Bloggfærslur mánaðarins, mars 2022
Laugardagur, 19.3.2022
Sérbýli ætti að vera búsetuúrræði fyrir alla tekjuhópa
Endurskoða þarf þá stefnu sveitarfélaganna að ráðstafa lóðum undir eitt stórt sérbýli fremur en að setja sama land undir þrjú til fjögur lítil sérbýli. Forráðamaður sveitarfélags sagði að ástæða fyrir þessu væri að litlu lóðirnar þyrftu að vera hlutfallslega dýrari!? Staðreyndin er samt sú að 3-4 sinnum minni lóð verður lægri í heildarverði en stóra lóðin, jafnvel svo að ráðdeildarsamt lágtekjufólk gæti eignast hana eða leigt til skemmri tíma ef ráðamenn sveitarfélaga myndu heimila slíkt - sem þeir gera fæstir.
Tekjulágt fólk gæti viljað búa í sérbýli af ýmsum ástæðum: Þau gætu viljað geta flutt húsið með sér vegna atvinnu, Þau gætu viljað eiga gæludýr, þau gætu viljað flytja úr fjölbýli þar sem búið væri að gefa gæludýraeign frjálsa, þau gætu viljað eiga garðblett, eins og aðeins íbúar fyrstu hæða fjölbýla geta, þau gætu viljað hanna sitt umhverfi að svo miklu leyti sem það væri hægt, þau gætu viljað fara úr fjölbýlinu vegna vandræða sem geta skapast vegna of mikils nábýlis. Hingað til hefur þetta frelsi aðeins verið á færi þeirra tekjuhærri - í boði sveitarstjórnanna.
Óskiljanlegt er af hverju verkalýðsforystan og þeir stjórnmálaflokkar sem hafa kynnt sig sem talsmenn hinna tekjulægri hafi ekki tekið þetta mál upp. Hefur þeim kannski þótt fjölbýlið vera fullgott fyrir sína umbjóðendur? Fyrst og fremst þarf þó forystufólk sveitarfélaganna að hugsa málið betur því með ströngum reglum er í raun búið að taka af fólki þann möguleika að koma sér upp litlu húsi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 21.3.2022 kl. 06:53 | Slóð | Facebook