænta. "

Við verðum að læra af fortíðinni.  Þú talar um að við værum  með  styrkari fjármálamarkaði en ég spurði: Hvernig kemurðu í veg fyrir áhlaup ef þú átt ekki greiðan aðgang að þínum eigin gjaldmiðil. Hvernig veitirðu lausafé ef bankarnir þarfnast þess. Jú þú myndir þurfa að taka lán til þess þ.e. steypa okkur í skuldir. Þetta voru vandamálin sem ollu bankahruninu. Ég svaraði ekki þínum rökum vegna þess að það er alveg satt að pundið kæmi okkur vel en það er einfaldlega ekki vandamálið við að taka upp einhliða annan gjaldmiðil.

Egill (IP-tala skráð) 12.4.2009 kl. 13:23

13 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Egill: Já, við verðum að læra af fortíðinni, því er ég sammála en það verða þá að vera raunverulegar aðstæður sem við lærum af, ekki ímyndaðar.

Það þarf ekki að taka lán ef varasjóðir eru til staðar og ég reikna með að það ætti að vera hægt að byggja upp þannig stoðir, einmitt til varnaðar og til að standast áhlaup. Í rauninni er staðan þannig núna að Tryggingarsjóður bætir krónuupphæðir allt að 20.000 evrum. Það sem neyðarlögin gerðu var að slá skjaldborg um hærri innstæður ef þær voru í íslenskum útibúum. Um þetta sýnist mér að Icesave deilan standi, þ.e. bresk stjórnvöld vilja sama rétt fyrir breska þegna og sömu tryggingu fyrir þá sem eiga meira en 20.000 evrur. Hvernig lög og reglur þróast með tryggingasjóðina í kjölfar hrunsins er ekki séð fyrir á þessari stundu.

Ég sé ekki í fljótu bragði af hverju varasjóður í evrum er betri en varasjóður í pundum nema af því að hann væri að nafninu til tryggður af Seðlabanka Íslands þó raunbakhjarlar væru seðlabankar Evrópu.  Aðalatriðið er að eiga varasjóði og hafa þá nógu stóra miðað við aðstæður. Raunbakhjarl á bakvið varasjóð í pundum væri Englandsbanki. Seðlabanki Íslands ætti sem best að geta komið sér upp varasjóði í pundum á reikningi þar.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 12.4.2009 kl. 15:05

14 identicon

Þetta er jú ímyndaðar aðstæður hjá mér en pointið er þó að innlent áhlaup er ekki aðeins ímynduð hætta heldur gerðist þetta síðast í október.

 Ertu að segja að það væri ekkert mál að safna saman gjaldeyrisvaraforðasjóð sem þyrfti kannski að vera 50% af landsframleiðslu. Hafðu í huga að þú getur aðeins notað  lántöku eða gjaldeyrismarkaðinn til að safna þessu.

Ég veit ekki hvað þú ert að tala um þegar þú ert að tala um  þegar þú segir að Englandsbanki myndi vera raun bakhjarl okkar. Hvorki Englandsbanki né nokkur annar erlendur seðlabanki myndi aðstoða bankana ef áhlaup yrði. Varasjóðurinn yrði eina sem er notað til aðstoða bankana. Ég sé ekki hvernig Ísland gæti safnað saman nægilega stórum sjóð til að verja þetta án þess að taka stórar lántökur.

Egill (IP-tala skráð) 12.4.2009 kl. 21:21

15 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Ertu að segja að það væri ekkert mál að safna saman gjaldeyrisvaraforðasjóð sem þyrfti kannski að vera 50% af landsframleiðslu. Hafðu í huga að þú getur aðeins notað  lántöku eða gjaldeyrismarkaðinn til að safna þessu.

Nei, það segi ég sannarlega ekki ég lít á þetta sem langtímamarkmið bæði í tilfelli pundsins eða evrunnar.

Ég veit ekki hvað þú ert að tala um þegar þú ert að tala um  þegar þú segir að Englandsbanki myndi vera raun bakhjarl okkar. Hvorki Englandsbanki né nokkur annar erlendur seðlabanki myndi aðstoða bankana ef áhlaup yrði. Varasjóðurinn yrði eina sem er notað til aðstoða bankana. Ég sé ekki hvernig Ísland gæti safnað saman nægilega stórum sjóð til að verja þetta án þess að taka stórar lántökur.

Já, nákvæmlega, innistæða Seðlabankans í Englandsbanka yrði sá varasjóður sem hægt væri að grípa til. Ég er ekki að tala um að hann lánaði neitt meira en eðlilegt þætti.  Ég tala ekki um hann í neinum öðrum skilningi en að hann væri banki Seðlabankans og varðveitti sjóði hins síðarnefnda í pundum.

Mér hefur líka skilist að um upptöku evru gildi strangar reglur og að mikill fjármálalegur stöðugleiki sé forsenda upptöku hennar. Ég gæti nú líka best trúað að Seðlabankar Evrópu færu gætilega í að dæla lánsfé inn í íslenska banka sem stæðu tæpt og að staðan með evru yrði því ekki svo mjög ólík því sem staðan yrði með pundið, þ.e. að hár gjaldeyrisvaraforði sé líka nauðsynlegur í tilfelli evrunnar.

Eftir stendur ef við værum með evru að stærsti viðskiptaaðili okkar yrði með annan gjaldmiðil, þ.e. Bretland með pundið og í því tilfelli gæti óhagstæð gengisþróun haft alvarlegar afleiðingar á frumframleiðslugreinar, t.d. ef evran stæði hátt gagnvart pundi. Það gæti farið verulega illa með íslenskar frumatvinnugreinar, múlbundið þær til lengri tíma og valdið miklu meiri og varanlegri skaða en nýlegt hágengistímabil íslensku krónunnar hefur valdið. Það er miklu heppilegra og eðlilegra að vera með sama gjaldmiðil og stærsti viðskiptaaðilinn og minnka áhættu vegna óhagstæðs gengis sem og bankakostnaðinn sem ætti að vera alveg óþarfur.  

Ragnar Geir Brynjólfsson, 12.4.2009 kl. 21:54

16 identicon

Skv. vísindavefnum flytjum við reyndar út um helming til evrusvæðisins.

http://www.why.is/svar.php?id=3875

Egill (IP-tala skráð) 12.4.2009 kl. 23:22

17 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Þessar tölur frá vísindavefnum eru fyrir eitt ár, þ.e. 2002. Það ár var flutt mest út til Þýskalands. Ég fór inn á hagstofuvefinn til að reyna að finna áreiðanlegar tölur fyrir síðustu ár en þar eru engar auðfengnar samantektir að finna, bara tengingar á veftöflur og það þarf að leggja tíma og vinnu í að safna þessu saman.

Já, það er rétt, það er auðvitað sterk röksemd með evrunni og móti pundinu ef í ljós kemur að útflutningur er að meðaltali meiri til evrulandanna þegar horft er til síðustu ára. Um þetta þyrftu að liggja fyrir áreiðanlegar upplýsingar þar sem samanburður kemur fram til síðustu ára og flokkaður eftir framleiðslugreinum. Nú þegar harðnað hefur á dalnum virðist hafa komið í ljós ef marka má fréttir að þeir markaðir sem kalla hvað sterkast eftir fiski eru á Bretlandi.

Ef munurinn á útflutningi til evrusvæðisins og pundsvæðisins er pundinu óhagstæður þá þarf að taka önnur rök með í reikninginn svo sem eignasöfn íslendinga sem fyrir eru í þessum löndum, hvort það sé heppilegra með tilliti til matvælaöryggis að láta frumframleiðslugreinar njóta forgangs og einnig síðast en ekki síst spurningar um fullveldi og sjálfstæði þjóðarinnar og forræði hennar yfir auðlindum sínum. Í hinu víða samhengi hljóta þessi atriði að skipta máli þegar heildarhagsmunir eru metnir.  

Ragnar Geir Brynjólfsson, 13.4.2009 kl. 09:07

18 identicon

Skv. þessu frá 2007:

http://www.forsaetisraduneyti.is/media/Ymislegt/Evran.pdf

Er 51,34% af útflutningin okkar til evrusvæðisins, 38,27% af innflutningi frá evrusvæðinu en 19,15% af útflutningi og 6,53% af innflutningi frá Bretlandi.

Því er skv. þessu auðsýnilegt að evrusvæðið og evran hefur að meðaltali 3 sinnum meira vægi fyrir okkar út- og innflutningi.

Egill (IP-tala skráð) 13.4.2009 kl. 11:29

19 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir þessar upplýsingar Egill, þessi skýrsla er mjög fróðleg. Sérstaklega lokaorð hennar þar sem segir:

Fátt bendir til að skynsamlegt sé fyrir Íslendinga að taka upp evruna, með einum eða öðrum hætti, án þess að ganga í sambandið. Allar hugmyndir um að taka upp evruna án þess að ganga í sambandið virðast óraunhæfar, a.m.k. hafa ekki verið kynnt sannfærandi rök fyrir því unnt væri að taka upp evru á öðrum grunni.

Hið kalda reikningsdæmi snýst því um það hvort við viljum fórna yfirráðum yfir auðlindunum sem við munum á endanum þurfa að gera ef við göngum í ESB, fyrir prósentumismuninn á núverandi útflutningi til evrusvæðisins og útflutningnum til Bretlands. En sá munur er skv. skýrslunni 32% af útflutningi fyrir árið 2007. Sá munur getur trúlega sveiflast eitthvað milli ára. Til að finna út heildaráhrif þarf því að reikna hver ávinningur verður af því að halda forræði yfir auðlindunum, svo sem sjávarafurðum, jarðhita, landgæðum og vatnsafli í innlendri eigu, en hann hlýtur að vera umtalsverður og líklegt er að hann muni vega upp þessi 32 prósent.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 13.4.2009 kl. 15:59

20 identicon

Já mér sýnist við vera sammála um dauða krónunar sem raunhæfur gjaldmiðill.

 Sjávarútvegurinn er eina auðlindin sem ESB skiptir sér að. En kvótar verða úthlutuaðir eftir því hver hefur veitt fiskinn á svæðinu áður þ.e. Íslendingar. En höfum það í huga að framtíðin byggist ekki á fiskveiðum... ef svo er þá nenni ég nú ekki að halda áfram í próflestri fyrir vorprófin.

 Annars er það rétt að þetta er hagsmunamat. Í mínu tilfelli sem ungur maður sem á eflaust eftir að kaupa sér hús, á eftir að spara fyrir ellilífeyrinn (ég vil spara í alvöru mynt), er illa við verðtrygginguna og hefur ekki yfir neinum sérstökum fordómum að búa gagnvart útlendingum þá tel ég að mínir hagsmunir séu þannig að evrópusambandið er málið.

Egill (IP-tala skráð) 13.4.2009 kl. 16:26

21 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Krónan á sér því miður litla framtíð því litlir gjaldmiðlar á borð við krónuna eru kjörlendi fyrir vogunarsjóði og miklu betri til spákaupmennsku en hlutabréf fyrirtækja, sérstaklega þar sem hlutabréfamarkaður er til staðar. Það er af því að sveiflur gjaldmiðlanna eru fyrirsjáanlegri heldur en sveiflur í gengi hlutabréfa einstakra fyrirtækja eða sjóða. Þessi ástæða ein gerir að verkum að til framtíðar er hún ónothæf þó til skemmri tíma sé hún nauðsynleg en þó með gjaldeyrishöftum.

Framtíðin byggist ekki á fiskveiðum einum en fiskveiðar eru samt ein af frumframleiðslugreinunum hér og í kringum þær gæti sprottið upp enn meiri iðnaður heldur en orðið hefur. Frumframleiðslugreinar á borð við fiskveiðar og landbúnað geta líka af sér annan iðnað sem og hátækniiðnað ef rétt er spilað en því miður hafa kvótakerfi bæði í landbúnaði og fiskiðnaði hamlað vexti og þróun innan greinanna því svo mikið af hagnaði greinanna fer í fjármagnskostnað.

Frelsið og forræði eigin mála er líka auðlind og því ætti ekki að varpa fyrir róða fyrir stjórnvaldsákvarðanir ESB svo léttilega þó svo virðist sem því fylgi fjárhagslegur hagnaður. Alla vega alls ekki til skemmri tíma og jafnvel ekki til lengri tíma. Þetta hefur lítið með útlendinga að gera. Ef við förum í ESB þá lokast sjálfkrafa á mikið af tengslum sem við gætum haft við Ameríku, Afríku og Asíu. Það eru reistir strangir varnarmúrar reglugerða og hafta um ESB og þangað er erfitt að komast fyrir utanaðkomandi. Þangað til fyrir skömmu var ekki svo erfitt fyrir Asíufólk að komast til Íslands en nú er reglum ESB beitt af fullum þunga á það fólk og vinnuveitendum sem vilja fá fólk þaðan er bent á Evrópskar vinnumiðlanir.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 13.4.2009 kl. 18:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband