Bloggfærslur mánaðarins, mars 2025

Þegar öryggismál verða að gríni: Kaldhæðni og varnarumræða á Íslandi

Umræða um öryggismál á Íslandi hefur oft verið lituð af kaldhæðni og háði, bæði í pólitískri orðræðu og fjölmiðlum. Þetta á sér djúpar rætur í þeirri sérstöðu Íslands að vera eina NATO-ríkið án eigin herafla, sem hefur gert umræðuna um varnir landsins sérstaklega viðkvæma og aðlaðandi skotmark fyrir grín. Í gegnum árin hefur þessi tilhneiging gjarnan leitt til þess að alvarleg öryggismál hafi verið gerð að gamanmáli fremur en tekin til rökstuddrar umræðu.

Sögulega séð má sjá dæmi um þetta í fjölmiðlum og almennri umræðu, þar sem varnarviðvera Bandaríkjanna og hlutverk Íslands í NATO voru gjarnan höfð að skotspæni.   Kaldhæðni og háð var notað til að gera lítið úr umræðu um öryggismál, og oft hefur verið stillt upp útúrsnúningum til að forðast alvarlega umræðu um raunverulegar varnaráskoranir landsins. Líklegt er að rekja megi þessa hefð til þeirra átakastjórnmála sem urðu hérlendis vegna Kalda stríðsins og vina þeirrar tíðar Kremlverja hér á landi. Hernaðarandstæðingar og síðar hópur sem kennir sig við frið virðist síðan hafa verið sáttur við að taka við þessum vafasama arfi.  

Á meðan slíkt grín var oft skemmtilegt og beitti gagnrýnu sjónarhorni, þá hafði það einnig áhrif á almenna skynjun öryggismála, þar sem málefnaleg umræða um varnir landsins varð síður tekin alvarlega. Segja má að herbragð þeirra sem stóðu að undirróðrinum hafi heppnast. Eftirbragð grínsins var að hluta til sætt en að hluta beiskt. Hinar bitru afleiðingar eru þær að varla er hægt að minnast á öryggismál án þess að tipla á tánum. Hinar sætu afleiðingar, auk nokkurra góðra hlátra,  eru að ég minnist þess að hernaðarandstæðingar og sumir aðrir gáfu út tónlist með nokkrum áheyrilegum sönglögum sem sum hver hljóma enn í minningunni - öll með vönduðum íslenskum textum að sjálfsögðu.  

Þessi kaldhæðna nálgun hefur haldist fram á okkar daga og birtist enn í orðræðu stjórnmálamanna og fjölmiðla. Þegar rætt er um nauðsyn þess að Ísland auki þátttöku sína í öryggissamstarfi, bæti varnir sínar eða taki þátt í sameiginlegum viðbúnaði NATO, er umræðunni enn þann dag í dag svarað með fáránlegum samlíkingum eða öfgakenndum útúrsnúningum. Nýlegt dæmi um þetta sást þegar rökum um að efla öryggismál var svarað með kaldhæðni um að þá væri líka skynsamlegt að efla innlenda amfetamínframleiðslu – augljóst dæmi um "reductio ad absurdum" röksemdafærslu, þar sem reynt er að gera umræðuna hlægilega í stað þess að takast á við hana af yfirvegun.

Afleiðing þessarar nálgunar er sú að Ísland á oft erfitt með að eiga upplýsta og raunsæja umræðu um eigin öryggismál. Með breyttu öryggisástandi í Evrópu og aukinni áherslu á norðurslóðir hefur mikilvægi öryggissamstarfs Íslands aukist til muna. Er kannski kominn tími til að nálgast þessi mál af meiri alvöru og ábyrgð í stað þess að grínast með þau í burtu?

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband