Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Kallar húsnæðisvandinn á óhefðbundnar bráðabirgðalausnir?

Sá hópur sem á í alvarlegum húsnæðisvanda er því miður stækkandi. Margir þurfa að grípa til óhefðbundinna úrræða, svo sem búsetu í hjólhýsum eða húsbílum. Það getur verið af ýmsum ástæðum, til dæmis þeirri að samkvæmt 55. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús má meina búsetu þeim sem brjóta reglur húsfélaga. Gildir þá einu hvort um er að ræða einkaeign eða félagsbústað. 

Húsvagnahópurinn er fjölbreyttur og inniheldur bæði þá sem neyðast til slíkrar búsetu og þá sem kjósa hana af lífsstílsástæðum. Þrátt fyrir mismunandi bakgrunn hefur hópurinn, í heild sinni, hrakist undan yfirvöldum vegna aðgerða sem þrengja að þessum búsetumöguleikum. Nærtækt er dæmið frá Bláskógabyggð og einnig má nefna flutning hjólhýsabúa úr Laugardal á iðnaðarplan á Sævarhöfða. [Tengill]

Tilsvar borgarstjórans í Reykjavík um sérstök úrræði til handa hinum verr setta hluta hópsins og að betur setti hlutinn eigi að fara annað er erfitt að skilja. Hluti hins verr setta hóps getur líklega hvergi verið nema í gistiskýli eða smáhýsum og af þeim er skortur. 

Það að yfirvöld skuli ekki vilja þjóna hópnum í heild betur er afar sérkennilegt. Í stað þess að sitja uppi með fjölda hjólhýsa á óheppilegum stöðum, svo sem fast uppi við hús með tilheyrandi eldhættu, líklega í mörgum tilfellum í óleyfi, þá ættu yfirvöld að sjá sóma sinn í að skaffa boðlegar aðstæður til útistöðu hjólhýsa og húsbíla allan ársins hring og veita um leið nauðsynlegt aðhald svo sem varðandi brunavarnir og önnur öryggismál.

 


mbl.is Vandi heimilislausra vex mikið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brýnt að bregðast við sjónarmiðum hjólhýsabúa

Kcamping-mobile-home-click-travel-vacation-d4b3fcolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, hefur verið einn ötulasti málsvari hjólhýsafólks í Reykjavík. Hún hefur barist af krafti fyrir því að bæta aðstæður þessa hóps, sem hefur verið á jaðri samfélagsins og líður fyrir skort á öruggu og mannsæmandi húsnæði. Kolbrún hefur réttilega lagt mikla áherslu á að borgin mæti brýnum þörfum þeirra sem neyðast til að búa í hjólhýsum, þar sem þau eiga ekki í nein önnur hús að venda hér og nú. 
 

Í þessu tilliti er sjónarmið og málsvörn borgarstjórnar, sem flestir þó geta tekið undir að til lengri tíma þurfi að auka framboð af félagslegu húsnæði, léttvægt og endurspeglar skilningsleysi á brýnum þörfum þessa hóps sem stendur verulega höllum fæti.  Nú hallar sumri og eftir tvo mánuði fer í hönd vetur sem vonandi verður mildur og góður en ekki er hægt að horfa framhjá því að síðasti vetur var sá kaldasti á öldinni og sá hinn fyrri var fremur illviðrasamur.

Endurbirtur pistill: https://kstjorn.blogspot.com


Er mat á flóðahættu í jökulám Hofsjökuls að verða aðkallandi?

Ljóst þykir að eldstöðin undir Hofsjökli sé að vakna. Nokk­ur stór­fljót má rekja til jök­uls­ins, þar á meðal Þjórsá, Hvítá, Blöndu og Héraðsvötn. Mat á flóðahættu í þessum jökulám er flókið verkefni sem nýleg skjálftavirkni er vísbending um að sé að verða aðkallandi. Það krefst að líkindum vöktunar, háþróaðrar líkanagerðar, áhættumats og skilvirkrar neyðaráætlunar. Sér í lagi vegna þess að þessar ár renna um fjölmenn byggðarlög. 


mbl.is Skjálftavirknin hefur tífaldast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Húsnæðis- og innviðaskorturinn

Ljósmynd: Pexels

Húsnæðisskorturinn tekur á sig ýmsar myndir, húsnæði er upptekið vegna skammtímagistingar og eitthvað er um að húsnæði sé keypt og standi autt á meðan beðið er eftir hækkun þess á markaði.  Háir vextir hamla einnig kaupum. Lagalega séð bera sveitarfélögin mikla ábyrgð á þessu sviði því í reglugerð um húsnæðisáætlanir sveitarfélaga kemur fram að: 

Sveitarfélög skulu gera húsnæðisáætlun til tíu ára í senn og skal hún staðfest af sveitarstjórn. Skal hún byggja á greiningum um þörf fyrir íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu með tilliti til mismunandi búsetuforma. Við greininguna skal m.a. skoða framboð og eftirspurn eftir mismunandi búsetuformum og hvort jafnvægi ríki á húsnæðismarkaði. Þá skal meta þörf fyrir húsnæði til að mæta þörfum einstakra hópa s.s. fatlaðs fólks, aldraðra, tekju- og eignaminni og námsmanna, auk húsnæðisþarfar á almennum markaði. [...]

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun ber að fylgja eftir áætlanagerð sveitarfélaga um þörf á íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu og veita ráðgjöf og upplýsingar við áætlanagerðina.

Reglugerð þessi er byggð á húsnæðislögum nr. 44/1998 en í þeim segir í 5. grein: 

„Sveitarstjórn ber ábyrgð á og hefur frumkvæði að því að leysa húsnæðisþörf þess fólks í sveitarfélaginu sem þarfnast aðstoðar við húsnæðisöflun. Í því skyni skal sveitarstjórn fylgjast með þörf á húsnæði í sveitarfélaginu. [Jafnframt fer sveitarstjórn með stjórn og samræmingu húsnæðismála á vegum sveitarfélagsins.]“

Ábyrgðin er því hvers sveitarfélags fyrir sig. Umræðan hefur mikið til snúist um deildar meiningar um hvort beri að dreifa byggðinni eða þétta hana, en ekki hvað veldur því að gerð húsnæðisáætlana ber ekki betri árangur en raun ber vitni. Sveitarstjórnarmenn virðast komast upp með meiri vanefndir ábyrgðar sinnar en alþingismenn, hugsanlega vegna lítils stjórnmálaáhuga- og þátttöku almennings. Héraðsfréttamiðlar eru ekki í stakk búnir til að veita þeim aðhald og áhugi RÚV á þessu sviði er sennilega ekki nægur. Einnig kann að vera að þó að sveitarstjórnarmönnum sé falin mikil ábyrgð eru þeir gjarnan að sinna sveitarstjórnarstarfinu í sjálfboðavinnu og virkur tími þeirra í stjórnmálum því oft stuttur. 

Talsmenn þéttingar hafa nefnt dýrleika innviðauppbyggingar en vitað hefur verið lengi að byggja þurfi litlar íbúðir.  Af hverju sveitarfélögin hafa ekki skipulagt meiri uppbyggingu á minnsta leyfilega húsnæði eða unnið meira að skipulagningu svæða fyrir færanleg smáhýsi er athugunarefni í ljósi ábyrgðar þeirra. 

Í ljósi ábyrgðarinnar er einnig undarlegt að oftar en ekki útvista sveitarfélög skipulagsvaldinu til fjárfesta og láta þeim eftir að sjá um deiliskipulagsgerð, hönnun, uppbyggingu innviða og sölu byggingarlóða!

Varðandi dýrleika innviðauppbyggingar hefur talsmaður þéttingar bent á að grunnskóli kosti rúma 4 milljarða. Í framhaldi af því má benda á að venjan er að skólabyggingar eru sérhannaðar og byggðar á staðnum í stað þess að notast við staðlaða hönnun sem tæki tillit til síbreytilegra þarfa skólanna. Skólahús ættu að vera þannig að auðvelt sé að bæta við einingum eða taka þær úr notkun og endurnýja. Þau ættu að vera úr forsmíðuðum einingum sem hægt er að bæta við, taka burt eða raða saman eins og Legókubbum.  Þannig ættu mygluvandamál t.d. að verða viðráðanlegri. 

Þegar horft er á sumar nýbyggingar skólahúsnæðis síðustu áratuga virðist sem fátt hafi verið sparað til að gera þær að sem glæstustum minnismerkjum um húsagerðarlist. Afurðin er svo gjarnan prjónuð saman við nýjustu kenningar í menntavísindum.  Afleiðingarnar eru flóknar byggingar og samsetningar sem iðnaðarmenn hafa þurft að plástra saman eftirá. Þegar upp er staðið er svo barátta við lélega hljóðvist, lýsingu, hita, kulda, leka og þar á eftir myglu íþyngjandi fyrir reksturinn svo árum skiptir. 

Endurbirtur pistill af vef Kristinna stjórnmálasamtaka


Tímabærar viðræður

pexels-mart-production-8078443

„Velferðarráð Reykjavíkur samþykkti á fundi í gær að ganga til samninga við Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um aðkomu að þjónustu Vettvangs- og ráðgjafarteymis Reykjavíkurborgar og mögulegri vetraropnun sérstaks neyðarskýlis.“ Sjá hér: [Tengill]. Í sömu frétt kemur fram að samkvæmt nýlegri skýrslu séu 76 heimilislaus á höfuðborgarsvæðinu utan Reykjavíkur. „Við höfum kallað eftir því að fleiri sveitarfélög setji sér stefnu og sinni þessum viðkvæma hópi.“ segir sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkur. Óskandi væri að stærstu sveitarfélögin austan Hellisheiðar svari þessu kalli því eins og áður hefur verið bent á, á þessu bloggi gætu óveður og veglokanir sett strik í reikninginn hjá þeim sem gætu þurft á svona þjónustu að halda og staðsett eru á þessu svæði. 

Endurbirtur pistill af vef Kristinna stjórnmálasamtaka. 


Sveitarfélög ættu að vera tilbúin með neyðarúrræði fyrir veturinn

 Mynd: Pixabay„Formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar segir önnur sveitarfélög verða að opna úrræði fyrir heimilislausa en ekki banna fólki að nýta sér neyðarskýli borgarinnar. Vísa þarf fólki frá vilji sveitarfélög ekki greiða fyrir gistingu.“ Sjá hér. Þetta er tilvitnun í formann velferðarráðs Reykjavíkurborgar frá síðastliðnu sumri sem síðan í lok september er formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. 

„Framkvæmdastjóri Samhjálpar segir húsakost kaffistofu samtakanna löngu sprunginn vegna mikillar aukningar gesta síðustu mánuði. Í mars hafi ríflega 200 gestir heimsótt kaffistofuna, en í september hafi fjöldinn farið upp í tæplega þúsund“, sjá hér
 

Þrátt fyrir að svo virðist sem búið sé að mæta brýnustu þörf og lítið hafi heyrst að undanförnu frá hinum viðkvæma hópi heimilislauss fólks má ætla að veturinn muni hafa í för með sér áskoranir á þessu sviði fyrir sveitarfélögin og þá sérstaklega fyrir önnur sveitarfélög en borgina á höfuðborgarsvæðinu, stór sveitarfélög úti á landi og þá sérstaklega þau sem hætta er á að lokist af frá Reykjavík vegna veðurs og færðar. 

Á Árborgarsvæðinu er til að mynda ekkert neyðarskýli svo aðstandendur gætu þurft að bjarga fólki í neyð inn á heimili sín eða í einhverjum tilfellum aðrir almennir borgarar þegar veglokanir eru vegna illviðra.  Það er ljóst að þau sveitarfélög sem hafa fengið þessa hvatningu formanns samtaka sinna og sinna þeim ekki ætla að velta ábyrgðinni af neyðaraðstoðinni yfir á einstaklinga því í almennum hegningarlögum segir í 221. gr:

„Láti maður farast fyrir að koma manni til hjálpar, sem staddur er í lífsháska, þótt hann gæti gert það án þess að stofna lífi eða heilbrigði sjálfs sín eða annarra í háska, þá varðar það … 1) fangelsi allt að 2 árum, eða sektum, ef málsbætur eru.“ 

Ætla má að almenningur sé ekki vel undir það búinn að leggja mat á aðstæður og þurfa að velja milli þess annað hvort að stofna lífi eða heilbrigði sjálf sín í hættu eða láta farast fyrir að koma manni til hjálpar sem knýr dyra um miðja nótt í illviðri og sem virðist vera í annarlegu ástandi. 

Hér þyrfti löggjafinn að skýra betur hvar ábyrgð liggur í þessum aðstæðum því staðan er sú að heimilislausir hvort sem um er að ræða fólk í vímuefnavanda eða aðrir hafa líklega ekki verið fleiri í langan tíma. Þetta ástand var til komið á síðasta ári og síðan þá hefur staðan líklega enn versnað ef marka má orð formanns SÍS sem vitnað var til að ofan. 

Endurbirtur pistill af vef Kristinna stjórnmálasamtaka


Vefmyndavélar við Selfoss?

Löng bílalest myndaðist á leiðinni austur frá Hveragerðis til Selfoss síðastliðinn laugardag 8 júlí og það tók hátt í tvær stundir að aka þennan stutta spöl. Þetta ástand er ekki einsdæmi og er að verða of algengt. Ef vegfarendur hefðu haft upplýsingar um þennan umferðartappa þá hefðu einhverjir eflaust valið hjáleið, t.d. um Óseyrarbrúna. Þeir sem ætla á Selfoss gætu sem hægast tekið veg 34 upp á Selfoss frá Eyrarbakka.

Til að komast í austur framhjá Selfossi er síðan hægt að taka Votmúlaveg nr. 310. Ef tappi myndast á vegi 34 fyrir vestan Selfoss væri einnig hægt að fara veg 33 í austur frá Stokkseyri en hann sveigir í norður hjá Gaulverjabæ og sameinast hringveginum fyrir austan Selfoss.  Það er því talsvert pláss í boði á vegunum og í raun ástæðulaust að nýta ekki þessa vegi meðan allt er fullt ofan við Selfoss. 

Einföld leið til að gefa rauntímaupplýsingar af ástandinu í kringum Selfoss er með myndavél, eða myndavélum. Ef Vegagerðina skortir fjármagn til að kaupa ný tæki mætti hugsanlega færa einhverjar myndavélar tímabundið á þetta svæði þegar umferðin er mest núna að sumarlagi. Sem dæmi má nefna að á Festarfjalli eru 4 vélar, á Kambabrún 4 og á Þrengslavegamótum 4. Myndavélar myndu gera ástandið fyrirsjáanlegra og stytta biðina eftir þeim umferðarbótum sem nýja brúin mun hafa í för með sér. 


Sérbýli ætti að vera búsetuúrræði fyrir alla tekjuhópa

Endurskoða þarf þá stefnu sveitarfélaganna að ráðstafa lóðum undir eitt stórt sérbýli fremur en að setja sama land undir þrjú til fjögur lítil sérbýli. Forráðamaður sveitarfélags sagði að ástæða fyrir þessu væri að litlu lóðirnar þyrftu að vera hlutfallslega dýrari!? Staðreyndin er samt sú að 3-4 sinnum minni lóð verður lægri í heildarverði en stóra lóðin, jafnvel svo að ráðdeildarsamt lágtekjufólk gæti eignast hana eða leigt til skemmri tíma ef ráðamenn sveitarfélaga myndu heimila slíkt - sem þeir gera fæstir. 

Tekjulágt fólk gæti viljað búa í sérbýli af ýmsum ástæðum: Þau gætu viljað geta flutt húsið með sér vegna atvinnu, Þau gætu viljað eiga gæludýr, þau gætu viljað flytja úr fjölbýli þar sem búið væri að gefa gæludýraeign frjálsa, þau gætu viljað eiga garðblett, eins og aðeins íbúar fyrstu hæða fjölbýla geta, þau gætu viljað hanna sitt umhverfi að svo miklu leyti sem það væri hægt, þau gætu viljað fara úr fjölbýlinu vegna vandræða sem geta skapast vegna of mikils nábýlis.  Hingað til hefur þetta frelsi aðeins verið á færi þeirra tekjuhærri - í boði sveitarstjórnanna. 

Óskiljanlegt er af hverju verkalýðsforystan og þeir stjórnmálaflokkar sem hafa kynnt sig sem talsmenn hinna tekjulægri hafi ekki tekið þetta mál upp. Hefur þeim kannski þótt fjölbýlið vera fullgott fyrir sína umbjóðendur? Fyrst og fremst þarf þó forystufólk sveitarfélaganna að hugsa málið betur því með ströngum reglum er í raun búið að taka af fólki þann möguleika að koma sér upp litlu húsi.


Tekjuminni ættu líka að geta valið einbýli

Stjórnmálaöflin hafa í framkvæmd tekið þá stefnu að tekjulægri einstaklingar skuli vera í fjölbýlum. Lóðir og skipulagsforsendur fyrir ein-, par-, og raðbýli hafa gert ráð fyrir stórum einingum sem hafa í raun aðeins verið á færi fólks með meðaltekjur og þar yfir að festa sér.

Þessu gætu stjórnmálaöflin hugað að við gerð kosningastefnuskráa sinna fyrir komandi kosningar og sveitarfélögin í framhaldi af því við gerð húsnæðisáætlana. Fjöldaframleidd lítil heilsárshús og smáhýsi á bilinu 15-40 m2 ættu að geta uppfyllt reglur og staðist kröfur. 

Ríkisvaldið gæti liðkað fyrir um gerð slíkra úrræða og sveitarfélögin skipulagt litlar lóðir fyrir þau til heilsársbúsetu. Sveitarfélög þyrftu einnig að bjóða upp á stöðulóðir fyrir eigendur lítilla færanlegra heilsárshúsa. 


Á að byggja hús í sögulegum stíl á Selfossi?

Þegar ég taldi upp hús í sögulegum stíl sem einkenna miðsvæðið og aðliggjandi svæði á Selfossi í bloggpistlinum "Forsendur sátta um miðsvæðið á Selfossi" láðist mér að nefna húsið Hafnartún, en það eins og ráðhúsið er innan skipulagsreits hins umdeilda skipulags. Þetta hús svarar sé vel og gefur svæðinu virðulegan svip. Af óskiljanlegum ástæðum var ekki minnst á þessi tvö hús í forsendum aðalskipulagsins fyrir svæðið.  

Hugmyndir um að byggja hús í gömlum sögulegum stíl eru ekki nýjar af nálinni og hafa þær yfirleitt heppnast vel. Sem dæmi um vel heppnaða byggingu í sögulegum stíl má nefna Landsbankahúsið á Selfossi en það ber sterkan svip af húsi bankans í Austurstræti sem upprunalega var hannað af Christian L. Thuren dönskum arkitekt sem aðhylltist sögustílinn. Sem dæmi um þekkt hús í sögustíl má nefna Westminster höll í London með Big Ben klukkuturninum

Á ferðum mínum um heiminn hef ég ávallt hrifist af gömlum fallegum byggingum sem vel er við haldið og ég er ekki einn um þá hrifningu því þessar byggingar laða að sér fólk. Það er umhugsunarefni að á tímum þegar efni voru mun minni eða jafnvel miklu minni en þau eru í dag þá lagði fólk hart að sér að reisa fegurðinni slík minnismerki. Sumar þessara bygginga voru hundruð ára í smíðum. Það sem merkilegra er, er að í þessum tilfellum virðist hafa tekist að höndla fegurðina að svo miklu leyti sem hún verður höndluð. Margar þessara bygginga miðla tímalausri og klassískri fegurð sem ekkert í nútímanum með öllu sínu ríkidæmi og frelsi í stílformum virðist ná að jafna.  

Á Selfossi eru einnig dæmi um endurbyggingar eldri húsa sem hafa heppnast vel. Þar má nefna húsið Múla þar sem Tónlistarskóli Árnesinga er til húsa að Eyravegi 9 og "gömlu Daddabúð" þar sem nú er Tölvulistinn til húsa að Austurvegi 34.

Sú hugmynd að byggja hús í sögulegum stíl á Selfossi er því í grunninn góð og ætti að geta heppnast vel en þau hús sem þar rísa í sögulegum stíl ættu samt ekki að víkja of mikið frá forsendum núverandi byggðar. Þó Big Ben laði að sér fólk í London þá er ekki víst að eftirlíking af Big Ben myndi hafa sömu áhrif á Selfossi. Þó margir leggi leið sína til Sacré-Cœur og Notre Dame kirknanna í París þá er ekki víst að tilgátuhús í líkingu miðaldakirkju muni hafa sömu áhrif á Selfossi.

Þekktasta dæmið um mistök af þessu tagi er líklega eftirlíkingin af kirkju Vatíkansins á Fílabeinsströndinni en þangað leggja fáir leið sína í dag. Á Selfossi var ekki kirkja á miðöldum og ef forsendur núverandi byggðar eru lagðar til grundvallar er erfitt að rökstyðja byggingu þannig húss. Með nýjum tímum koma nýir menn og með tíð og tíma er ekki útilokað að yfirvöld Þjóðkirkjunnar muni einn góðan dag leyfa tilgátuhúsi um miðaldakirkju að rísa í Skálholti þar sem slíkt hús á sannarlega heima. 

Ef ætlunin er að byggja hús á miðsvæðinu og sér í lagi hús í sögulegum stíl þá er sjálfsagt að hönnun og útlit þeirra kallist á við útlit þeirra húsa í sögulegum stíl sem fyrir eru á svæðinu og að svipmót hinna nýju húsa kalli ekki fram stílbrot við svipmót þessara húsa. Það er afar mikilvægt að tryggja að áframhaldandi þróun í byggingarstíl á svæðinu verði á forsendum byggðarinnar á svæðinu.

Almenningur í Árborg verður að fylgjast grannt með undanlátssemi sveitarstjórnarmanna við framkvæmdaaðila og veita þeim það aðhald sem þarf til að þróunin verði ekki látin eftir hönnuðum sem fá frjálsar hendur um stíltilraunir sínar eins og hótelbyggingarnar við Austurveg og Eyraveg bera merki um og einnig að þeir fái ekki að hanna bæði aðalskipulag og deiliskipulag fyrir sig sjálfa á þeim forsendum sem þeim hugnast best sjálfum.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband