Laugardagur, 3.11.2007
Amy Goodman - orð í tíma töluð í og fyrir RÚV
Afar athyglisverð frétt birtist í RÚV - sjónvarpi í kvöld en það var frásögn af ráðstefnu þar sem bandaríska fréttakonan Amy Goodman hélt fyrirlestur. Í lok fréttarinnar var birt stutt viðtal við Goodman. Hún gagnrýndi að fjölmiðlar væru samdauna valdhöfum en lokaorð hennar voru einna athyglisverðust. Hún lýsti hlutverki fréttamannsins þannig í þýðingu RÚV - sjónvarps að þeir ættu:
"Að krefjast þess að fjölmiðlar séu óháðir, að fjölmiðlar kalli valdamenn til ábyrgðar, það er starfið okkar. " [1]
Þetta birtist í RÚV - sjónvarpi! Þetta eru sannarlega orð í tíma töluð. Nú væri því hentugur tími fyrir bæði stjórnendur stofnunarinnar sem og valdhafa þessa lands að fara að huga að því að gera RÚV - Sjónvarp að óháðum fjölmiðli sem nýtur beins aðhalds neytenda. Það ætti að vera á forræði hlustenda til hvaða útvarpsstöðvar eða sjónvarpsstöðvar afnotagjaldið rennur og því síðan úthlutað í réttu hlutfalli við tíma efnis sem flutt væri á íslensku eða í tilfelli tónlistar af innlendum tónlistarviðburðum. Ekki ætti að þurfa sérstök lög um eignarhald á fjölmiðlum, samkeppnislög ein hugsanlega með einhverjum viðaukum ættu að nægja til að hindra fákeppni á þessum markaði.
Þessi orð sem og önnur gagnrýni mín á RÚV - sjónvarp eru ekki hugsuð sem gagnrýni á það frábæra starfsfólk sem gegnt hefur störfum við stofnunina í gegnum tíðina og þann greiða sem það hefur gert íslenskri menningu með störfum sínum. Hér er aðeins viðrað það viðhorf að skipulag og lagarammi sá sem settur er um starfsemina hefur trúlega gert meira ógagn heldur en gagn í gegnum árin, sérstaklega í seinni tíð og að frelsið ásamt innkomu fleiri aðila ásamt öflugri greiðslu fyrir innlent efni hefði átt að vera sá rammi sem unnið var eftir strax á síðustu áratugum síðustu aldar þegar ljóst var að markaður var fyrir fleiri en eina útvarps - og sjónvarpsstöð.
[1] http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4338476/7
Meginflokkur: Sjónvarp | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Ríkisútvarpið | Breytt 7.12.2007 kl. 22:42 | Facebook
Athugasemdir
Heill og sæll, Ragnar Geir !
Það er einmitt kjarni þessarra mála; gefa sig út fyrir, við öll möguleg, sem og ómöguleg tækifæri, fyrir að vera HIÐ FJÓRÐA VALD, þ.e. fjölmiðlar, hverjir vilja láta taka sig alvarlega, að nokkru.
Reynast síðan vera; léttvægir taglhnýtingar stjórnvalda, í æ ríkari mæli, ef eitthvað er.
Mbk., austur yfir fljót / Óskar Helgi Helgason
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 3.11.2007 kl. 22:34
Sæll Óskar og takk fyrir innlitið. Já, léttvægir taglhnýtingar stjórnvalda. Það er vel orðað og ekki ofsagt. Hugsaðu þér bara ef við Sunnlendingar mættum ráða því hvert okkar útvarps- eða sjónvarpsgjald rynni. Ef við ættum enn útvarpsstöð á borð við okkar ágæta útvarp Suðurlands þá væri ég nú ekki í vafa hvert ég léti mitt gjald renna og þá er ég viss um að bróðurpartur lifandi og skapandi menningar hér á Suðurlandi félli ekki óbættur hjá garði m.t.t. ljósvakafjölmiðlunar eins og gerist því miður nú undir stjórn RÚV - sjónvarpsins.
Það sem þeir rétta okkur er útlensk sápa og svo enn meiri útlensk sápa og því næst léttmeti og svo enn meira léttmeti. Í kaupbæti fáum við svo óþægilegan grun um að stjórnmálaöflin og þeirra sjónarmið ráði ýmsu og séu á einn eða annan hátt meira áberandi og skipi annan sess en þeim ber í rekstri og miðlun stofnunarinnar.
Ragnar Geir Brynjólfsson, 4.11.2007 kl. 18:39
Ragnar set hér inn nokkur orð um að það er að fara í loftið, sunnlensk útvarpsrás. Man ekki betur en að hún fari í loftið þann 12. nóvember og sendir út efni allan sólarhringinn. Annars er ég mikið sammála því að ofríki RUV á ljósvakamarkaði, nær hér um bil eingöngu til þeirra sem búa þarna á þensluhorninu. Þá er nær eingöngu um sápuþætti að ræða eða hráa íslenska færibandsgrínþætti.
Eiríkur Harðarson, 5.11.2007 kl. 01:58
Takk fyrir athugasemdina Eiríkur. Já þessar fréttir af sunnlenskri útvarpsrás eru aldeilis frábærar og óskandi er að það gangi vel. Enn betra væri ef slíkar stöðvar gætu gengið að öruggu framlagi vísu frá ríkinu, framlagi sem væri greitt í réttu hlutfalli við innlent efni stöðvarinnar. Það væri nú ólíkt betra og skynsamlegra að ráðstafa afnotagjöldunum þannig en að dæla þeim öllum í eina stöð sem er rótgróin á höfuðborgarsvæðinu.
Ragnar Geir Brynjólfsson, 5.11.2007 kl. 20:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.