Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2025
Miðvikudagur, 30.7.2025
Hver var Ólafur helgi?
Ólafur "hinn helgi" Haraldsson, Noregskonungur, fæddur um 995 féll í orrustunni við Stiklarstað 29. júlí árið 1030. Fljótlega eftir það hófst dýrkun á minningu hans sem heilags píslarvotts, og Grímkell biskup í Þrándheimi lýsti hann heilagan. Saga hans varð helgisaga sem sameinaði trúarlega, þjóðlega og pólitíska strauma og átti þátt í að leggja grundvöll að þjóðerni Noregs.
En saga Ólafs helga er einnig saga mótsagna. Hann var upphaflega víkingur sem tók þátt í hernaði og landvinningum. Hann lagði Noreg undir sig með valdi og beitti stundum hörðum aðgerðum gegn þeim sem ekki vildu taka kristni. Hann var af andstæðingum sínum álitinn harðstjóri en í augum fylgjenda sinna var hann umbótamaður, trúboði og hermaður og sú spenna hefur fylgt minningu hans allt til okkar daga. Í Gerplu Halldórs Laxness verður myndin af Ólafi helga og einnig af þeim sem reyndu að standa vörð um eldri gildi hluti af kaldhæðinni sýn á togstreitu valds, trúar og hetjuímynda.
Ólafur konungur Tryggvason d. 1000 var einnig mikilvægur í kristnitökuferli Norðurlanda, en hann varð ekki helgur maður í augum kirkjunnar, því ævi hans bar ekki merki um trúarlega fórnfýsi, píslarvætti eða opinbera dýrkun að dauða hans loknum. Ólíkt Ólafi helga fékk hann enga staðfesta helgisögu. Sú vitund vaknaði því snemma í þjóðarsálinni að Ólafur helgi hefði með dauða sínum friðað landið. En í sögunni um Ólaf helga má líka greina hvernig fólk þarf á helgimyndum að halda og hvernig þær þróast í samtali við samtíðina.
Eftir andlát Ólafs helga myndaðist sameiginlegt minni um konunginn sem friðarhöfðingja og kristniboða. Þrándheimur (forðum kallaður Niðarós) varð helsti pílagrímastaður Norðurlanda á miðöldum, þar sem dómkirkjan var reist yfir gröf hans. Dýrkunin breiddist út með pílagrímaferðum frá öllum Norðurlöndum og tengdi saman konungdóma og kirkju.
Í Noregi er Olsok, eða Ólafsmessa, haldin árlega þann 29. júlí, sem minningardagur um fall hans í orrustunni við Stiklarstað. Nafnið Olsok er dregið af Ólafsvaka, og vísar til næturvöku sem tíðkaðist í kirkjum kvöldið fyrir daginn sjálfan. Í dag er Olsok enn haldin hátíðleg í Þrándheimi, þar sem pílagrímar sækja Niðarósdómkirkjuna heim í messur, tónleika, málþing og leiksýningar. Hápunktur hátíðarinnar er gjarnan útileikritið um Stiklarstaðarorrustu, sem dregur að sér fjölda gesta.
Í Færeyjum lifir þessi helgidagur áfram í Ólavsvøku, þjóðhátíð sem nær hámarki á sama degi. Þar hefur þó trúarlegi þátturinn vikið fyrir ríkri þjóðmenningarlegri hefð: þetta eru hátíðir með dansi, tónlist, skemmtunum, hátíðarfundum þingsins og skrúðgöngum, og margir Færeyingar klæðast þjóðbúningum. Opinber setning þingsins hinn 29. júlí tengist meðvitað minningu Ólafs helga sem grundvallarpersónu í byggingu norræns þjóðveldis.
Fyrir þá sem vilja dýpri umfjöllun um trúarlega þýðingu ævi Ólafs, pílagrímamenningu miðalda og áhrif hans á kirkjusögu Norðurlanda, er vísað á pistil á Kirkjunetinu:
https://kirkjunet.blogspot.com/2025/07/olafur-helgi-pislarvottur-og.html
Stjórnmál og samfélag | Breytt 31.7.2025 kl. 10:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Sunnudagur, 27.7.2025
Í stað þess að mótmæla hvað með að taka þátt?
Mörg ungmenni virðast líta svo á að hefðbundin stjórnmálastarfsemi skili litlu. Þau mæta á mótmæli, tjá sig á samfélagsmiðlum og hafna flokkum sem þau telja sundurleitna og úrelta. En væri ekki tilvalið að þau fengju að kynnast starfsemi flokkanna að innan með gagnrýnu hugarfari í stað þess að dæma hana að utan?
Að ganga í stjórnmálaflokk?
Ísland er herlaus þjóð, án herskyldu en samt lítum við á frið, sjálfstæði og lýðræði sem sjálfgefið og auðfengið erfðagóss. En er það tilfellið? Verður það alltaf svo án nokkurrar verklegrar þjálfunar?
Ég hef stundum velt því fyrir mér hvort ekki mætti nýta félagsfræðikennslu í framhaldsskólum til að efla lýðræðisvitund enn betur en gert er og með ákveðið sjónarmið í huga. Til dæmis með því að gefa nemendum kost á að ganga tímabundið í stjórnmálaflokk eða önnur félagasamtök sem vinna að samfélagsmálefnum og fylgjast með starfinu í eina önn eða svo. Ekki til að verða flokksbundnir aktívistar, heldur til að kynnast málefnavinnu og innviðum lýðræðisins af eigin raun.
Slík hugmynd þarf auðvitað að byggja á skýrum forsendum. Þátttakan yrði að vera valkvæð og val nemandans sjálfs. Skólinn mætti hvorki stýra flokksvali né þrýsta á nemendur að styðja málstað sem þeim fellur ekki. En ef verkefnið væri útfært þannig að nemandi velji sér stjórnmálaflokk, félagasamtök eða hagsmunahópa sem hann vill kynnast og taki þar virkan þátt í tiltekinn tíma með námslegri úrvinnslu að lokum gæti það ekki orðið dýrmæt verkleg lýðræðisleg þjálfun?
Erlendis hefur þetta þegar verið reynt. Í Kanada taka 15 ára nemendur þátt í samfélagsverkefnum sem hluta af námi í ríkisborgaravitund. Í Noregi er starfsemi ungmennaráða og nemendaþinga hluti af lýðræðisfræðslu. Í Þýskalandi er service learning tengt beint við námsgreinar, og í Svíþjóð fá ungmenni að prófa sig í hlutverki þingmanna í æfingum sem líkja eftir starfsháttum ríkisstofnana. Allt er þetta unnið með virðingu fyrir sjálfræði nemenda, pólitísku hlutleysi skóla og gagnrýninni hugsun.
Hér á landi búa margir unglingar yfir sterkri réttlætiskennd og vilja til að hafa áhrif á samfélagið. Þau sækja mótmæli, skrifa undir áskoranir, taka til máls á samfélagsmiðlum en horfa jafnframt með tortryggni á stjórnmálaflokka. Ef til vill af því að þau þekkja starfsemi þeirra ekki af eigin raun og það er af sem áður var í árdaga lýðveldisins þegar heilu fjölskyldurnar tilheyrðu gjarnan ákveðinni stjórnmálahreyfingu.
Í þessu sambandi ber að nefna að sums staðar eru starfandi ungmennaráð sem veita sveitarfélögum ráðgjöf um málefni ungs fólks. Slík ráð eru mikilvægt skref í átt að lýðræðisþátttöku, en þau hafa yfirleitt eingöngu ráðgefandi hlutverk og takmarkast við sveitarstjórnarstigið. Þátttaka í þeim gefur ekki endilega innsýn í hvernig stefnumótun fer fram innan stjórnmálaflokka eða hvernig ákvarðanir eru teknar á landsvísu. Þau ná því ekki að fylla það skarð sem lýðræðislegt þjálfunarstarf innan flokka eða félagasamtaka gæti gert sérstaklega ef það er hluti af námslegu samhengi.
