Sunnudagur, 19.10.2008
Lækka þarf hámarkshraða á Suðurlandsvegi strax milli Hveragerðis og Selfoss
Nú hefur Rannsóknarnefnd umferðarslysa gefið út varnaðarskýrslu um Suðurlandsveg. Í nýlegri frétt á mbl.is segir m.a:
Mikilvægt er að brugðist sé við hratt og markvisst því fjöldi slysa og alvarleiki þeirra er slíkur að ekki verður við unað. Undanfarin ár hefur nefndin farið á vettvang alvarlegra umferðarslysa á milli Hveragerðis og Selfoss.
Að mati nefndarinnar er aðgreining akstursstefna áhrifaríkasta leiðin til að auka umferðaröryggi á þessum hættulega vegkafla. Hafin er hönnun tvöföldunar vegarins á þessum stað en Rannsóknarnefnd umferðarslysa hefur miklar áhyggjur af öryggi vegfarenda á þessum kafla vegna eðlis og fjölda slysa sem nefndin hefur rannsakað þar.
Síðastliðin fimm ár hefur nefndin farið fimm sinnum á vettvang alvarlegs umferðarslyss á þessum 12 km kafla, þar af hafa fjögur slys orðið undanfarin tvö ár. Telur nefndin nauðsynlegt að bregðast við sem skjótast með bráðabirgðalausnum til að auka öryggi á veginum og komast hjá frekara manntjóni þar til búið sé að opna veg sem aðskilur akstursstefnur. Í því samhengi leggur nefndin til að hámarkshraði verði lækkaður á kaflanum í 70 km/klst. samhliða öflugri löggæslu og unnið verði að því að bæta tengingar inn á veginn með betri merkingum og auknu rými," að því er segir í skýrslunni. [Leturbr. RGB].
Nú er bara að bíða eftir að samgönguráðherra og vegagerðin taki af skarið hið fyrsta og drífi í því að fara eftir tillögu RNU. Það ætti varla að vera meira en dagsverk að skipta um hraðaskiltin á þessari leið og hver dagur sem líður með 90 km. hámarkshraða á þessum vegi er einum degi of mikið. Þetta hef ég þrisvar bent á hér á blogginu, fyrst með pistli frá í október í fyrra, í pistli sem birtist í maí á þessu ári sem ég endurbirti í ágúst á þessu ári. Mig langar einnig að nota tækifærið og gagnrýna að víða hér á Suðurlandi skuli látið nægja að setja biðskyldumerki á vegi sem koma þvert á veg þar sem er 90 km. hámarkshraði. Á þessum stöðum ætti að vera stöðvunarskylda. Kannski finnst einhverjum það óþarfi en athugið lesendur góðir að ef fólk venur sig á að stöðva þegar það kemur þvert á hraðbrautina, jafnvel þó engin umferð sé þá mun það alltaf gera það undir öllum kringumstæðum og það er mikilvægt að það sé stöðvað undir öllum kringumstæðum, þ.e. að fólk sé ekki vant því að geta keyrt þvert inn á háhraðaveg án þess að stöðva. Biðskyldumerkin ætti aðeins að nota þar sem hraði er 70 eða minni.
Meginflokkur: Samgöngur | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.