Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2025
Laugardagur, 12.7.2025
Var sameign almennings tekin ranglega með beitingu trúarlegra áhrifa? Athugasemd við pistla Indriða Þorlákssonar
Í pistlum sem birst hafa á vefritinu Heimildin heldur Indriði Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóri, því fram að sameignarréttur yfir jörðum hafi raskast þegar trúarlegum áhrifum hafi verið beitt til að koma yfirráðum á jörðum í hendur kaþólsku kirkjunnar og veraldlegra höfðingja. Hann orðar þetta svo:
Sameignarrétturinn stóð því óraskaður þar til trúarlegum áhrifum var beitt til að koma yfirráðum á jörðum í hendur kaþólsku kirkjunnar og veraldlegra höfðingja m.a. staðarhaldara sem auðgast höfðu eftir að tíundin var lögfest 1096.
Heimildin, 15. maí 2023, [sjá hér](https://heimildin.is/grein/17728/)).
Í öðrum nýrri pistli frá sama höfundi segir jafnframt:
Þótt þessi almannaréttur hafi á stundum verið skertur með valdboði kónga og kirkju hefur hann aldrei afnuminn með lögmætum lýðræðislegum hætti.
(Heimildin, 10. júlí 2025, [sjá hér](https://heimildin.is/grein/24905/atokin-um-audlindirnar/)).
Slíkar fullyrðingar gefa í skyn að yfirráð kirkjunnar yfir jörðum hafi brotið upp fornan þjóðlegan sameignarrétt almennings, sem aldrei hafi verið afnuminn með lögmætum hætti. Sú mynd stenst þó illa sögulegt mat og endurspeglar líklega frekar nútímalega hugmyndafræðilega sýn en raunverulegar forsendur eignarhalds fram til siðaskipta.
Tíundin á rætur að rekja til Gamla testamentisins, þar sem mælt er fyrir um að gefa tíunda hluta af öllu til Drottins. Kristin kirkja tileinkaði sér þessa venju snemma sem hluta af þjónustu við Guð og samfélagið. Frá 8. öld var tíund lögfest í mörgum kristnum löndum, til dæmis í frankaríki undir stjórn Karlamagnúsar. Hún varð síðan viðtekið kerfi í Vesturkirkjunni. Í Danmörku, Englandi og Þýskalandi var tíund grundvöllur að skipulögðu kirkjusamfélagi löngu áður en hún var lögfest á Íslandi.
Tíundin markaði mikilvægt skref í styrkingu kirkjunnar sem stofnunar innan íslensks samfélags. Samkvæmt tíundarlögum skyldu bændur greiða 10% af afrakstri jarðar sinnar, og var skipt jafnt í fjóra hluta: einn hluti til biskups, einn til prests (staðarhaldara), einn til kirkjunnar á viðkomandi jörð og einn til fátækra.
Með tíundinni fékk kirkjan fastar og reglubundnar tekjur og möguleika til að byggja upp innviði og manna embætti, en þó svo tíundin hafi verið leidd í lög, var henni oft mætt með tregðu, ekki síst af höfðingjum sem önnuðust kirkjulegt starf á eigin jörðum. Fátækrahutinn rann formlega til staðarins til úthlutunar í þágu fátækra, en hann var talinn hluti af tekjum sóknarinnar og úthlutun hans var undir andlegri yfirstjórn biskups samkvæmt kirkjulögum. Þetta gat valdið togstreitu þegar staðarhaldarar vildu sitja að ráðstöfunum eða jafnvel líta á þennan hlut sem eigin tekjur.
Á 11. og 12. öld stóð kirkjan í Evrópu í harðri baráttu við veraldlegt vald höfðingja og konunga um yfirráð yfir eignum, embættum og tekjum. Í kjölfar gregoríönsku umbótanna varð æ brýnna að greina á milli kirkjuvalds og veraldlegs valds. Eitt helsta deilumálið var tíundin.
Knútur helgi Danakonungur reyndi á 11. öld að framfylgja innheimtu tíundar í Danmörku í samræmi við kirkjulög, en mætti harðri andstöðu. Uppreisn höfðingja braust út og hann var drepinn í kirkju í Óðinsvéum. Dauði hans varð síðar tákn um helgi baráttunnar fyrir réttindum kirkjunnar. Um öld síðar hér á Íslandi átti Þorlákur helgi í svipaðri baráttu við höfðingja sem vildu halda völdum yfir kirkjustöðum og tíundartekjum. Hann krafðist þess að kirkjan hefði forræði yfir eigin eignum og prestum, og að tíundin rynni til hennar samkvæmt lögum. Barátta beggja sýnir að kirkjan þurfti að verjast yfirgangi höfðingja sem vildu sitja að lögmætum eignum hennar ekki að hún hafi svipt almenning sameignum sínum með trúarlegum áhrifum.
Það er því ekki hægt að fallast á að trúarlegum áhrifum hafi verið beitt til að hnekkja sameignarrétti. Hið rétta er að kirkjan varð með tíundinni einn áhrifamesti aðilinn innan kerfis sem þegar byggði á einkaeign jarða og sameign afrétta. Þróunin fólst ekki í því að almenningur missti rétt sem hann áður hafði, heldur í því að eignaraðild færðist til kirkjunnar, en innan gildandi laga.
Prestarnir voru bundnir af reglum og siðum kirkjunnar og þurftu að halda uppi guðsþjónustu og samfélagslegri þjónustu á staðnum. Þar á meðal var oft skylda staðarins að annast fátækraframfærslu úr hluta tíundarinnar. Þannig voru staðirnir ekki aðeins trúarlegar og efnahagslegar einingar heldur einnig félagslegar stoðir í héraðssamfélaginu.
Klaustur, sem urðu til á Íslandi á 12. og 13. öld, tóku einnig þátt í þessari þróun, þó með öðrum hætti en biskupsstólarnir. Þau fengu ekki hlut í tíundinni samkvæmt lögum, en áttu sjálf jarðir sem þeim voru gefnar og voru í sumum tilvikum studd af biskupsdæmunum með fjárframlögum eða þjónustu. Klaustrin urðu þannig hluti af efnahags- og samfélagslífi landsins. Þau lögðu rækt við menntun, helgihald og oft líka líknarstarfsemi, og gegndu þannig öðru og oft mildara hlutverki í samfélagsgerðinni en kirkjustaðirnir.
Þessi breyting leiddi til nýrrar valdaskiptingar í íslensku samfélagi, þar sem kirkjan varð ekki aðeins andlegt leiðarljós heldur einnig umsvifamikil á veraldlega sviðinu, og þar með hluti af stærri félagslegri umsköpun sem átti sér hliðstæður víða í Evrópu á sama tíma. Að líta á kirkjuna sem yfirstétt sem í samkrulli við veraldlegt vald skerti almennan sameignarrétt stenst ekki nánari skoðun.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 13.7.2025 kl. 06:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)