Laugardagur, 16.11.2024
Staða íslenskunnar: Tími til aðgerða!
Margvísleg teikn eru á lofti um að staða íslensku sé að veikjast, ekki síst í höfuðborginni þar sem alþjóðavæðingin verður sífellt sýnilegri. Nú er svo komið að sumt starfsfólk verslunar og þjónustu hérlendis getur ekki og reynir heldur ekki að tjá sig á íslensku.
Í Íslenskri málstefnu 2021-2030 er sérstaklega tekið á þessu áhyggjuefni og á bls. 40 segir:
Talin var ástæða til að spyrna við fæti svo íslenska missti ekki svið eða umdæmi yfir til ensku og annarra erlendra mála. Á undanförnum árum hafa áhrif þessa verið skýrust í tengslum við mikla uppbyggingu í ferðaþjónustu og aukna aðsókn erlendra ferðamanna. Til að bregðast við þessari þróun og rétta hlut íslensku er ekki rétt að feta veg boða og banna. Finna þarf jákvæðar leiðir til úrbóta og hvetja fyrirtæki og styðja eftir föngum til þess að fylgja málstefnu sem tryggir stöðu íslensku á öllum sviðum atvinnulífsins.
Sú þróun að vinnuveitendur taki ekki ábyrgð á að starfsfólk þeirra sé ófært að tjá sig á íslensku, kemur ekki á óvart í ljósi alþjóðavæðingarinnar. Íslenska málstefnan hvetur í þessu sambandi til jákvæðrar nálgunar og stuðnings við fyrirtæki. En vísbendingar eru um að sú aðferðafræði beri ekki nægan árangur.
Að ráða starfsfólk sem ekki getur tjáð sig á lögboðnu samskiptamáli landsins, íslenskunni, til þjónustu við almenning, er sérkennilegt, en í raun og veru skiljanlegt í ljósi þess að afleiðingar fyrir vinnuveitandann eru engar. Því þyrfti að styrkja málstefnuna, hugsanlega með lagabreytingu ef nauðsyn krefur.
Vinnuveitandi sem ræður starfsfólk sem talar erlent tungumál ætti að bera einhverja ábyrgð á því að hjálpa því til að læra íslensku. Fyrir 30 árum var það heilmikið mál en í dag, með tilkomu tölvu- og fjarskiptatækni, ætti að vera hægt að finna ráð til að koma því við.
Aðgerðaáætlun stjórnvalda um gervigreind er lofsvert framtak, en enn betur má ef duga skal. Algengt er t.d. að fólk æfi sig í tungumálum með tungumálaöppum. Gera þyrfti gangskör að því að fá íslenskuna inn í tungumálaapp, t.d. Duolingo. Þá gætu vinnuveitendur gefið starfsfólki leyfi til að æfa sig á vinnutíma í appinu þangað til viðkomandi væri kominn með nægilega færni til að halda uppi samskiptum á íslensku.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning