Fæðingarorlof verði 12 mánuðir og greiðsluþak hækkað í 600 þúsund

Fæðingarorlof verði 12 mánuðir og greiðsluþak hækkað í 600 þúsund krónur, barnabætur hækkaðar og barnaföt verði án virðisaukaskatts. Mikilvægt er að stuðla að því að sveitarfélögin geti boðið upp á leikskóla strax að loknu fæðingarorlofi, þannig að samfella verði tryggð í umönnun barna. Brýnt er að leikskólar séu mannaðir fagfólki. Framsóknarmenn vilja að foreldrar sem þurfa að dvelja fjarri heimili sínu vegna fæðingar barns fái styrk úr fæðingaorlofssjóði til að mæta þeim tíma þannig að fæðingaorlof sé nýtt í þágu barns að lokinni fæðingu.

Úr kosningastefnuskrá Framsóknar og ályktunum 34. flokksþingsins bls. 18.


Taka skal upp komugjald á ferðamenn sem nýtt verður til innviða

Innheimta skal komugjald farþega strax á næsta ári með það að markmiði að vernda náttúruna og tryggja nauðsynlega uppbyggingu viðkvæmra ferðamannastaða. Stýra þarf álagi á fjölmennustu ferðamannastaði landsins. Framsóknarflokkurinn leggur áherslu á að opnaðar verðir nýjar gáttir í millilandaflugi til og frá Íslandi. Með opnun nýrra gátta verði horft sérstaklega til vetrarferðamennsku og lengingu ferðamannatímabilsins, ásamt því að ferðamannastraumnum og álagi verður betur stýrt um landið.

Úr kosningastefnuskrá Framsóknar og ályktunum 34. flokksþingsins bls. 12. 


Fjármunum er betur varið til samfélagslegra verkefna en til greiðslu vaxta

Framsóknarflokkurinn leggur áherslu á gerð langtímaáætlana í ríkisfjármálum og sjálfbæran rekstur ríkissjóðs. Útgjöld verða að haldast í hendur við tekjur. Hagstjórn þarf að vera ábyrg og ríkisfjármál öguð. Flokksþing fagnar sérstaklega þeim árangri sem náðst hefur á kjörtímabilinu með hallalausum rekstri ríkissjóðs og lækkun skulda. Mikilvægt er að lækka skuldir ríkissjóðs enn frekar m.a. með aukinni verðmætasköpun þjóðarbúsins og með skynsamlegu aðhaldi í rekstri hins opinbera. Flokksþingið styður metnaðarfull markmið ríkisstjórnarinnar um lækkun skulda, enda er fjármunum betur varið til brýnni samfélagslegra verkefna en til greiðslu vaxta.

Úr ályktunum 34. flokksþings Framsóknarflokksins bls. 4-5.


Peningastefnuna þarf að endurskoða - vextir endurspegli breyttan veruleika

Peningastefnuna þarf að endurskoða, raunvextir á Íslandi þurfa að endurspegla breyttan efnahagslegan veruleika. Gera þarf úttekt á fyrirkomulagi peningamyndunar og mögulegum umbótum á því samanber þingsályktunartillögu Frosta Sigurjónssonar og fleiri þingmanna á síðasta þingi. Skoða þarf kosti þess að færa peningamyndun alfarið til Seðlabankans.

Úr kosningastefnuskrá Framsóknarflokksins og ályktunum 34. flokksþings hans bls. 6. 


Lög um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð

12. okt. sl. samþykkti Alþingi lög um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð. Þau mynda grundvöll úrræðisins "Fyrsta fasteign" sem oddvitar síðustu ríkisstjórnar kynntu í ágúst sl. Í lögunum er mælt fyrir um þrjár leiðir við ráðstöfun á viðbótariðgjaldi í lífeyrissjóð. Þær eru 1) heimild til úttektar á uppsöfnuðu viðbótariðgjaldi séreignasparnaðar til kaupa á fyrstu íbúð, 2) heimild til að ráðstafa viðbótariðgjaldi inn á höfuðstól láns og 3) heimild til að ráðstafa viðbótariðgjaldi sem afborgun inn á óverðtryggt lán, sem tryggt er með veði í fyrstu íbúð, og sem greiðslu inn á höfuðstól þess. 

Sjá nánar hér: 
Vefur fjármálaráðuneytisins
Frétt Vísis og Mbl. um málið. 
Ferill málsins á þingi.


Lífreyrir hækkar í 280 þús. 1. jan. '17 og 300 þús. 1. jan. '18

Eitt af þeim málum sem tókst að ljúka fyrir þinglok var stjórnarfrumvarp sem félagsmálaráðherra Eygló Harðardóttir lagði fram á Alþingi 2. sept. sl. Frumvarpið var svo samþykkt sem lög 13. okt. sl. Samkvæmt lögunum verða elli- og örorkulífeyrisþegum sem halda einir heimili og eru með fullan búseturétt hér á landi tryggðar 280.000 kr. á mánuði frá 1. janúar 2017 og ári síðar hækkar sú fjárhæð í 300.000 kr. Sjá nánar hér á vef Velferðarráðuneytisins. Þetta atriði er númer 3 í kosningastefnuskrá Framsóknar


Skattaívilnanir til efnahagslega veikra svæða

Eitt af þeim málum sem Framsókn setur á oddinn* i komandi kosningum er að skoðað verði hvort beita megi skattaívilnunum til fyrirtækja og einstaklinga á efnahagslega veikum svæðum á landsbyggðinni. Ásgerður Kristín Gylfadóttir frá Höfn, frambjóðandi Framsóknar í Suðurkjördæmi skrifaði grein í Mbl. 12. okt. sl. Þar lýsti hún því hve erfitt getur verið að fá fagfólk til starfa og búsetu úti á landi og algengt sé að læknar sinni heilsugæslu að heiman með því að vera 5-7 daga í héraði með störfum á höfuðborgarsvæðinu. Hún nefndi einnig atriði** sem flokksþing Framsóknar samþykkti nýlega sem ályktun en það er að veita afslátt af námslánum kjósi fólk að setjast að á ákveðnum svæðum sem þarfnast stuðnings. 

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson oddviti Framsóknar í NA-kjördæmi skrifaði einnig grein í Mbl. 15. okt. sl. (bls. 27) og nefndi þessi atriði en einnig að þriðjungur veiðigjalda ætti að renna til sveitarfélaga utan höfuðborgarsvæðisins, þriðjungur í þróunarverkefni hringinn í kringum landið og þriðjungur í sóknarverkefni sem geri byggðirnar eftirsóknarverðari. Einnig að opna þurfi nýjar fluggáttir til landsins á Akureyri og Egilsstöðum og gera flugvellina þar betur samkeppnishæfa. Hann nefnir að færa þurfi sveitarfélögunum auknar beinar tekjur af vaxandi ferðaþjónustu því megnið af innviðauppbyggingunni falli til utan Reykjavíkur en megnið af tekjunum séu lögð á í borginni.

*  Sjá 9. punktinn í kosningastefnuskrá Framsóknar. 
** Sjá ályktanir 34. Flokksþings Framsóknar, bls. 28.


Framtíðarþróun trjágróðurs í þéttbýlinu á Selfossi

Á Selfossi hefur vaxið upp hinn myndarlegasti þéttbýlisskógur. Trén eru flestum til ánægju. Þau mynda náttúrulegt og lífrænt umhverfi, draga úr hljóðmengun og veita skjól. Í sumum tilfellum er skuggavarp þeirra og lauffall á haustin þó orðið athugunarefni. Þetta haustið hefur lauffall orðið mikið á stuttum tíma og er asparlaufið mest áberandi. Laufmagnið hefur líklega aldrei verið meira og tíðar rigningar og stormar á stuttum tíma hafa haft sitt að segja núna í miðjum október.

Á sunnudaginn var gekk ég um götur Selfoss og það verður að segjast að það var lítil prýði af niðurrigndum asparlaufahrúgum á gangstéttum og í göturæsum. Nú gæti verið lag fyrir okkur Selfyssinga að huga meira að plöntun annarra tegunda en aspa og jafnframt huga að grisjun þeirra þar sem þær standa of þétt eða á óheppilegum stöðum.

Aspirnar hafa gert og gera sitt gagn hér, eru búnar að mynda skjólgóðan skóg sem getur greitt öðrum tegundum götu. Á eftirfarandi tengli er samantekt á þeim tegundum sem gætu hentað í þéttbýli: [Tengill]. Á áðurnefndri göngu minni dáðist ég t.d. að fallegum grenitrjám og vel snyrtum furutrjám. Grenið missir hvorki barr sitt né grænan lit og skýlir því betur á veturna en naktar aspir. 


Byggður verði nýr Landspítali og framlög til heilbrigðisstofnana aukin

Íslenska heilbrigðiskerfið á að vera í fremstu röð og ávallt á að vera í boði eins góð heilbrigðisþjónusta og mögulegt er. Nýleg úttekt á starfsemi Landsspítalans verði höfð að leiðarljósi. Efla ber þjónustu heilsugæslunnar, þá verður að leggja meiri áherslu á menntun starfsmanna framtíðarinnar í heilbrigðiskerfinu, m.a. með auknum framlögum til heilbrigðissviða háskólanna.

Úr kosningastefnuskrá og ályktunum 34. flokksþings Framsóknar um heilbrigðismál.


Unnið verður eftir sóknaráætlun í loftslagsmálum

Framsókn ætlar að vinna eftir sóknaráætlun í loftslagsmálum* sem er að fullu fjármögnuð til næstu þriggja ára í samræmi við skuldbindingar Íslands í Parísarsamkomulaginu. Áætlunin byggir á verkefnum sem draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í samgöngum, sjávarútvegi, landbúnaði og við landnotkun. Innviðum fyrir rafbíla verður komið upp, auknu fé verður varið í landgræðslu og til skógræktar, einnig verður gert átak til að draga úr matarsóun. 

Sjá 10. lið kosningastefnuskrárinnar.
Sjá sóknaráætlunina hér.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband