Stjórnlagaþingmenn athugið: Beint lýðræði er raunhæfur valkostur

Árið 2008 skrifaði ég pistil um gildi þess að skila auðu í Alþingiskosningum. Ástæðan er sú að það sýnir sig aftur og aftur að stjórnmálamönnum fulltrúalýðræðisins er ekki treystandi. Annað hvort ganga þeir á bak orða sinna eða þeir gera málamiðlanir sem kjósendum þeirra hugnast ekki. Ég man t.d. eftir manni sem galt VG atvæði sitt fyrir síðust kosningar því hann er eindreginn fullveldissinni og taldi að atkvæði hans nýttist best þannig til að koma í veg fyrir aðildarumsókn að ESB. Eftirleikinn þekkja allir. Nú stuðlar atkvæði þessa manns að því að Ísland er í miðju umsóknarferli að ESB aðild.

Önnur rök eru þau að stjórnmálamenn fulltrúalýðræðisins taka gjarnan frumkvæði að íþyngjandi og stefnumarkandi ákvörðunum í heimildaleysi og án umboðs frá kjósendum. Dæmi um þetta eru nýjar hugmyndir stjórnvalda um vegatolla. Fyrir síðustu kosningar bar ekki mikið á umræðu vegatolla, a.m.k. fór hún alveg framhjá mér, en núna virðist fátt geta stöðvað þær fyrirætlanir og leitun er að því fólki sem er hlynnt vegatollum. Þetta er gott dæmi um hvernig fulltrúarnir eigna sér valdið og í raun taka sér vald sem þeir hafa ekki. Í þessu tilfelli væri sáraeinfalt að komast að vilja almennings t.d. með góðri skoðanakönnun, en það hugnast valdhöfum ekki.

Þriðju rökin má tína til en þau eru að stjórnmálamenn fulltrúalýðræðisins hafa orðið berir að því að setja hagsmuni flokksins í fyrsta sæti en hagsmuni þjóðarinnar í annað sæti.  Lægra verður vart sokkið og þetta sýnir svo um villst að vankantar fulltrúalýðræðisins eru að leiða þjóðina aftur og aftur í meiriháttar vandræði.  

Það má með nokkrum rökum halda því fram að fulltrúalýðræðið sé arfur síðustu þriggja alda og tími sé kominn til að nýta stórbætta samskiptatækni sem og samgöngur til að byggja upp beint lýðræði. Beint lýðræði ætti að vera eitt af verkefnum nýja stjórnlagaþingsins og vonandi verður nýja stjórnarskráin þannig upp byggð að ef um fulltrúalýðræði verði að ræða að þá geti fulltrúarnir hvorki komist upp með svik, undanbrögð né látalæti af neinu tagi gagnvart kjósendum. 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Heyr, heyr! Vel mælt Ragnar.

Svanur Gísli Þorkelsson, 16.1.2011 kl. 19:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband