Af hverju kemur vonda veðrið okkur alltaf jafn mikið á óvart?

Á Selfossi var ástandið ekki slæmt hvað varðar samgöngur í gærmorgun, þar voru götur ruddar og lítið fjúk en strax og kom út fyrir bæinn var ástandið mun verra, skafrenningur og skafbylur, skyggni lítið, hálka, myrkur og þæfingsfærð fyrir fólksbíla.  Ástandið á Eyrarbakkaveginum var ekki burðugt. Á móts við Stekka hafði snjóplógur farið útaf og fyrir sunnan var þæfingsfæri. Á móts við snjóplóginn voru fólksbílar að festast í snjó á veginum. Ég var á jeppa og keyrði niður að Stokkseyri snemma á 8. tímanum og lagði af stað uppúr aftur rétt fyrir 8. Þá voru komnar langar raðir á móts við Stekka, bílar voru fastir og einn hafði lent útaf. Ef fólkið í fólksbílunum hefði vitað hvernig aðstæður voru þarna þá er ég nokkuð viss að margir hefðu frestað för sinni en ekkert heyrðist um þetta í RÚV, en talað var um erfiðleika á Reykjanesbraut, á Hellisheiði og í Þrengslum. Enn og aftur þarf ég að greiða afnotagjaldið með það á tilfinningunni að ég sé ekki að fá andvirðið til baka í því öryggi sem lögboðið er svo sem sjá má í 8. gr. laga nr. 6 frá 2007 um RÚV.

Þegar svona gerist þá vakna efasemdir um að samfélagið sé að nýta sér þær upplýsingar sem fáanlegar eru bæði með veðurspám og svo um aðstæður á hverjum stað frá fólki á staðnum. Bæði eru veðurspár orðnar mun öruggari en áður var og svo hefur farsímatæknin breytt miklu. Í síðasta óveðurskafla sem varð fyrir 8 árum hér á Suðurlandi hefur farsímaeign örugglega ekki verið jafn útbreidd og hún er núna. Veðurspáin kvöldið áður varaði við stormi á bilinu 13-20 metrum og að verst yrði við ströndina. Snjór var jafnfallinn og laus um 20 sentimetra þykkur á þessu svæði og því nokkuð fyrirsjáanlegt hvað myndi gerast.  Við býsnumst gjarnan yfir því fólki sem leggur á fjöll í slæmri spá en gerum sjálf svo nákvæmlega það sama við okkar eigin bæjardyr þó fyrirsjáanlegt sé að aðstæður geti orðið bæði hættulegar og heilsuspillandi ekkert síður en á fjöllum og ætlumst jafnframt til að aðrir geri slíkt hið sama. Af hverju er öryggi og heilsa fólks ekki látin njóta alls mögulegs vafa? Hér er þörf á bæði umræðu og hugarfarsbreytingu sem fyrst.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Ég held að ef fólk hefði vitað hvernig aðstæður voru þá hefðu margir sem þarna voru ekki lagt í hann. Ég furða mig á að skipulag almannavarna skuli ekki vera skilvirkara en það er, að veginum hafi ekki verið lokað fyrir almennri umferð miklu fyrr og aðstæður á leiðinni jafnframt kynntar í fjölmiðlum líkt og gert var í tilfelli Hellisheiðar og Þrengsla.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 27.1.2008 kl. 10:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband