Enn birtast vankantar á fyrirkomulagi Ríkisútvarpsins ohf

Enn eitt dæmið um það hve fyrirkomulag ríkisútvarpsins er óheppilegt er að með hlutafélagsvæðingunni þá flýtur þessi hálf- opinbera stofnun í tómarúmi á milli opinbera geirans og einkageirans. Hvers konar hlutafélag er það sem þarf að standa fjölmiðlum skil á launum starfsfólks síns opinberlega? Þegar laun útvarpsstjórans voru hvað mest í umræðunni á dögunum kom í ljós að samkvæmt upplýsingalögum sem gilda um opinberar stofnanir verður stofnunin/fyrirtækið að upplýsa um launakjör yfirmannsins. Þetta er ótrúlegt en satt og hlýtur að vera sérlega óþægilegt fyrir fyrirtæki sem á að starfa á samkeppnismarkaði - að vísu með veglegum heimanmundi þó. Tími er til að þessu ástandi linni og heppilegra félagsform verði fundið fyrir stofnunina eigi hún að vera áfram undir handarjaðri ríkisins. Hinn kosturinn og hann væri ekki síðri væri að stíga einkavæðingarskrefið til fulls. Þessi hálfkveðna vísa getur trauðla gengið til lengdar.  

Jafnframt þyrfti að koma á fót öflugu hljóðritasafni undir handarjaðri ríkisvaldsins. Hvað afnotagjaldið varðar þá ættu neytendur að fá að kjósa hvert sá styrkur rennur og hann gæti runnið til frjálsra útvarps- og sjónvarpsstöðva í réttu hlutfalli við framboð þeirra af innlendu efni. Sjá t.d. fyrri pistla mína um þetta efni undir efnisflokknum 'Ríkisútvarpið'


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Er bara ekki kominn tími til að stofna svona halfgert menningarsamlag þar sem fólk getur verið áskrifendur að metnaðarfullu dagskrárefni. Þegar ég var í Bandaríkjunum þá var Public Television besta sjónvarpsstöðin. Hún var bara rekin fyrir fjárframlög áhorfenda. Engar auglýsingar. Svo eiga líka allir orðið vídeótökuvélar og það væru örugglega margir til íað klippa til eitthvað skemmtilegt og fræðandi launalaust fyrir tækifærið að sýna það opinberlega. Hef ekki lengur trú á RÚV sem aflvaka gerjunar, sköpunar, menningar.

Gunnlaugur B Ólafsson, 13.12.2007 kl. 01:04

2 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Sæll Gunnlaugur og takk fyrir innlitið.

Já, það er eitthvað í þessum dúr sem ég er með í huga. Ég hef þá trú að í fjöldanum og fjölbreytninni búi frumkvæðið og sköpunarkrafturinn en miklu síður í stofnun sem dvelur undir handarjarði ríkisvaldsins. Ég lít svo á að hlutverk ríkisvaldsins sé að skapa nauðsynlegan starfsramma svo framtak þeirra sem áhuga hafa geti notið sín. Sem og að sinna ákveðnum grunnþjónustusviðum svo sem umsjón efnissafna.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 13.12.2007 kl. 22:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband