Þriðjudagur, 29.3.2011
Miðjan Selfossi: Fallið frá hálfs milljarðs skaðabótakröfu
Í fundargerð 41. fundar bæjarráðs Árborgar kemur fram að sveitarfélagið kaupir sig frá skaðabótakröfu vegna svokallaðs Miðjusamnings upp á 531 milljón auk dráttarvaxta. Lögfræðilegt mat bendir til þess að sveitarfélagið kunni að vera skaðabótaskylt. Þetta gerir sveitarfélagið með því að kaupa lóðir Miðjunnar fyrir 175 milljónir króna. Með þessum kaupum er jafnframt gengið frá samkomulagi um fullnaðaruppgjör vegna Miðjusamninga og verða ekki uppi frekari kröfur á hendur sveitarfélaginu vegna þeirra segir í fundargerðinni.
Miðjusamningarnir gengu eins og kunnugt er út á uppbyggingu stórhýsa í miðbæ Selfoss á árunum fyrir hrun. Nú væri fróðlegt og upplýsandi fyrir kjósendur í Árborg ef einhver af þessum efnisatriðum yrðu gerð aðgengileg almenningi svo hægt verði að skilja hvað það var sem brást. Í þessu sambandi væri gott ef hægt væri að fá yfirlit yfir forsendur Miðjunnar og hvort um forsendubrest af hálfu sveitarfélagsins var að ræða. Síðast en ekki síst væri fróðlegt ef lögfræðimatið yrði gert opinbert.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:58 | Facebook
Athugasemdir
Alveg sammála þér. Þetta þarf að verða opinbert.
Eyjólfur Sturlaugsson, 29.3.2011 kl. 21:50
Takk fyrir innlitið Eyjólfur. Í nýjasta tbl. Sunnlenska fréttablaðsins (31. mars 2011) kemur fram í frétt á forsíðu um þetta mál að: „í fyrri samningum hafði bærinn skuldbundið sig til að afhenda tiltekið byggingamagn á svæðinu. Eftir að athugasemdir íbúa höfðu borist var ljóst að bærinn gat ekki uppfyllt skuldbindingar um að afhenda þetta byggingamagn.“
Ragnar Geir Brynjólfsson, 31.3.2011 kl. 06:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.