Um hlutverk ríkisvaldsins - hvernig á að þekkja svanasöng stofnunar?

Atburðir síðustu daga í fjármálaheiminum sem felast í öflugu inngripi bandaríska ríkisins til viðreisnar fjármálamarkaðnum þar í landi varpa ljósi á hlutverk ríkisvaldsins: Það á að grípa inn í þegar enginn annar getur bjargað málunum og það á að aðhafast þegar enginn annar hefur bolmagn til framkvæmda. Að öðru leyti er að líkindum heppilegast að það haldi sig til hlés, a.m.k. á mörgum sviðum eins og önnur dæmi sýna þó ákveðin rök séu fyrir því að ríkið haldi uppi samgöngum og dreifikerfum, svo sem vegakerfis, veitna, raf eða símalína og sjái um að gæta hagsmuna almennings þegar kemur að öryggi og auðlindum jarðar. Kostir frjáls markaðar eru frumkvæði, sköpunarkraftur og hagsæld en kostir ríkisframtaks eru öryggi og góð hæfni til að viðhalda óbreyttu ástandi. Ókostir frjáls markaðar eru því að líkindum sveiflur og óöryggi en höfuðókostur ríkisframkvæmda er fyrst og fremst stöðnun.  Öryggi og óbreytt ástand annars vegar og sköpunarkraftur og frumkvæði hins vegar virðast því vera andstæður sem togast á og pendúll efnahags- og menningarumræðu sveiflast á milli.

Í þessu ljósi ætti frumkvæði ríkisins sem það tók með stofnun Ríkisútvarpsins að geta talist innan marka eðlilegs inngrips, þó svo  tvær sjálfstæðar útvarpsstöðvar hafi þá þegar verið stofnaðar og a.m.k. önnur þeirra hafi þurft að hætta starfsemi vegna útvarpslaganna sem var auðvitað ekki gott. Það er því kannski frekar spurningin um það hvenær á að hætta sem er erfiðari? Kannski er það þegar lýðum er ljóst að einkaaðilar eru fullfærir um að uppfylla þau skilyrði sem sett eru til starfseminnar? Hvað varðar ljósvakamiðla ætti flestum að vera ljóst að vegna stórstígra tækniframfara síðustu áratuga þá ættu nokkrir einkaaðilar að hafa bolmagn til að rækja bæði menningarlegt hlutverk ríkisins á ljósvakasviðinu sem og öryggishlutverkið. Það frumkvæði og sköpunarkraftur sem slíkt fyrirkomulag leysir úr læðingi myndi fljótlega koma í ljós.

Annmarkar núverandi kerfis eru orðnir býsna áberandi og ég hef bent á þá nokkra eins og yfirlit yfir pistla mína um RÚV sýnir, sem og nokkrir nýrri pistlar. Í fyrradag, föstudaginn 19. september 2008 kemur Morgunblaðið inn á svipuð rök í síðari forystugrein sinni. Þar stendur m.a:

RÚV á frekar að setja peninga skattgreiðenda í að texta fréttir og annað innlent efni í þágu heyrnarskertra (sem eru um 25.000 manns á Íslandi) en að kaupa erlent afþreyingarefni, sem það sýnir í samkeppni við einkareknar sjónvarpsstöðvar.

Þetta tek ég undir, jafnvel þó svo að textað erlent afþreyingarefni komi líka til móts við þarfir heyrnarskertra (vegna textans). Hugsunin er sú að þetta dýrmæta fjármagn á að nota í þágu íslenskrar menningar og frétta af henni en ekki í erlent afþreyingarefni fyrir vel heyrandi fólk sem býðst næg afþreying á frjálsu stöðvunum - og það jafnvel á töluðu íslensku máli.  Nú kann einhver að nefna hinar dreifðu byggðir í þessu sambandi en tækniframfarir síðustu missera eru einnig að bæta stöðu þeirra, og það hljóta flestir að sjá að það er ekki hægt að tefja og standa í vegi fyrir framþróun vegna misskilins velvilja í þágu þeirra sem kjósa að búa afskekkt. Enda var það svo að það var mbl.is en ekki RÚV sem kom fólki til hjálpar í óveðrinu á Austurlandi síðasta vetur þegar síminn komst í lag andartak og fólkið komst inn á mbl.is.

Ég lýk þessum pistli með því að ítreka enn  einu sinni að þó ég gagnrýni RÚV þá beinist sú gagnrýni ekki að starfsfólki stofnunarinnar, né að því sem vel er gert á þeim bæ og vel hefur verið gert, heldur að lagaramma þeim sem stofnunin býr við sem ég tel vera undirrót flest þess sem úrskeiðis fer á þeim bæ.  Ég tek líka fram að vegna sögulegra ástæðna tel ég ekki nauðsynlegt að ríkið losi sig við Útvarp Reykjavík sem hin síðari ár hefur gengið undir nafninu Rás 1 þó að ýmsu megi hyggja hvað þá útvapsrás varðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband