Miðvikudagur, 7.5.2008
Um örnefnið „Almannagjá“ og kenningar um staðsetningu almennings á Alþingi hinu forna
Sumrin 1984-1986 var ég sumarstarfsmaður í Þjóðgarðinum á Þingvöllum og vann þar ýmis störf svo sem að tína rusl í Almannagjá og nágrenni. Þá fór ég að velta fyrir mér kenningum sem hingað til hafa verið viðteknar um að lögsögumaðurinn á Alþingi hinu forna hafi staðið á Lögbergi og talað til mannfjölda sem á að hafa staðið niðri í hlíðinni austan megin við gjána, dreifður um þar fyrir neðan og allt niður að Öxará. Balarnir þar stóðu hærra á miðöldum því land seig á Þingvöllum eins og kunnugt er í jarðskjálftunum miklu undir lok 18. aldar. Þessar kenningar rifjuðust upp í fyrrakvöld þegar ég sá Sigurð Líndal í sjónvarpinu reifa þetta við danska kóngafólkið og þar minntist hann líka á þá kenningu sína að lögsögumaðurinn hafi snúið baki í fólkið í hlíðinni og talað í áttina að gjárveggnum til að nýta hljómburðinn í hinum háa vestari bakka gjárinnar.
Nú er það svo að sá sem leggur leið sína um Almannagjá og Lögberg og grenndina þar fyrir neðan, og fer þarna um í alls konar veðri veitir því auðveldlega athygli að það sem sagt er í gjánni berst sérlega vel eftir henni endilangri nema veðurhljóð sé þeim mun meira. En reyndar er það svo að ef hvasst er þarna þá er besti og skjólsælasti staðurinn bæði fyrir rigningu og roki niðri í gjánni, þ.e. niðri í Almannagjá. Þetta geta menn sem best prófað sjálfir því umferð gangandi vegfarenda er umtalsverð og tal fólksins heyrist best niðri í gjánni sjálfri og berst vel. Við góðar aðstæður gerist það jafnvel að það sem sagt er stundarhátt niðrundir Haki heyrist alla leið að beygjunni sem verður á gjánni skömmu áður en komið er að Öxará og það án þess að menn ætli að reyna mikið á röddina.
Þessar voru hugleiðingar mínar þegar ég dundaði við ruslatínsluna og í framhaldi af því fór ég að velta fyrir mér örnefninu 'Almannagjá' og hvað það segði. Ég velti því fyrir mér spurningunni: Hver er í Almannagjá ef ekki almenningur? En eins og kunnugt er þá er talið að talsverður fjöldi fólks hafi verið á þinginu að hlýða á lögin og dómana eins og sjá má hér:
Alþingi Íslendinga er í senn elsta stofnun þjóðarinnar og sú æðsta. Það er talið stofnað á Þingvöllum árið 930, og markar sá atburður upphaf þjóðríkis á Íslandi. Í upphafi var Alþingi allsherjarþing þar sem æðstu höfðingjar komu saman til löggjafarstarfa og til að kveða upp dóma. Auk þess var öllum frjálsum mönnum og ósekum heimilt að koma áþingið, og þangað sóttu auk goða bændur, málsaðilar, kaupmenn, iðnaðarmenn, sagnaþulir og ferðalangar. Oft hefur því verið fjölmennt á Alþingi.Þeir sem sóttu Alþingi dvöldust í búðum á Þingvöllum um þingtímann. Innan þinghelgiskyldu allir njóta griða og frelsis til að hlýða á það sem fram fór.Miðstöð þinghaldsins var Lögberg. Þar átti lögsögumaðurinn fast sæti, en hann var æðsti maður þingsins. Hlutverk hans var meðal annars að fara upphátt með gildandi lög Íslendinga, þriðjung þeirra ár hvert. Lögin um þinghaldið, þingsköpin, fór hann með fyrir þingheim árlega. [Leturbr. RGB] [1]
[1] Sjá: http://www.althingi.is/pdf/isl.pdf
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Menning og listir, Vísindi og fræði, Þjóðtrúin | Breytt 12.6.2008 kl. 22:06 | Facebook
Athugasemdir
Þessi þín ágæta kenning á erindi víðar. Blessaður komdu henni í Moggann eða a.m.k. í Sunnlenska fréttablaðið.
Pjetur Hafstein Lárusson, 17.5.2008 kl. 06:37
Takk fyrir innlitið Pjetur. Ég reyni að koma þessu inn einhversstaðar.
Ragnar Geir Brynjólfsson, 17.5.2008 kl. 07:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.