Þjóðráð til sparnaðar - 2. hluti: Sjónvarpið

Vinur minn einn sem fer reglulega með efni í brotajárnsgáminn sagði mér að fyrstu dagana eftir hrunið síðasta haust hefðu verið stór nýleg túpusjónvarpstæki í gáminum nánast í hvert skipti sem hann fór. Þegar leið á veturinn dró úr þessu en þessa vikuna byrjaði þetta aftur. Í gáminum voru stór og reyndar stundum lítil túpusjónvörp. Hvað veldur og hver er ávinningurinn?

Þessi athugun á ruslinu bendir því til að viðbrögð margra við kreppufréttunum hafi verið þau að endurnýja raftækin, henda túpusjónvarpinu, og kaupa flatskjá á gamla verðinu. Ótrúlegt er að öll þessi nýlegu túpusjónvörp hafi verið ónýt áður en þau lentu í ruslinu. Þessi vinur minn hirti reyndar eitt lítið tæki sem lá efst í gáminum og það var í lagi þrátt fyrir nokkrar rispur sem hafa líklega komið þegar tækið lenti í gáminum.

Hvað það er sem orsakar þessa bylgju núna er ekki gott að segja en hugsast getur að einhverjir nýti skattaafsláttinn til að koma tímabærri endurnýjun á sjónvarpstækinu í framkvæmd. En hver er ávinningurinn af því að henda túpusjónvarpi sem er í lagi og kaupa flatskjá?

Þó hugsast geti að flatskjá fylgi betri sjálfsímynd og hagkvæmari nýting á plássi þá gefa myndgæði túpusjónvarpa og viðbragðsflýtir flatskjáum lítið ef nokkuð eftir. Sumir telja þau reyndar betri. Rafmagnseyðsla gömlu túpusjónvarpanna er líka yfirleitt minni en flatskjáa, sérstaklega stóru plasma skjáanna.  Hinu spánnýja, flata sjónvarpstæki fylgja því að líkindum hærri rafmagnsreikningar ef ekki er hugað að ákveðnum sparnaðarráðum. Hér koma nokkur slík tekin af netinu ásamt smá kryddi frá undirrituðum:

1. Slökkvið á sjónvarpinu þegar hætt er að horfa á það. Ekki nota Standby. Slökkvið einnig á tengdum tækjum svo sem DVD spilara eða leikjatölvu. Heppilegt getur verið að hafa fjöltengi með rofa og rjúfa strauminn inn á þessi tæki þegar búið er að slökkva á þeim. Þá er örugglega slökkt.

2. Slökkvið á Quick Start möguleika. Þessi möguleiki eykur rafmagnseyðslu ef Standby er notað.

3. Dragið úr baklýsingu LCD skjáa. Þetta dregur úr ljómun og birtu skjásins en á móti er kannski hægt að draga úr birtunni í herberginu.  Mikil birta hjá sjónvarpi er óþörf hvort sem er og spillir bíótilfinningunni.

4.  Ef tækið er með orkusparandi ham hafið þá stillt á hann. Nýrri flatskjáir gætu verið með þessum möguleika.

5.  Ef ekki er enn búið að kaupa flatskjáinn reynið þá að komast af með eins lítinn skjá og hægt er. Hægt er að færa sjónvarpsstólana nær og ná sömu áhrifum og ef stór skjár er notaður. Við það sparast líka dýrmætir fermetrar af húsplássi.

6. Notið ekki mörg sjónvörp í sama húsi heldur reynið að sameina fjölskylduna fyrir framan eitt tæki. Barnaefni getur verið mjög skemmtilegt og yngri fjölskyldumeðlimum mun þykja þú bæði viðræðubetri og skemmtilegri ef þú getur talað við þá um uppáhalds sjónvarpsefnið þeirra.

7. Horfið minna á sjónvarp eða notið sjónvarpstímann til að vinna eitthvað í höndunum svo sem strauja, brjóta saman föt eða prjóna.  Þá nýtist tíminn betur og borgar sig upp.

8. Athugið heildaráhorf ykkar og metið hvort hægt sé að segja upp áskrift sem hugsanlega er lítið notuð. Talsvert er í boði af innlendu efni í opinni dagskrá. Gervihnattabúnaður gæti borgað sig upp á einu ári ef vel er haldið um budduna og á t.d. Astra 2 hnettinum eru nokkrar erlendar stöðvar í opinni dagskrá, svo sem SkyNews, CNN að ógleymdri föndurrásinni Create and Craft.

Byggt á: http://reviews.cnet.com/green-tech/tv-power-saving-tips/?tag=greenGuideBodyColumn.0

Höfundur er áhugamaður um málefnið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mikið er nú gott að þú skulir vera farinn að strauja og prjóna og brjóta saman þvottinn, bróðir. Nú líst mér á þig!

Erlingur (IP-tala skráð) 1.8.2009 kl. 23:50

2 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir innlitið. Ég er nú ekki farinn að prjóna en ég vinn gjarnan í þvottinum og hef þá oftast kveikt á útvarpi sem ég tek oft fram yfir sjónvarpið ekki vegna þess að það eyði minna rafmagni sem er þó kostur heldur vegna þess að oft er útvarpsefnið skemmtilegra.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 2.8.2009 kl. 21:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband