Þannig verða fordómarnir til

Fyrir nokkrum mánuðum fórum við hjónin í matvöruverslun, sem alla jafna er ekki í frásögur færandi en í þetta skiptið gerðist atvik sem hefur orðið mér minnisstætt. En til að skilja það þarf nokkra forsögu.  Þannig er að konan mín er fædd á Filippseyjum en hún kom hingað til lands fyrir 15 árum. Við kynntumst síðan hér á landi og giftum okkur fyrir 13 árum. Skiljanlega er filippseyskur matur í uppáhaldi hjá henni en eins og kunnugir vita er brauðmeti ekki hátt hlutfall af fæðu filippseyskra. Ég aftur á móti borða töluvert brauð og um þetta leyti þá  bakaði ég töluvert í brauðvél.

Í sömu andrá og við gengum inn í búðina benti konan mín spyrjandi á brauðhleif og leit til mín. Ég skildi hana undir eins án þess að hún segði nokkuð. Hún var að spyrja hvort ég vildi kaupa brauð og þá auðvitað um leið hvort ég ætlaði að baka sjálfur. Ég hristi höfuðið og svaraði með snöggu "Nei" - því ég þekkti brauðbirgðir heimilisins betur en hún og var með fyrirætlun um að baka. Hún skildi mig auðvitað strax og fleiri orð fóru ekki á milli okkar eins og oft er hjá hjónum. En í því sem ég sagði þetta gekk hvatskeytlega framhjá okkur ljóshærð ung kona sem varð vitni að öllu sem á milli okkar fór. Skemmst er frá því að segja að hún leit til mín með svo eiturstingandi augnaráði að hjartað missti úr slag. Ég hef með sjálfum mér skemmt mér við þá tilhugsun að ef ég hefði verið fluga þá hefði ég steindrepist. Það sem hún sá var íslenskur karlmaður úti að versla með asískri konu. Konan benti spyrjandi á brauðið og karlinn hreytti út úr sér Nei-i. Því miður sá ég að við hjónin höfðum óafvitandi styrkt verulega þá ímynd í huga þessarar konu að eiginmenn asískra kvenna væru samansaumaðar og fyrirlitlegar karlrembur sem halda fast um pyngjuna og þverskallast við að kaupa brauð handa konum sínum.

Hvað getur fólk gert til að koma í veg fyrir svona atvik. Ég held því miður ekki neitt. Ef til staðar eru neikvæðar staðalmyndir af fólki  þá geta jafnvel smæstu atvik orðið til að styrkja þær í hugum þeirra sem ekki leggja stund á gagnrýna hugsun og horfa aðeins á yfirborðið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnheiður

Þú getur takmarkað gert en fordómar fólks koma fram með ýmsu móti. Þetta viðhorf sem þú lýsir þekki ég hjá góðum vini mínum, hann hefur einmitt lent í baneitruðum augnaráðum og illskiljanlegum athugasemdum. Fáa menn þekki ég betri við sínar konur nema þá minn eigin karl.

Hafðu það gott

Ragnheiður , 25.10.2007 kl. 18:12

2 Smámynd: Eiríkur Harðarson

Ragnar þetta er hlutur sem ég lendi oft í, við þessari stöðluðu hræsni er það eitt að gera að bíta bara í skjaldarrendur og bölva í hljóði. Þetta eru bernskubrestir við því sem er tiltölulega nýtilkomið, þá á ég við fatlaða úti á meðal almennings. Líka þær erlendu konur sem hingað koma og setjast að. Kynþáttafordómar eru samt sem áður staðreynd, jafnt sem og fötlunarfordómar.

Eiríkur Harðarson, 25.10.2007 kl. 22:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband