Laugardagur, 13.10.2007
Nauðsynlegt að lækka hámarkshraða á Suðurlandsvegi frá Hveragerði til Selfoss
Nú er ljóst orðið að pólitískur stuðningur er fyrir því að tvöfalda Suðurlandsveg og umtalsverðar vegabætur hafa þegar verið gerðar á honum frá Litlu kaffistofunni og upp að Hveradölum á síðustu árum en tíminn líður, dagarnir verða að mánuðum og alltaf fjölgar slysunum á þessari leið.
Einn hættulegasti kafli leiðarinnar er að mínu mati vegurinn milli Hveragerðis og Selfoss. Ástæða þess að ég segi þetta eru aðallega þrjár. Sú fyrsta er að vegurinn er bugðóttur alla leiðina. Í öðru lagi skiptast á aflíðandi hæðir og lægðir og í þriðja lagi er þarna fjöldi afleggjara sem allir koma þvert inn á aðalbrautina án nokkurrar lækkunar á hámarkshraða eða umferðareyja. Samlegðaráhrif þessara þriggja þátta gera að verkum að leiðin þarna um er vægt til orða tekið stórhættuleg.
Svæðið þarna er þekkt slysasvæði og því er mér fyrirmunað að skilja af hverju þarna er enn 90 kílómetra hámarkshraði. Ef svæðið er borið saman við Reykjanesbrautina t.d. hjá Vogum þá eru þar umferðareyjur og hámarkshraðinn lækkaður kringum vegamótin. Af hverju er þetta ekki gert í Ölfusinu? Þetta er ekki nema um 15 km. leið og tímatapið á þessum vegarspotta af því að færa hámarkshraðann niður í 80 allan kaflann eða í 70 nálægt afleggjurunum er því ekki mikið.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Löngu tímabært, þó set ég spurningarmerki við það sökum þess að fyrir ekki nema 13-14 árum síðan var svo gagnrýnin umræða útaf hraðakstri yfir hellisheiði. Þætti miklu áhrifaríkara að vegagerðin og hið opinbera færu að gera eitthvað í málunum. Boð og bönn eru ekki að mínu skapi, þó of oft nauðsinleg.
Eiríkur Harðarson, 13.10.2007 kl. 17:02
Vel mælt Eiríkur. Frelsið má líta á sem auðlind sem hægt er að ofnýta eða ganga of nærri og það ætti ekki að skerða nema brýna nauðsyn beri til, svo sem brýna almannahagsmuni. Í þessu tilfelli þá tel ég að um þá sé að ræða. Leiðin þarna er orðin svo hættuleg. Ég hef orðið vitni að því hvað eftir annað að fólk sem þarf að beygja út á afleggjarana þarna veldur óvönum bílstjórum vandræðum því þeir vænta þess ekki að umferðin stöðvist skyndilega. Einni hef ég nokkrum sinnum séð bíla beygja inn á aðalveginn og vera að taka óþarflega mikla 'sjénsa'. Og ekki lagast ástandið í myrkri og rigningu. Allir sem fara um þennan veg eru í óásættanlegri hættu eins og sakir standa og miðað við óbreyttar aðstæður.
Ragnar Geir Brynjólfsson, 14.10.2007 kl. 13:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.