Þjóðráð til sparnaðar á eldsneyti

Nú þegar bensín og díselolía hækkar stöðugt er ekki fráleitt að rifja upp enn einu sinni hvernig best er hægt að draga úr eyðslu.  Ég svipaðist um á netinu og bætti svo við úr eigin ranni og fékk út eftirfarandi punkta. Ég tek fram að ég er áhugamaður um málefnið.

1. Þarf að fara ferðina? Er kannski hægt að hringja, fresta henni eða sameina hana annarri ferð?
2. Er hægt að bjóða einhverjum öðrum með til að deila kostnaði?
3. Aðgætið að réttur loftþrýstingur sé í dekkjum. Athugið að holóttur vegur getur orsakað að loft lekur úr dekkjum.
4. Notið hreinsiefni fyrir eldsneytiskerfið.
5. Reynið að forðast mikla hröðun. Mikill snúningur vélar kallar á meiri eyðslu.
6. Reynið líka að forðast að draga of snögglega úr hraða þar sem slíkt ökulag getur aftur kallað á skyndilega hröðun.
7. Takið óþarfa aukahluti úr bílnum svo hann verði léttari.
8. Virðið hraðatakmörk, þau eru sett til að gæta öryggis og einnig m.t.t. hagkvæmni í eldsneytiseyðslu.
9. Skítug loftsía getur orsakað að vélarafl minnkar og stuðlað að meiri eyðslu. Skiptið reglulega um olíu og látið athuga loftsíuna um leið.
10. Látið stilla og yfirfara bílinn reglulega og athuga eldsneytis- og kveikjukerfi.
11. Fylgist með eyðslunni svo strax verði vart við ef bíllinn fer að eyða óeðlilega miklu eldsneyti. Ef þrjár eða fjórar tankfyllingar koma lélega út þá borgar sig að athuga málið.
12. Akið ekki of hratt. Því meir sem vélin erfiðar til að ýta bílnum móti vindi því meiri verður eyðslan.
13. Skiptið um eldsneytissíu samkvæmt ráðleggingum framleiðandans. Einnig er hægt að láta hreinsa innspýtingu á 40-50 þús. km. fresti.
14. Notið hraðastilli (cruse control) ef það er í boði þar sem jafn hraði á lengri vegalengdum stuðlar að sparnaði.
15. Ef um fjórhjóladrifsbíl er að ræða notið þá ekki fjórhjóladrifið nema þar sem þörf krefur.

Um atriði 8 hér að ofan má segja að víða á höfuðborgarsvæðinu eru hraðatakmörk ekki virt. Algengt er að umferðin á stofn- og tengibrautum sé þetta 10 km. fyrir ofan takmörkin. Þessi mikli og ólöglegi hraði orsakar óþarfa sóun og mengun t.d. svifryksmengun yfir vetrartímann auk þess að vera yfir þeim hraða sem umferðarmannvirki eru hönnuð fyrir. Nú þegar lögreglan hefur minni tíma en áður til að fylgjast með þessu þá kemur það í hlut ábyrgra ökumanna að sjá um að halda hraðanum á þessum brautum innan og við leyfileg mörk.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

algerlega sammála þessum punktum þínum. þegar öllu er á botninn hvolft er heilbrigð skynsemi besta vopnið gegn eldsneytiseyðslu.

Brjánn Guðjónsson, 10.7.2009 kl. 02:55

2 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir innlitið Brjánn. Við þetta má bæta að GPS leiðsögutækin eru mikið þarfaþing. Ég hef notað svoleiðis tæki á höfuðborgarsvæðinu til hliðsjónar. Tækið velur gjarnan stutta sem og fljótfarna leið. Eftir að ég fór að nota tækið þá fer ég gjarnan aðrar leiðir heldur en ég hefði gert án tækisins. Þessi tæki ættu því að geta nýst til sparnaðar auk þess að segja til vegar.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 10.7.2009 kl. 18:47

3 Smámynd: Sigurður Sveinsson

Ég ek á bandarískum lúxusjeppa, Grand Jeep Cherokee. Hann er 325 ha. en samt ótrúlega sparneytinn. En ég er löngu hættur að nota hraðastillinn því þá eykst eyðslan. Sennilega er það vegna þess að bíllinn bætir sjálfvirkt við inngjöf ef smáhalli verður á veginum. Auk þess er bara miklu skemmtilegra að keyra bílinn en að láta hann gera það sjálfan. Þetta eru þarfar og góðar ábendingar. Fólk þarf að vera meðvitað um að margar leiðir eru til til að halda eyðslunni skefjum.

Sigurður Sveinsson, 10.7.2009 kl. 23:08

4 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir innlitið og athugasemdina Sigurður. Þetta er þörf ábending. Líklega stuðlar hraðastillirinn ekki að sparnaði þar sem mikið er um mishæðir.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 10.7.2009 kl. 23:36

5 Smámynd: Þorsteinn Sverrisson

Sæll Ragnar, þetta er þarft málefni og góðar ráðleggingar.   Varðandi lið 2 þá má benda á sniðuga síðu www.samferda.com 

Þorsteinn Sverrisson, 20.7.2009 kl. 19:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband