Laugardagur, 16.11.2024
Staða íslenskunnar: Tími til aðgerða!
Margvísleg teikn eru á lofti um að staða íslensku sé að veikjast, ekki síst í höfuðborginni þar sem alþjóðavæðingin verður sífellt sýnilegri. Nú er svo komið að sumt starfsfólk verslunar og þjónustu hérlendis getur ekki og reynir heldur ekki að tjá sig á íslensku.
Í Íslenskri málstefnu 2021-2030 er sérstaklega tekið á þessu áhyggjuefni og á bls. 40 segir:
Talin var ástæða til að spyrna við fæti svo íslenska missti ekki svið eða umdæmi yfir til ensku og annarra erlendra mála. Á undanförnum árum hafa áhrif þessa verið skýrust í tengslum við mikla uppbyggingu í ferðaþjónustu og aukna aðsókn erlendra ferðamanna. Til að bregðast við þessari þróun og rétta hlut íslensku er ekki rétt að feta veg boða og banna. Finna þarf jákvæðar leiðir til úrbóta og hvetja fyrirtæki og styðja eftir föngum til þess að fylgja málstefnu sem tryggir stöðu íslensku á öllum sviðum atvinnulífsins.
Sú þróun að vinnuveitendur taki ekki ábyrgð á að starfsfólk þeirra sé ófært að tjá sig á íslensku, kemur ekki á óvart í ljósi alþjóðavæðingarinnar. Íslenska málstefnan hvetur í þessu sambandi til jákvæðrar nálgunar og stuðnings við fyrirtæki. En vísbendingar eru um að sú aðferðafræði beri ekki nægan árangur.
Að ráða starfsfólk sem ekki getur tjáð sig á lögboðnu samskiptamáli landsins, íslenskunni, til þjónustu við almenning, er sérkennilegt, en í raun og veru skiljanlegt í ljósi þess að afleiðingar fyrir vinnuveitandann eru engar. Því þyrfti að styrkja málstefnuna, hugsanlega með lagabreytingu ef nauðsyn krefur.
Vinnuveitandi sem ræður starfsfólk sem talar erlent tungumál ætti að bera einhverja ábyrgð á því að hjálpa því til að læra íslensku. Fyrir 30 árum var það heilmikið mál en í dag, með tilkomu tölvu- og fjarskiptatækni, ætti að vera hægt að finna ráð til að koma því við.
Aðgerðaáætlun stjórnvalda um gervigreind er lofsvert framtak, en enn betur má ef duga skal. Algengt er t.d. að fólk æfi sig í tungumálum með tungumálaöppum. Gera þyrfti gangskör að því að fá íslenskuna inn í tungumálaapp, t.d. Duolingo. Þá gætu vinnuveitendur gefið starfsfólki leyfi til að æfa sig á vinnutíma í appinu þangað til viðkomandi væri kominn með nægilega færni til að halda uppi samskiptum á íslensku.
Miðvikudagur, 13.11.2024
Ný öryggisógn og hlutverk greiningardeildar: Nauðsyn nýrrar stofnunar?
Rannsókn á þessum atburði á líklega helst heima hjá greiningardeild ríkislögreglustjóra passi atburðarásin á annað borð inn í ramma stjórnkerfisins. Í reglum um deildina segir að deildin eigi m.a. að:
Annast áhættugreiningu vegna einstaklinga og afla upplýsinga vegna verndar og öryggisgæslu fyrir æðstu stjórn ríkisins.
Veita ráðgjöf um viðbúnað sem hefur þýðingu fyrir hagsmuni ríkisins og þjóðhagslega mikilvæga starfsemi.
Verði það samt raunin að ríkislögreglustjóri telji þetta ekki vera tilefni til viðbragða þarf að skerpa á lögum um greiningardeildina eða koma á fót nýrri öryggisstofnun sem hefur öryggisatvik á borð við þetta á verksviði sínu. Um nauðsyn slíkrar stofnunar var reyndar rætt þegar bandaríska herliðið fór af landi brott 2006.
Málið virðist annars liggja nokkuð ljóst fyrir. Það er hafið yfir vafa að fjársterkur aðili, sennilega þjóðríki, hefur fjármagnað atlögu að Sjálfstæðisflokknum. Ástæður þess að Sjálfstæðisflokkurinn verður fyrir þessu eru þær líklegastar að ráðherrar hans hafa farið með utanríkismálin um langt skeið og flokkurinn er þekktur fyrir stuðning sinn við veru Íslands í Nató, er raunar leiðandi á því sviði og hefur verið frá upphafi.
Stríð geisar í Evrópu og Nató er bandalag sem hamlar útvíkkun stríðsátakanna og því að árásaraðilinn nái markmiði sínu. Nágrannaríki okkar í Evrópu hafa þurft að búa við margháttaðar ógnir síðustu mánuði og ár og ekki þarf að efast um að núverandi ráðamenn í Moskvu muni sýna virðingarleysi eða ógnandi framkomu gagnvart íslenska ríkinu eins og þeir hafa raunar gert um árabil.
Sem fyrstu viðbrögð væri auðvitað hægt að endurskoða og útvíkka upplýsingaöryggisstefnu stjórnarráðsins og bæta við ákvæðum um að starfsfólk ráðuneyta tjái sig ekki um málefni starfsins við fjölskyldumeðlimi, bæði vegna eðlis starfseminnar sem og til að stuðla að öryggi þessara fjölskyldumeðlima.
Ríkislögreglustjóri kannar málsatvik | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 6.11.2024
Langbylgjan er án hliðstæðu
Atvikið þegar hluti farsímakerfisins datt út, sem gerði ómögulegt fyrir fólk að hringja í 112, ásamt sambandsleysi í Tetra-kerfinu, sýnir að mikilvægt er að bæta í fjarskiptakerfið og viðhalda því vel. Þetta og fleiri öryggisatvik á undanförnum árum varpa ljósi á þörfina á að styrkja burðarkerfi netsambandsins og prófa þau reglulega til að tryggja öryggi.
Þá er ekki aðeins mikilvægt að efla netsamband, GSM og Tetra kerfin, heldur getur einnig þurft að viðhalda eldri fjarskiptakerfum sem eiga sér ekki hliðstæðu. Sem dæmi má nefna langbylgjuútsendingar Ríkisútvarpsins, sem stuðla að því að upplýsingar, t.d. fregnir af náttúruvá, berist yfir langar vegalengdir þrátt fyrir landfræðilegar hindranir á borð við fjöll eða fjallgarða.
Því miður virðist sem stjórnvöld hafi leyft þessu mikilvæga öryggiskerfi að úreldast. Ríkisútvarpið hefur í staðinn lagt áherslu á FM kerfið, sem notar rúmlega 230 senda til að ná til mikilvægra landsvæða. Hins vegar hafa FM sendingar takmarkaða drægni og missa samband þegar fjallgarðar skyggja á útsendinguna.
Stafrænar útsendingar á langbylgju eða miðbylgju, t.d. með DRM (Digital Radio Mondiale), gætu tryggt útvarpssamband á öllu landinu með fáum sendum. Með DRM er hægt að nota gömlu sendana áfram með viðbótar tölvubúnaði. Kostirnir eru að þetta fyrirkomulag krefst minni raforku en heldur sömu langdrægni og gerir mögulegt að senda textaskilaboð ásamt hljóði.
Viðamiklar prófanir og vettvangstilraunir hafa verið framkvæmdar víða um heim undanfarin ár á þessum útsendingum. Niðurstöðurnar staðfesta að DRM, bæði á AM og VHF/FM tíðnisviðunum, virkar vel og hægt er að innleiða kerfið til að mæta fjölbreyttum kröfum í alls kyns aðstæðum
Mjög alvarlegur atburður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 2.10.2024
Kallar húsnæðisvandinn á óhefðbundnar bráðabirgðalausnir?
Sá hópur sem á í alvarlegum húsnæðisvanda er því miður stækkandi. Margir þurfa að grípa til óhefðbundinna úrræða, svo sem búsetu í hjólhýsum eða húsbílum. Það getur verið af ýmsum ástæðum, til dæmis þeirri að samkvæmt 55. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús má meina búsetu þeim sem brjóta reglur húsfélaga. Gildir þá einu hvort um er að ræða einkaeign eða félagsbústað.
Húsvagnahópurinn er fjölbreyttur og inniheldur bæði þá sem neyðast til slíkrar búsetu og þá sem kjósa hana af lífsstílsástæðum. Þrátt fyrir mismunandi bakgrunn hefur hópurinn, í heild sinni, hrakist undan yfirvöldum vegna aðgerða sem þrengja að þessum búsetumöguleikum. Nærtækt er dæmið frá Bláskógabyggð og einnig má nefna flutning hjólhýsabúa úr Laugardal á iðnaðarplan á Sævarhöfða. [Tengill]
Tilsvar borgarstjórans í Reykjavík um sérstök úrræði til handa hinum verr setta hluta hópsins og að betur setti hlutinn eigi að fara annað er erfitt að skilja. Hluti hins verr setta hóps getur líklega hvergi verið nema í gistiskýli eða smáhýsum og af þeim er skortur.
Það að yfirvöld skuli ekki vilja þjóna hópnum í heild betur er afar sérkennilegt. Í stað þess að sitja uppi með fjölda hjólhýsa á óheppilegum stöðum, svo sem fast uppi við hús með tilheyrandi eldhættu, líklega í mörgum tilfellum í óleyfi, þá ættu yfirvöld að sjá sóma sinn í að skaffa boðlegar aðstæður til útistöðu hjólhýsa og húsbíla allan ársins hring og veita um leið nauðsynlegt aðhald svo sem varðandi brunavarnir og önnur öryggismál.
Vandi heimilislausra vex mikið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 15.8.2024
Brýnt að bregðast við sjónarmiðum hjólhýsabúa
Í þessu tilliti er sjónarmið og málsvörn borgarstjórnar, sem flestir þó geta tekið undir að til lengri tíma þurfi að auka framboð af félagslegu húsnæði, léttvægt og endurspeglar skilningsleysi á brýnum þörfum þessa hóps sem stendur verulega höllum fæti. Nú hallar sumri og eftir tvo mánuði fer í hönd vetur sem vonandi verður mildur og góður en ekki er hægt að horfa framhjá því að síðasti vetur var sá kaldasti á öldinni og sá hinn fyrri var fremur illviðrasamur.
Endurbirtur pistill: https://kstjorn.blogspot.com
Mánudagur, 17.6.2024
Er mat á flóðahættu í jökulám Hofsjökuls að verða aðkallandi?
Ljóst þykir að eldstöðin undir Hofsjökli sé að vakna. Nokkur stórfljót má rekja til jökulsins, þar á meðal Þjórsá, Hvítá, Blöndu og Héraðsvötn. Mat á flóðahættu í þessum jökulám er flókið verkefni sem nýleg skjálftavirkni er vísbending um að sé að verða aðkallandi. Það krefst að líkindum vöktunar, háþróaðrar líkanagerðar, áhættumats og skilvirkrar neyðaráætlunar. Sér í lagi vegna þess að þessar ár renna um fjölmenn byggðarlög.
Skjálftavirknin hefur tífaldast | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 11.12.2023
Húsnæðis- og innviðaskorturinn
Ljósmynd: Pexels |
Húsnæðisskorturinn tekur á sig ýmsar myndir, húsnæði er upptekið vegna skammtímagistingar og eitthvað er um að húsnæði sé keypt og standi autt á meðan beðið er eftir hækkun þess á markaði. Háir vextir hamla einnig kaupum. Lagalega séð bera sveitarfélögin mikla ábyrgð á þessu sviði því í reglugerð um húsnæðisáætlanir sveitarfélaga kemur fram að:
Sveitarfélög skulu gera húsnæðisáætlun til tíu ára í senn og skal hún staðfest af sveitarstjórn. Skal hún byggja á greiningum um þörf fyrir íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu með tilliti til mismunandi búsetuforma. Við greininguna skal m.a. skoða framboð og eftirspurn eftir mismunandi búsetuformum og hvort jafnvægi ríki á húsnæðismarkaði. Þá skal meta þörf fyrir húsnæði til að mæta þörfum einstakra hópa s.s. fatlaðs fólks, aldraðra, tekju- og eignaminni og námsmanna, auk húsnæðisþarfar á almennum markaði. [...]
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun ber að fylgja eftir áætlanagerð sveitarfélaga um þörf á íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu og veita ráðgjöf og upplýsingar við áætlanagerðina.
Reglugerð þessi er byggð á húsnæðislögum nr. 44/1998 en í þeim segir í 5. grein:
Sveitarstjórn ber ábyrgð á og hefur frumkvæði að því að leysa húsnæðisþörf þess fólks í sveitarfélaginu sem þarfnast aðstoðar við húsnæðisöflun. Í því skyni skal sveitarstjórn fylgjast með þörf á húsnæði í sveitarfélaginu. [Jafnframt fer sveitarstjórn með stjórn og samræmingu húsnæðismála á vegum sveitarfélagsins.]
Ábyrgðin er því hvers sveitarfélags fyrir sig. Umræðan hefur mikið til snúist um deildar meiningar um hvort beri að dreifa byggðinni eða þétta hana, en ekki hvað veldur því að gerð húsnæðisáætlana ber ekki betri árangur en raun ber vitni. Sveitarstjórnarmenn virðast komast upp með meiri vanefndir ábyrgðar sinnar en alþingismenn, hugsanlega vegna lítils stjórnmálaáhuga- og þátttöku almennings. Héraðsfréttamiðlar eru ekki í stakk búnir til að veita þeim aðhald og áhugi RÚV á þessu sviði er sennilega ekki nægur. Einnig kann að vera að þó að sveitarstjórnarmönnum sé falin mikil ábyrgð eru þeir gjarnan að sinna sveitarstjórnarstarfinu í sjálfboðavinnu og virkur tími þeirra í stjórnmálum því oft stuttur.
Talsmenn þéttingar hafa nefnt dýrleika innviðauppbyggingar en vitað hefur verið lengi að byggja þurfi litlar íbúðir. Af hverju sveitarfélögin hafa ekki skipulagt meiri uppbyggingu á minnsta leyfilega húsnæði eða unnið meira að skipulagningu svæða fyrir færanleg smáhýsi er athugunarefni í ljósi ábyrgðar þeirra.
Í ljósi ábyrgðarinnar er einnig undarlegt að oftar en ekki útvista sveitarfélög skipulagsvaldinu til fjárfesta og láta þeim eftir að sjá um deiliskipulagsgerð, hönnun, uppbyggingu innviða og sölu byggingarlóða!
Varðandi dýrleika innviðauppbyggingar hefur talsmaður þéttingar bent á að grunnskóli kosti rúma 4 milljarða. Í framhaldi af því má benda á að venjan er að skólabyggingar eru sérhannaðar og byggðar á staðnum í stað þess að notast við staðlaða hönnun sem tæki tillit til síbreytilegra þarfa skólanna. Skólahús ættu að vera þannig að auðvelt sé að bæta við einingum eða taka þær úr notkun og endurnýja. Þau ættu að vera úr forsmíðuðum einingum sem hægt er að bæta við, taka burt eða raða saman eins og Legókubbum. Þannig ættu mygluvandamál t.d. að verða viðráðanlegri.
Þegar horft er á sumar nýbyggingar skólahúsnæðis síðustu áratuga virðist sem fátt hafi verið sparað til að gera þær að sem glæstustum minnismerkjum um húsagerðarlist. Afurðin er svo gjarnan prjónuð saman við nýjustu kenningar í menntavísindum. Afleiðingarnar eru flóknar byggingar og samsetningar sem iðnaðarmenn hafa þurft að plástra saman eftirá. Þegar upp er staðið er svo barátta við lélega hljóðvist, lýsingu, hita, kulda, leka og þar á eftir myglu íþyngjandi fyrir reksturinn svo árum skiptir.
Endurbirtur pistill af vef Kristinna stjórnmálasamtaka
Þriðjudagur, 7.11.2023
Tímabærar viðræður
Velferðarráð Reykjavíkur samþykkti á fundi í gær að ganga til samninga við Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um aðkomu að þjónustu Vettvangs- og ráðgjafarteymis Reykjavíkurborgar og mögulegri vetraropnun sérstaks neyðarskýlis. Sjá hér: [Tengill]. Í sömu frétt kemur fram að samkvæmt nýlegri skýrslu séu 76 heimilislaus á höfuðborgarsvæðinu utan Reykjavíkur. Við höfum kallað eftir því að fleiri sveitarfélög setji sér stefnu og sinni þessum viðkvæma hópi. segir sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkur. Óskandi væri að stærstu sveitarfélögin austan Hellisheiðar svari þessu kalli því eins og áður hefur verið bent á, á þessu bloggi gætu óveður og veglokanir sett strik í reikninginn hjá þeim sem gætu þurft á svona þjónustu að halda og staðsett eru á þessu svæði.
Endurbirtur pistill af vef Kristinna stjórnmálasamtaka.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 26.10.2023
Sveitarfélög ættu að vera tilbúin með neyðarúrræði fyrir veturinn
Formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar segir önnur sveitarfélög verða að opna úrræði fyrir heimilislausa en ekki banna fólki að nýta sér neyðarskýli borgarinnar. Vísa þarf fólki frá vilji sveitarfélög ekki greiða fyrir gistingu. Sjá hér. Þetta er tilvitnun í formann velferðarráðs Reykjavíkurborgar frá síðastliðnu sumri sem síðan í lok september er formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Þrátt fyrir að svo virðist sem búið sé að mæta brýnustu þörf og lítið hafi heyrst að undanförnu frá hinum viðkvæma hópi heimilislauss fólks má ætla að veturinn muni hafa í för með sér áskoranir á þessu sviði fyrir sveitarfélögin og þá sérstaklega fyrir önnur sveitarfélög en borgina á höfuðborgarsvæðinu, stór sveitarfélög úti á landi og þá sérstaklega þau sem hætta er á að lokist af frá Reykjavík vegna veðurs og færðar.
Á Árborgarsvæðinu er til að mynda ekkert neyðarskýli svo aðstandendur gætu þurft að bjarga fólki í neyð inn á heimili sín eða í einhverjum tilfellum aðrir almennir borgarar þegar veglokanir eru vegna illviðra. Það er ljóst að þau sveitarfélög sem hafa fengið þessa hvatningu formanns samtaka sinna og sinna þeim ekki ætla að velta ábyrgðinni af neyðaraðstoðinni yfir á einstaklinga því í almennum hegningarlögum segir í 221. gr:
Láti maður farast fyrir að koma manni til hjálpar, sem staddur er í lífsháska, þótt hann gæti gert það án þess að stofna lífi eða heilbrigði sjálfs sín eða annarra í háska, þá varðar það 1) fangelsi allt að 2 árum, eða sektum, ef málsbætur eru.
Ætla má að almenningur sé ekki vel undir það búinn að leggja mat á aðstæður og þurfa að velja milli þess annað hvort að stofna lífi eða heilbrigði sjálf sín í hættu eða láta farast fyrir að koma manni til hjálpar sem knýr dyra um miðja nótt í illviðri og sem virðist vera í annarlegu ástandi.
Hér þyrfti löggjafinn að skýra betur hvar ábyrgð liggur í þessum aðstæðum því staðan er sú að heimilislausir hvort sem um er að ræða fólk í vímuefnavanda eða aðrir hafa líklega ekki verið fleiri í langan tíma. Þetta ástand var til komið á síðasta ári og síðan þá hefur staðan líklega enn versnað ef marka má orð formanns SÍS sem vitnað var til að ofan.
Sunnudagur, 9.7.2023
Vefmyndavélar við Selfoss?
Löng bílalest myndaðist á leiðinni austur frá Hveragerðis til Selfoss síðastliðinn laugardag 8 júlí og það tók hátt í tvær stundir að aka þennan stutta spöl. Þetta ástand er ekki einsdæmi og er að verða of algengt. Ef vegfarendur hefðu haft upplýsingar um þennan umferðartappa þá hefðu einhverjir eflaust valið hjáleið, t.d. um Óseyrarbrúna. Þeir sem ætla á Selfoss gætu sem hægast tekið veg 34 upp á Selfoss frá Eyrarbakka.
Til að komast í austur framhjá Selfossi er síðan hægt að taka Votmúlaveg nr. 310. Ef tappi myndast á vegi 34 fyrir vestan Selfoss væri einnig hægt að fara veg 33 í austur frá Stokkseyri en hann sveigir í norður hjá Gaulverjabæ og sameinast hringveginum fyrir austan Selfoss. Það er því talsvert pláss í boði á vegunum og í raun ástæðulaust að nýta ekki þessa vegi meðan allt er fullt ofan við Selfoss.
Einföld leið til að gefa rauntímaupplýsingar af ástandinu í kringum Selfoss er með myndavél, eða myndavélum. Ef Vegagerðina skortir fjármagn til að kaupa ný tæki mætti hugsanlega færa einhverjar myndavélar tímabundið á þetta svæði þegar umferðin er mest núna að sumarlagi. Sem dæmi má nefna að á Festarfjalli eru 4 vélar, á Kambabrún 4 og á Þrengslavegamótum 4. Myndavélar myndu gera ástandið fyrirsjáanlegra og stytta biðina eftir þeim umferðarbótum sem nýja brúin mun hafa í för með sér.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.6.2024 kl. 09:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)