Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2024
Þriðjudagur, 26.11.2024
Framburður gervigreindar og íslenskan: Tækifæri til breytinga?
Nú þegar framburður gervigreindar stefnir óðfluga í að verða svo góður að litið verði til hans sem fyrirmyndar, er ekki úr vegi að staldra við. Það er vert að skoða þá möguleika sem þetta býður upp á, til dæmis að einfalda og leiðrétta atriði sem samkomulag gæti náðst um að laga. Dæmi um það er "kv"-hljóðbreyting þar sem skrifað er "hv". Með "kv"-hljóðbreytingunni verður ekki bara "hvar" og "hvenær" að "kvar" og "kvenær" heldur verða "hvalir" að "kvalir", "hveiti" að "kveiti" og "hvalaskoðun" að "kvalaskoðun"! Fyrir utan það að valda misskilningi í samskiptum geta svona hljóðbreytingar mjög líklega valdið erfiðleikum hjá fólki sem er að læra íslensku.
Sú hugmynd að búa til staðlaðan framburð þekkist hjá nágrannaþjóðum okkar, bæði í Danmörku og í Bretlandi, þar sem "Received Pronunciation" (RP) er formlegasta útgáfa af ensku og gjarnan kölluð "The Queen´s English" eða "BBC English". Hún hefur verið notuð sem staðall í mörgum kerfum sem byggja á samræmdum framburði. Í Danmörku er til ákveðin samsvörun við Received Pronunciation (RP), sem kallast oft "Standard Danish" eða á dönsku rigsdansk ("ríkisdanska"). Rigsdansk vísar til málfars sem almennt er talið hlutlausasta eða formlegasta afbrigði danskrar tungu og er gjarnan notað í opinberum tilgangi, fjölmiðlum og kennslu.
Á íslandi hefur ekki verið innleiddur neinn einn staðall, og framburður hefur alltaf leyft ákveðna fjölbreytni. Þrátt fyrir það hafa ýmsir haft þá tilfinningu að til sé ríkismál eða útvarpsmál sem tengist fréttaþulum og opinberum ræðum. Íslenskan hefur þó almennt verið opnari fyrir fjölbreyttum framburði en mörg önnur tungumál, líklega vegna þess hve lítill munur er á framburði eftir landsvæðum.
Þó staðan sé þessi í dag, þá hefur verið reynt að koma á samræmdum íslenskum framburði. Fyrir nokkrum árum hlustaði ég á útvarpsþátt þar sem sagt var frá verkefni sem fólst í því að fjármagna för nokkurra leikara til London, þar sem þeir lásu samræmdan framburð inn á hljómplötur. Þetta var líklega á 6. áratugnum. Þetta framtak fjaraði þó út að mestu, þó áhrifa þess hafi mögulega gætt innan leikarastéttarinnar. Ekki þarf annað en hlusta á hljómplötuna Dýrin í Hálsaskógi sem tekin er upp árið 1967 til að sannfærast um það. Á henni má heyra úrvalsframburð leikaranna Árna Tryggvasonar, Bessa Bjarnasonar, Baldvins Halldórssonar, Nínu Sveinsdóttur, Jóns Sigurbjörnssonar, Emilíönu Jónasdóttur, Ævars Kvaran, Gísla Alfreðssonar, Klemensar Jónssonar, Lárusar Ingólfssonar, Önnu Guðmundsdóttur og Margrétar Guðmundsdóttur. Athyglisvert er að enginn þeirra notar "kv"-framburð. Allir viðhalda góðum "hv"-framburði, þó heyrist hjá einhverjum að þessi framburður sé þeim ekki eðlislægur, sem gæti bent til að hann hafi verið tileinkaður með æfingu fremur en lærður frá barnæsku.
Ástæður þess að þetta átak fjaraði út er að líkindum að finna í hinu pólitíska landslagi en töluverðan styrk og samstöðu þarf til að koma á einhverju í líkingu við þetta. Á síðari hluta 20. aldar varð áhersla á þjóðlega þætti að pólitísku feimnismáli að líkindum vegna áhrifa frá Seinni heimsstyrjöld. Það hefur líka verið viðkvæmt mál að skilgreina einhvern einn landshlutaframburð þannig að hann stæði framar öðrum og höfuðborgin var enn það ung að þar hafði ekki myndast sterkt málsvæði eins og hafði gerst í borgum erlendis.
En þegar um er að ræða rödd vélræns talgervis þá er í raun ekki verið að mismuna neinum ef forsendurnar sem lagðar til grundvallar eru að skýra málið og lagfæra atriði sem bæði geta torveldað nám í íslensku og geta þar að auki valdið misskilningi milli þeirra sem færir eru í tungumálinu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 24.11.2024
Yfirburðir Digital Radio Mondiale (DRM) yfir hefðbundið FM-útvarp
Digital Radio Mondiale (DRM) er fjölhæfur stafrænn staðall sem hefur marga kosti umfram hefðbundið FM-útvarp. Hann býður upp á betri hljóðgæði og aukna fjölbreytni í þjónustu, sem gerir hann að kjörnum valkosti fyrir nútíma útsendingar.
Staðallinn skiptist í DRM og DRM+. Munurinn felst í því tíðnisviði og notkunarmöguleikum sem hvor tækni er hönnuð fyrir:
DRM
- Er hannaður fyrir AM tíðnisviðin (Langbylgju, Miðbylgju og Stuttbylgju).
- DRM á langdrægnisviðinu nýtir AM- og SW-tíðnir til að ná til víðáttumikilla svæða. Þetta er sérstaklega gagnlegt fyrir dreifbýli eða alþjóðlegar útsendingar þar sem langdrægni er nauðsynleg til að ná til margra hlustenda og getur þjónað stórum svæðum með góðri orkunýtingu.
DRM+
- Er hannaður fyrir FM tíðnisviðið (Band II) og býður upp á stafræna útvarpssendingu innan hefðbundinna FM tíðna.
- Með DRM+ nást hljóðgæði á FM-tíðnisviðinu, sem jafnast á við stafrænar tónlistarþjónustur. Þetta tryggir að hlustendur fá tært stereo hljóð án suðs eða truflana, ólíkt hefðbundnu FM-kerfi.
- Hefur svipaða eiginleika og DRM, s.s. neyðarvirkni en er sérstaklega sniðinn fyrir svæði þar sem FM er nú þegar í notkun.
FM-kerfið (Frequency Modulation) sem RÚV byggir núverandi öryggiskerfi sitt á, er hliðrænt (analog) útvarpskerfi. Það hefur verið í notkun síðan á fjórða áratugnum (erlendis) og byggir á því að breyta tíðni burðarbylgjunnar (carrier wave) í samræmi við hljóðmerkið. Þessi hliðræna tækni hefur þann kost að skila góðum hljóðgæðum innan skamms radíuss frá sendinum, en er háð truflunum og hefur takmarkaðan rásafjölda miðað við stafrænar útvarpslausnir eins og DAB+ eða DRM.
DRM gerir kleift að senda margar rásir á einni tíðni og birta upplýsingar eins og texta og myndir á skjáum tækja. Þessi eiginleiki gerir útsendingar meira upplýsandi og skemmtilegri fyrir hlustendur. Neyðarvirkni DRM (Emergency Warning Functionality, EWF) býður upp á neyðarboð á textaformi. Að auki notar DRM minni orku en FM, sem gerir útsendingar umhverfisvænni og hagkvæmari til langs tíma litið. Með þessum eiginleikum sameinar DRM gott hljóð og langdrægni.
Norðurlöndin hafa einbeitt sér að DAB+ tækni í stað DRM eða DRM+ fyrir stafræna útvarpsuppbyggingu. Í Noregi hefur verið lögð áhersla á að úrelda FM-kerfið og skipta yfir í DAB+ fyrir landsútvarp. Á sama tíma hafa Svíþjóð og Danmörk einnig haldið sig við DAB+ sem sína aðalstafrænu útvarpstækni.
Áhersla þessara landa á DAB+ er m.a. vegna þess að hún býður upp á fjölbreyttari rásir og notkunargildi á þéttbýlum svæðum. DRM hefur hins vegar verið vinsælt í öðrum löndum fyrir langdrægni og einstaka eiginleika eins og álagsstýringu og neyðarviðvaranir, sem gæti mögulega haft notagildi á afskekktari svæðum í norðurhluta Skandinavíu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 21.11.2024
Húsnæðisáætlanir sem gleyma fólkinu
Það er verið að byggja rangar íbúðir. Við erum ekki að byggja fyrir íbúðamarkaðinn, við erum að byggja fyrir fjárfestingamarkaðinn, segir Finnbjörn A. Hermannsson, forseti Alþýðusambands Íslands. Þarna hittir Finnbjörn naglann á höfuðið. En hvernig getur þetta gerst, þrátt fyrir að sveitarfélög séu skylduð til að gera húsnæðisáætlun?
Í reglugerð um húsnæðisáætlun segir:
Sveitarfélög skulu gera húsnæðisáætlun til tíu ára í senn og skal hún staðfest af sveitarstjórn. Skal hún byggja á greiningum um þörf fyrir íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu með tilliti til mismunandi búsetuforma. Við greininguna skal m.a. skoða framboð og eftirspurn eftir mismunandi búsetuformum og hvort jafnvægi ríki á húsnæðismarkaði. Þá skal meta þörf fyrir húsnæði til að mæta þörfum einstakra hópa, s.s. fatlaðs fólks, aldraðra, tekju- og eignaminni og námsmanna, auk húsnæðisþarfar á almennum markaði.
Það verður ekki fram hjá því litið að skipulagsvaldið er í höndum sveitarfélaganna. Stjórnendur þeirra hafa völd til að beita skipulagsvaldinu í þágu tekjulægri hópa. Þetta er vel framkvæmanlegt, jafnvel í landlitlum sveitarfélögum, þar sem hægt er að beina skipulagsumsóknum landeigenda í þær áttir sem henta samfélaginu best.
Hins vegar væri líklega skynsamlegt að styrkja löggjöfina á þessu sviði. Skýrari lagasetning gæti veitt sveitarstjórnarmönnum þann stuðning sem þeir þurfa hugsanlega á að halda í samskiptum við fjárfesta, sem oft hafa eigin hagsmuni í forgrunni.
Það er verið að byggja rangar íbúðir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Laugardagur, 16.11.2024
Staða íslenskunnar: Tími til aðgerða!
Margvísleg teikn eru á lofti um að staða íslensku sé að veikjast, ekki síst í höfuðborginni þar sem alþjóðavæðingin verður sífellt sýnilegri. Nú er svo komið að sumt starfsfólk verslunar og þjónustu hérlendis getur ekki og reynir heldur ekki að tjá sig á íslensku.
Í Íslenskri málstefnu 2021-2030 er sérstaklega tekið á þessu áhyggjuefni og á bls. 40 segir:
Talin var ástæða til að spyrna við fæti svo íslenska missti ekki svið eða umdæmi yfir til ensku og annarra erlendra mála. Á undanförnum árum hafa áhrif þessa verið skýrust í tengslum við mikla uppbyggingu í ferðaþjónustu og aukna aðsókn erlendra ferðamanna. Til að bregðast við þessari þróun og rétta hlut íslensku er ekki rétt að feta veg boða og banna. Finna þarf jákvæðar leiðir til úrbóta og hvetja fyrirtæki og styðja eftir föngum til þess að fylgja málstefnu sem tryggir stöðu íslensku á öllum sviðum atvinnulífsins.
Sú þróun að vinnuveitendur taki ekki ábyrgð á að starfsfólk þeirra sé ófært að tjá sig á íslensku, kemur ekki á óvart í ljósi alþjóðavæðingarinnar. Íslenska málstefnan hvetur í þessu sambandi til jákvæðrar nálgunar og stuðnings við fyrirtæki. En vísbendingar eru um að sú aðferðafræði beri ekki nægan árangur.
Að ráða starfsfólk sem ekki getur tjáð sig á lögboðnu samskiptamáli landsins, íslenskunni, til þjónustu við almenning, er sérkennilegt, en í raun og veru skiljanlegt í ljósi þess að afleiðingar fyrir vinnuveitandann eru engar. Því þyrfti að styrkja málstefnuna, hugsanlega með lagabreytingu ef nauðsyn krefur.
Vinnuveitandi sem ræður starfsfólk sem talar erlent tungumál ætti að bera einhverja ábyrgð á því að hjálpa því til að læra íslensku. Fyrir 30 árum var það heilmikið mál en í dag, með tilkomu tölvu- og fjarskiptatækni, ætti að vera hægt að finna ráð til að koma því við.
Aðgerðaáætlun stjórnvalda um gervigreind er lofsvert framtak, en enn betur má ef duga skal. Algengt er t.d. að fólk æfi sig í tungumálum með tungumálaöppum. Gera þyrfti gangskör að því að fá íslenskuna inn í tungumálaapp, t.d. Duolingo. Þá gætu vinnuveitendur gefið starfsfólki leyfi til að æfa sig á vinnutíma í appinu þangað til viðkomandi væri kominn með nægilega færni til að halda uppi samskiptum á íslensku.
Miðvikudagur, 13.11.2024
Ný öryggisógn og hlutverk greiningardeildar: Nauðsyn nýrrar stofnunar?
Rannsókn á þessum atburði á líklega helst heima hjá greiningardeild ríkislögreglustjóra passi atburðarásin á annað borð inn í ramma stjórnkerfisins. Í reglum um deildina segir að deildin eigi m.a. að:
Annast áhættugreiningu vegna einstaklinga og afla upplýsinga vegna verndar og öryggisgæslu fyrir æðstu stjórn ríkisins.
Veita ráðgjöf um viðbúnað sem hefur þýðingu fyrir hagsmuni ríkisins og þjóðhagslega mikilvæga starfsemi.
Verði það samt raunin að ríkislögreglustjóri telji þetta ekki vera tilefni til viðbragða þarf að skerpa á lögum um greiningardeildina eða koma á fót nýrri öryggisstofnun sem hefur öryggisatvik á borð við þetta á verksviði sínu. Um nauðsyn slíkrar stofnunar var reyndar rætt þegar bandaríska herliðið fór af landi brott 2006.
Málið virðist annars liggja nokkuð ljóst fyrir. Það er hafið yfir vafa að fjársterkur aðili, sennilega þjóðríki, hefur fjármagnað atlögu að Sjálfstæðisflokknum. Ástæður þess að Sjálfstæðisflokkurinn verður fyrir þessu eru þær líklegastar að ráðherrar hans hafa farið með utanríkismálin um langt skeið og flokkurinn er þekktur fyrir stuðning sinn við veru Íslands í Nató, er raunar leiðandi á því sviði og hefur verið frá upphafi.
Stríð geisar í Evrópu og Nató er bandalag sem hamlar útvíkkun stríðsátakanna og því að árásaraðilinn nái markmiði sínu. Nágrannaríki okkar í Evrópu hafa þurft að búa við margháttaðar ógnir síðustu mánuði og ár og ekki þarf að efast um að núverandi ráðamenn í Moskvu muni sýna virðingarleysi eða ógnandi framkomu gagnvart íslenska ríkinu eins og þeir hafa raunar gert um árabil.
Sem fyrstu viðbrögð væri auðvitað hægt að endurskoða og útvíkka upplýsingaöryggisstefnu stjórnarráðsins og bæta við ákvæðum um að starfsfólk ráðuneyta tjái sig ekki um málefni starfsins við fjölskyldumeðlimi, bæði vegna eðlis starfseminnar sem og til að stuðla að öryggi þessara fjölskyldumeðlima.
Ríkislögreglustjóri kannar málsatvik | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 6.11.2024
Langbylgjan er án hliðstæðu
Atvikið þegar hluti farsímakerfisins datt út, sem gerði ómögulegt fyrir fólk að hringja í 112, ásamt sambandsleysi í Tetra-kerfinu, sýnir að mikilvægt er að bæta í fjarskiptakerfið og viðhalda því vel. Þetta og fleiri öryggisatvik á undanförnum árum varpa ljósi á þörfina á að styrkja burðarkerfi netsambandsins og prófa þau reglulega til að tryggja öryggi.
Þá er ekki aðeins mikilvægt að efla netsamband, GSM og Tetra kerfin, heldur getur einnig þurft að viðhalda eldri fjarskiptakerfum sem eiga sér ekki hliðstæðu. Sem dæmi má nefna langbylgjuútsendingar Ríkisútvarpsins, sem stuðla að því að upplýsingar, t.d. fregnir af náttúruvá, berist yfir langar vegalengdir þrátt fyrir landfræðilegar hindranir á borð við fjöll eða fjallgarða.
Því miður virðist sem stjórnvöld hafi leyft þessu mikilvæga öryggiskerfi að úreldast. Ríkisútvarpið hefur í staðinn lagt áherslu á FM kerfið, sem notar rúmlega 230 senda til að ná til mikilvægra landsvæða. Hins vegar hafa FM sendingar takmarkaða drægni og missa samband þegar fjallgarðar skyggja á útsendinguna.
Stafrænar útsendingar á langbylgju eða miðbylgju, t.d. með DRM (Digital Radio Mondiale), gætu tryggt útvarpssamband á öllu landinu með fáum sendum. Með DRM er hægt að nota gömlu sendana áfram með viðbótar tölvubúnaði. Kostirnir eru að þetta fyrirkomulag krefst minni raforku en heldur sömu langdrægni og gerir mögulegt að senda textaskilaboð ásamt hljóði.
Viðamiklar prófanir og vettvangstilraunir hafa verið framkvæmdar víða um heim undanfarin ár á þessum útsendingum. Niðurstöðurnar staðfesta að DRM, bæði á AM og VHF/FM tíðnisviðunum, virkar vel og hægt er að innleiða kerfið til að mæta fjölbreyttum kröfum í alls kyns aðstæðum
Mjög alvarlegur atburður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 24.11.2024 kl. 11:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)