Í stað þess að láta sinnuleysi eða afskiptaleysi ráða för ætti ekki að bjóða þeim að kynnast þessum hreyfingum að innan? Láta þau sjá hvernig samvinna og liðsheild er byggð upp, hvernig stefnuskrár eru mótaðar á grunni málefnavinnu, hvernig kosningabarátta er háð og hvað þarf til að hafa áhrif?
Ef við viljum að lýðræði haldi velli með friðsælum hætti, þurfum við líka að bjóða upp á virka borgaralega þjálfun. Hún getur hafist í framhaldsskóla með því að ganga inn, en ekki burt frá lýðræðinu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 28.7.2025 kl. 06:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Laugardagur, 12.7.2025
Var sameign almennings tekin ranglega með beitingu trúarlegra áhrifa? Athugasemd við pistla Indriða Þorlákssonar
Í pistlum sem birst hafa á vefritinu Heimildin heldur Indriði Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóri, því fram að sameignarréttur yfir jörðum hafi raskast þegar trúarlegum áhrifum hafi verið beitt til að koma yfirráðum á jörðum í hendur kaþólsku kirkjunnar og veraldlegra höfðingja. Hann orðar þetta svo:
Sameignarrétturinn stóð því óraskaður þar til trúarlegum áhrifum var beitt til að koma yfirráðum á jörðum í hendur kaþólsku kirkjunnar og veraldlegra höfðingja m.a. staðarhaldara sem auðgast höfðu eftir að tíundin var lögfest 1096.
Heimildin, 15. maí 2023, [sjá hér](https://heimildin.is/grein/17728/)).
Í öðrum nýrri pistli frá sama höfundi segir jafnframt:
Þótt þessi almannaréttur hafi á stundum verið skertur með valdboði kónga og kirkju hefur hann aldrei afnuminn með lögmætum lýðræðislegum hætti.
(Heimildin, 10. júlí 2025, [sjá hér](https://heimildin.is/grein/24905/atokin-um-audlindirnar/)).
Slíkar fullyrðingar gefa í skyn að yfirráð kirkjunnar yfir jörðum hafi brotið upp fornan þjóðlegan sameignarrétt almennings, sem aldrei hafi verið afnuminn með lögmætum hætti. Sú mynd stenst þó illa sögulegt mat og endurspeglar líklega frekar nútímalega hugmyndafræðilega sýn en raunverulegar forsendur eignarhalds fram til siðaskipta.
Tíundin á rætur að rekja til Gamla testamentisins, þar sem mælt er fyrir um að gefa tíunda hluta af öllu til Drottins. Kristin kirkja tileinkaði sér þessa venju snemma sem hluta af þjónustu við Guð og samfélagið. Frá 8. öld var tíund lögfest í mörgum kristnum löndum, til dæmis í frankaríki undir stjórn Karlamagnúsar. Hún varð síðan viðtekið kerfi í Vesturkirkjunni. Í Danmörku, Englandi og Þýskalandi var tíund grundvöllur að skipulögðu kirkjusamfélagi löngu áður en hún var lögfest á Íslandi.
Tíundin markaði mikilvægt skref í styrkingu kirkjunnar sem stofnunar innan íslensks samfélags. Samkvæmt tíundarlögum skyldu bændur greiða 10% af afrakstri jarðar sinnar, og var skipt jafnt í fjóra hluta: einn hluti til biskups, einn til prests (staðarhaldara), einn til kirkjunnar á viðkomandi jörð og einn til fátækra.
Með tíundinni fékk kirkjan fastar og reglubundnar tekjur og möguleika til að byggja upp innviði og manna embætti, en þó svo tíundin hafi verið leidd í lög, var henni oft mætt með tregðu, ekki síst af höfðingjum sem önnuðust kirkjulegt starf á eigin jörðum. Fátækrahutinn rann formlega til staðarins til úthlutunar í þágu fátækra, en hann var talinn hluti af tekjum sóknarinnar og úthlutun hans var undir andlegri yfirstjórn biskups samkvæmt kirkjulögum. Þetta gat valdið togstreitu þegar staðarhaldarar vildu sitja að ráðstöfunum eða jafnvel líta á þennan hlut sem eigin tekjur.
Á 11. og 12. öld stóð kirkjan í Evrópu í harðri baráttu við veraldlegt vald höfðingja og konunga um yfirráð yfir eignum, embættum og tekjum. Í kjölfar gregoríönsku umbótanna varð æ brýnna að greina á milli kirkjuvalds og veraldlegs valds. Eitt helsta deilumálið var tíundin.
Knútur helgi Danakonungur reyndi á 11. öld að framfylgja innheimtu tíundar í Danmörku í samræmi við kirkjulög, en mætti harðri andstöðu. Uppreisn höfðingja braust út og hann var drepinn í kirkju í Óðinsvéum. Dauði hans varð síðar tákn um helgi baráttunnar fyrir réttindum kirkjunnar. Um öld síðar hér á Íslandi átti Þorlákur helgi í svipaðri baráttu við höfðingja sem vildu halda völdum yfir kirkjustöðum og tíundartekjum. Hann krafðist þess að kirkjan hefði forræði yfir eigin eignum og prestum, og að tíundin rynni til hennar samkvæmt lögum. Barátta beggja sýnir að kirkjan þurfti að verjast yfirgangi höfðingja sem vildu sitja að lögmætum eignum hennar ekki að hún hafi svipt almenning sameignum sínum með trúarlegum áhrifum.
Það er því ekki hægt að fallast á að trúarlegum áhrifum hafi verið beitt til að hnekkja sameignarrétti. Hið rétta er að kirkjan varð með tíundinni einn áhrifamesti aðilinn innan kerfis sem þegar byggði á einkaeign jarða og sameign afrétta. Þróunin fólst ekki í því að almenningur missti rétt sem hann áður hafði, heldur í því að eignaraðild færðist til kirkjunnar, en innan gildandi laga.
Prestarnir voru bundnir af reglum og siðum kirkjunnar og þurftu að halda uppi guðsþjónustu og samfélagslegri þjónustu á staðnum. Þar á meðal var oft skylda staðarins að annast fátækraframfærslu úr hluta tíundarinnar. Þannig voru staðirnir ekki aðeins trúarlegar og efnahagslegar einingar heldur einnig félagslegar stoðir í héraðssamfélaginu.
Klaustur, sem urðu til á Íslandi á 12. og 13. öld, tóku einnig þátt í þessari þróun, þó með öðrum hætti en biskupsstólarnir. Þau fengu ekki hlut í tíundinni samkvæmt lögum, en áttu sjálf jarðir sem þeim voru gefnar og voru í sumum tilvikum studd af biskupsdæmunum með fjárframlögum eða þjónustu. Klaustrin urðu þannig hluti af efnahags- og samfélagslífi landsins. Þau lögðu rækt við menntun, helgihald og oft líka líknarstarfsemi, og gegndu þannig öðru og oft mildara hlutverki í samfélagsgerðinni en kirkjustaðirnir.
Þessi breyting leiddi til nýrrar valdaskiptingar í íslensku samfélagi, þar sem kirkjan varð ekki aðeins andlegt leiðarljós heldur einnig umsvifamikil á veraldlega sviðinu, og þar með hluti af stærri félagslegri umsköpun sem átti sér hliðstæður víða í Evrópu á sama tíma. Að líta á kirkjuna sem yfirstétt sem í samkrulli við veraldlegt vald skerti almennan sameignarrétt stenst ekki nánari skoðun.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 13.7.2025 kl. 06:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)