Hagkvæmari og öruggari framtíð í útvarpssendingum

Ríkisútvarpið (RÚV) hefur nú þegar hætt langbylgjusendingum og treystir á FM-kerfið fyrir öryggisútsendingar. Fyrir þá sem búa á afskekktum svæðum hefur RÚV jafnframt mælt með lausnum eins og Starlink, sem byggir á gervihnattatengingu. Þó þessar ákvarðanir virðist byggðar á sparnaði og uppfærslu á eldri kerfum, ætti að kanna betur stafrænar útvarpslausnir eins og Digital Radio Mondiale (DRM), sem bjóða upp á bæði hagkvæmni og meiri áreiðanleika. Með DRM er einnig hægt að senda sérstök neyðarboð, eitthvað sem FM og gervihnattalausnir geta ekki veitt með sama öryggi. Með færri sendum, minni viðhaldsþörf og minni orkunotkun gæti RÚV sparað stórfé árlega.

FM-dreifikerfið samanstendur af yfir 230 sendum um land allt, sem tryggir góða þjónustu í þéttbýli. En í dreifbýli og á afskekktum svæðum er oft erfitt að tryggja viðunandi móttöku. Þetta ásamt fjölda FM sendanna kallar á mikið eftirlit, viðhaldsvinnu og mikla orkunotkun með tilheyrandi rekstrarkostnaði. Þrátt fyrir þessa viðleitni eru svæði þar sem FM næst ekki.

RÚV hefur vísað til Starlink sem valkosts fyrir þá sem ekki ná FM merkinu. Starlink, sem er gervihnattanettenging, krefst dýrs búnaðar og áskriftar. Lausnin er háð stöðugu rafmagni, sem getur brugðist í neyðartilvikum eins og óveðrum eða rafmagnsleysi. Þetta skapar aukinn kostnað fyrir notendur og dregur úr aðgengi fyrir þá sem þurfa hugsanlega mest á þjónustunni að halda.

Með DRM30 sem byggir á stafrænni dreifingu á langbylgju eða miðbylgju væri hægt að reka útvarpsdreifingu með 2–4 sendum, sem næði til alls landsins. Þetta myndi leiða til mikils sparnaðar í viðhaldi og orkunotkun. Auk þess gætu þéttbýlissvæði notið góðs af DRM sendingu á hærri tíðni, svokölluðu DRM+ sem býður upp á betri hljóðgæði og þjónustu.

DRM er ekki háð nettengingu eða áskriftarþjónustu. Í stað þess er það sjálfbært kerfi sem getur tryggt útvarpsdreifingu óháð truflunum á netsambandi. Innbyggt neyðarviðvörunarkerfi DRM (EWF) tryggir að útvarpstæki taki sjálfkrafa á móti neyðarboðskap, jafnvel þótt á þeim sé slökkt eða stillt á aðra rás. Slík viðvörun getur innihaldið hljóð, texta og jafnvel myndrænar leiðbeiningar.

DRM-útvarpstæki eru fáanleg á hagkvæmu verði, t.d. á AliExpress. Það þarf ekki áskrift, og notendur geta einfaldlega keypt tækið einu sinni eins og hefðbundin útvarpstæki. DRM-tæki fyrir bíla eru einnig fáanleg. Indverski bílamarkaðurinn hefur t.d. innleitt stafrænt útvarp á tiltölulega skömmum tíma, með yfir 6 milljónir nýrra bíla búna DRM stafrænum útvarpsmóttakara í lok síðasta árs. Þetta væri að líkindum hægt að framkvæma hérlendis með góðum undirbúningi. 

DRM er framtíðin í útvarpsdreifingu fyrir Ísland. Með hagkvæmni, sjálfbærni og innbyggðu neyðarviðvörunarkerfi bætir það öryggi og þjónustu RÚV við landsmenn. Þó FM/Starlink sé áhugaverð lausn, hentar hún ekki vegna kostnaðar, viðhaldsþarfar og óáreiðanleika í neyðartilvikum.

Til að tryggja farsæla yfirfærslu ætti RÚV að innleiða DRM með upplýsingaherferð, stuðningi við notendur og samhliða útsendingum í einhver ár til að aðlaga almenning að breytingunni. Með þessari nálgun myndi RÚV ekki aðeins spara peninga heldur einnig styrkja hlutverk sitt sem almannavarnamiðill fyrir íslenska þjóð.

Erindi sent inn á Samráðsgátt: https://island.is/samradsgatt/mal/3886


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Þessi tillaga er númer 2322 í tillögulistanum fyrir mál nr. S-1/2025

Ragnar Geir Brynjólfsson, 8.1.2025 kl. 08:03

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband