Þriðjudagur, 22.5.2018
Forsendur sátta um miðsvæðið á Selfossi
Í greinargerð nýsamþykkts skipulags fyrir miðsvæðið á Selfossi er því haldið fram að miðsvæði einkennist einna helst af umferðarmiklum götum og stórum bílastæðum. Er miðsvæðið því ekki talið búa yfir sérkennum sem vert er að byggja tillögugerð á.
Ef horft er á loftmynd af hinu umrædda svæði sem afmarkast af Eyravegi og Austurvegi til norðurs og aðliggjandi íbúðarlóðum við Tryggvagötu til austurs, Sunnuvegi til suðurs og Kirkjuvegi til vesturs má taka undir þetta sjónarmið. Fæstir horfa samt á svæðið af himni ofan. Stór hluti þess blasir aftur á móti við þegar komið er yfir brúna að norðan en frá því sjónarhorni munu líklega flestir sjá það. Það er því eðlilegt að hönnunarforsendur svæðisins séu settar í samhengi við ekki bara svipfögur hús sem blasa við á svæðinu sjálfu heldur einnig á aðliggjandi svæðum.
Ég hef leyft mér að halda því fram að í aðkomunni norðan frá sé einstæða fegurð að finna þ.e.a.s. ef horft er framhjá hótelbyggingunni og bakhluta Austurvegar 3-5. Sveigur árinnar og brúin, en einnig mannvirkin sem sjást frá veginum varpa sterkri mynd í huga vegfarandans. Þessu sjónarmiði kom ég til skila með bókun í fundargerð skipulags- og byggingarnefndar Svf. Árborgar, 48. fundi 16. febrúar 2018 og sem Fréttablaðið greindi einnig frá í frétt sinni í blaðinu 23.02.2018. Í þessari sterku og fallegu mynd eru að mínu mati verðmæti falin sem hægt er að byggja á enn meiri verðmæti til framtíðar eins og ég kom til skila í síðustu bloggfærslu.
Þau hús sem nefnd eru í bókuninni eru Ráðhúsið og húsin þrjú í framhaldi af því sem eru innan skipulagsreitsins. Einnig voru nefnd Selfosskirkja, Tryggvaskáli, Kaffi krús, Landsbankinn og Gamli bankinn. Í viðbót við þau mætti einnig nefna Selfossbæina, Litla leikhúsið við Sigtún og húsið Ingólf sem eitt sinn prýddi svæðið. Ef gamla mjólkurbúið rís á svæðinu mun það einnig styrkja þessa klassísku sunnlensku og selfyssku ásýnd svæðisins.
Ef ætlunin er að byggja hús á miðsvæðinu og sér í lagi hús í gömlum stíl þá er sjálfsagt að hönnun og útlit þeirra kallist á við útlit þeirra húsa sem hér hafa verið nefnd og að svipmót hinna nýju húsa kalli ekki fram stílbrot við svipmót þessara húsa. Það er afar mikilvægt að tryggja að áframhaldandi þróun í byggingarstíl á svæðinu verði á forsendum byggðarinnar á svæðinu. Að þróunin verði ekki látin eftir hönnuðum sem fá frjálsar hendur um stíltilraunir sínar eins og hótelbyggingin ber merki um og einnig að þeir fái ekki að hanna bæði aðalskipulag og deiliskipulag fyrir sig sjálfa á þeim forsendum um útlit bygginga sem þeim hugnast best sjálfum eins og núverandi skipulag er dæmi um.
Skýr sýn og framtíðarstefna á þessum forsendum myndi auðvelda vinnu við þróun og endurhönnun þeirra deiliskipulaga við Austurveg og Eyraveg sem munu þarfnast endurnýjunar og gæti einnig verið leið til sátta í skipulagsmálum. Hér þarf að finna hinn gullna meðalveg sem liggur einhvers staðar á milli verndunar annars vegar og hinna frjálsu handa framkvæmdaaðila hins vegar. Ég efa ekki að þeir hönnuðir finnast sem eru tilbúnir að spreyta sig á því verkefni.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Samfélagsmál í Árborg | Facebook
Athugasemdir
Sem aðkomumaður finnst mér að byggja eigi aðra brú með tveimur akreinum + 1 austan megin þeirrar núverandi. Hún komi í sveig og lendi í beygju aftanvið Tryggvaskála og liggi svo upp eftir árbakkanum. Eftir henni komi öll traffík austan að og afreinar og undirgöng frá henni inn í bæinn. Þannig verður Selfoss í lífrænu sambandi við 4 akreina þjóðveg til Reykjavíkur. "Færæsk" sjálfvirk gjaldttaka sér til þess að þetta er sjálfbært og hægt að gera þegar í stað. Mér líst illa á að leyfa einhverjum stjörnuverkfræðingum að teikna einhverja rándýra spilverksbrú langt um ofar og taka verslunina frá bænum. Brúarstæðið er þarna lang best.
Halldór Jónsson, 23.5.2018 kl. 08:38
Sæll Halldór og takk fyrir innlitið.
Þetta er athyglisvert sjónarhorn og verðugt til umhugsunar. Ég tel þó að flestir hér séu á því máli að þungaflutningarnir eigi ekki erindi inn í bæinn. Stór hluti af umferðinni streymir í gegn hér án þess að stoppa, á enda ekki erindi hingað og orsakar mengun, bæði með útblæstri, svifryki og svo hávaða auk þess að valda umtalsverðum umferðartöfum innanbæjar einkum á álagstímum.
Staðsetning nýju brúarinnar var ákveðin fyrir mörgum árum, ég hef heyrt uppúr 1970 og áætlanir hafa um langt skeið miðast við að brúin og vegstæðið fari þangað, þ.e. yfir Efri-Laugardælaeyju.
Vitanlega eru ekki allir fullkomlega sáttir, m.a. vegna áhyggna af því að viðskipti við ferðamenn færist út úr bænum. Til að vega á móti þessum áhrifum þarf að koma til nýtt aðdráttarafl sem laðar fólk að bænum. M.a. þess vegna er hugmyndin um miðbæjarkjarna í gömlum stíl til komin.
Góðar kveðjur,
Ragnar Geir Brynjólfsson, 23.5.2018 kl. 17:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.