Færsluflokkur: Ríkisútvarpið

Stofnun ljósvakasafns er löngu tímabær

Stundum heyrist það viðhorf til stuðnings þess að RÚV verði áfram í ríkiseign að ekki megi láta menningararf þjóðarinnar til einkaaðila. En það þarf ekki að gerast. Hægt er að skilja á milli varðveisluhluta menningararfsins og hins daglega reksturs sjóvarpsstöðvarinnar og útvarpsrásanna og þess hluta starfseminnar sem í raun er safnstarfsemi. Hægt er því að stofna ljósvakasafn sem hefur það hlutverk að safna ljósvakaefni sem flutt er á íslensku eða hefur að öðru leyti ótvíræð tengsl við íslenska menningu. Þjóðarbókhlaðan gegnir nú þegar þessu hlutverki hvað varðar prentað mál og ljósvakasafnið yrði því aðeins útvíkkun á nákvæmlega sömu hugsun þegar kemur að ljósvakaefni.  Það er í rauninni ótrúlegt að ekki skuli vera búið að þessu fyrir löngu. Það er líka alveg jafn ótrúlegt að íslenska ríkið skuli enn standa að því að dreifa textuðu erlendu afþreyingarefni - ótrúlegt en satt!

Sagt hefur verið í mín eyru að ríkisreksturinn einn tryggi gæði þess efnis sem framleitt er og hefur það verið rökstutt með tilvísunum í margt sérlega fróðlegt og skemmtilegt efni sem framleitt hefur verið fyrir BBC. Sagt hefur verið að þetta hefði aldrei verið hægt að framleiða í Bandaríkjunum þar sem frjálshyggjan hefur yfirhöndina. En málið er auðvitað að hér er hægt að fara milliveg. Í Bandaríkjunum mætti trúlega vera meira um opinberan styrk til gerða heimildamynda. Ástæða þess hve vel tekst til hjá BBC er auðvitað sú að hið opinbera borgar brúsann. Það gæti sem best verið áfram þó einkaaðilar sjái um rekstur stöðvanna. Afnotagjaldið þyrfti ekki að afleggjast þó RÚV verði rekið af einkaaðilum. Það er líka löngu tímabært að fara að skipta um heiti á því og fara að kalla það menningarskatt. Þessi skattur gæti síðan runnið til þeirra einkastöðva sem greiðendurnir kjósa sjálfir í réttu hlutfalli við framboð þeirra af íslensku efni. Þannig væri komið það aðhald sem nauðsynlegt er að neytendur fjölmiðla sýni þeim og einnig hvatning til þeirra til að framleiða og dreifa íslensku efni og láta það hafa forgang fram yfir erlent. Þetta er í rauninni ákveðinn menningarlegur verndartollur sem þung rök eru fyrir því að eigi rétt á sér. Hví ekki að hlúa að og vernda sjálfsmyndina og þau gildi sem þjóðin trúir á á sama hátt og innlend framleiðsla á öðrum neysluvörum er vernduð?


RÚV - og hin rausnarlegi styrkur Björgólfs

Hinn rausnarlegi styrkur sem Björgólfur Guðmundsson hefur lofað RÚV er lofsvert framtak og sýnir að meðal íslenskra athafnamanna fyrirfinnst menningarlegur metnaður og áræði. Viðbrögðin við styrknum eru blendin. Formaður Hollvinasamtakanna lýsti efasemdum sínum og Ögmundur Jónasson hefur sömuleiðis lýst efasemdum. Þetta sýnir svo ekki verður um villst að RÚV er enn í erfiðri aðstöðu. Sem ríkisfyrirtæki getur það ekki þegið og sem einkafyrirtæki getur það ekki hafnað. Þróun mála er einnig auðsæ. Íslensk menning er arðbær og trúlega mjög arðbær þegar upp er staðið en það sem mun leysa hana úr læðingi er frelsi hennar úr faðmi ríkisvaldsins og stjórnmálaleiðtoganna. Óskandi er að fjármunir Björgólfs muni nýtast vel til menningarlegra og góðra verka. 

Ef staðan hefði verið sú á tímum Fjölnismanna að danska ríkið hefði eitt átt öflugasta fjölmiðilinn hér á landi hver hefðu áhrif þeirra þá orðið? Hverjir eru kostir Fjölnismanna nútímans, þ.e. þeirra manna sem vilja efla menningarlegt sjálfstæði þjóðarinnar og sjálfstæði hennar á öllum sviðum. Eiga þeir sitt athvarf í ranni ríkisvaldsins?  Það skulum við vona miðað við stöðu mála í dag.

Auðvitað þarf sem fyrst að koma málum þannig fyrir að ljósvakaarfurinn verði ekki seldur með rekstri stöðvanna þegar þar að kemur, sem trúlega er bara tímaspursmál, rétt eins og listaverkasafn Landsbankans var selt með rekstri hans. Sem fyrst þyrfti að aðskilja rekstur ljósvakabankans frá rekstri ríkisstöðvanna og af-oheffa þann rekstur. Hann gæti sem best heitað RÚV áfram en hlutverk hans yrði einungis að varðveita ljósvakaarfinn og miðla honum, sem og að vera efnisbanki fyrir það íslenskt efni sem yrði styrkt af ríkinu og útvarpað og sjónvarpað af frjálsum og óháðum stöðvum.

Íslenskir stjórnmálamenn verða að finna það þor og þann dugnað sem þarf til að geta horfst í augu við þann veruleika að ráðherra ríkisstjórnarinnar sé ekki hæstráðandi og í raun stjórnarformaður yfir öflugasta ljósvakamiðlinum. Það er aðeins fjöldinn einn og fjölbreytnin sem mun hámarka menningarlegan sköpunarkraft þjóðarinnar og þjóna öryggishlutverkinu sem best.


RÚV - Menningarleg Maginotlína

Stjórnvöld telja greinilega að RÚV eigi að vera brjóstvörn og merkisberi íslenskrar menningar og mynda mótvægi við erlend áhrif. Hugmyndafræðin á bakvið RÚV er því eins og sú á bakvið Maginotlínuna frönsku [1]. Maginotlínan var geysilega íburðarmikið mannvirki úr stáli og steypu sem teygði sig eftir landamærum Frakklands og Þýskalands, en þegar til kom keyrðu óvinirnir framhjá henni. Í RÚV eru lagðir geysimiklir fjármunir sem betur væru komnir hjá hinum ýmsu frjálsu og óháðu ljósvakamiðlum landsins. RÚV þarf sem fyrst að breyta í menningarsafn og rekstur ljósvakastöðvanna á að koma fyrir hjá einkaaðilum og gæta þess að allir ljósvakamiðlar landsins sitji við sama borð hvað varðar styrk frá ríkinu. Ef hlustendur og áhorfendur fá að velja hvert þeir láta afnotagjald sitt renna og það rennur síðan til stöðvanna í hlutfalli við framboð þeirra af íslensku efni og menningarviðburðum þá er komi það vogarafl sem menningin þarf, þ.e. sú góða menning sem trauðla fær lifað nema með opinberum styrkjum en pólitískur vilji er fyrir að lifi. Ef allar stöðvarnar gætu síðan gengið í hinn gamla menningarbrunn RÚV og jafnframt undirgengist þá kvöð að það efni sem styrkt væri yrði sett í ljósvakabankann og því nýtast öðrum þá myndi drifkraftur, frumleiki og fjölbreytni lyfta menningarlegu grettistaki. Grettistaki sem löngu er orðið tímabært að verði lyft.

Sú hugmyndafræði sem nú liggur til grundvallar RÚV er til orðin á 2. og 3. áratug síðustu aldar eða á  sama tíma og hugmyndafræði Maginotlínunnar og mikilla ríkisafskipta. Framfarir í ljósvakatækni og þróun á viðhorfum til ríkisafskipta hafa tekið miklum breytingum á þessum tíma. Maginotlínan liggur nú niðurgrafin á landamærum Frakklands og Þýskalands engum til gagns, en RÚV gengur enn sem fyrr á 70-80 ára gömlum riðandi brauðfótum og framhjá því og gegnum það streymir erlent efni í stríðum straumum. Ótrúlegt að stöðin skuli enn þann dag í dag sýna ótalsett erlent efni og bjóða áhorfendum upp á íslenskan texta. Bíómyndasýningum á vegum hins opinbera ætti að hætta alfarið sem allra fyrst. Meira um það síðar.

Sú viðhorf sem ég hef sett hér fram kunna að virðast vera í anda frjálshyggju, en ég tel þessi viðhorf samt ekki vera frjálshyggjuviðhorf að öðru leyti en því að þau hafna forræði, og sér í lagi forræði á menningarsviðinu. Fjölbreytnin og sá sköpunarkraftur sem leysist úr læðingi þegar fjöldinn fær að njóta sín getur einn orðið til að fleyta íslenskri menningu framhjá menningarlegum brotsjóum og áföllum. Athugið að hér er ekki verið að gagnrýna starfsfólk RÚV sem vinnur gott starf heldur starfsramma þann og lagaramma sem löggjafarvaldið felur stofnuninni. Það er hið pólitíska vald sem ég kalla til ábyrgðar á RÚV og mistökum þess en ekki starfsfólk stofnunarinnar sem ég lít frekar á sem sérlega þolendur þessa úrelta menningarframtaks.

[1] http://en.wikipedia.org/wiki/Maginot_Line


Tæknin breytir stöðunni varðandi ljósvakamiðlun til dreifðra byggða

Ein af þeim meginröksemdum sem færðar hafa verið fyrir ríkisútvarpi er að enginn einn aðili hafi bolmagn til að halda uppi útvarps- eða sjónvarpsrás sem náist um allt land, í afskekktustu sveitum og á fjarlægustu miðum. Þetta ásamt öryggisrökum, þ.e. að vegna öryggis og almannahagsmuna þá sé öflugasta ljósvakamiðlinum best fyrir komið í tryggri umsjón ríkisvaldsins. Ný tækni hefur í för með sér að hægt er að senda ljósvakaefni í gegnum símalínur og eftir því sem dreifikerfi símans batnar og tekur framförum og æ fleiri notendur hans geta nýtt sér ADSL þjónustu þá fjölgar um leið þeim sem geta tekið á móti ljósvakamiðluninni á sama hátt. Ég geri mér grein fyrir því að ástand símalagna er ekki jafn gott alls staðar á landinu og enn eru eflaust margir staðir sem geta ekki nýtt sér þá þjónustu, en með tíð og tíma ætti þetta að batna og verða hagkvæmara. Einnig má nefna að með gervihnattasendingum er hægt að ná víða og sömuleiðis er trúlegt að eftir því sem tímar líða þá verði sá möguleiki hagkvæmari. Tæknin vinnur því hægt en örugglega gegn rökum þeirra sem kjósa óbreytt ástand í ljósvakamálunum.

Framtíðarmöguleikar RÚV

Páll Magnússon hinn dugmikli stjórnandi RÚV hefur sannarlega markað spor í rekstri stofnunarinnar undanfarna mánuði og líklegt er að honum sé alveg við það að takast að endurvekja trú landsmanna á að ríkisstofnun geti verið leiðandi og dugmikil í ljósvakamiðlun og menningarmálum. Við höfum líka ekki langt að sækja fyrirmyndir - en það er til breska ríkisútvarpsins. BBC virðist talandi dæmi um það að ríkisstofnun sem byggir á kerfi afnotagjalda hafi meiri möguleika á að sinna menningarhlutverki en frjálsar og óháðar stöðvar. Ekki þekki ég nægilega mikið til bresks þjóðfélags til að geta haft skoðun á því hvort eitthvað annað fyrirkomulag sé betra þar í landi en jafn sannfærður er ég um að það fyrirkomulag sem nú er á stjórn Ríkisútvarpsins ohf hér á Íslandi er alveg jafn gallað og það sem hefur verið undanfarna áratugi og er meginatriðum hið sama og Aðalbjörg Sigurðardóttir gagnrýndi árið 1944, og Jón úr Vör og Gunnar M. Magnúss ritstjórar Útvarpstíðinda tók undir, jafnvel þó formbreyting hafi orðið og Ríkisútvarpið sé núna opinbert hlutafélag. Sjá þessa bloggfærslu. Í núverandi útvarpslögum stendur:

 8. gr. Stjórn Ríkisútvarpsins ohf.
Stjórn félagsins skal kosin á aðalfundi sem haldinn skal fyrir lok maímánaðar ár hvert. Hana skulu skipa fimm menn og jafnmargir til vara. Áður en kosið er til stjórnar á aðalfundi skulu fimm menn kjörnir hlutbundinni kosningu á Alþingi ásamt jafnmörgum til vara og skulu þeir kosnir í stjórn félagsins.

Þessi aðalfundur virðist nánast vera til málamynda því hin raunverulega kosning fer fram á Alþingi og því er Alþingi hin eiginlega stjórn Ríkisútvarpsins og menntamálaráðherra í raun stjórnarformaður. Áfram er því alveg tryggt að ráðandi stjórnmálaöfl hafa álíka stjórn á Ríkisútvarpinu og stjórn hefur á hlutafélagi. Sú stjórn er jafnvel enn tryggari en áður var ef eitthvað er.  Það er að mínu mati ógæfa Íslands að svo skuli komið því orð Aðalbjargar Sigurðardóttur frá 1944 eru enn í fullu gildi:

Eins og kunnugt er fara þessar kosningar í útvarpsráð fram á Alþingi, eins og kosningar í margar aðrar merkilegar nefndir, sem mikil ábyrgðarstörf eiga að hafa með höndum, og stendur fulltrúatala hvers flokks í hlutfalli við þingmannafjölda hans ... Við þetta bætist svo, að það sýnist stundum vera siður flokkanna að veita gæðingum sínum uppreisn með því að setja þá í einhver trúnaðarstörf, ef álitið er að þeir hafa beðið einhvern opinberan hnekki. Má nærri geta, hversu óheppilegt þetta allt er fyrir þá stofnun eða það starf sem leysa á af hendi, og þar sem engin önnur sjónarmið en hagur stofnunarinnar eða starfsins ætti að ráða.

Sem fyrst ætti að rjúfa þennan nána samruna Ríkisútvarpsins við valdstjórnina og stofna ríkisstofnun sem hefði með höndum að safna ljósvakaefni og varðveita þann menningararf sem safnast hefur upp hjá RÚV frá upphafi. Að því búnu þyrfti að selja báðar útvarpsrásirnar og sjónvarpsrásina og bjóða fólki síðan upp á að velja hvert það vill að afnotagjald sitt renni. Þessir peningar ættu síðan að renna óskiptir til stöðvanna í réttu hlutfalli við það efni sem flutt er á íslensku og í hlutfalli við upptökur af innlendum menningarviðburðum. Erlent efni yrði ekki styrkt með þessu móti. Allar útvarpsstöðvar landsins hefðu síðan aðgang að menningarbankanum hjá ríkisstofnuninni og gætu því gengið að drjúgum sjóði sem eflaust yrði fengur að. Þannig myndi metnaður og frumkvæði mun fleiri aðila fá að njóta sín en ekki bara þeirra sem eru svo heppnir að fá að vera ráðnir hjá RÚV eða þeirra sem taldir eru vel þóknanlegir ríkjandi valdhöfum.


Aðalbjörg Sigurðardóttir um RÚV árið 1944

Aðalbjörg Sigurðardóttir (1887-1974)  [1] var ein af áhrifamestu kvenréttindakonunum á fyrri hluta 20. aldar og hún beitti kröftum sínum einnig í þágu fræðslu- og skólamála. Árið 1944 bauð Ríkisútvarpið Aðalbjörgu að flytja erindi um starfsháttu þess og "koma með aðfinningar ef ég væri ekki ánægð"[2].  Þættir úr útvarpserindi Aðalbjargar birtust í Útvarpstíðindum 6.  árg. 11. og 12. hefti í febrúar-mars árið 1944. Erindi Aðalbjargar er fróðleg lesning öllum þeim sem áhuga hafa á sögu Ríkisútvarpsins og einnig er stöðumat Aðalbjargar á stofnuninni athyglisvert og gefur góða heimild um viðhorf óháðrar menntakonu til stofnunarinnar á þessum tíma.

Í erindi sínu kom Aðalbjörg víða við og fjallaði m.a. um Íslendingasögur, íslenskt mál, þuli, raddir kvenna og afstöðu til kvenna í RÚV, þar koma ýmsir athyglisverðir punktar fram sem áhugafólk um sögu jafnréttisbaráttu kvenna gætu haft talsverðan áhuga á. En það er þegar hún víkur að kosningum í útvarpsráð sem hún kemur að einum athyglisverðasta punktinum. Hún segir:

Ég hef geymt þar til síðast að tala um það, sem ég og reyndar fjölda margir aðrir telja aðalgallann á fyrirkomulagi útvarpsins, og sem hneppir það í svo þröngan stakk ófrelsisins, að manni finnst oft ekki viðunandi. Ríkisútvarp Íslands tók til starfa árið 1930 í desember. Útvarpsráð, sem þá og jafnan síðan hefur ráðið dagskrá útvarpsins, var framan af kosið af útvarpsnotendum. Sjálfsagt hafa ýmis mistök orðið á þessum fyrstu árum útvarpsins, enda óhugsandi annað á meðan alla reynslu vantaði. Ég fullyrði þó, að útvarpsnotendur stóðu þá í miklu lífrænna sambandi við útvarpið en þeir eru nú, það var þeirra stofnun, gagnrýni í sambandi við það var ekki þýðingarlaus, því á þeim degi, sem kosið var í útvarpsráð, var þó að minnsta kosti hægt að sýna vilja sinn og leggja lóð í vogarskálina um framtíðarstefnu útvarpsins.  Síðar voru þessi dýrmætu réttindi tekin af útvarpsnotendum og kosning í útvarpsráð fengin í hendur ráðandi stjórnmálaflokkum. Menn, sem þannig eru kosnir af flokkunum, telja sig fyrst og fremst bera ábyrgð gagnvart þeim, það er ætlast til þess af þeim að þeir séu sí og æ að hugsa um hagsmuni flokksins, og á varðbergi fyrir hann. Verður þetta auðvitað sérstaklega áberandi, ef í odda sker með einhver mál, þá er það flokkurinn eingöngu sem ræður. Eins og kunnugt er fara þessar kosningar í útvarpsráð fram á Alþingi, eins og kosningar í margar aðrar merkilegar nefndir, sem mikil ábyrgðarstörf eiga að hafa með höndum, og stendur fulltrúatala hvers flokks í hlutfalli við þingmannafjölda hans. Margir þeirra manna, sem þannig eru kosnir, hafa áður svo umsvifamiklum störfum að gegna, að ekki er á bætandi. Mundu þeir verða að vinna helst allan sólarhringinn að minnsta kosti, ef þeir ættu að komast nokkurn veginn yfir þau, en mér skilst að störf útvarpsráðs útheimti í raun og veru mjög mikinn tíma, ef vel ætti að vera. Við þetta bætist svo, að það sýnist stundum vera siður flokkanna að veita gæðingum sínum uppreisn með því að setja þá í einhver trúnaðarstörf, ef álitið er að þeir hafa beðið einhvern opinberan hnekki. Má nærri geta, hversu óheppilegt þetta allt er fyrir þá stofnun eða það starf sem leysa á af hendi, og þar sem engin önnur sjónarmið en hagur stofnunarinnar eða starfsins ætti að ráða. Að vísu ber því ekki að neita, að ágætir menn hafa verið kosnir og geta verið kosnir í útvarpsráð á þennan hátt, en þeir mundu þó njóta sín miklu betur, ef þeir hefðu aðra umbjóðendur en stjórnmálaflokkana. Vera má, að finna mætti einhverja nýja leið til kosningar í útvarpsráð, það væri sannarlega vert að athuga, því því miður voru stjórnmálaflokkarnir líka farnir að hafa óheilnæm afskipti af kosningum útvarpsnotenda í útvarpsráð.

Við þessi orð bæta síðan ritstjórarnir Gunnar M. Magnúss og Jón úr Vör:

Við viljum eindregið taka undir þessa áskorun frúarinnar og einkum þó hvað snertir lögin um skipun útvarpsráðs. Útvarpið er fyrst og fremst menntasetur, og það er misskilningur að stjórnmálagarpar og alþingiskandídatar séu öðrum betur fallnir til að vera þar innanbúðar. Það er látið svo í veðri vaka að þeir séu þar til að gæta hlutleysis. En það er óþarft. Engin menntastofnun starfar jafn bókstaflega fyrir opnum tjöldum og er berskjaldaðri fyrir allri gagnrýni. Í útvarpsráði eiga að vera fastir embættismenn, sem vinna þar störf sín alla daga og bera ábyrgð fyrir alþjóð, sem líka h[e]fur alla stund á þeim vakandi augu og eyru.

Við þetta er engu að bæta en það er í rauninni ótrúlegt að enn þann dag í dag, árið 2007 eða 63 árum eftir að erindi Aðalbjargar var flutt og ritstjórar Útvarpstíðinda tóku svo heilshugar undir skuli Ríkisútvarpið enn ekki vera laust undan þeim grunsemdum að vera taldir "léttvægir taglhnýtingar stjórnvalda" eins og einn bloggvinur minn tók til orða fyrir örfáum dögum.

Að lokum tek ég fram að gagnrýni mín á RÚV beinist ekki að þeim ágætu einstaklingum sem þar vinna og hafa unnið og ekki að því góða starfi sem þar hefur verið unnið því þar hefur margt gott verið gert heldur beinist hún að fyrirkomulagi og lagaumhverfi stofnunarinnar. Minn punktur er sá að ef öðruvísi hefði verið staðið að málum og farið að ráðum þeirra Aðalbjargar Sigurðardóttur, Gunnars M. Magnúss og Jóns úr Vör strax árið 1944 þá væri íslensk menning enn betur undir það búin að mæta þeim áskorunum sem hún þarf að mæta en hún er í dag.

[1] http://www.hi.is/~jtj/vefsidurnemenda/Konur/adalbjorgs.htm
[2] Útvarpstíðindi6.árg. 11. hefti árið 1944 bls. 190.


Amy Goodman - orð í tíma töluð í og fyrir RÚV

Afar athyglisverð frétt birtist í RÚV - sjónvarpi í kvöld en það var frásögn af ráðstefnu þar sem bandaríska fréttakonan Amy Goodman hélt fyrirlestur. Í lok fréttarinnar var birt stutt viðtal við Goodman. Hún gagnrýndi að fjölmiðlar væru samdauna valdhöfum en lokaorð hennar voru einna athyglisverðust. Hún lýsti hlutverki fréttamannsins þannig í þýðingu RÚV - sjónvarps að þeir ættu:

 "Að krefjast þess að fjölmiðlar séu óháðir, að fjölmiðlar kalli valdamenn til ábyrgðar, það er starfið okkar. " [1]

Þetta birtist í RÚV - sjónvarpi! Þetta eru sannarlega orð í tíma töluð. Nú væri því hentugur tími fyrir  bæði stjórnendur stofnunarinnar sem og valdhafa þessa lands að fara að huga að því að gera RÚV - Sjónvarp að óháðum fjölmiðli sem nýtur beins aðhalds neytenda. Það ætti að vera á forræði hlustenda til hvaða útvarpsstöðvar eða sjónvarpsstöðvar afnotagjaldið rennur og því síðan úthlutað í réttu hlutfalli við tíma efnis sem flutt væri á íslensku eða í tilfelli tónlistar af innlendum tónlistarviðburðum. Ekki ætti að þurfa sérstök lög um eignarhald á fjölmiðlum, samkeppnislög ein hugsanlega með einhverjum viðaukum ættu að nægja til að hindra fákeppni á þessum markaði.

Þessi orð sem og önnur gagnrýni mín á RÚV - sjónvarp eru ekki hugsuð sem gagnrýni á það frábæra starfsfólk sem gegnt hefur störfum við stofnunina í gegnum tíðina og þann greiða sem það hefur gert íslenskri menningu með störfum sínum. Hér er aðeins viðrað það viðhorf að skipulag og lagarammi sá sem settur er um starfsemina hefur trúlega gert meira ógagn heldur en gagn í gegnum árin, sérstaklega í seinni tíð og að frelsið ásamt innkomu fleiri aðila ásamt öflugri greiðslu fyrir innlent efni hefði átt að vera sá rammi sem unnið var eftir strax á síðustu áratugum síðustu aldar þegar ljóst var að markaður var fyrir fleiri en eina útvarps - og sjónvarpsstöð.

 

 [1] http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4338476/7

 


Jóra í Jórukleif slær í borðið - ástæðan var léleg dagskrá RÚV sjónvarpsins

Í hádeginu í gær, nánar tiltekið kl. 12.06 varð all snarpur jarðskjálftakippur undir Ingólfsfjalli. Á vef Veðurstofunnar stendur að skjálftinn hafi verið um 3 stig en ef jarðskjálftagraf sömu stofnunar er skoðað sýnist skjálftinn vera nær 3,5 stigum. Á vefnum stendur ennfremur að skjálfti hafi fundist á Selfossi og er það nú ekki ofsagt því þegar þetta gerðist var ég staddur í kjallara Fjölbrautaskólans og áhrif skjálftans voru ótvíræð þar. Það var eins og mikið högg hefði verið rekið undir húsið og það nötraði merkjanlega.  Í grunnskóla hér á svæðinu frétti ég af því að stálpuð börn hafi orðið hrædd og þurfti hafi að róa þau.  

Í þessum jarðskjálfta sýndi metnaður RÚV - sjónvarps gagnvart Sunnlendingum sig enn og aftur því eftir því sem ég best veit var ekki minnst á hann einu orði í fréttunum klukkan 7 og þó grunar mig að marga hér á Selfossi a.m.k. hafi þyrst í nánari upplýsingar af því sem gerðist. Nei, útsendingin byrjaði á fregnum af skógareldum í Kaliforníu, ekki ómerku fréttaefni en aftur er það RÚV - ið sem bregst okkur Sunnlendingum fyrst þegar jarðskjálftar ríða yfir. Þetta kemur á tíma þegar við erum enn að jafna okkur á því að starfsstöð RÚV hafi verið lokað hér á Selfossi.

En það þýðir lítið að hafa skoðanir á RÚV - inu. Þetta er stöðin sem þjóðin er ánægðust með og treystir best þrátt fyrir því að hafa staðið sig slælega svo vægt sé til orða tekið á ýmsum sviðum. Því veldur trúlega mikið magn ímyndarauglýsinga sem dynja yfir landslýðinn með reglulegu millibili og kostaðar eru með rekstrarfé stofnunarinnar. Við látum þá segja okkur að þeir séu langbesta stöðin og síðan senda þeir okkur reikninginn fyrir kostnaðinum við "uppfræðsluna". Og það er reikningur sem allir verða nauðugir viljugir að hafa inni á kostnaðaráætlun sinni hvað sem þeim finnst um dagskrá og metnað báknsins.

Ég er samt viss um að ég er ekki einn um þessa skoðun því í gær eignaðist ég öflugan bandamann. Það er Jóra í Jórukleif og skessan sú arna bæði stappaði í hellisgólfið og barði í borðið sitt til að sýna vanþóknun. Á meðan hún hefur ekki tjáð sig neitt frekar um efnið geri ég því skóna að ástæðan hafi verið óánægja hennar með framandi dagskrárefni á engilsaxnesku máli og lítill metnaður RÚV - sjónvarpsins gagnvart hugðarefnum og lífi okkar Sunnlendinga.

 

 


Fordómar í fjölmiðlum - hvar stendur RÚV?

Grein Joanna Dominiczak í Mbl. föstud. 10. okt. 2007 er athyglisverð en hún segir að neikvæð umfjöllun í fjölmiðlum um útlendinga hafi í för með sér afleiðingar fyrir saklaust fólk sem vilji lifa venjulega lífi. Í þessu sambandi er vert að rifja upp að á föstudaginn langa árið 2005 og nú síðast árið 2007 hefur því verið haldið fram í RÚV - Sjónvarpi að hápunktur páskahátíðarinnar á Filippseyjum felist í blóðugum krossfestingum. Orðrétt var sagt 6. apríl síðastliðinn:

„Þúsundir Filippseyinga og erlendra ferðamanna fylgdust með því þegar sjálfboðaliðar létu negla sig á kross í þorpinu San Petro Cudud á Filippseyjum í dag. Krossfestingin er hápunktur páskahátíðarinnar í þessu eina kaþólska ríki Asíu.“[Leturbr. RGB]

Nánari umfjöllun um þessar fréttir má sjá á á eftirfarandi tengli og í athugasemdum þar á eftir: [1] Í meginmálinu sem á eftir var lesið kom fram að kaþólska kirkjan á Filippseyjum fordæmdi þessar athafnir. Jafnvel þó þannig hafi verið reynt að gæta hlutleysis verður að segjast að með engu móti er hægt að líta svo á að feitletraða setningin geti skoðast sem raunsannur fréttaflutningur af trúarlífi á Filippseyjum. Þó það sé greinilega margbreytilegt þá er það samt svo að flestir Filippseyingar minnast krossfestingar Krists á föstudaginn langa rétt eins og aðrar kristnar og kaþólskar þjóðir, en ekki með því að horfa á krossfestingu eða að láta krossfesta sig. Það að ríkissjónvarpið stendur á þennan hátt að fréttinni núna þriðja árið í röð (og líklega eru árin enn fleiri) hlýtur að vekja furðu. Er áhuginn á trúarlífi þessarar þjóðar ekki meiri en svo að þessi frétt ein er talin nægja af því á árinu? Þetta orðalag fréttarinnar gefur líka tilefni til að óttast að þessi vanhugsaði fréttaflutningur hafi sett Filippseyinga í neikvætt ljós hér á landi og sér í lagi þá Filippseyinga sem aðhyllast kaþólska trú.

Þetta sýnir svo ekki verður um villst að skylduaðild landsmanna að einum fjölmiðli er úrelt og einnig sú hugmynd að ríkið styrki aðeins einn fjölmiðil. Þessi menningarstyrkur á að renna til útvarps- og sjónvarpsstöðva í réttu hlutfalli við hlutfall efnis sem flutt er á íslensku og það ætti að vera neytendum í sjálfsvald sett hvert þeir vilja að sinn styrkur renni.  Eins og staðan er í dag er RÚV algerlega án beins aðhalds neytenda, þar mæta áhrifamiklir stjórnmálamenn og auðmenn á 'drottningarpallinn' og útkoman er farin að verða næsta pínleg, ekki bara fyrir RÚV heldur fyrir okkur landsmenn í heild. Óskandi er að þessu ástandi linni sem allra fyrst.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband