Jóra í Jórukleif slær í borðið - ástæðan var léleg dagskrá RÚV sjónvarpsins

Í hádeginu í gær, nánar tiltekið kl. 12.06 varð all snarpur jarðskjálftakippur undir Ingólfsfjalli. Á vef Veðurstofunnar stendur að skjálftinn hafi verið um 3 stig en ef jarðskjálftagraf sömu stofnunar er skoðað sýnist skjálftinn vera nær 3,5 stigum. Á vefnum stendur ennfremur að skjálfti hafi fundist á Selfossi og er það nú ekki ofsagt því þegar þetta gerðist var ég staddur í kjallara Fjölbrautaskólans og áhrif skjálftans voru ótvíræð þar. Það var eins og mikið högg hefði verið rekið undir húsið og það nötraði merkjanlega.  Í grunnskóla hér á svæðinu frétti ég af því að stálpuð börn hafi orðið hrædd og þurfti hafi að róa þau.  

Í þessum jarðskjálfta sýndi metnaður RÚV - sjónvarps gagnvart Sunnlendingum sig enn og aftur því eftir því sem ég best veit var ekki minnst á hann einu orði í fréttunum klukkan 7 og þó grunar mig að marga hér á Selfossi a.m.k. hafi þyrst í nánari upplýsingar af því sem gerðist. Nei, útsendingin byrjaði á fregnum af skógareldum í Kaliforníu, ekki ómerku fréttaefni en aftur er það RÚV - ið sem bregst okkur Sunnlendingum fyrst þegar jarðskjálftar ríða yfir. Þetta kemur á tíma þegar við erum enn að jafna okkur á því að starfsstöð RÚV hafi verið lokað hér á Selfossi.

En það þýðir lítið að hafa skoðanir á RÚV - inu. Þetta er stöðin sem þjóðin er ánægðust með og treystir best þrátt fyrir því að hafa staðið sig slælega svo vægt sé til orða tekið á ýmsum sviðum. Því veldur trúlega mikið magn ímyndarauglýsinga sem dynja yfir landslýðinn með reglulegu millibili og kostaðar eru með rekstrarfé stofnunarinnar. Við látum þá segja okkur að þeir séu langbesta stöðin og síðan senda þeir okkur reikninginn fyrir kostnaðinum við "uppfræðsluna". Og það er reikningur sem allir verða nauðugir viljugir að hafa inni á kostnaðaráætlun sinni hvað sem þeim finnst um dagskrá og metnað báknsins.

Ég er samt viss um að ég er ekki einn um þessa skoðun því í gær eignaðist ég öflugan bandamann. Það er Jóra í Jórukleif og skessan sú arna bæði stappaði í hellisgólfið og barði í borðið sitt til að sýna vanþóknun. Á meðan hún hefur ekki tjáð sig neitt frekar um efnið geri ég því skóna að ástæðan hafi verið óánægja hennar með framandi dagskrárefni á engilsaxnesku máli og lítill metnaður RÚV - sjónvarpsins gagnvart hugðarefnum og lífi okkar Sunnlendinga.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Hmm... athyglisvert. Þeir komu samt með ítarlegar fréttir í sama tíma af járnplötum sem fuku af skúr á Fáskrúðsfirði í rigningu og roki, myndir voru birtar af skúrnum og viðtað við björgunarsveitarmann - allt hið besta mál.

Er jarðskjálfti upp á 3.2 á Richter ekki stór viðburður? Ég held að það fari nú fyrst og fremst eftir því hvar sá skjálfti verður.  Fyrir þann sem stendur á upptökunum er hann samt örugglega fréttaefni. Ég er sammála þér að ef skjálftinn hefði orðið meira en 10 kílómetra frá byggðu bóli þá hefði hann ekki átt neitt erindi í fréttirnar. Ég er líka nokkuð viss um að ef skjálfti upp á 3.2 á Richter hefði orðið í sömu vegalengd frá Reykjavík og þessi varð frá Selfossi þá hefði hann orðið fréttaefni.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 26.10.2007 kl. 11:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband