Miðvikudagur, 2.4.2025
Er neyðarútvarpið okkar tilbúið?
Stefnu stjórnvalda um upplýsingagjöf til almennings á hættutímum þarf að líkindum að uppfæra með tilliti til breyttra aðstæðna. Almannavarnir mælast til dæmis til þess að útvarpstæki með langbylgju sé til taks í tilfelli jarðskjálfta og í þriggja daga viðbúnaðarkassa Rauða krossins er mælt með að útvarpstæki sé hluti búnaðarins. Staðan er samt þannig að stjórnvöld hafa látið undir höfuð leggjast að uppfæra útvarpskerfið í stafrænar en samt langdrægar útsendingar og hafa nú þegar tekið gamla langbylgjukerfið úr notkun! FM kerfið í bland við Iridium eða Starlink sem RÚV mælir með er nú undir nýrri ógn sem er rof á netsambandi en nýlegar álagsprófanir leiddu í ljós að ef netsamband gegnum sæstrengi rofnar þá er aðeins hægt að halda úti nauðsynlegustu starfsemi. Þetta þýðir í raun að bæði FM kerfið, sem fær tengingu sína í gegnum netsamband, og Starlink/Iridium kerfin verða gagnslaus því þótt samband náist með þessum tækjum í gegnum gervihnött þá ná þau takmörkuðu sambandi við landið, til að sækja upplýsingar til almannavarna svo dæmi sé tekið, ef ógnir um rof á sæstrengjum raungerast. Um GSM/4G kerfið þarf ekki að fjölyrða, það dettur út um leið og ljósleiðarar innanlands rofna.
DRM - langdrægt stafrænt kerfi
Meðan FM kerfið krefst nú um eða yfir 230 senda víðs vegar um landið, væri hægt að tryggja öryggisútvarp með aðeins 24 sendum með DRM kerfinu. DRM gæti staðið sjálfstætt óháð nettengingu með því að endurvarpa sjálfu sér, líkt og gert var í tilfelli langbylgjunnar á árum áður*. Innbyggt neyðarviðvörunarkerfi DRM (EWF) tryggir að útvarpstæki taki á móti neyðarboðum, jafnvel þótt á þeim sé slökkt eða stillt á aðra rás. Slík viðvörun getur innihaldið hljóð, texta og jafnvel myndrænar leiðbeiningar. Auk þess gætu þéttbýlissvæði notið góðs af DRM sendingu á hærri tíðni, svokölluðu DRM+ sem býður upp á betri hljóðgæði og þjónustu.
Á tímum netváar og náttúruhamfara, hvers vegna erum við ekki þegar búin að taka upp öryggisvæna, hagkvæma og framtíðarmiðaða lausn eins og DRM?
--
* Á árum áður fékk endurvarpsstöðin á Eiðum útvarpsmerkið í gegnum öflugt langbylgjuviðtæki sem stillt var á sendistöðina á Vatnsendahæð.
Mynd byggð á frétt RÚV: https://www.ruv.is/frettir/innlent/2025-03-31-truflun-a-utsendingum-i-uppsveitum-arnessyslu-440174/
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Ríkisútvarpið, Öryggismál | Breytt s.d. kl. 16:31 | Facebook
Athugasemdir
Er Iridium raunhæft til að hlusta á RÚV?
RÚV hefur nefnt Iridium-gervihnattakerfið sem möguleika til að tryggja aðgengi að útsendingum í neyðartilvikum þar sem FM útsendingar ná ekki til. En hvernig virkar það í raun?
Iridium-gervihnattasímar eru fyrst og fremst hannaðir fyrir raddsímtöl og einföld textaboðaskipti, en styðja ekki hefðbundna útvarpsmóttöku (FM, AM eða DRM). Einnig er netþjónusta þeirra afar hæg, aðeins 2.4 kbps á eldri kerfum og allt að 704 kbps með dýrari Iridium Certus þjónustu.
Þetta þýðir að Iridium er ekki tæknilega nothæft til að hlusta á RÚV í neyðartilvikum nema með fyrirfram ákveðnum símaskilaboðum. Ef netsamband við Ísland rofnar, er einnig óvíst hvort hægt sé að nota Iridium yfir höfuð til samskipta við landið.
Það vekur spurningar um hvers vegna RÚV mælir með þessu sem lausn, þegar raunveruleg neyðarútvarpsþjónusta ætti frekar að byggjast á langdrægum útsendingum eins og DRM
Ragnar Geir Brynjólfsson, 3.4.2025 kl. 06:38
Starlink í neyð? Kostnaðarsöm og ótrygg lausn
RÚV hefur bent á Starlink-gervihnattanetið sem mögulega leið til að tryggja aðgengi að útvarpsútsendingum í neyðartilvikum þar sem FM úsendingar nást ekki. En er þetta raunhæf lausn fyrir almenning?
Starlink býður vissulega upp á háhraðanettengingu með miklu betri afköstum en Iridium, en kerfið hefur marga veikleika. Kostnaðurinn er verulegur, bæði búnaðurinn og mánaðaráskriftin eru dýr, sem gerir þetta óaðgengilegt fyrir flesta sem neyðarlausn. Til að hlusta á RÚV í gegnum Starlink þyrfti að streyma útvarpinu á netinu, sem er háð samfelldu rafmagni og nettengingu við aðrar þjónustur.
En stærsti veikleikinn er að Starlink þarf tengingu við jarðstöðvar, sem eru í flestum tilfellum háðar hefðbundnum netkerfum. Ef samskiptaleiðir milli Íslands og umheimsins rofna (t.d. ef sæstrengir bregðast), verður Starlink einnig gagnslaust þar sem það getur ekki tengst beint við innlendar þjónustur.
Þetta sýnir að Starlink er ekki örugg lausn fyrir neyðarútvarp, ólíkt langdrægri útvarpsdreifingu eins og DRM, sem virkar sjálfstætt án netsambands.
Ragnar Geir Brynjólfsson, 3.4.2025 kl. 06:44
Neyðarútvarp sem reiðir sig á netsamband og FM-kerfi er berskjaldað fyrir truflunum, en til eru aðrar leiðir sem tryggja öruggari og langdrægari dreifingu neyðarupplýsinga. Með því að innleiða stafrænt langdrægt útvarp (DRM) gæti neyðarsamskiptakerfi landsins orðið bæði sjálfstæðara og minna háð óstöðugum innviðum.
DRM hefur þann einstaka eiginleika að geta endurvarpað sjálfu sér, svipað og gamla langbylgjukerfið gerði áður. Þetta þýðir að ef ein sendistöð virkar, getur hún dreift merkinu áfram um stór svæði án þess að reiða sig á nettengingar. Auk þess gætu hérlendar jarðstöðvar verið notaðar til að dreifa merkinu til DRM-senda með lítinn gervihnattamóttakara. Þannig væri hægt að tryggja að útsendingar héldust stöðugar, jafnvel ef rof yrði á hefðbundnum fjarskiptaleiðum.
Þessi nálgun veitir tvöfalt öryggi: annars vegar með sjálfstæðu DRM-endurvarpi og hins vegar með dreifingu í gegnum jarðstöðvar sem tengjast gervihnöttum. Þetta gerir neyðarkerfið ekki aðeins minna viðkvæmt fyrir rofi á netsambandi, heldur eykur það einnig aðgengi að mikilvægum upplýsingum við vá.
Annað mikilvægt atriði er trygging rafmagns. Með því að útbúa sendistöðvarnar með dísilrafstöðvum væri hægt að tryggja útsendingar jafnvel við langvarandi rafmagnsleysi. Slík lausn væri einfaldari og hagkvæmari en að reiða sig á fjölmargar FM-stöðvar eða hákostnaðarkerfi eins og Starlink.
Með þessum aðferðum gæti Ísland tryggt öruggari neyðarútvarpsdreifingu sem stendur óháð innviðum sem geta orðið fyrir truflunum í alvarlegum aðstæðum.
Ragnar Geir Brynjólfsson, 3.4.2025 kl. 06:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning