Þjóðráð til sparnaðar - 2. hluti: Sjónvarpið

Vinur minn einn sem fer reglulega með efni í brotajárnsgáminn sagði mér að fyrstu dagana eftir hrunið síðasta haust hefðu verið stór nýleg túpusjónvarpstæki í gáminum nánast í hvert skipti sem hann fór. Þegar leið á veturinn dró úr þessu en þessa vikuna byrjaði þetta aftur. Í gáminum voru stór og reyndar stundum lítil túpusjónvörp. Hvað veldur og hver er ávinningurinn?

Þessi athugun á ruslinu bendir því til að viðbrögð margra við kreppufréttunum hafi verið þau að endurnýja raftækin, henda túpusjónvarpinu, og kaupa flatskjá á gamla verðinu. Ótrúlegt er að öll þessi nýlegu túpusjónvörp hafi verið ónýt áður en þau lentu í ruslinu. Þessi vinur minn hirti reyndar eitt lítið tæki sem lá efst í gáminum og það var í lagi þrátt fyrir nokkrar rispur sem hafa líklega komið þegar tækið lenti í gáminum.

Hvað það er sem orsakar þessa bylgju núna er ekki gott að segja en hugsast getur að einhverjir nýti skattaafsláttinn til að koma tímabærri endurnýjun á sjónvarpstækinu í framkvæmd. En hver er ávinningurinn af því að henda túpusjónvarpi sem er í lagi og kaupa flatskjá?

Þó hugsast geti að flatskjá fylgi betri sjálfsímynd og hagkvæmari nýting á plássi þá gefa myndgæði túpusjónvarpa og viðbragðsflýtir flatskjáum lítið ef nokkuð eftir. Sumir telja þau reyndar betri. Rafmagnseyðsla gömlu túpusjónvarpanna er líka yfirleitt minni en flatskjáa, sérstaklega stóru plasma skjáanna.  Hinu spánnýja, flata sjónvarpstæki fylgja því að líkindum hærri rafmagnsreikningar ef ekki er hugað að ákveðnum sparnaðarráðum. Hér koma nokkur slík tekin af netinu ásamt smá kryddi frá undirrituðum:

1. Slökkvið á sjónvarpinu þegar hætt er að horfa á það. Ekki nota Standby. Slökkvið einnig á tengdum tækjum svo sem DVD spilara eða leikjatölvu. Heppilegt getur verið að hafa fjöltengi með rofa og rjúfa strauminn inn á þessi tæki þegar búið er að slökkva á þeim. Þá er örugglega slökkt.

2. Slökkvið á Quick Start möguleika. Þessi möguleiki eykur rafmagnseyðslu ef Standby er notað.

3. Dragið úr baklýsingu LCD skjáa. Þetta dregur úr ljómun og birtu skjásins en á móti er kannski hægt að draga úr birtunni í herberginu.  Mikil birta hjá sjónvarpi er óþörf hvort sem er og spillir bíótilfinningunni.

4.  Ef tækið er með orkusparandi ham hafið þá stillt á hann. Nýrri flatskjáir gætu verið með þessum möguleika.

5.  Ef ekki er enn búið að kaupa flatskjáinn reynið þá að komast af með eins lítinn skjá og hægt er. Hægt er að færa sjónvarpsstólana nær og ná sömu áhrifum og ef stór skjár er notaður. Við það sparast líka dýrmætir fermetrar af húsplássi.

6. Notið ekki mörg sjónvörp í sama húsi heldur reynið að sameina fjölskylduna fyrir framan eitt tæki. Barnaefni getur verið mjög skemmtilegt og yngri fjölskyldumeðlimum mun þykja þú bæði viðræðubetri og skemmtilegri ef þú getur talað við þá um uppáhalds sjónvarpsefnið þeirra.

7. Horfið minna á sjónvarp eða notið sjónvarpstímann til að vinna eitthvað í höndunum svo sem strauja, brjóta saman föt eða prjóna.  Þá nýtist tíminn betur og borgar sig upp.

8. Athugið heildaráhorf ykkar og metið hvort hægt sé að segja upp áskrift sem hugsanlega er lítið notuð. Talsvert er í boði af innlendu efni í opinni dagskrá. Gervihnattabúnaður gæti borgað sig upp á einu ári ef vel er haldið um budduna og á t.d. Astra 2 hnettinum eru nokkrar erlendar stöðvar í opinni dagskrá, svo sem SkyNews, CNN að ógleymdri föndurrásinni Create and Craft.

Byggt á: http://reviews.cnet.com/green-tech/tv-power-saving-tips/?tag=greenGuideBodyColumn.0

Höfundur er áhugamaður um málefnið.


Um ágreining hagfræðinga austan hafs og vestan

Aðgerðir hinnar nýju ríkisstjórnar Obama vestanhafs sem byggja á innspýtingu fjármagns inn í hagkerfið sem og seðlaprentun virðast vera umdeildar meðal hagfræðinga sérstaklega hérna megin Atlantsála.

Erfitt er fyrir leikmenn að gera sér grein fyrir forsendum hagfræðinganna og þessa ágreinings, en skiljanlegt er að Bandaríkjamenn byggi á reynslu sinni af kreppunni miklu og New Deal áætlun Roosevelt forseta sem almennt er talið að hafi rofið vítahring víxlverkandi lækkana og hruns. Í þessu sambandi er vert að hafa í huga að kreppan mikla hófst með hruni í október 1929 en efnahagsáætlun forsetans var ekki hrundið í framkvæmd fyrr en á árunum 1933-1938.

Hugsast getur að báðar fylkingarnar hafi rétt fyrir sér að nokkru leyti en tímasetningin á því hvenær gripið skuli inn í sé lykilatriði. Hugsast getur að það sé ekki skynsamlegt að verja miklum fjármunum í varnaraðgerðir á meðan hrunið er enn í gangi en þeim mun skynsamlegra að hefjast handa þegar ljóst er að markaðir eru farnir að verða stöðugir á nýjan leik og gjaldþrot eru orðin fátíð.

Í rauninni ætti ekki að vera svo margt ólíkt með stórum efnahagseiningum og þeim litlu, þ.e. að á meðan hrunferli kreppunnar stendur borgi sig fyrir bæði ríkissjóði og heimili að halda að sér höndum og bíða þess að hinu efnahagslega illviðri sloti og hefjast ekki handa fyrr en hruninu er lokið.

Samlíkingin við náttúruhamfarir er e.t.v. ekki svo galin. Það eina sem hægt er að gera meðan hamfarirnar ganga yfir er að reyna að bjarga fólki, fénaði og verðmætum. Þegar lægir, þegar illviðrið er gengið yfir, þegar eldgosið er hætt og þegar hrunferli kreppunnar er lokið er hægt að fara að byggja upp og gera áætlanir um endurreisn.
Þó svona hliðstæðurök hafi ekkert sönnunargildi þá eru þau þrátt fyrir allt hugsanlegt haldreipi við ákvarðanatöku því hagfræðingar virðast ekki hafa meiru úr að moða en kenningum en ekkert hefur heyrst af því að þeir notist við nein sérstök spálíkön eða hermiforrit. Síðan geta menn fátt annað gert en aðhyllast kenningarnar eða vera ósammála þeim.

Það er í rauninni merkilegt að enn skuli ekki vera búið að búa til raunhæf spá- eða hermilíkön af efnahagskerfum þjóðanna. Verkefnið er að vísu stórt en hvorki óviðráðanlegt né óraunhæft. Það sýna veðurspárkerfin og einnig fullkomnir tölvuleikir svo sem skákforrit. Með því að byggja ýmsar breytur inn í slík líkön og með aðgengi að nægu vélarafli ætti að vera hægt að segja fyrir um hvaða áhrif ýmsar efnahagslegar aðgerðir og breytistærðir hafa á markaði og þjóðfélagshópa með meiri áreiðanleika en áður hefur þekkst. Hugsanlega er þarna sóknarfæri og mögulegur samstarfsflötur fyrir rannsóknarstofnanir í tölvufræðum og efnahagsfræðum.

Ef þessi kenning hliðstæðurakanna er rétt þá hefur Obama og sérfræðingum hans orðið á mistök. Hann hefur gert áætlanir um uppbyggingu sem teknar eru of snemma í hrunferlinu og þau mistök munu verða dýrkeypt að því leyti að þau munu hægja á uppbyggingu þegar hennar tími rennur upp.

(Byggt á pistlinum: http://ragnargeir.blog.is/blog/ragnargeir/entry/837924/)


Þjóðráð til sparnaðar á eldsneyti

Nú þegar bensín og díselolía hækkar stöðugt er ekki fráleitt að rifja upp enn einu sinni hvernig best er hægt að draga úr eyðslu.  Ég svipaðist um á netinu og bætti svo við úr eigin ranni og fékk út eftirfarandi punkta. Ég tek fram að ég er áhugamaður um málefnið.

1. Þarf að fara ferðina? Er kannski hægt að hringja, fresta henni eða sameina hana annarri ferð?
2. Er hægt að bjóða einhverjum öðrum með til að deila kostnaði?
3. Aðgætið að réttur loftþrýstingur sé í dekkjum. Athugið að holóttur vegur getur orsakað að loft lekur úr dekkjum.
4. Notið hreinsiefni fyrir eldsneytiskerfið.
5. Reynið að forðast mikla hröðun. Mikill snúningur vélar kallar á meiri eyðslu.
6. Reynið líka að forðast að draga of snögglega úr hraða þar sem slíkt ökulag getur aftur kallað á skyndilega hröðun.
7. Takið óþarfa aukahluti úr bílnum svo hann verði léttari.
8. Virðið hraðatakmörk, þau eru sett til að gæta öryggis og einnig m.t.t. hagkvæmni í eldsneytiseyðslu.
9. Skítug loftsía getur orsakað að vélarafl minnkar og stuðlað að meiri eyðslu. Skiptið reglulega um olíu og látið athuga loftsíuna um leið.
10. Látið stilla og yfirfara bílinn reglulega og athuga eldsneytis- og kveikjukerfi.
11. Fylgist með eyðslunni svo strax verði vart við ef bíllinn fer að eyða óeðlilega miklu eldsneyti. Ef þrjár eða fjórar tankfyllingar koma lélega út þá borgar sig að athuga málið.
12. Akið ekki of hratt. Því meir sem vélin erfiðar til að ýta bílnum móti vindi því meiri verður eyðslan.
13. Skiptið um eldsneytissíu samkvæmt ráðleggingum framleiðandans. Einnig er hægt að láta hreinsa innspýtingu á 40-50 þús. km. fresti.
14. Notið hraðastilli (cruse control) ef það er í boði þar sem jafn hraði á lengri vegalengdum stuðlar að sparnaði.
15. Ef um fjórhjóladrifsbíl er að ræða notið þá ekki fjórhjóladrifið nema þar sem þörf krefur.

Um atriði 8 hér að ofan má segja að víða á höfuðborgarsvæðinu eru hraðatakmörk ekki virt. Algengt er að umferðin á stofn- og tengibrautum sé þetta 10 km. fyrir ofan takmörkin. Þessi mikli og ólöglegi hraði orsakar óþarfa sóun og mengun t.d. svifryksmengun yfir vetrartímann auk þess að vera yfir þeim hraða sem umferðarmannvirki eru hönnuð fyrir. Nú þegar lögreglan hefur minni tíma en áður til að fylgjast með þessu þá kemur það í hlut ábyrgra ökumanna að sjá um að halda hraðanum á þessum brautum innan og við leyfileg mörk.


Er frægð Jackson 5 hópsins hérlendis ofmetin?

Óvænt fráfall Michaels Jackson var reiðarslag fyrir tónlistarheiminn og aðdáendur hans. Hæfileikar hans voru miklir og framinn glæstur þrátt fyrir ýmis sérviskuleg uppátæki söngvarans.

Mér hefur í þessu sambandi fundist nokkuð mikið vera gert úr frægð Jackson 5 hópsins og í því sambandi rétt að taka fram að þá er líklega verið að tala um frægð þeirra í Bandaríkjunum þó það sé ekki sérstaklega tekið fram. Þetta gæti valdið nokkrum misskilningi hjá þeim sem muna ekki vel eftir 8. áratugnum eða eru fæddir á þeim árum.  Ég minnist þess nefnilega ekki að hafa heyrt minnst á Jackson 5 hópinn fyrr en eftir að Michael Jackson sló rækilega í gegn með sólóferli sínum um og eftir 1980. 

Sönghópur sem sló aftur á móti í gegn hér á landi var Osmond fjölskyldan. Þetta var nokkuð áþekkur hópur og Jackson fjölskyldan og sumir litu á þá sem keppinauta þó svo virðist sem vinátta hafi einkennt samskipti þeirra. eins og þessi tengill bendir til.  Báðir voru hóparnir stórir bandarískir systkinahópar, sprottnir upp úr trúarlegum jarðvegi, í rauninni ekki svo ólíkir hinni kaþólsku og austurrísk-bandarísku Trapp fjölskyldu sem er fyrirmynd persóna Söngvaseiðs. Móðir Jackson systkinanna var/er (?) vottur Jehóva og ól börnin skv. þeirra venjum, en Osmond fjölskyldan er í Kirkju Jesú Krists hinna síðari daga heilögu, betur þekktri sem Mormónasöfnuðinum. 

Ég minnist þess sérstaklega t.d. að sumarið 1973 var lagið Long Haired Lover from Liverpool  með Little Jimmy Osmond vinsælt og fékk mikla spilun í óskalagaþáttum útvarpsstöðvarinnar Útvarps Reykjavík, sem núna er betur þekkt sem Rás-1. Þá var þetta eina útvarpsstöðin sem útvarpaði á íslensku og var hún alltaf kölluð Útvarpið. Lagið ásamt fleiri lögum sem hljómaði þetta sólríka sumar er mér minnisstætt því þá byggðu foreldrar mínir fjós á Galtastöðum og útvarpið var haft í gangi á meðan við unnum að byggingunni ásamt duglega vinnuflokknum hans Guðna í Kirkjulækjarkoti.

Önnur sumur var ekki hlustað jafn mikið á útvarp því þá var lítið um að útvarpstæki væru í traktorum og reyndar ekki mikið um traktora með húsi. Rosasumrin þegar rigndi gafst meiri tími til að hlusta og einnig á hljómplötur. Eitt slíkt sumar er t.d. rosasumarið 1975 þegar Pink Floyd, Melanie og Simon & Garfunkel urðu fjölskylduvinir, en Erlingur gat keypt þessar og ýmsar fleiri plötur eftir að hann fór á sjóinn. Hann kom með þær heim að Galtastöðum og þær voru nánast spilaðar í gegn rigningarsumrin sem urðu á Suðurlandi um miðbik áratugarins. 

Annar svona sönghópur var skáldaður í kringum sjónvarpsþáttaröð og hét Partridge fjölskyldan. Í henni var m.a. þekktur söngvari David Cassidy. Þessi sjónvarpsþáttaröð var sýnd hérlendis í sjónvarpsstöðinni Sjónvarpinu, núna þekktri sem Ríkissjónvarpinu, sem þá var eina íslenska sjónvarpsstöðin hérlendis.

Hvort það var skortur minn á tíma til hlustunar eða hugsanlega lítil spilun á Jackson 5 í ríkisfjölmiðlunum á fyrri hluta 8. áratugarins sem olli vanþekkingu minni á Jackson 5 þangað til eftir 1980 veit ég ekki, en mér finnst nauðsynlegt að halda þessum punkti til haga. Hafa ber í huga að útgáfufyrirtæki Jackson fjölskyldunnar var öflugt og það, ásamt síðari útgáfum Michaels Jackson hefur að líkindum ekki gert minna úr frægð fjölskyldubandsins á þessum árum en efni stóðu til. Ég tek fram að ég hlustaði ekki bara á Útvarpið á þessum árum heldur einnig Kanaútvarpið sem og Radio Luxembourg sjá þessa færslu

Þó ég segi þetta þá er ég ekki að halda því fram að Jackson 5 hópurinn hafi verið óþekktur hérlendis. Líklegt er að hljómplötur með þeim hafi borist hingað þrátt fyrir að meira hafi borið á öðrum áþekkum fjölskyldusönghópum. Hugsanlega hefur hópurinn verið þekktur meðal tónlistaráhugamanna sem og efnameiri einstaklinga sem gátu leyft sér þann munað að kaupa hljómplötur af áhuga einum saman yfir lengra tímabil.  Einnig getur verið að hópurinn hafi fengið spilun en bara ekki slegið í gegn í óskalagaþáttum á borð við þætti Jóns B. Gunnlaugssonar Eftir hádegið*, Óskalögum sjómanna, Lögum unga fólksins eða Óskalögum sjúklinga. 

 

* Mig minnir að þetta hafi verið nafn þáttarins. Hann var geysivinsæll en ég finn engar heimildir um hann. 


Útvarp er sígildur fjölmiðill

Þegar bloggflokkar á blog.is eru skoðaðir sést þegar þetta er skrifað að Sjónvarpið er með sinn sérstaka flokk en útvarp er hvergi sjáanlegt. Ég hef þó sent umsjónarmönnum bloggsins póst og bent þeim á að bæta þessum flokki við. Af hverju?

Útvarp á mikið erindi til samtímans þrátt fyrir mikla athygli sjónvarps, kvikmynda og netsins. Þessu valda nokkur atriði:  

1. Útvarpstæki eru tiltölulega ódýr og meðfærileg, a.m.k. miðað við tölvur, vídeótæki og sjónvarpstæki. Þetta hefur þær afleiðingar að útvarpstæki er að finna víða; á heimilum, í bílum, á vinnustöðum, í verslunum og ýmsum stöðum þar sem fólk safnast saman.

2. Það er hægt að hlusta á útvarp þó fólk sé að gera eitthvað annað, svo sem að aka bíl eða vinna eitthvað í höndunum, en þetta er eiginleiki sem vídeó, sjónvarp eða netið búa ekki yfir.

3. Styrkur útvarpsins er hið talaða orð, sem ekki krefst áhorfs og einnig tónlistarflutningur en sjónvarp er ekki nauðsynlegt til að koma tónlist til skila.

Þessi þrjú atriði benda til að útvarp muni um fyrirsjáanlega framtíð verða bæði vinsæll og ómissandi fjölmiðill og snar þáttur menningar okkar eins og verið hefur síðustu 80 ár eða þar um bil. Ég hef því búið til mínar einkamöppur hér á blogginu, eina um útvarp og undirflokkur hennar er um Ríkisútvarpið. Þar má finna hugleiðingar mínar og hugmyndir um útvarp á Íslandi eins og þær hafa verið að þróast og mótast undanfarin tvö ár.


Vel mælt Steingrímur!

Þessi orð Steingríms eru löngu tímabær. Það þarf ýmsu að breyta í starfsumhverfi fjölmiðla hér en samt ekki í þá veru sem hugsun fjölmiðlafrumvarpsins frá 2004 gengur út á. Samkeppnislögin ættu að duga til að hindra of mikla samþjöppun á þessum markaði eins og öðrum. Þrátt fyrir allt eru útvarpslögin skýr og kveða á um óhlutdrægni en það virðist ganga erfiðlega að framfylgja þeim af einhverjum ástæðum. Í rauninni væri heppilegast ef neytendur fjölmiðlanna gætu sjálfir séð um að veita aðhaldið en í núverandi fyrirkomulagi er RÚV tryggð bæði mikil og örugg athygli sem og fjármunir skattgreiðenda og því er aðhald neytenda erfiðleikum bundið.

Til að af þessu aðhaldi geti orðið þarf að skapa starfsumhverfi þar sem aðilar á ljósvakamarkaðnum njóta jafnræðis hvað varðar ríkisstyrki. Útvarpsgjaldinu ætti að útdeila í réttu hlutfalli við framboð fjölmiðla af íslensku efni en ekki til kostunar á erlendum sápuóperum og neytendur efnisins ættu að hafa eitthvað að segja um til hvaða fjölmiðla þeir kjósa að hluti af gjaldinu renni. Þannig ætti að vera hægt að skapa bæði jafnræði og heilbrigða samkeppni milli fjölmiðlanna og byggja upp flóru sjálfstæðra aðila sem ættu að geta verið til í langan tíma með tilheyrandi stöðugleika og án þess að búa við óöryggi vegna afkomu og yfirtöku stórra fjölmiðlasamsteypa. Slíkt fyrirkomulag myndi rétta hlut þeirra gagnvart RÚV.

Fleiri pistla um þetta efni er að finna í efnismöppunum um sjónvarp, útvarp og ríkisútvarpið á þessari síðu.

 


mbl.is Elítan vill í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er fresturinn of skammur fyrir evruna?

Í Fréttablaðinu í dag las ég að CCP telur að það geti haldið höfuðstöðvum sínum hér í tvö ár ennþá miðað við núverandi gjaldeyrishöft. Svipuð viðhorf þar sem rætt hefur verið um að best sé að opna hagkerfið með nýjum gjaldmiðli sem fyrst hefur mátt heyra í fjölmiðlum undanfarið, m.a. í Spegli RÚV nýlega.  Ef staðan er almennt þannig hjá fyrirtækjum að þau þola ekki lengur við en 2-3 ár í núverandi kerfi þá bendir það sterklega til að evran sé ekki inni í myndinni sem raunhæfur valkostur.

Þessu veldur óhjákvæmilegur tími sem aðildarumsókn að ESB hlýtur að taka, sem og tími í kjölfar þess sem fer í aðlögun hagkerfisins svo það verði hæft til að taka upp evruna. Það má vera mikil flýtimeðferð sem verður komin með Ísland inn í myntbandalag ESB áður en 2-3 ár eru liðin. Sá góði maður Benedikt Jóhannesson talaði í umræddum Spegli og lagði þar ríka áherslu að þetta þyrfti að gerast sem fyrst, annars færum við aftur á "vefstólastigið" eins og hann komst að orði.

Ég hef ekki miklar efasemdir um stöðumat Benedikts og stjórnar CCP en ég hef aftur á móti efasemdir um að tilveruna í ESB með tilheyrandi fullveldisafsali, afsali fulls forræðis yfir landbúnaðarmálum og einnig afsali yfir nýtingu sjávarauðlinda. Hvernig verður öryggismálum í ESB t.d. háttað? Mun síðar verða stofnaður Evrópuher og mun e.t.v. verða herskylda í þeim her? Verða Íslendingar þá herskyldir? Er þetta allt ásættanlegt fyrir það eitt að fá að skipta um gjaldmiðil?

Sumir ESB sinnar tala eins og þeir sjái framtíðina í kristalskúlu. Það gerðu líka þeir aðilar sem vildu koma Orkuveitu Reykjavíkur í hendur einkaaðila. Þá átti allt að gerast á leifturhraða og þá var mikið talað um mikla hagkvæmni þess að framkvæma aðgerðina. Samlíkingin er slæm. Sígandi lukka er best. Það er gott og sjálfsagt að hafa í huga að enginn, alls enginn sér framtíðina, jafnvel þó þeir hafi bestu fáanlegu tölulegar upplýsingar við höndina.

Flest bendir því til að ef ásættanleg lausn fyndist í gjaldmiðilsmálinu þá væri hægt að fara yfir ESB umræðuna á þeim rólegu nótum og á þeim tíma sem slík umræða hlýtur óhjákvæmilega að þarfnast.  

Í nýlegum pistlum: Kjósendur fái að minnsta kosti þrjá valkosti í ESB kosningum kem ég líka inn á það að ef til kosninga um ESB aðild kemur til þá þurfa þrír kostir að vera í boði, þ.e. evra í ESB, króna og svo þriðji gjaldmiðill.  Fólk verður að kjósa ESB af því að það vill ESB en ekki bara vegna þess að það vill opið hagkerfi og betri gjaldmiðil en krónuna. Annars verður um þvingaða aðild að bandalaginu að ræða.  Er breska pundið besti kosturinn? velti ég upp möguleikum breska pundsins.


Gæti Varnarmálastofnun sameinast Landhelgisgæslunni?

Heyrst hefur í umræðu og fregnir hafa borist af því að Vinstri grænir vilji leggja Varnarmálastofnun niður og færa verkefni hennar annað, m.a. til Flugstoða sem eru einkahlutafélag og Björgunarmiðstöðvarinnar í Skógarhlíð [1].

Í þessu sambandi er vert að hafa í huga að í ljósi nýlegs atviks þegar tveir kjarnorkukafbátar rákust á í Biskayaflóa að nauðsyn þess að hafa eftirlit með óvæntum ferðum hernaðartækja er alltaf til staðar þó deila megi um hversu stranga eftirfylgni slíkt eftirlit þurfi að hafa. Varla þarf að útlista fyrir nokkrum þann umhverfisskaða sem kjarnorkuslys innan íslensku landhelginnar gæti haft.

Ef herveldin fá óáreitt að telja að íslenska landhelgin sé eftirlitslaust svæði, nánast eins og alþjóðlegt hafsvæði má gera ráð fyrir því að það verði álitið hagstæður staður til athafna á borð við þær sem fram fóru í Biskayaflóanum. Sú spurning hlýtur því að vakna hvort ekki sé eðlilegt ef rætt er um að leggja Varnarmálastofnun niður að heppilegra sé að sameina hana Landhelgisgæslunni og flytja verkefni hennar þangað? Þannig gæti eflaust náðst fram sparnaður með því að hafa eina yfirstjórn og eina stofnun í stað tveggja. Einnig mætti huga að því að hið mikla loftrýmiseftirlit sem fram fer er trúlega gagnslítið m.t.t. fyrirbyggjandi áhrifa og hefur í raun sömu stöðu hernaðarlega séð og heræfingar. Það sem gera þarf er að byggja upp kerfi sem gefur kost á mótvægisaðgerðum þegar vart verður við óvænt hernaðartæki eða aðra grunsamlega umferð og þá ekki bara í lofti heldur einnig í og á sjónum innan landhelginnar.

[1] http://www.visir.is/article/20081219/FRETTIR01/794207672


Kjósendur fái að minnsta kosti þrjá valkosti í ESB kosningum

Sumir stjórnmálamenn tala um að nauðsynlegt sé að sækja um aðild að ESB svo þjóðin fái að vita að hverju hún gengur hvað varðar ESB. Nú kann það að vera að margir séu hlynntir ESB aðild á þeim forsendum helstum að þar fái þjóðin tækifæri til að skipta um gjaldmiðil.

Engan af þessum ESB talsmönnum hefi ég samt heyrt ræða um nauðsyn þess að hafa fleiri kosti en evruna  í boði fyrir þá kjósendur sem vilja nýjan gjaldmiðil. Ef valið stendur bara um íslensku krónuna og evru með ESB aðild þá er líklegt að ýmsir kjósi ESB aðildina nauðugir viljugir því enginn annar gjaldmiðilskostur er í boði. Ef kosningar um aðild að ESB verða á dagskrá mun einnig í þeim sömu kosningum verða að vera búið að kanna annan nýjan valkost í gjaldeyrismálum en evru. Annars skapast hætta á að um þvingaðar kosningar verði að ræða og þjóðin missi fullveldi sitt nauðug því hún hefur ekki aðra nýja kosti í gjaldmiðilsmálum en evruna.

Þessir aðilar tala réttilega um nauðsyn þess að þjóðin fái að velja, en ef val hennar á að vera frjálst þá verður hún að hafa fleiri en tvo kosti í boði í gjaldeyrismálum, þ.e. bara krónuna eða evruna. Í síðasta pistli mínum Er breska pundið besti kosturinn? benti ég á ýmis atriði sem mæla með breska pundinu. Það er eru reyndar vísbendingar um að það sé heppilegri kandídat í gjaldeyrismálum heldur en Bandaríkjadollar. Með því að skoða málin þá má segja að hægt sé að vega og meta pund og evru þannig:

Viljum við fórna yfirráðum yfir sjávarauðlindinni sem við munum á endanum þurfa að gera ef við göngum í ESB, fyrir prósentumismuninn á núverandi útflutningi til evrusvæðisins og útflutningnum til Bretlands. En sá munur er 32% af útflutningi fyrir árið 2007 [1]. Sá munur getur trúlega sveiflast eitthvað milli ára. Til að finna út heildaráhrif þarf einnig að reikna hver ávinningur verður af því að halda forræði yfir sjávarauðlindinni í innlendri eigu. Einnig þarf að vega og meta hver verður greiðslujöfnuður Íslands m.t.t. ESB, mun ESB aðildin að endingu verða okkur dýr í formi skatta og gjalda eða munum við njóta það ríkulegra styrkja að þeir vega upp skattana? Við skulum gera okkur grein fyrir því að það eru fleiri valkostir í boði en evran og það þarf að reikna þetta dæmi til enda til að þjóðin hafi raunhæfar forsendur til frjáls vals en verði ekki þvinguð með nauðung til að kjósa ESB bara vegna þess að hún vill nýjan gjaldmiðil.

1. http://www.forsaetisraduneyti.is/media/Ymislegt/Evran.pdf


Er breska pundið besti kosturinn?

Umræður um hvað gera skuli í gjaldeyrismálum virðast vera komnar í öngstræti og þrætur um aðild að ESB. Í þessu sambandi má benda á að nýlega benti breski Evrópuþingmaðurinn David Hannan á sterk rök fyrir því að Íslendingar eigi að taka upp breska pundið. Frétt þess efnis birtist um þetta á mbl.is hér og grein Davids er að finna hér. Rök hans eru í stuttu máli þessi:

1. Bretland er stærsta viðskiptaland Íslands. 19% af útflutningi Íslands fara til Bretlands. Þá eru fjárfestingar Íslendinga meiri í Bretlandi en í öðrum ríkjum samanlagt.

2. Upptaka pundsins er ekki eins dýr og aðild að ESB. Íslendingar munu halda yfirráðum yfir auðlindum sínum og þurfa ekki að greiða stórfé í sjóði ESB.

3. Líkur eru á að Bretar væru í besta falli ánægðir með þá aðgerð en í versta falli stæði þeim á sama.  „Okkur líkar vel við ykkur," segir Hannan og bætir við að ólíkt mörgum ESB-ríkjum hafi Bretar aldrei séð ofsjónum yfir velgengni Íslendinga eða litið á sjálfstæði Íslands sem ógn við Evrópuþróunina. „Ermarsundseyjarnar og Mön eru í gjaldmiðilssambandi við Bretland en standa utan Evrópusambandsins. Þær eru miklu ríkari en við en okkur er alveg sama."

Varðandi fyrstu rökin þá hlýtur að vera hagkvæmt fyrir útflytjendur vöru að þurfa ekki að kaupa íslenskar krónur af bönkum þegar gjaldeyrir er fluttur heim. Þannig næst fram sparnaður sem gerir útflutningsgreinarnar samkeppnishæfari og ætti að auka umfang og veltu í frum- og útflutningsframleiðslugreinum fremur en bankageiranum eins og verið hefur hingað til.

Heimild: http://www.mbl.is/mm/vidskipti/frettir/2009/02/15/island_aetti_ad_taka_upp_breska_pundid/

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband