Bloggfærslur mánaðarins, maí 2025

Norður-Frakkland við upphaf 15. aldar – áður en þjóðarvitundin vaknaði

Í gömlum ævintýrum og þjóðsögum er stundum sagt að börn sjái það sem fullorðnum er hulið. Í sögunni um nýju fötin keisarans gengur hinn valdmikli konungur um nakinn, því enginn fullorðinn þorir að segja sannleikann – af hræðslu við að virðast heimskur eða óhæfur. En barnið segir:„Hann er ekki í neinum fötum!“

Þegar við hugsum um þjóðríki í dag, gerum við ráð fyrir föstum þáttum: landamærum, sameiginlegu tungumáli, stjórnvaldi, sameiginlegri sögu. En í Norður-Frakklandi við upphaf 15. aldar var ekkert af þessu sjálfgefið. Þar bjuggu milljónir manna í samfélagi þar sem allt var á reiki: völd, trú, tungumál og sjálfsmynd.

Hundrað ára stríðið, sem hófst árið 1337, var að nafninu til átök milli tveggja konungsætta um frönsku krúnuna. En í raun varð það til að rjúfa samfélagssáttmála á öllum sviðum. Erfðakröfur Edwards III Englandskonungs byggðust á flóknum tengslum evrópskra ætta og yfirráða, en almenningur í sveitum hafði hvorki rödd né hlutdeild í þeim deilum. Þegar Karl VI Frakkakonungur varð geðveikur og stjórn landsins lamaðist, varð óvissan algjör.

Félagslegt ástand: þögguð þreyta
Landbúnaður lá víða niðri. Bændur urðu fyrir árásum frá stríðandi fylkingum, liðhlaupum eða reiðum málaliðum, misstu land, bústofn og börn. Þorp tóku að eyðast. Hungursneyð gekk yfir. Hermenn, hvort sem þeir voru frá eigin liði eða andstæðingum, rændu fólkið og brenndu akrana. Riddari gat riðið í gegnum þorpið og tekið kind, og enginn spurði frekar. Millistéttir höfðu brotnað niður, og kirkjan var fjarlæg og oft máttvana. Fólkið stóð eftir í þögn, bæn og bið.

Trúarlegt andrúmsloft: Guð, óttinn og þögnin
Kaþólska kirkjan var að nafninu til sameiningarafl í Evrópu, en á þessum tíma hafði hún misst mikilvæg völd – bæði andlega og veraldlega. Farsóttir og plágur eins og Svarti dauði höfðu skekið traust fólks á kirkjunni, sem virtist ekki geta hvorki útskýrt né stöðvað reiði Guðs. Milljónir dóu á örfáum árum, og engin blessun virkaði. Biskup féll við hlið betlara. Það sem áður var talið öruggt – kirkjan, sakramentin, helgidómar – varð hluti af hruninu. Margir fóru að leita merkingar annarstaðar – í innra lífi, draumum, sýnum og persónulegri trú sem tók að blómstra utan við formlega guðfræði.

Þessu til viðbótar ríkti kirkjulegt upplausnarástand: frá 1309 til 1377 sátu páfar í Avignon í Frakklandi í stað Rómar, og eftir það hófust páfaskiptin miklu, þar sem tveir eða jafnvel þrír menn kröfðust páfadóms og kirkjan sjálf klofnaði milli fylkinga.

Hver páfi var hinn rétti? Hver hirti um sál þeirra þegar kirkjan virtist upptekin af völdum og staðsetningu? Svar við þessu kom sjaldan ofan frá – og það leiddi til þess að trúin færðist niður á við í samfélagsstiganum: til samvisku einstaklingsins, til hjartans, og að lokum – til þeirra sem höfðu enga rödd í hinu formlega valdi.

Á sama tíma tók að blómstra dulhyggja og persónuleg trúarupplifun í Evrópu. Leiðtogar á jaðri kirkjulegs valds – margir þeirra konur – komu fram með sýnir og skýringar sem fólu í sér innri opinberanir, andlega leiðsögn, og nána tengingu við Guð. Fólk sem áður hefði treyst eingöngu á predikun prestsins leitaði í dulspeki, merkingar í draumum og fór að taka eftir einkennum í náttúrunni sem túlka mátti sem skilaboð frá himni.

Þetta andrúmsloft skapaði aðstæður þar sem vitranir barna og alþýðukvenna gátu haft áhrif. Í heimi þar sem vald kirkjunnar var brotið, en guðstraust fólksins lifði áfram, opnaðist rými fyrir þá sem sögðust heyra rödd Guðs – þó enginn væri við stjórnvölinn til að staðfesta það.

Menningarlegt samhengi: ekki ein, ekki mörg
Í Norður-Frakklandi töluðu menn ekki eitt mál heldur margar mállýskur: champenois, lorrain, picard og fleiri. Latína var mál kirkjunnar og stjórnsýslunnar, en alþýðan skildi aðeins sitt heimamálsvæði. Enginn taldi sig „Frakka“ í þeim skilningi sem við notum í dag. Hugmyndin um sameiginlega þjóð var ekki mótuð – aðeins hugmyndin um konung og herra, ef hann þá var einhvers staðar álitinn réttmætur. Menn þjónuðu þeim sem réðu. Og þeir réðu aðeins um stund.

Þegar ekkert kom ofan frá
Þegar valdið klofnar og samhengið brotnar, leitar fólk annað. Til rótanna, til samviskunnar, til Guðs. Og það var í þessum jarðvegi sem eitthvað kviknaði. Ekki krafa um nýtt vald, heldur þrá eftir merkingu – þrá eftir einhverju eða einhverjum sem gæti sagt: „Þið eigið ykkar reisn.“ Það var ekki kóngur sem sagði það, Ekki aðalsmaður, riddari eða biskup heldur barn.

Ef þú vilt vita hvað hún hét, hvað hún sagði og hvað gerðist – haltu áfram hér:[Lesa meira á kirkjunetinu](https://kirkjunet.blogspot.com/2025/05/heilog-johanna-af-ork-minning-30-mai.html)


Atvinnuleysi á Íslandi: Raunsæi í stað trúar á ósýnilegu höndina

Á örfáum vikum hafa landsmenn séð tvö stór iðnfyrirtæki falla eða stöðva starfsemi sína. Fyrirtækið Kambar á Suðurlandi fór í gjaldþrot í apríl, og yfir sjötíu manns misstu lífsviðurværi sitt. Nú rétt fyrir sumarið hefur PCC á Húsavík tilkynnt að starfsemi kísilversins verði stöðvuð tímabundið frá miðjum júlí og að átta tugum starfsmanna verði sagt upp. Í báðum tilvikum eru nefndar erfiðar ytri markaðsaðstæður: fall á heimsmarkaðsverði og innflutningur á niðurgreiddum hráefnum sem gerir íslenskri framleiðslu nær ókleift að keppa.

Þegar kenningin stenst ekki veruleikann
Þetta minnir okkur á að stundum standast hagfræðikenningar ekki samanburð við veruleikann. Það er eitt að tala um hlutfallslega yfirburði í viðskiptakennslubókum; annað að sjá hvernig byggðir glata lífsnauðsynlegum störfum vegna þess að framleiðslan heima er orðin útundan í samkeppni við niðurgreidda vöru sem kemur frá ríkjum með allt önnur starfsskilyrði og önnur markmið. Þetta eru aðstæður sem hagfræðingar eins og Peter Navarro hafa bent á: að þegar stórveldi spila ekki eftir sömu leikreglum og við, þá er ekkert sem tryggir að frjáls viðskipti leiði til sanngjarnrar samkeppni eða aukinnar hagsældar. Þvert á móti geta þau valdið því að heilir atvinnuvegir hverfa, jafnvel þó eftirspurnin fyrir vörunni sé enn til staðar.

Nágrannar okkar hafa brugðist við – munum við gera það?
Við getum lært margt af nágrannaþjóðum okkar. Í Finnlandi og Svíþjóð hafa stjórnvöld brugðist við með því að veita tímabundinn stuðning til fyrirtækja sem verða fyrir samkeppnisskekkju vegna alþjóðlegra aðstæðna. Í Noregi eru til staðar reglur sem heimila tímabundnar ráðstafanir til að verja lífvænlega framleiðslu þegar markaðurinn bregst. Innan Evrópusambandsins hafa verið settar reglur sem gera ráð fyrir því að vörur sem seldar eru undir kostnaðarverði, t.d. frá Kína, megi sæta bráðabirgðatollum ef hægt er að sýna fram á að slíkt valdi skaða. Þetta eru ekki hvatir til efnahagslegrar þjóðernishyggju eða lokunar heldur viðbrögð við raunverulegri hættu á því að samkeppnisgrundvöllur raskist og heil atvinnugrein falli vegna ytri skekkju sem stjórnvöld hafa úrræði til að bregðast við – ef viljinn er fyrir hendi.

Íslensk stjórnvöld hafa enn ekki virkjað slíkar heimildir að neinu ráði. Þegar PCC kærir innflutning á undirverði til fjármálaráðuneytisins er það ekki upphaf að tollastríði heldur neyðarkall úr byggð sem stendur frammi fyrir atvinnuleysi og óvissu. Þessi atburðarás ætti að vera kveikja að breiðari umræðu: Erum við tilbúin að horfa upp á fleiri álíka dæmi án þess að endurskoða stefnu okkar í þessum málum?

Raunsæi er ekki afturhald
Atvinnulíf byggist ekki einungis á spálíkönum heldur einnig á trausti, stöðugleika og framtíðarsýn. Við höfum ekki efni á að missa þá sem hafa byggt upp verksmiðjur, þekkingu og störf án þess að spyrja hvort eitthvað megi gera. Þetta snýst ekki um einangrun eða afturhvarf heldur um að tryggja lágmarksjafnvægi í samkeppni og halda uppi lífvænlegum atvinnugreinum í landinu.

Raunsæi í alþjóðaviðskiptum þýðir að við viðurkennum að markaðurinn er stundum skakkur – og að við höfum rétt og skyldu til að verja þjóðarhagsmuni þegar svo ber undir. Ef stjórnvöld ætla sér að standa vörð um byggðir, fjölbreytt atvinnulíf og sjálfbæra framtíð, þá þarf að stíga inn í samtal sem hingað til hefur að mestu verið þaggað niður með vangaveltum um hagfræðilega hreintrú. Spurningin er ekki hvort við eigum að grípa inn í, heldur hvort við höfum hugrekki til þess áður en fleiri fyrirtæki lenda í sömu stöðu.


mbl.is Rekstrarstöðvun frá miðjum júlí: 80 sagt upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skilningur á tungumáli er öryggismál – ekki formsatriði

Það mætti vel velta fyrir sér hvort stjórnvöld – t.d. Samgöngustofa eða viðkomandi ráðuneyti – geti innleitt einfalt og skynsamlegt úrræði: tilviljanakennd munnleg tungumálapróf fyrir starfandi leigubílstjóra?

Slíkt próf væri stutt, kannski 5–10 mínútur, og færi fram annaðhvort í eigin persónu eða í síma. Því væri ekki ætlað að flæma fólk úr starfi heldur tryggja að lágmarksskilyrði séu uppfyllt – að bílstjóri geti t.d. útskýrt stutta leið á íslensku, skilið einfaldar leiðbeiningar frá farþega og brugðist við neyðartilvikum. Það er ekki ósanngjörn krafa.

Samhliða mætti veita ökumönnum góðan aðgang að námskeiðum og tungumálaþjálfun með hagnýtri nálgun. Með því væri hægt að styrkja þjónustuna, auka öryggi og varðveita traust almennings til þessarar mikilvægu stéttar.

 


mbl.is Leigubílstjórar taka próf á íslensku og ensku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frá ættbálkarétti til heimsmyndar: Hugarfarsbreyting í Evrópu

Við upphaf miðalda, þegar síðustu leifar Vestur-rómverska ríkisins voru að falla, hurfu ekki aðeins hersveitir og hallir — heldur einnig lög. Rómarrétturinn, sem hafði í margar aldir veitt keisurum og embættismönnum sameiginlegt tungumál laga, var orðinn brotakenndur. Þar sem áður ríkti reglubundið kerfi með borgararétti, eignarrétti, samningaformi og dómsvaldi — tók nú við margbrotið landslag: munnlegur réttur, hefðir ættbálka, dómþing á torgum eða í stofum höfðingja.

Það sem gerðist var í raun hrörnun hugmyndarinnar um ríki sem samfélagslega heild. Nýir konungar — af germanskri ætt — voru í senn stríðsherrar og forystumenn staðbundinna ættarvelda sem höfðu náð víðtækum yfirráðum. Þeir gátu ráðið, en ekki endilega réttlætt. Þeir gátu stýrt, en vissu ekki alltaf hvernig ætti að byggja upp samfélag. Í slíkum kringumstæðum stendur maður frammi fyrir einfaldri en djúpri spurningu: hvernig skapar maður heild úr sundurleitum hópum minni ættarvelda, sumra hverja með ólík, jafnvel gjörólík tungumál?

Sumir þessara höfðingja stóðu einmitt á þessum stað í eigin lífi. Þeir höfðu sigrað — en vissu ekki alveg hvað átti að koma næst. Og þá kom það fyrir að þeir höfðu við hlið sér konu — eiginkonu, gjarnan af öðrum uppruna. Konu sem hafði alist upp við fastari ramma, með siðferðisviðmið, læsi og hugsun sem náði út fyrir núverandi völd og vald. Hún hafði séð heim sem ekki byggðist á valdi einu, heldur á reglu og hugsun um ábyrgð og samvitund.

Og þá fór eitthvað að gerast. Ekki í hallarveislum, heldur í samtölum milli tveggja einstaklinga. Kóngurinn — með vald sitt. Konan — með sýn sína. Ekki í mótsögn heldur aðeins ákveðið hugarfar. Og úr því spratt stundum sameining, umbreyting. Eftir það fór ný hugsun að mótast um það hvernig ríki ætti að halda saman, ekki bara með styrk, heldur með einhvers konar sameiginlegri reisn.

Sérstakur pistill á Kirkjunetinu fjallar um tvö slík dæmi — af konum sem stóðu á þessum tímamótum. Þar má sjá hvernig nærvera, menning og orð leiddi til þess að leiðtogar fóru að leita nýrrar stefnu. Ekki með hernaði — heldur með samtali.
[Heilagur Ágústínus frá Kantaraborg – pistill á Kirkjunetinu](https://kirkjunet.blogspot.com/2025/05/heilagur-agustinus-fra-kantaraborg.html)

 


Þögnin eftir byltinguna – hver tók við umönnuninni?

Franska byltingin markaði djúp spor í sögu Evrópu. Hún var afleiðing langvinnrar spennu milli forréttindahópa og almennings, þar sem sífellt fleiri vildu sjá nýtt og réttlátara samfélag taka við af gömlum siðum og stofnunum. Byltingin hafði ótvírætt lýðræðislegt inntak: krafan um frelsi, jafnrétti og bræðralag átti djúpar rætur í heimspeki upplýsingarinnar og andúð á spilltu kerfi þar sem sumir lifðu við þægindi á meðan aðrir strituðu án réttar eða raddar.

En eins og oft gerist þegar kerfi hrynja hratt, myndast einnig tómarúm. Í þeirri viðleitni að endurskipuleggja samfélagið frá rótum, voru kirkjulegar stofnanir lagðar niður og trúarreglur leystar upp – meðal annars vegna þess að margar þeirra voru tengdar valdakerfum sem almenningur hafði misst traust á. Það er skiljanlegt að þjóð sem hafði lifað lengi undir þungum byrðum vildi leita að nýjum grunni. En í þessu ferli hurfu einnig ýmis samfélagsleg hlutverk sem kirkjan hafði sinnt – og þá einkum í sveitum.

Klaustur höfðu árum og jafnvel öldum saman verið miðstöðvar umhyggju og menntunar. Nunnur kenndu börnum og hjúkrunarreglur sáu um sjúka og aldraða. Þegar þessar stofnanir voru leystar upp, tók enginn strax við. Yfirvöldin sem tóku við í kjölfar byltingarinnar höfðu hvorki mannafla né skipulag til að veita sambærilega þjónustu. Í fátækari héruðum urðu því mörg börn án menntunar, margir sjúkir án umönnunar, og margar konur án athvarfs.

Napóleon Bonaparte, sem síðar tók við stjórnartaumum, gerði tilraun til að laga stöðuna. Hann leitaði sátta við páfann og heimilaði aftur opinbera trúariðkun. En hann fór ekki alla leið. Hann tryggði ríkisvaldinu yfirráð yfir kirkjunni en treysti sér ekki til að endurreisa reglulíf eða sjálfstæðar trúarstofnanir. Þannig var vissulega dregið úr skyndilegu niðurbroti reglnanna, en samfélagskerfið sjálft náði aldrei fyrri samheldni í þjónustu við almenning.

Í þessu tómarúmi reyndu einstaklingar, sem voru hvorki ráðherrar né byltingarforingjar, að bæta fyrir skortinn með eigin verkum. Í einum slíkum einstaklingi sameinaðist trú, úrræðasemi og þjónustuvilji. Hún byggði upp það sem ekki var lengur til – eitt skjól í einu, einn skóla í einu, eina manneskja í einu.

Franska byltingin lofaði nýjum manni – en gleymdi dreifbýliskonunni með tóma matarkompu og sjúkan son. Hún, sem áður gat bankað upp á í næsta klaustri eða hjá næsta presti, stóð eftir ein. Það voru ekki slagorð byltingarinnar sem héldu uppi samfélaginu í kjölfar hennar – heldur óséður kærleikur og dugnaður þeirra sem brugðust við því sem yfirvöld höfðu ekki bolmagn til að leysa.

Um eina slíka manneskju má lesa nánar hér: (https://kirkjunet.blogspot.com/2025/05/heilog-jeanne-antide-thouret.html)

 


Eftir storminn – Katalónía og konur í skugga Napóleóns

Napóleónsstríðin (1803–1815) mörkuðu endalok gömlu valdakerfanna í Evrópu og opnuðu leið fyrir nýja stjórnskipan, en einnig óvissu og djúpar samfélagslegar breytingar. Í Katalóníu, líkt og víða annars staðar í Evrópu, urðu þessi átök ekki einungis hernaðarleg – heldur einnig menningarleg, andleg og félagsleg umbylting.

Frá árinu 1808 til 1814 stóð Spánn í svokölluðu sjálfstæðisstríði gegn Frökkum, og Katalónía var meðal þeirra svæða sem lentu harðast í átökunum. Borgir á borð við Barselóna, Girona og Tarragona urðu vettvangur hernáms og andspyrnu. Almenningur mátti þola kúgun, eignaupptöku og uppbrot á trúarlegum hefðum. Hernámsliðið varð fljótt að andkirkjulegu og menningarlega framandi valdi, sem Spánverjar börðust gegn af mikilli hörku.

Napóleon og kaþólska kirkjan – stjórn, kúgun og mótspyrna
Þótt Napóleon hefði árið 1801 samið við páfann (Concordat) í þeim tilgangi að endurheimta frið milli ríkisvalds og kaþólsku kirkjunnar í Frakklandi, leit hann á kirkjuna sem stjórntæki fremur en helga stofnun. Hann skipaði biskupa sjálfur, hélt Píusi páfa VII í haldi í fimm ár, og aðlagaði páfadæmið að Frakklandi.

Í löndum sem féllu undir franskt vald, þar á meðal Spáni, beitti Napóleon sér fyrir víðtækum breytingum: kirkjueignir voru þjóðnýttar, klaustur leyst upp og skólar veraldarvæddir. Þetta olli djúpri andstöðu í þjóðfélagi þar sem kaþólska kirkjan hafði gegnt lykilhlutverki í menntun, heilbrigðisþjónustu og siðferðilegri mótun.

Á Spáni skipaði hann bróður sinn, Joseph Bonaparte, sem konung, og reyndi að innleiða þessar breytingar með lögum og valdboði. Í stað þess að vekja trú almennings á þessum breytingum, þá magnaði hin andkirkjulega stefna Napóleons andspyrnu meðal almennings og styrkti tengsl Spánverja við eigin trúararf og þjóðvitund.

Þegar heimilið varð vígvöllur – konur og nýtt samfélagslegt hlutverk
Napóleónsstríðin skildu eftir sig brotnar fjölskyldur, veikburða hagkerfi og veikt samfélagsnet. Fjöldi karla féll, fór í útlegð eða missti getu til vinnu. Á herðum kvenna hvíldu þá nýjar byrðar: rekstur heimilis og jarðeigna, uppeldi barna, félagslegt utanumhald og í mörgum tilvikum trúarlegt leiðtogahlutverk innan samfélagsins.

Á Spáni og víðar í Evrópu brugðust margar konur við þessum breytingum með því að snúa sér að félagslegri þjónustu og menntun stúlkna, stofna góðgerðarfélög, skóla og hjúkrunaraðstöðu – oft á eigin kostnað. Þannig tóku þær þátt í endurreisn samfélagsins eftir átökin og urðu óformlegir burðarásar innan nýrrar samfélagsgerðar.

Þótt þær nytu lítillar opinberrar viðurkenningar á sínum tíma, mótuðu þessar konur framtíð samfélagsins – ekki aðeins í krafti umhyggju, heldur líka með hugrekki, framkvæmdavilja og djúpri trú.

---

Fyrir þá sem vilja kynna sér hvernig slíkar umbreytingar birtust í lífi einnar ekkju úr þessu umhverfi, má vísa í pistil sem birtist nýlega á Kirkjunetinu, sjá nánar hér: (https://kirkjunet.blogspot.com/2025/05/heilog-joakima-de-vedruna-ekkja-moir-og.html)

 


Þegar ríkið stígur of fast inn á vettvang samviskunnar – Cristero-uppreisnin og lærdómur hennar

Árið 1926 hófst í Mexíkó ein umtalsverðasta trúarandspyrna 20. aldarinnar. Hún stóð í tæp þrjú ár og kostaði tugþúsundir lífið. Uppreisnin, sem kennd er við kjörorðið „Viva Cristo Rey!“ – „Lifi Kristur konungur!“ – var ekki skipulagt valdarán heldur djúp grasrótarviðbrögð við róttækri veraldarhyggju sem svipti milljónir fólks réttinum til að iðka trú sína opinberlega.

Það sem á yfirborðinu leit út fyrir að vera trúarátök var í raun marglaga togstreita um sjálfsmynd þjóðar. Í bakgrunni var gagnrýni á langvarandi tengsl kaþólsku kirkjunnar við yfirstétt og landeigendur, sem höfðu beitt sér gegn lýðræðisþróun á 19. öld. Eftir byltingarárin 1910–1917 var ný stjórnarskrá samþykkt sem átti að tryggja veraldlegt ríki, en í stað þess að tryggja trúfrelsi með skynsömum aðskilnaði ríkis og trúfélaga, var gengið í öfuga átt – trú var útilokuð úr opinberu lífi með lagaákvæðum sem gerðu kirkjulíf að glæpsamlegri athöfn.

Lög sem takmörkuðu trúfrelsi
Í stjórnarskrá Mexíkó frá 1917 var trúfrelsi í orði, en í reynd takmarkað með eftirfarandi ákvæðum:

3. grein bannaði trúarbrögð í skólastarfi, einnig í einkaskólum með opinbert leyfi.
5. grein bannaði munkareglur.
24. grein bannaði prestum að stjórna trúarathöfnum utan helgidóma.
130. grein svipti presta borgaralegum réttindum og setti starfsmannakvóta yfir trúariðkun í hverju héraði.

Þetta kerfi lagði kirkjuna undir ríkið og útilokaði samviskufrelsi í reynd. Slík lagasetning átti sér hliðstæðu í ýmsum einræðisríkjum 20. aldar, en á fáum stöðum í vestrænum lýðræðisríkjum varð hún jafn kerfisbundin. Þegar þessum lögum var framfylgt með fangelsunum, aftökum og lokun kirkna, reis upp öflug andstaða úr grasrótinni – þar sem bændur, konur og börn stóðu saman með prestum í felum.

Samanburður við Spán: trú sem samfélagsátakasvið
Það er fróðlegt að bera Cristero-uppreisnina saman við spænska borgarastríðið. Í báðum löndum var kirkjan orðin tákn kerfis sem margir töldu andsnúið frelsi og jafnrétti. Á Spáni voru prestaskólar og klaustur oft tengd konungshyggju og forréttindum. Í báðum löndum var viðbragð hinna róttæku að svipta kirkjuna öllu hlutverki í samfélaginu – en án þess að tryggja einstaklingsbundið trúfrelsi í staðinn.

Þetta leiddi til þess að alþýðufólk – sem ekki tengdi trú sína við völd heldur við tilverugrundvöll – varð fórnarlamb byltingarinnar. Á Spáni birtist það í kirkjubrunum og blóðbaði rauðliða. Í Mexíkó varð það að Cristero-hreyfingunni. Í báðum tilvikum varð sú hugsun ráðandi að trúarleg sannfæring væri hindrun, ekki réttindi.

Langtímalærdómur: vernd trúfrelsis er ekki aðstoð við trúarbrögð
Það sem Cristero-uppreisnin kennir okkur er þetta: Að vernda trúfrelsi þýðir ekki að gefa trúarhópum forréttindi. Það þýðir að ríkið forðast að setja sig í dómarasæti yfir því hvernig fólk lifir lífi sínu samkvæmt samvisku sinni – hvort heldur sú samviska sé trúarleg eða veraldleg. Ríki sem bannar trúarleg tákn, helgihald eða sakramenti – jafnvel í nafni jafnréttis – fer að skerða þá breidd mannréttinda sem það segist verja.

Mexíkó tók ekki upp formlegt samband við Páfagarð aftur fyrr en árið 1992. Þá var stjórnarskránni breytt og trúfélög fengu aftur réttindi til að eiga eignir og starfa opinberlega. En sárin lifa enn í minningu fólks, söngvum, hátíðum og bæn, þar sem orð eins og „Lifi Kristur konungur!“ eru hvorki krafa um yfirráð né afturhvarf – heldur játning um innra frelsi og samstöðu með þeim sem þegja og þjást.

Sjá nánar hér: https://kirkjunet.blogspot.com/2025/05/heilagur-kristofer-magallanes-og.html


Hver ber ábyrgð þegar gögn eru fengin með ólögmætum hætti?

Það hefur vakið athygli að í nýlegum þáttum Kveiks, fréttaskýringarþáttar Ríkisútvarpsins, hefur verið fjallað ítarlega um mál sem byggja á gögnum sem komið hafa frá gagnaleka sem á sínum tíma var kallaður „Glitnis-skjölin“. Nú hefur komið í ljós að þessi gögn voru ekki bara frá Glitni heldur einnig úr safni gagna sem stolið var frá embætti Sérstaks saksóknara – gögnum sem áttu að vera undir vernd réttarkerfisins. Samkvæmt fréttum hafa blaðamenn haft þessi gögn undir höndum um nokkurt skeið og unnið efni upp úr þeim. Þetta vekur spurningar – ekki bara um efnistök, heldur líka um siðferðileg mörk, ábyrgð og hlutverk ríkisfjölmiðils.

Ef gögn eru með ólögmætum hætti tekin frá opinberu embætti, sem meðhöndlaði þau sem trúnaðargögn í sakamálum, og þau eru síðan nýtt af fréttamönnum opinbers fjölmiðils, má þá ekki með réttu spyrja: Hver ber ábyrgð? Hver metur lögmæti þess að nota gögn sem hugsanlega voru fengin með refsiverðum hætti? Er það alfarið í höndum ritstjóra að meta slíkt? Er það kannski hlutverk siðanefndar, lögfræðings, eða – ef hann er til – einhvers konar regluvarðar hjá stofnuninni?

Þegar um Ríkisútvarpið er að ræða bætist við annar þáttur: RÚV er ekki einkafyrirtæki með frjálsa stefnu og ábyrgð gagnvart hluthöfum, heldur stofnun sem starfar samkvæmt sérlögum, þiggur rekstrarframlag frá almenningi og hefur samkvæmt útvarpslögum skyldu til að endurspegla traust, fagmennsku og menningarlegan fjölbreytileika samfélagsins. Þar má með sanni segja að kröfurnar um gagnsæi og siðferðilega ábyrgð eigi að vera hærri en víðast annars staðar.

RÚV hefur vissulega sett sér upplýsingaöryggisstefnu sem byggir á alþjóðlega staðlinum ISO 27001:2017 og þar kemur fram skýr vilji til að gæta að öryggi og réttri meðferð viðkvæmra gagna. Það hlýtur að teljast verulegt álitaefni hvort sú varðveisla og meðferð gagna sem hér um ræðir – gagna sem vitað er að eiga sér ólögmætan uppruna – falli innan þeirra ramma sem stefnan kveður á um. Þar sem stofnunin gefur í skyn að hún starfi samkvæmt þessum stranga staðli, þá snertir varðveisla og eyðing slíkra gagna óhjákvæmilega starfssvið regluvarðar, og í þessu tilfelli er það upplýsingaöryggisstjóri RÚV sem fer með þá ábyrgð. Stóra spurningin í þessu samhengi er hvort – og hvernig – blaðamennirnir sem hafa gögnin undir höndum munu hlíta þeim ráðleggingum sem upplýsingaöryggisstefnan leggur til eða mælir fyrir um í þessu sambandi. Er slíkur rammi til staðar innan stofnunarinnar og eru þessir verkferlar raunverulega til staðar og virkir þegar kemur að viðkvæmum málum?

Það er ekki hægt að segja einfaldlega að „efnið hafi verið fréttnæmt, því birtum við það“. Slík rök væru líka nothæf fyrir þann sem keypti stolin gögn – eða þann sem birti nektarmyndir án leyfis. Fréttnæmi eitt og sér getur ekki réttlætt öll meðul, og þegar gögn eru til komin vegna refsiverðrar háttsemi, hlýtur að þurfa að gera strangt siðferðilegt mat á birtingu þeirra. Það mat á ekki að vera í höndum einstakra blaðamanna einna saman – heldur að vera hluti af faglegu verklagi og ábyrgðarskipan.

Ef ekki liggur fyrir skýrt mat, eða ef enginn ber formlega ábyrgð innan stofnunarinnar á slíkum málum, þá er það sjálft tilefni til umræðu. Hver metur hvenær gögn eru „réttilega fengin“? Hvernig tryggjum við að slík gögn innihaldi ekki trúnaðarupplýsingar um einstaklinga sem aldrei voru ákærðir, voru sýknaðir, eða áttu aldrei að vera hluti af opinberri umræðu?

Við lifum á tímum þar sem gagnalekar eru orðin tíð tíðindi og margt bendir til þess að almenningur vilji gagnsæi. En það þýðir ekki að öll gögn eigi að liggja opin almenningi. Við verðum að spyrja okkur: Viljum við að opinber fjölmiðill geti, án sýnilegrar formlegrar ábyrgðarkeðju, unnið úr gögnum sem stolið var úr lokuðum möppum réttarkerfisins. 


Þakkarorð til Morgunblaðsins – og vinsamleg spurning til RÚV

Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með fréttaflutningi hér heima í kjölfar kjörs Leós XIV páfa, sem varð fyrsti páfinn frá Bandaríkjunum. Þótt flestir Íslendingar fylgist eflaust úr fjarlægð með þessum atburðum, þá snertir þetta stórt svið trúarlegra og menningarlegra tengsla í heiminum – og einnig stóran hóp fólks sem býr hér á landi.

Morgunblaðið hefur fylgt þessum atburðum eftir með virðingu og áhuga. Spurning, í fullri vinsemd, er hvort RÚV gæti gert meira úr þessum atburðum? Þar á bæ eru fluttar stuttar fréttir um kjörið sjálft, án þess að fjallað sé dýpra um bakgrunn eða viðbrögð, hvorki innanlands né utan. A.m.k. er slíkt ekki finnanlegt á vefnum ruv.is, vonandi fer ég samt með rangt mál þarna. 

Spurt er, ekki vegna þess að allir landsmenn þurfi að deila trú páfa – heldur vegna þess að fjölmiðill sem rekinn er af almannafé og ber lagalega ábyrgð á því að ná til allra landsmanna, ætti ef til vill að sýna í verki að fræðsla um trúarbrögð sé mikilvæg?  Sér í lagi á það við í sífellt fjölbreyttara samfélagi þar sem fjöldi Íslendinga tilheyrir öðrum trúarhefðum en þjóðkirkjunni – þar á meðal kaþólskri kirkju og einnig vegna þess mikla fjölda íslendinga sem dvelst langdvölum í löndum á borð við Spán og Portúgal. 

Ég þakka Morgunblaðinu fyrir að gefa rými fyrir þessar fréttir, slíkt rými er ekki sjálfsagt í dag eins og dæmin sýna. Slík umfjöllun hjálpar að halda tengingu við stærri heim, þar sem trú, menning og stjórnmál eru ekki aðskilin svið heldur fléttast saman í samtal þjóða og tíma.


mbl.is Vance og Rubio hittu Leó páfa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýr páfi Leó XIV og þjóðfélagskenning kirkjunnar

Nýkjörinn páfi, Leó XIV, hefur valið sér nafn sem minnir á tímamót í sögu kirkjunnar og vestrænnar samfélagsumræðu. Sá síðasti sem bar þetta nafn, Leó XIII er einkum þekktur fyrir að hafa skrifað bréfið Rerum Novarum árið 1891 – rit sem markaði upphaf þess að kaþólska kirkjan tjáði sig opinberlega um efnahags- og þjóðfélagsmál samtímans.

Á þeim tíma voru kapítalismi og kommúnismi í harðri andstöðu. Páfinn hafnaði öfgum beggja. Hann staðfesti rétt einstaklinga til einkaeignar en krafðist jafnframt samfélagslegrar ábyrgðar þeirra sem ættu auð. Hann lýsti yfir stuðningi við rétt verkafólks til sanngjarnra launa og stofnunar stéttarfélaga, en hafnaði stéttabaráttuhugmyndum. Hlutverk ríkisins væri ekki að stjórna öllu, heldur að verja hina veikustu þegar þörf krefur.

Þó Rerum Novarum sé trúarlegt skjal að uppruna, þá hafði það áhrif víðar. Það varð upphaf kaþólskrar þjóðfélagskenningar sem hafði áhrif í Evrópu um áratugi – ekki síst á hægri væng stjórnmálanna, t.d. kristilega demókrata í Þýskalandi og Ítalíu, og síðar í trúar- og félagslegum skrifum Jóhannesar Páls II.

Það er forvitnilegt að sjá páfa nú á 21. öldinni taka sér þetta nafn. Hann kann að vera að senda þau skilaboð að kirkjan ætli sér að taka virkan þátt í umræðu um vaxandi ójöfnuð, stöðu vinnandi fólks og siðferðileg mörk markaðar og ríkisvalds út frá miðlægum grunni kristinna hugmynda sem sameina mannlega reisn, frelsi einstaklinga og samfélagsábyrgð.

Sjá nánar hér: https://kirkjunet.blogspot.com/2025/05/nyr-pafi-leo-xiv-og-jofelagskenning_9.html

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband