Sunnudagur, 16.11.2008
Að skila auðu eða velja af handahófi - hugleiðing um orð dr. Aliber
Nýlega sagði mætur maður, dr. Robert Z. Aliber prófessor í Chigago að fólk valið af handahófi úr símaskrá hefði að líkindum ekki getað valdið jafn miklum efnahagslegum glundroða hérlendis og þeir sem núna eru við völd. Hér hefur dr. Aliber að líkindum talað í víðum skilningi og átt við bæði embættismenn og stjórnmálamenn. Svo virðist sem margir gætu tekið undir þetta álit um þessar mundir. Atburðir síðustu vikna sýna svo ekki verður um villst að óánægja almennings er mikil og hún brýst fram í friðsömum mótmælum. Í þessu ljósi er vart annað hægt en að velta opinskátt fyrir sér hvernig þessar aðstæður urðu til.
Um langa hríð hefur svo verið hér á Íslandi að stjórnmálaflokkarnir hafa verið áhrifamiklir og áhrif þeirra hafa vaxið í réttu hlutfalli við stærð. Þessar aðstæður hafa valdið því að til liðs við flokkana hefur gengið fólk sem gjarnan hefur átt takmörkuðu gengi að fagna annars staðar. Þetta er fólk sem oft hefur hætt skólagöngu snemma, átt stuttan eða snubbóttan starfsframa á ýmsum stöðum en er samt framagjarnt, metnaðargjarnt og á gott með að koma fyrir sig orði. Það gengur til liðs við einhvern stjórnmálaflokk, fylgir sínum leiðtoga af trúmennsku og nákvæmni og gætir sín að fara ekki út fyrir þær línur sem gefnar eru af leiðtoganum. Fólk þetta er leiðtoganum jafn nauðsynlegt og leiðtoginn er þeim. Eftir nokkurra ára dygga þjónkun við flokkinn og markviss en beinskeytt olnbogaskot til keppinautanna innan flokksins blasa verðlaunin við en það er oft á tíðum bitlingur í formi embættis innan ríkis eða bæjarfélags eða stofnunum tengdum þeim. Þeir sem hafa viðrað sjálfstæðar skoðanir innan flokkanna eða eru 'óþægir' flokksforystunni virðast ekki hafa átt frama að fagna innan flokkanna. Þeir verða undir í málefnabaráttu og þar með áhrifalausir þó þeir starfi oft áfram á þessum vettvangi í von um að tillit verði tekið til þeirra síðar.
Almenningur lítur þetta hornauga og orðin 'framagosi' eða 'flokksdindill' eru lesendum að líkindum ekki framandi. Með tíð og tíma verða þessir einstaklingar svo að vonarstjörnum og geta trúlega náð langt innan flokkanna. Eftir ævilanga þjónustu þarf svo að gera vel við viðkomandi, annað hvort með góðum starfslokasamningi eða háu, virðulegu og gjarnan rólegu embætti með von um góð eftirlaun. Þegar á móti blæs er treyst á samtryggingu flokksins og ítök hans í þjóðfélaginu og það heyrir til undantekninga ef stjórnmálamenn segi af sér. Þeir vita sem er að lítillar gagnrýni er að vænta frá hinum flokkunum því þeir búa við svipað fyrirkomulag og samtryggingu þeirra um aðgengi að kjötkötlunum er ekki hróflað við. Það eina sem getur breytt þessu fyrirkomulagi er pólitískur þrýstingur almennings en almenningur hefur verið lítilþægur og leiðitamur enda hefur pólitísk umræða og vitund fólks utan stjórnmálaflokka ekki verið mikil hér á landi síðustu áratugi.
Það sem hefur gerst í seinni tíð er að með auknum áhrifum flokksveldisins hefur þetta fyrirkomulag gengið út í öfgar. Framagosakerfið hefur þann ókost að nálægt toppi valdapýramídans, á toppinn og í valdamiklar áhrifastöður getur komist fólk sem þangað á ekki erindi. Svo virðist sem þetta hafi verið að gerast síðustu árin hér á landi og að flokkshollusta sé orðin æðri hagsmunum almennings og hagsmunum þjóðarinnar. Flest bendir til að umburðarlyndi almennings gagnvart þessu framferði sé á þrotum
Við þessar aðstæður er erfitt að sjá að lausnin felist í því að kjósa nokkurn stjórnmálaflokk en miklu fremur í því að höfða til forseta lýðveldisins sem getur veitt framkvæmdavaldinu aðhald og einnig í því að skila auðu atkvæði í þingkosningum. Hvað sem hver segir þá eru þetta þeir öryggisventlar sem stjórnarskráin býður upp á. Oft er sagt, og þá gjarnan af fylgismönnum flokkanna, að með því að skila auðu þá séu menn að kjósa stærsta stjórnmálaflokkinn en því er ég ósammála. Með því að skila auðu þá kjósa menn lýðræðið og lýðveldið en ekki stjórnmálaflokk. Flokkarnir geta eftir sem áður myndað stjórn og haft meirihluta á Alþingi en ef þeir hafa þrátt fyrir það nauman atkvæðameirihluta þjóðarinnar á bak við sig þá standa þeir veikar og geta síður böðlast áfram á kostnað minnihlutans. Með minna atkvæðahlutfall á bakvið sig þurfa þeir frekar að hlusta á hvað fólk segir og taka tillit til margvíslegra sjónarmiða almennings heldur en gert hefur verið.
Einn möguleiki er svo sá sem dr. Aliber nefnir en það er að velja fólk af handahófi. Það er útaf fyrir sig ekki slæmur valkostur sérstaklega ef í boði væri handahófsvalið fólk í þingsæti fyrir ákveðið hlutfall af auðum atkvæðum. Hægt væri að setja skilyrði um aldur og óflekkað mannorð. Ef þingmenn eru miklu fremur bundnir hollustu við stjórnarskrána og þar með þjóðina, sína eigin samvisku og við eigið mannorð en við stjórnmálaflokk þá yrðu afköst Alþingis trúlega minni, þar yrðu meiri, raunverulegri og dýpri umræður og Alþingi myndi færast frá því að vera afgreiðslustofnun fyrir ríkisstjórnina og í þá átt að öðlast heildarsýn yfir það hvert eigi að stefna. Þetta myndi neyða menn til að forðast skammtímalausnir í aðgerðum ríkisvaldsins eða lausnir sem hygla tilteknum sjónarmiðum á kostnað annarra en horfa frekar til hagsmuna þjóðarinnar á sem breiðustum grundvelli og til lengri tíma.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Miðvikudagur, 12.11.2008
Fjölmiðlarnir - nú þarf að endurræsa
Stundum gerist það í tölvum að kerfið verður svo laskað í keyrslu að ekki dugir neitt annað en endurræsing. Þá er ýtt á "Reset" takkann eða bara slökkt og svo er kveikt aftur og þá næst upp keyrslufrítt kerfi sé ekkert að tölvunni á annað borð.
Atburðir síðustu vikna benda til að ekki þurfi bara að endurræsa sumt í efnahags- og stjórnkerfinu okkar heldur líka þá umgjörð sem fjölmiðlum er búin. Til að gera það þarf trúlega að endurskoða samkeppnislögin til að fyrirbyggja fákeppni, of mikinn samruna sem og að endurskoða útvarpslögin og þann ramma sem RÚV vinnur eftir. Því miður hefur skort skýra framtíðarsýn stjórnmálaflokkanna í þessum málaflokki og skyndiplástrahugsunin er allsráðandi. Og það eru gamlir skyndiplástrar. Í leiðara MBL frá 8. nóv. sl. er því haldið fram að best færi á því að RÚV færi af auglýsingamarkaði og nýtti þá peninga sem það fær frá skattgreiðendum til að sinna almannaþjónustuhlutverkinu. Við þetta er helst að athuga að nú þegar fær RÚV háar fjárhæðir frá skattgreiðendum og einnig að aðrir ljósvakamiðlar hafa staðið sig ágætlega í almannaþjónustu. Það er vandséð að RÚV geti dregið úr eyðslunni m.v. núverandi útvarpslög og það er líka vandséð að RÚV setji stefnuna fyrir alvöru á almannaþjónustuna. Til þess er stofnunin of upptekin af því að hafa ofan af fyrir landsmönnum, enda mælt svo fyrir um í skyndiplásturslögum frá 2007, lögum þar sem fátt er gert annað en að spinna hinn bráðum 80 ára gamla þráð um RÚV með nýju bandi.
6. Að flytja fjölbreytt skemmtiefni við hæfi fólks á öllum aldri. Sérstaklega skal þess gætt að hafa á boðstólum fjölbreytt efni við hæfi barna, jafnt í hljóðvarpi sem sjónvarpi.[1]
Við skemmtum okkur því á hverju kvöldi lesendur góðir í boði ríkisins og sérlega vel um helgar þegar hin bráðskemmtilega Spaugstofa kemur á skjáinn. En er þetta í alvöru það sem við viljum fá frá hinu opinbera? Viljum við láta skemmta okkur og segja okkur fréttir í 100% boði stjórnvalda? Eins og ég hef oft bent á þá er það að líkindum fjölbreytnin sem tryggir öruggasta, óháðasta og ferskasta fjölmiðlun en hana skortir m.a. vegna stærðar og umfangs RÚV ekki bara á auglýsingamarkaði heldur líka á skemmti- og afþreyingarmarkaðnum. Í síðasta pistli mínum um ljósvakamiðla setti ég fram hugmyndir um hvað hægt er að gera í kjölfar endurræsingar á starfsumhverfi fjölmiðla en það er í stuttu máli á þá leið að ríkið á að gæta jafnræðisreglu hvað varðar fjölmiðla sem og aðra og úthluta þeim fjármunum jafnt mt.t. framboðs þeirra af menningarefni og þá helst innlendu. RÚV getur sem best verið til áfram og þá sem almannaþjónustustöð með höfuðáherslu á öryggishlutverkið. Sjá nýlega pistla um það málefni, og þá helst þennan: [Tengill]
Ég tek fram að ég álít að starfsfólk RÚV vinni gott starf og gagnrýni minni er ekki beint gegn því heldur ábyrgðaraðilum stöðvarinnar sem eru ríkisvaldið, Alþingi og að endingu við sjálf lesendur góðir sem höfum með þögulli meðvirkni látið leiða okkur allt of lengi þessa gömlu leið.
[1] Lög um Ríkisútvarpið, 3. febrúar 2007.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 4.11.2008
Nú er lag fyrir stjórnvöld að jafna hlut allra ljósvakastöðva
Það má segja að það sé óeðlilegt hvað alla markaði varðar að þar ríki fákeppni. Samkeppnislög ættu því að nægja til að hindra of mikinn samruna á þessum markaði og ef þau duga ekki þá þarf að laga samkeppnislögin. Allir aðilar eiga að vera jafnir fyrir lögunum og því ætti að gæta þess líka að RÚV verði ekki of ráðandi t.d. á sjónvarpsmarkaðnum. Allir ljósvakamiðlar eiga einfaldlega að sitja við sama borð hvað varðar framlög frá ríkinu. Einn þessara miðla getur sem best verið í eigu ríkisins, þ.e. RÚV og þá á þeim forsendum að tryggja þurfi öryggi almennings og dreifingu til fjarlægra staða. Ef þessa jafnræðis er gætt þá geta þeir allir verið á auglýsingamarkaði. Framlög ríkisins til ljósvakamiðlanna ættu síðan að vera í réttu hlutfalli við flutning þessara miðla á innlendu efni sem og vönduðu erlendu menningarefni. Ekki ætti að styrkja flutning af erlendum íþróttaviðburðum eða öðru erlendu afþreyingar- og skemmtiefni nema sérstök rök styðji þá ákvörðun. Þessir miðlar gætu sem best sameinast um rekstur öflugrar og óháðrar fréttastofu en haft frjálsar hendur þar fyrir utan. Ógæfulegt fjölmiðlafrumvarp stjórnarinnar 2004 hefði líklega aldrei komið til ef málum hefði verið skipað strax með þessum hætti þegar frjálsir miðlar voru leyfðir um miðjan 9. áratuginn.
Rosabaugur Jóns Ásgeirs | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 2.11.2008
Nú er lag fyrir stjórnvöld að jafna hlut allra ljósvakastöðva
Uggvænlegar fregnir af uppsögnum starfsfólks hvaðanæva að úr þjóðfélaginu hafa borist undanfarna daga og ekki er hægt annað en biðja og vona að úrræði finnist á málum allra. Ein þeirra uppsagnarfregna sem barst í liðinni viku er af uppsögnum alls starfsfólks Skjásins. Eflaust má líka gera ráð fyrir samdrætti hjá Stöð 2 þó vonandi þurfi ekki að koma til uppsagna þar því þeir sem vilja spara munu að líkindum byrja að spara í kaupum á fjölmiðlum og afþreyingarefni.
Í ljósi þessara hræringa sést enn betur að núverandi fyrirkomulag í ljósvakamálum er ábótavant og það þarf að laga. Því miður eru einu hugmyndirnar sem fram hafa komið í þá veru að RÚV þurfi að fara af auglýsingamarkaði. Enginn virðist vilja ympra á þeirri leið að allir ljósvakamiðlar eigi einfaldlega að sitja við sama borð hvað varðar framlög frá ríkinu. Einn þessara miðla getur sem best verið í eigu ríkisins, þ.e. RÚV og þá á þeim forsendum að tryggja þurfi öryggi almennings og dreifingu til fjarlægra staða. Um þetta hef skrifað af og til og komið með tillögur um síðastliðið eina og hálfa ár en svo virðist sem þessar hugmyndir hafi ekki skilað sér til hugsuða stjórnmálaflokkanna. Framlög ríkisins til ljósvakamiðlanna eiga að vera í réttu hlutfalli við flutning þessara miðla á innlendu efni sem og vönduðu erlendu menningarefni. Ekki ætti að styrkja flutning af erlendum íþróttaviðburðum eða öðru erlendu afþreyingar- og skemmtiefni nema sérstök rök styðji þá ákvörðun. Þessir miðlar gætu sem best sameinast um rekstur öflugrar og óháðrar fréttastofu en haft frjálsar hendur þar fyrir utan. Ógæfulegt fjölmiðlafrumvarp stjórnarinnar 2004 hefði líklega aldrei komið til ef málum hefði verið skipað strax með þessum hætti þegar frjálsir miðlar voru leyfðir um miðjan 9. áratuginn.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 26.10.2008
Hið andlega lausafé
Fyrir einu ári birti ég ljóðið Ellimörkin? hér á blogginu. Þetta var á meðan góðærið svokallaða var enn hér á landi og fjöldinn allur af gljáandi nýjum pallbílum með stórar innfluttar hestakerrur í eftirdragi eða fjórhjólavagna renndi stoltur eftir götunum. Í kjölfar bankahrunsins er þetta orðið sjaldgæfari sjón og því ákvað ég að yrkja ljóðið upp í tilefni af breyttum tímum:
Ellimörkin - einu ári síðar.
Glæsikonur líta ekki lengur glaðlega til mín
og pallbílar góðærisins eru horfnir af götunum, hestakerrurnar líka.
Í búðunum íslenskur matur, í baðherberginu vigtin samt ennþá,
og í ræktina þarf ég lengur ekki að fara því nú hjóla ég í vinnuna.
Rófustappa slátur og mysa á borðum og á laugardagskvöldinu eru það
gömlu myndbandsspólurnar úr Góða hirðinum sem fátt toppar.
Ég býð nokkrum góðum vinum í heimsókn,
set snjáðar vínýlplötur á fóninn og
Johnny Cash syngur 'Peace in the valley'. Hið
andlega lausafé flæðir í gnægtum og fyllir sálarbankana.
Næst fer kvæðamannafélagið Iðunn á fóninn og
við kveðum nokkrar góðar stemmur
- hljómatöfrar heilla rispum blandaðir.
Gömul, nei það erum við sko aldeilis ekki.
Ljóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 26.10.2008
Útvarp Saga: Einn besti útvarpsþátturinn
Síðastliðin ár hef ég átt þess kost að fylgjast með Útvarpi Sögu og hlusta þá gjarnan á endurflutning um helgar. Þar er einn útvarpsþáttur sem er sérlega athyglisverður og það er þáttur Sigurðar G. Tómassonar og Guðmundar Ólafssonar hagfræðings þar sem þeir spjalla saman og spila tónlist. Eins og alþjóð er kunnugt eru þeir báðir fjölfróðir og víðlesnir og því gaman að fylgjast með samtali þeirra sem er áheyrilegt og skemmtilegt. Ég giska á að þetta geti margir tekið undir þó þeir séu ekki sammála þeim félögum um allt enda felst skemmtun og fróðleiksfýsn ekki endilega í því að vera sammála ræðumönnum.
Eitt af því sem borið hefur á góma í spjalli þeirra félaga er efnahagsmál og gagnrýni á stjórnvöld sem er rökstudd og ennfremur er ágengra spurninga spurt sem ég heyri sjaldan eða aldrei svarað þó vera megi að það hafi verið gert. Styrkur Útvarps Sögu sem frjálsrar og óháðrar útvarpsstöðvar hefur komið betur og betur í ljós með þessu og nú er svo komið að stjórnmálamenn úr ýmsum áttum hafa sóst eftir að flytja pistla í stöðinni og á hana er hlustað sem stöð hins talaða máls og til að heyra skoðanir af ýmsu tagi viðraðar. Þessi eiginleiki er nánast alveg horfinn úr RÚV-Rás1 og þessi efnisþáttur hefur flust yfir í Sjónvarpið að hluta til. Margir muna enn eftir þáttum á Rás-1 þar sem hver sem vildi gat komið og flutt pistil. Um daginn og veginn minnir mig að þessir þættir hafi heitið. Því miður er þetta horfið og verið getur að þetta hafi lognast út af hugsanlega vegna þess að menn vildu vera settlegir í Ríkisútvarpinu, ég veit það ekki en athyglisvert væri að fregna af hverju málin þróuðust þannig, sérstaklega í ljósi útvarpslaganna en samkvæmt þeim á Ríkisútvarpið einmitt að vera vettvangur ólíkra skoðana en í dag er það Útvarp Saga sem ber höfuð og herðar yfir hinar útvarpsstöðvarnar hvað varðar hið frjálsa talaða orð á Íslandi í dag.
Útvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 26.10.2008
Langbylgjustöðin á Eiðum nægir ekki þegar Gufuskálar detta út
Nýlega var tilkynnt á langbylgjustöð RÚV á Gufuskálum að vegna viðhalds og viðgerða ætti að fella niður útsendingar um nokkra stund og á meðan var fólki bent á að stilla á langbylgjustöðina á Eiðum sem sendir út á 207 khz með 100 kw sendistyrk en það er þriðjungur af afli stöðvarinnar á Gufuskálum. Nú er það svo að langbylgjuútvörp eru misjöfn að gæðum. Ég hef verið að prófa móttökuskilyrði Eiðastöðvarinnar hér á Selfossi og þau eru misjöfn eftir útvarpsviðtækjum. Ég náði Eiðum prýðilega á bílútvarp en á tveimur innitækjum voru móttökuskilyrðin slæm. Þetta sýnir að þessar tvær langbylgjustöðvar eru tæplega nægilegar til að halda uppi öryggisþjónustu til fjarlægra staða landsins. Ekki þarf annað en Gufuskálar detti út og þá er stór hluti af landinu án öruggra útvarpssendinga og þurfa að reiða sig á fjarlæga og skammdræga FM senda eða Eiðastöðina sem er of afllítil til að geta þjónað vesturhluta landsins nægilega vel.
Ég hef haldið því fram í nýlegum pistlum að það þurfi að setja miðbylgjusenda í alla landsfjórðunga. Bæði er það til að ná vel til sem flestra tækja því mörg eru ekki með langbylgju og einnig myndu fjórir sendar tryggja meira öryggi en tveir. Langdrægni miðbylgjunnar er að vísu minni en langbylgjunnar en hún er þó þokkalega góð og fullnægjandi til að þjóna einum landsfjórðungi. Ef sendir dettur út ættu nálægustu sendar líka að geta dekkað það svæði sem dettur út.
Það má samt segja að það sé miður hve mörg útvarpstæki eru án langbylgjunnar því hún hentar trúlega best til langdrægra sendinga sem nýtast vel hérlendis, en þetta er raunveruleikinn og það verður að horfast í augu við hann. Það gæti samt verið hægt að halda langbylgjusendunum við líka þó þessum fjórum miðbylgjusendum yrði bætt við. Kannski væri hægt að fjármagna þetta með því að draga úr fjölda FM senda og takmarka þá við þéttbýlissvæðin. Ávinningurinn yrði aukið öryggi og hljómgæðin yrðu viðunandi vegna nálægðar við sendinn þrátt fyrir að um miðbylgjusendingu væri að ræða.
Útvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 24.10.2008
Þarf aukna ímyndarvitund í barnatímum RÚV Sjónvarps?
Eitt af þeim atriðum sem RÚV - Sjónvarp á hrós skilið fyrir eru góðir barnatímar. Þar hafa margar skemmtilegar persónur bæði raunverulegar og leiknar stigið á stokk og skemmt börnum landsins síðustu áratugina með söng, sögum og fróðleik. Þetta er þarft starf og nauðsynlegt enda er mælt fyrir um það í lögum um RÚV en þar segir í 6. grein:
6. Að flytja fjölbreytt skemmtiefni við hæfi fólks á öllum aldri. Sérstaklega skal þess gætt að hafa á boðstólum fjölbreytt efni við hæfi barna, jafnt í hljóðvarpi sem sjónvarpi.[1]
Þó ég sé ekki sammála því að það sé hlutverk ríkisútvarps að flytja fjölbreytt skemmtiefni við hæfi fólks á öllum aldri þá er síðari hluti málsgreinarinnar vel við hæfi.
En það er eitt atriði sem hefur valdið mér nokkrum áhyggjum í gegnum árin en það er ímynd þeirra barna sem koma fram í barnatímanum. Oft eru þetta ljóshærð börn og gjarnan stúlkur. Það þyrfti að hyggja að því að í hópi áhorfenda eru ungir þeldökkir Íslendingar og það er mikilvægt að þeir eigi sína fulltrúa líka í barnatímunum svo þeir eigi jafna möguleika að byggja upp jákvæða sjálfsmynd til jafns við hina. Því þyrftu þeldökk börn, eða dökkhærð að sjást oftar í barnatímum RÚV - Sjónvarps og einnig þarf að huga að því að kynjahlutfall þeirra sem fram koma sé jafnt svo hvorki halli á stúlkur né pilta, konur eða karla.
[1] Lög um Ríkisútvarpið ohf.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Mánudagur, 20.10.2008
Er öryggishlutverk RÚV fyrir borð borið?
Við skulum vona að nú rætist ekki gamla orðtækið að allt sé þá þrennt er. Suðurlandsskjálfti, bankahrun og hvað svo? Vonandi ekki harðindavetur, Kötlugos, eða einhver önnur óáran sem alltaf má búast við hérlendis. Undir slíkum kringumstæðum getur verið mjög mikilvægt að öll útvarpsviðtæki sem hægt er að nálgast geti náð útsendingum og séu með algengu tíðnissviði. Á mörgum útvarpstækjum er engin langbylgja en á þeim öllum er FM bylgja og miðbylgja (AM). Í nýlegum pistli Var FM væðing landsbyggðarinnar mistök? færi ég rök fyrir því að heppilegast sé fyrir RÚV að koma upp öflugum miðbylgjusendi (AM) í hverjum landsfjórðungi ásamt því að efla staðbundna dagskrárgerð. Þetta væri hægt að fjármagna með því að selja skemmti- og afþreyingarstöðina Rás-2 eða breyta henni og flytja út á land og dreifa starfsemi hennar á þessa staði. Ástæðan fyrir því að ég tel nauðsynlegt að setja miðbylgjusendi í hvern landsfjórðung er sú að þeir eru mun langdrægari en FM sendar og ef einn nálægur dettur út þá ætti að vera hægt að ná amk. einum öðrum slíkum sendi vegna langdrægninnar. Ég minni á að undir góðum kringumstæðum má ná miðbylgjusendingum færeyska útvarpsins en þær nást vel á Austurlandi og ég hef náð þeim hér á Selfossi.
Áherslur stjórnvalda hvað varðar stefnumótun fyrir RÚV hin síðari ár sæta nokkurri furðu svo vægt sé til orða tekið og segja má að lítið hafi breyst frá því Rás 2 hóf göngu sína. Jú, gamla öfluga langbylgjustöðin á Vatnsendahæð var orðin úrelt og því lögð niður og nú hefur lítil langbylgjustöð á Snæfellsnesi átt að þjóna landinu og miðunum hvað öryggi og langdrægni varðar. Þegar rök fyrir áframhaldandi stuðningi ríkisvaldsins fyrir RÚV eru skoðuð sést að ekki er lítið gert úr öryggishlutverki stofnunarinnar og stjórnmálamenn hafa þetta gjarnan á takteinum sem rök fyrir gjaldtöku og skattlagningu almennings í formi afnotagjalda. En greinilegt er að aðrir fjölmiðlar standa sig ekki síður vel þegar kemur að þessum þætti. Í jarðskjálftunum hér á Suðurlandi árið 2000 var það fyrsta sem datt út FM sendir RÚV. Í óveðrum síðasta vetrar voru nokkur dæmi þar sem frjálsir fjölmiðlar komu betur til móts við öryggisþarfir fólks heldur en RÚV gerði. Sem dæmi um þetta má nefna óveður á Austurlandi í lok desember sem og hér á Suðurlandi í janúar. Um þessa atburði skrifaði ég pistlana Óviðunandi frammistaða RÚV í óveðrinu á Austurlandi og Af hverju kemur vonda veðrið okkur alltaf jafn mikið á óvart?
Ég lýk þessum pistli með því að taka fram að gagnrýni minni er ekki beint gegn starfsfólki RÚV sem vinnur gott starf heldur er henni beint gegn hinu pólitíska valdi sem ábyrgð ber á stofnuninni og lagaramma hennar.
Útvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 19.10.2008
Ríkisútvarpið í nýju ljósi efnahagsmála
Í ljósi atburða í efnahagsmálum landins sem orðið hafa síðustu daga og vikur er ólíklegt að formlegt eignarhald ríkisins breytist að neinu marki hvað RÚV varðar. Í þessari stöðu er því lítið annað að gera en horfa fram á óbreytt ástand en með einni breytingu þó. Ef RÚV ætlar að vera jafn mikið inni á auglýsingamarkaði og það hefur verið er ekkert sjálfsagðara en að hinir ljósvakamiðlarnir fari líka á ríkisstyrki þannig að allir fjölmiðlar sitji við sama borð hvað varðar slíka styrki óháð eignarhaldi. Þ.e. ríkisstofnunin fengi þá framlag í réttu hlutfalli við framlag sitt af innlendu efni rétt eins og aðrir ljósvakamiðlar. Rökin fyrir því að ríkisvaldið haldi uppi almannaútvarpi eru aðallega af menningarlegum toga og einnig er öryggishlutverk útvarpsins ótvírætt. Hægt að álykta að ekki ætti að greiða ljósvakamiðlum neitt fyrir flutning á erlendu afþreyingarefni svo sem sápuóperum og skemmtiefni heldur fyrir flutning á innlendu efni og hugsanlega einnig fyrir flutning á vönduðu erlendu fræðslu- og menningarefni. Einnig er bráðnauðsynlegt að efla starfsstöðvar útvarpsins í landsfjórðungunum fjórum utan höfuðborgarsvæðisins. Í síðasta pistli mínum Var FM væðing landsbyggðarinnar mistök? kem ég inn á það að til að halda uppi tryggri almannaþjónustu þurfi sterka miðbylgjusenda í alla landsfjórðunga og einnig sjálfstæða dagskrárgerð. Það væri ein öflugasta leiðin og jafnframt ódýrasta sem hægt væri að fara til að efla menningarlegt sjálfstæði landsbyggðarinnar. Fjölbreytt dagskrárgerð sem bæri einkenni hvers landsfjórðungs gæti einnig orðið eftirsóknarvert ljósvakaefni á höfuðborgarsvæðinu og þannig yrði það ekki lengur bara veitandi heldur einnig þiggjandi í menningarmálum.
Útvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)