Um ágreining hagfræðinga austan hafs og vestan

Aðgerðir hinnar nýju ríkisstjórnar Obama vestanhafs sem byggja á innspýtingu fjármagns inn í hagkerfið sem og seðlaprentun virðast vera umdeildar meðal hagfræðinga sérstaklega hérna megin Atlantsála.

Erfitt er fyrir leikmenn að gera sér grein fyrir forsendum hagfræðinganna og þessa ágreinings, en skiljanlegt er að Bandaríkjamenn byggi á reynslu sinni af kreppunni miklu og New Deal áætlun Roosevelt forseta sem almennt er talið að hafi rofið vítahring víxlverkandi lækkana og hruns. Í þessu sambandi er vert að hafa í huga að kreppan mikla hófst með hruni í október 1929 en efnahagsáætlun forsetans var ekki hrundið í framkvæmd fyrr en á árunum 1933-1938.

Hugsast getur að báðar fylkingarnar hafi rétt fyrir sér að nokkru leyti en tímasetningin á því hvenær gripið skuli inn í sé lykilatriði. Hugsast getur að það sé ekki skynsamlegt að verja miklum fjármunum í varnaraðgerðir á meðan hrunið er enn í gangi en þeim mun skynsamlegra að hefjast handa þegar ljóst er að markaðir eru farnir að verða stöðugir á nýjan leik og gjaldþrot eru orðin fátíð.

Í rauninni ætti ekki að vera svo margt ólíkt með stórum efnahagseiningum og þeim litlu, þ.e. að á meðan hrunferli kreppunnar stendur borgi sig fyrir bæði ríkissjóði og heimili að halda að sér höndum og bíða þess að hinu efnahagslega illviðri sloti og hefjast ekki handa fyrr en hruninu er lokið.

Samlíkingin við náttúruhamfarir er e.t.v. ekki svo galin. Það eina sem hægt er að gera meðan hamfarirnar ganga yfir er að reyna að bjarga fólki, fénaði og verðmætum. Þegar lægir, þegar illviðrið er gengið yfir, þegar eldgosið er hætt og þegar hrunferli kreppunnar er lokið er hægt að fara að byggja upp og gera áætlanir um endurreisn.
Þó svona hliðstæðurök hafi ekkert sönnunargildi þá eru þau þrátt fyrir allt hugsanlegt haldreipi við ákvarðanatöku því hagfræðingar virðast ekki hafa meiru úr að moða en kenningum en ekkert hefur heyrst af því að þeir notist við nein sérstök spálíkön eða hermiforrit. Síðan geta menn fátt annað gert en aðhyllast kenningarnar eða vera ósammála þeim.

Það er í rauninni merkilegt að enn skuli ekki vera búið að búa til raunhæf spá- eða hermilíkön af efnahagskerfum þjóðanna. Verkefnið er að vísu stórt en hvorki óviðráðanlegt né óraunhæft. Það sýna veðurspárkerfin og einnig fullkomnir tölvuleikir svo sem skákforrit. Með því að byggja ýmsar breytur inn í slík líkön og með aðgengi að nægu vélarafli ætti að vera hægt að segja fyrir um hvaða áhrif ýmsar efnahagslegar aðgerðir og breytistærðir hafa á markaði og þjóðfélagshópa með meiri áreiðanleika en áður hefur þekkst. Hugsanlega er þarna sóknarfæri og mögulegur samstarfsflötur fyrir rannsóknarstofnanir í tölvufræðum og efnahagsfræðum.

Ef þessi kenning hliðstæðurakanna er rétt þá hefur Obama og sérfræðingum hans orðið á mistök. Hann hefur gert áætlanir um uppbyggingu sem teknar eru of snemma í hrunferlinu og þau mistök munu verða dýrkeypt að því leyti að þau munu hægja á uppbyggingu þegar hennar tími rennur upp.

(Byggt á pistlinum: http://ragnargeir.blog.is/blog/ragnargeir/entry/837924/)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband