Færsluflokkur: Dægurmál
Laugardagur, 28.3.2009
Um siðferðileg álitaefni við upphaf lífs
Þó lítið beri á almennri umræðu um fóstureyðingalöggjöfina og ekki fréttist af því að stóru flokkarnir hyggist taka hana til endurskoðunar þá þarf það ekki að þýða að um hana ríki breið og almenn sátt. Þessi umræða er viðkvæm því þar takast á öndverð sjónarmið m.a. með tilliti til þess hver staða fóstursins er á fyrstu vikunum og hvort og hvenær beri að líta svo á að fóstur njóti persónuverndar.
Núgildandi lög sem eru nr. 25, frá 22. maí 1975 heimila fóstureyðingar af félagslegum ástæðum. Fóstureyðing felur í sér deyðingu okfrumu eða fósturs sem er sjálfstætt líf og til að þetta geti orðið þarf að gera læknisaðgerð. Þarna er því verið að beita læknisþekkingu og sjúkrahúsaðstöðu til neyðarlausnar á aðstæðum sem metnar eru vandamál af félagslegum ástæðum. Hér er því spurning hvort ekki sé ástæða til að yfirfara og endurmeta í ljósi reynslunnar hvort ekki sé hægt að greiða úr hinu félagslega vandamáli með félagslegum úrræðum, frekar en að beita læknisaðgerðum.
Í lögunum segir ennfremur:
Áður en fóstureyðing má fara fram, er skylt að konan, sem sækir um aðgerðina, hafi verið frædd um áhættu samfara aðgerðinni og hún hafi hlotið fræðslu um, hvaða félagsleg aðstoð henni stendur til boða í þjóðfélaginu. Öll ráðgjöf og fræðsla skal veitt á óhlutdrægan hátt.
Við þennan lestur vaknar sú spurning hvaða aðili það sé sem á að veita fræðsluna. Ef það er aðili á vegum sjúkrahússins sem hana framkvæmir þá er spurning hvernig sá aðili á að geta veitt fullkomlega óhlutdræga fræðslu því hann er jafnframt hagsmunaaðili, þ.e. hefur atvinnuhagsmuni, óbeina þó, af því að þessar aðgerðir séu framkvæmdar. Með því að segja þetta er ég ekki að halda fram að fræðslan hafi verið hlutdræg en það ættu menn að sjá ef þeir skoða málið að það er sjálfsagt að bæta því í lögin að óháður aðili eigi að standa að þessari fræðslu. Hver gæti hugsanlega tapað á þannig óhlutdrægni? Líklega enginn.
Orðið sem notað er yfir aðgerðina 'fóstureyðing' er einnig í sjálfu sér vandamál því þessi orðanotkun breiðir yfir hinn raunverulega verknað sem felur í sér að binda enda á líf sem sannanlega er mannlegt. Deyðing hlýtur að vera sársaukafull eða í það minnsta erfið, svo vægt sé til orða tekið, fyrir það líf sem fyrir henni verður. Að nota orðið 'eyðing' yfir það að binda enda á líf sem sannanlega er mannlegt þó það sé ungt er óvirðulegt og hlutgerir fóstrið. Slík hlutgerving á mannlegu lífi er lítillækkandi og stendur í vegi upplýsingar, en gefur meðvirkni undir fótinn. Orðið 'meðgöngurof' sem lagt hefur verið til er heldur skárra en 'fóstureyðing' því það er ekki jafn óvirðulegt þó það, eins og 'fóstureyðing' haldi áfram huliðshjálmi yfir því sem raunverulega fer fram. Nær væri að tala um fósturdeyðingu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Sunnudagur, 16.11.2008
Að skila auðu eða velja af handahófi - hugleiðing um orð dr. Aliber
Nýlega sagði mætur maður, dr. Robert Z. Aliber prófessor í Chigago að fólk valið af handahófi úr símaskrá hefði að líkindum ekki getað valdið jafn miklum efnahagslegum glundroða hérlendis og þeir sem núna eru við völd. Hér hefur dr. Aliber að líkindum talað í víðum skilningi og átt við bæði embættismenn og stjórnmálamenn. Svo virðist sem margir gætu tekið undir þetta álit um þessar mundir. Atburðir síðustu vikna sýna svo ekki verður um villst að óánægja almennings er mikil og hún brýst fram í friðsömum mótmælum. Í þessu ljósi er vart annað hægt en að velta opinskátt fyrir sér hvernig þessar aðstæður urðu til.
Um langa hríð hefur svo verið hér á Íslandi að stjórnmálaflokkarnir hafa verið áhrifamiklir og áhrif þeirra hafa vaxið í réttu hlutfalli við stærð. Þessar aðstæður hafa valdið því að til liðs við flokkana hefur gengið fólk sem gjarnan hefur átt takmörkuðu gengi að fagna annars staðar. Þetta er fólk sem oft hefur hætt skólagöngu snemma, átt stuttan eða snubbóttan starfsframa á ýmsum stöðum en er samt framagjarnt, metnaðargjarnt og á gott með að koma fyrir sig orði. Það gengur til liðs við einhvern stjórnmálaflokk, fylgir sínum leiðtoga af trúmennsku og nákvæmni og gætir sín að fara ekki út fyrir þær línur sem gefnar eru af leiðtoganum. Fólk þetta er leiðtoganum jafn nauðsynlegt og leiðtoginn er þeim. Eftir nokkurra ára dygga þjónkun við flokkinn og markviss en beinskeytt olnbogaskot til keppinautanna innan flokksins blasa verðlaunin við en það er oft á tíðum bitlingur í formi embættis innan ríkis eða bæjarfélags eða stofnunum tengdum þeim. Þeir sem hafa viðrað sjálfstæðar skoðanir innan flokkanna eða eru 'óþægir' flokksforystunni virðast ekki hafa átt frama að fagna innan flokkanna. Þeir verða undir í málefnabaráttu og þar með áhrifalausir þó þeir starfi oft áfram á þessum vettvangi í von um að tillit verði tekið til þeirra síðar.
Almenningur lítur þetta hornauga og orðin 'framagosi' eða 'flokksdindill' eru lesendum að líkindum ekki framandi. Með tíð og tíma verða þessir einstaklingar svo að vonarstjörnum og geta trúlega náð langt innan flokkanna. Eftir ævilanga þjónustu þarf svo að gera vel við viðkomandi, annað hvort með góðum starfslokasamningi eða háu, virðulegu og gjarnan rólegu embætti með von um góð eftirlaun. Þegar á móti blæs er treyst á samtryggingu flokksins og ítök hans í þjóðfélaginu og það heyrir til undantekninga ef stjórnmálamenn segi af sér. Þeir vita sem er að lítillar gagnrýni er að vænta frá hinum flokkunum því þeir búa við svipað fyrirkomulag og samtryggingu þeirra um aðgengi að kjötkötlunum er ekki hróflað við. Það eina sem getur breytt þessu fyrirkomulagi er pólitískur þrýstingur almennings en almenningur hefur verið lítilþægur og leiðitamur enda hefur pólitísk umræða og vitund fólks utan stjórnmálaflokka ekki verið mikil hér á landi síðustu áratugi.
Það sem hefur gerst í seinni tíð er að með auknum áhrifum flokksveldisins hefur þetta fyrirkomulag gengið út í öfgar. Framagosakerfið hefur þann ókost að nálægt toppi valdapýramídans, á toppinn og í valdamiklar áhrifastöður getur komist fólk sem þangað á ekki erindi. Svo virðist sem þetta hafi verið að gerast síðustu árin hér á landi og að flokkshollusta sé orðin æðri hagsmunum almennings og hagsmunum þjóðarinnar. Flest bendir til að umburðarlyndi almennings gagnvart þessu framferði sé á þrotum
Við þessar aðstæður er erfitt að sjá að lausnin felist í því að kjósa nokkurn stjórnmálaflokk en miklu fremur í því að höfða til forseta lýðveldisins sem getur veitt framkvæmdavaldinu aðhald og einnig í því að skila auðu atkvæði í þingkosningum. Hvað sem hver segir þá eru þetta þeir öryggisventlar sem stjórnarskráin býður upp á. Oft er sagt, og þá gjarnan af fylgismönnum flokkanna, að með því að skila auðu þá séu menn að kjósa stærsta stjórnmálaflokkinn en því er ég ósammála. Með því að skila auðu þá kjósa menn lýðræðið og lýðveldið en ekki stjórnmálaflokk. Flokkarnir geta eftir sem áður myndað stjórn og haft meirihluta á Alþingi en ef þeir hafa þrátt fyrir það nauman atkvæðameirihluta þjóðarinnar á bak við sig þá standa þeir veikar og geta síður böðlast áfram á kostnað minnihlutans. Með minna atkvæðahlutfall á bakvið sig þurfa þeir frekar að hlusta á hvað fólk segir og taka tillit til margvíslegra sjónarmiða almennings heldur en gert hefur verið.
Einn möguleiki er svo sá sem dr. Aliber nefnir en það er að velja fólk af handahófi. Það er útaf fyrir sig ekki slæmur valkostur sérstaklega ef í boði væri handahófsvalið fólk í þingsæti fyrir ákveðið hlutfall af auðum atkvæðum. Hægt væri að setja skilyrði um aldur og óflekkað mannorð. Ef þingmenn eru miklu fremur bundnir hollustu við stjórnarskrána og þar með þjóðina, sína eigin samvisku og við eigið mannorð en við stjórnmálaflokk þá yrðu afköst Alþingis trúlega minni, þar yrðu meiri, raunverulegri og dýpri umræður og Alþingi myndi færast frá því að vera afgreiðslustofnun fyrir ríkisstjórnina og í þá átt að öðlast heildarsýn yfir það hvert eigi að stefna. Þetta myndi neyða menn til að forðast skammtímalausnir í aðgerðum ríkisvaldsins eða lausnir sem hygla tilteknum sjónarmiðum á kostnað annarra en horfa frekar til hagsmuna þjóðarinnar á sem breiðustum grundvelli og til lengri tíma.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 13:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Miðvikudagur, 24.9.2008
Öryggi ferðafólks erlendis er ekki alltaf það sem það virðist vera
Öryggi ferðafólks erlendis er ekki alltaf það sem það virðist vera. Hörmulegt morð á íslenskri konu í Dóminíska lýðveldinu minnir á þetta. Það er svo fjarri því að í ýmsum löndum Afríku, Asíu eða Suður-Ameríku sé öryggi fólks jafn tryggt og það er í Vestur-Evrópu og Bandaríkjunum svo tekið sé dæmi. Við getum ferðast þangað en eitt af því sem við tökum með okkur eru innprentaðar hugmyndir okkar um öryggi og öryggistilfinningu en hætt er við að sú tilfinning geti orðið fallvalt veganesti og geti valdið hættulegu ofmati á eigin öryggi í löndum þar sem stjórnarfar er ekki tryggt eða embættismenn þiggja gjarnan aukagreiðslur fyrir unnin verk. Á þannig stöðum er réttlætið fyrst og fremst réttlæti hins sterka og kannski líka hins forsjála. Undir þannig kringumstæðum er öryggi eitthvað sem er mun meira einkamál en gengur og gerist og þeir sem ekki huga gaumgæfilega að því gætu verið í hættu. Fyrir ekki svo löngu las ég í blaði frétt af tveimur stúdínum sem ákváðu að fara í heimsreisu í tilefni af útskriftinni og völdu Suður-Ameríku til að ferðast um einar, í langan tíma og að því er virðist án skýrrar ferðaáætlunar. Ég trúði varla eigin augum þegar ég sá þetta, en það virðist því miður að verða nokkuð útbreiddur vani að íslensk ungmenni ferðist á eigin spýtur ein saman eða fá um þessi svæði. Þetta er kannski hluti af áhættusækni ungs fólk sem einnig má sjá í áhættuíþróttum, en í þessum tilfellum er áhættan stundum ekkert minni en þess sem hoppar í fallhlíf eða fram af háu húsi eða fjallsbrún í fallhlíf.
Þeir sem þekkja aðstæður í Afríku- eða Asíulöndum vita að miklu máli skiptir að þekkja aðila á staðnum og eiga sem minnst viðskipti eða samskipti við ókunnuga í tilfellum þar sem öryggi getur skipt máli. Einnig er mjög mikilvægt að ferðast ekki einn eða fáir saman heldur hafa traust fylgdarfólk sem gjörþekkir aðstæður á staðnum, helst innfædda. Til að byrja með er þetta óþægilegt, að geta ekki um jafn frjálst höfuð strokið og heima og þurfa helst að vera upp á aðra kominn með fylgd en þetta getur borgað sig til lengri tíma. Það gleymist gjarnan að öryggis- og frelsistilfinning Vesturlandabúa er ekki sjálfsögð heldur er hún afrakstur fullkomins öryggiskerfis þróaðs þjóðfélags. Við skömmumst stundum út í lögregluna en viljum jafnframt ganga óáreitt um götur borga okkar helst á hvaða tíma sólarhrings sem er. En það er munaður sem er fjarrri því að vera sjálfsagður.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Þriðjudagur, 23.9.2008
Er regntíminn hafinn?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 9.7.2008
Hvar eru hrafnarnir á Selfossi?
Mér var nýlega bent á af manni* sem hefur gaman af að fylgjast með hröfnum að hann hefði ekki séð neina hrafna á Selfossi eftir jarðskjálftana. Eru einhverjir Selfyssingar sem lesa þessar línur sem hafa séð hrafna á Selfossi eftir 29. maí síðastliðinn? Eins og menn vita þá hefur hingað til verið talsvert af hröfnum á Selfossi. Þeir halda trúlega til í fjallinu og fljúga niður í byggðina í leit að æti. Oft eru þeir á sveimi yfir háum húsum á svæðinu svo sem Selfosskirkju, húsi Fjölbrautaskólans og Hótelinu en núna er eins og himininn hafi gleypt þá.
--
* Hann heitir Brynjólfur Guðmundsson og var áður bóndi á Galtastöðum í Gaulverjabæjarhreppi (nú Flóahreppi).
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Mánudagur, 9.6.2008
Að upplifa sterkan jarðskjálfta
Ég lýsti í þessari bloggfærslu hér hvernig tilfinningu ég fékk fyrir jarðskjálftanum 28. maí sl. Þar minntist ég á titring og veltu. Fyrsta tilfinningin er eins og ef jarðvegsþjöppu sé snúið við og maður standi á þjöppuplötunni. Við þannig aðstæður finnst mikill titringur, en jafnframt er vægari tilfinning fyrir bylgjuhreyfingu í jörðinni. Á meðan titringurinn ríður yfir er eins og í gegnum jörðina fari með miklum hraða lág bylgja sem orsakar yfirborðshreyfingu líkt og aðrar bylgjur. Þaðan kemur sú tilfinning að maður sé ekki staddur í húsi heldur skipi.
Við þessar kringumstæður er líklega öruggast að gera minnst annað en að standa kyrr og að reyna að vara sig á fallandi hlutum. Að reyna að komast út úr húsi getur að líkindum haft ýmsa hættu í för með sér vegna fáts og óðagots. Þetta verður fólk þó að meta sjálft m.t.t. aðstæðna því auðvitað er hugsanlegt að hús hrynji þó líkur á því séu ekki miklar a.m.k. ekki hér á Íslandi. En dæmin um skólahúsin sem hrundu í jarðskjálftunum í Kína sýna því miður að allt getur gerst.
Dægurmál | Breytt 12.6.2008 kl. 22:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Fimmtudagur, 29.5.2008
Jarðskjálftinn undir Ingólfsfjalli 29. maí 2008
Þegar jarðskjálftinn reið yfir var ég að labba út úr FSu að fara heim í kaffi og var staddur við útidyrnar kennaramegin. Þá byrjaði húsið að titra með miklum hamagangi og hávaða. Ég beið á meðan þetta reið yfir og reyndi að hafa vara gegn fallandi hlutum sem voru þó engir. Þetta er þriðji jarðskjálftinn sem ég upplifi í þessari byggingu og alltaf finnst mér eins og húsið sé eins og skip í sjó. Í þetta skiptið var eins og húsið ruggaði til hliðanna. Það er mikið járnabundið og ruggaði í heilu lagi eins og skip sem fékk á sig hliðaröldu. Fyrir utan dyrnar voru málarar að störfum sem flýttu sér niður úr stigum sínum. Við litum til Ingólfsfjalls og þá sá ég sjón sem mig langar ekki að sjá aftur. Allt fjallið var þakið skriðum frá toppi og niðurúr og það mátti greina mikinn fjölda hnullunga og bjarga á hraðferð niður. Af þessu steig mikill reykur upp og drunur. Myndirnar sem voru sýndar í sjónvarpinu sýndu aðeins reykinn sem lá í loftinu eftir að ósköpin gengu yfir. Það hefði verið mjög óspennandi að vera staddur uppi í Ingólfsfjalli þessar mínútur og ég vona sannarlega að enginn hafi verið þar.
Árið 2000 urðu skjálftarnir í miklu meiri fjarlægð hér fyrir austan og höggið af þeim var ekki eins mikið og höggið af þessum. Á undan þeim skjálfta heyrði ég þó hvin en á undan þessum heyrði ég ekkert, líklega af því hversu nálægt hann var.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Sunnudagur, 25.5.2008
Lækka þarf hámarkshraða á Suðurlandsvegi milli Hveragerðis og Selfoss
Því miður eru litlar líkur á að draga muni úr mikilli slysatíðni á Suðurlandsvegi á þeim köflum þar sem enn er ekki búið að skipta veginum. Vegna ástandsins í efnahagsmálum eru litlar líkur á að Suðurlandsvegur breytist mikið á næstu misserum og því horfa landsmenn sömuleiðis fram á óbreyttar líkur á slysum á þessari leið.
Krossarnir við Kögunarhól eru þögult vitni og áminning um þau sorglegu tíðindi sem verða aftur og aftur á leiðinni. Á þessari leið eru nokkrir kaflar sem eru sérlega áhættusamir. Einn þeirra er kaflinn milli Hveragerðis og Selfoss. Hann er sérmerktur sem slysasvæði enda hlykkjóttur og beygjóttur. Inn á hann liggja líka nokkrir þvervegir sem eru merktir með biðskyldumerkjum.
Það er í rauninni ótrúlegt að á þessum uþb. 10 km. vegarspotta skuli enn vera 90 km. hámarkshraði. Mannfallið á þessari leið virðist ekki hreyfa við neinum öðrum en þeim sem þurfa að syrgja ættingja sína. Sem fyrst þyrfti að lækka hámarkshraða á leiðinni niður í 80 eða jafnvel 70 og sömuleiðis þyrfti að skipta út biðskyldumerkjunum og setja stöðvunarskyldumerki í staðinn á þvervegina. Reyndar þyrfti að skipta út biðskyldumerkum og setja stöðvunarskyldumerki víðast hvar á Suðurlandsveginum og á fleiri stöðum þar sem sveitavegir liggja þvert inn á malbikaða aðalbraut með 90 km. hámarkshraða.
Nú kunna menn að andmæla þessari skoðun með þeim rökum í fyrsta lagi að það sé þjóðhagslega óhagkvæmt að lækka hámarkshraða. Spurning hvort menn hafa tekið háar slysalíkur og tjón sem orsakast af mannfalli með í þann reikning? Bæði er umhverfisvænt að aka á minni hraða og þjóðhagslegi reikningurinn er fljótur að jafna sig upp ef fólki fjölgar í bílum.
Í öðru lagi má reikna með þeim andmælum að fáir muni hlýða fyrirmælum um hámarkshraða. En þau rök eru ekki góð og gild í þessari umræðu. Á að afsaka lögbrot með því að löggæslan sé slæleg? Það væri hægur vandi að koma upp færanlegum löggæslumyndavélum á leiðinni sem væru færðar til með reglulegu millibili auk þess að beita hefðbundnum ráðum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 19.5.2008
Hinn umhverfissinnaði ökumaður
Á netinu má finna ýmis ráð fyrir umhverfissinnaða ökumenn og sjálfsagt sum hver hin ágætustu. Til dæmis það að aka ekki yfir hámarkshraða. Margir ökumenn virðast stóla á að aka á 80 þar sem 70 er hámarkshraði eða 100 þar sem 90 er hámarkið. Af hverju ætli það sé? Það er bæði mun dýrara heldur en að halda sig innan ramma laganna og svo mengar það meira. Getur verið að slæm skipulagning orsaki þetta tímaleysi og þennan hraða?
Nú hef ég heyrt það sjónarmið að tímasparnaður í umferðinni skili sér í aukinni hagsæld, en skyldi ekki góð skipulagning gera það miklu fremur? Hvað ef t.d. tveir eða þrír deila bíl saman frá Reykjavík til Akureyrar og halda sig á eða við hámarkshaða heldur en ef þrír bílar færu sömu leið og væru eins nálægt hundraðinu og Blönduóslöggan leyfði? Sparnaðurinn er strax augljós ef fleiri en einn eru í bílnum og sparnaður er nákvæmlega það sama og minni mengun.
Eitt ráðið sem ég sá var á þá leið að það ætti að létta bílinn eins og kostur er, ekki geyma hluti í bílnum til að rúnta með því öll þynging kallar á aukna eldsneytisnotkun. Einn vildi ganga svo langt að gera aldrei meira en að hálffylla tankinn til að létta bílinn en það er kannski frekar fyrir þá sem hafa tíma til að stoppa oftar á bensínstöðvum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 17.5.2008
Af hverju hugnast mér ekki ESB?
Af hverju hugnast mér ekki ESB? Ég gæti nefnt þrjár ástæður:
1. Hömlur á verslunarfrelsi. Hér er ein lítil saga um þetta. Ég er áhugamaður um fjarskipti með talstöðvum og mig langaði í fyrra að kaupa CB- talstöð í Bandaríkjunum og flytja inn. Mér var tjáð af starfsmanni Póst- og símamálastofnunar að það væri óheimilt að flytja inn talstöðvar nema þær hefðu CE merkingu. Nýjar CB talstöðvar framleiddar fyrir Bandaríkjamarkað eru vel nothæfar hérlendis og eru í fáu ef nokkru frábrugðnar sömu vöru sem framleidd er fyrir ESB nema að þær eru ekki með CE merkinu. Flestar eru þessar stöðvar t.d. með 4 Watta sendistyrk. Stöðvarnar var samt hægt að fá á mun hagstæðara verði í Bandarikjunum síðasta ár. Starfsmaðurinn tjáði mér að ef ég flytti inn svona stöð sem ekki væri með CE merkingu þá yrði hún gerð upptæk í tollinum! Kurteist en afdráttarlaust svar. Ég segi nei takk! Ekkert staðlað ESB helsi fyrir mig. Verslunarfrelsi er dýrmætt frelsi og uppspretta hagsældar og það ætti ekki að taka hugsunarlaust af fólki.
2. Mismunun gagnvart skyldfólki og ættingjum búsettum utan ESB. Konan mín er frá Filippseyjum og hana langaði til að útvega frænku sinni sem þar er búsett vinnu hérlendis því það vantaði starfsfólk á vinnustað hennar. Farið var í langt umsóknarferli og ítrekað auglýst og óskað eftir fólki hérlendis sem ekkert fannst. Eftir næstum árs þóf við kerfið kom loksins afdráttarlaust svar: Ákveðin synjun og vinnustaðnum bent á að snúa sér til Evrópskrar vinnumiðlunar til að afla sér starfsfólks.
3. Breytt sjálfsmynd þjóðarinnar. Ef fólk gengst inn á reglur af þessu tagi sem hér er nefnt að framan og finnur til vanmáttar síns gagnvart því að þeim sé breytt þá lamast bæði frelsishugsunin og sú hugsun að í þessu landi búi frjálsborin þjóð sem einhverju fái breytt með eigin ákvörðunum. Ef vitringar, sérfræðingar og stjórnlyndir forræðishyggjumenn úti í löndum fá að fara sínu fram hérlendis hvað sem hver tautar og raular hérlendis (eins og til dæmis hvíldartímákvæði vörubílstjóra) þá er erfitt að ætla annað en þessi frelsissjálfsmynd skaðist.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)