Bloggfærslur mánaðarins, október 2016
Miðvikudagur, 12.10.2016
Íslensk króna er framtíðargjaldmiðill landsins
Íslensk króna er framtíðargjaldmiðill landsins og mikilvægt er að treysta umgjörð hennar með þjóðhagsvarúðartækjum svo komið verði í veg fyrir óeðlilegar sveiflur á genginu. Mikilvægt er að gera langtímaáætlanir í ríkisfjármálum og stefna á sjálfbæran rekstur ríkissjóðs. Mikilvægt er að lækka skuldir ríkissjóðs m.a. með verðmætasköpun og aðhaldi því fjármunum er betur varið til samfélagslegra verkefna en til greiðslu vaxta.
Þetta og fleira kemur fram á bls. 4-5 í ályktunum 34. flokksþings Framsóknar.
Þriðjudagur, 11.10.2016
Framsókn geldur varhug við auknum einkarekstri í heilbrigðiskerfinu
Framsókn geldur varhug við auknum einkarekstri í heilbrigðiskerfinu og bendir á að í nágrenni Reykjavíkur eru vannýtt sjúkrahús sem gætu með bættu skipulagi og auknum fjárheimildum komið að gagni við að eyða biðlistum eftir einfaldari aðgerðum. Brýnt er að greina vanda fatlaðs fólks og lífeyrisþega sem býr við þungan lyfjakostnað. Greiða á tannlækningar allra barna undir 18 ára aldri sem og aldraðra og fatlaðs fólks að fullu af Sjúkratryggingum. Gera þarf átak í þjónustu sálfræðinga og geðlækna um allt land.
Þetta og fleira kemur fram á bls. 15-16 í ályktunum 34. flokksþings Framsóknarflokksins um heilbrigðismál.
Mánudagur, 10.10.2016
Innflytjendur kjöts upplýsi um magn vaxtahvetjandi lyfja, hormóna og sýklalyfja
Á nýliðnu flokksþingi Framsóknar var ályktað um gæði innlendrar matvælaframleiðslu og upplýsingaskyldu þeirra sem flytja inn kjöt:
Gera verður kröfu um að gæði verði ávallt höfð að leiðarljósi við framleiðslu matvæla. Heilbrigði íslensks búfjár er verðmæti sem verður að varðveita. Innlendir dýrastofnar eru lausir við marga sjúkdóma sem herja á dýr í nágrannalöndum. Lyfja- og eiturefnanotkun við matvælaframleiðslu á Íslandi er með því minnsta sem þekkist í heiminum. Draga þarf markvisst fram sérstöðu íslenskrar framleiðslu með áherslu á rekjanleika, heilnæmi og gæði.
Gera þarf kröfu um að þeir sem flytja inn kjöt upplýsi neytendur um magn vaxtahvetjandi lyfja, hormóna og sýklalyfja sem valdið geta sýklalyfjaóþoli í mönnum. Neytendur eiga rétt á að vita við hvaða aðstæður og aðbúnað matur, innlendur sem útlendur, er framleiddur. Tryggja þarf að ekki sé flutt inn kjöt af dýrum sem alin eru við lakari aðstæður, en kröfur eru gerðar um hér á landi. Skýra kröfu verður að gera um upprunamerkingar á öllum matvælum.
Sjá nánar hér: http://framsokn.is/pdf/alyktanir-34-Flokksthings-Framsoknarmanna-2016.pdf
Sunnudagur, 9.10.2016
Ályktanir 34. flokksþings Framsóknarmanna
Nú eru ályktanir 34. flokksþings Framsóknar komnar á netið. Í þessum ályktunum er stefna flokksins mörkuð. Mikil og góð málefnavinna átti sér stað á þinginu. Undirritaður var í nefnd þar sem fjallað var um innanríkismál og sveitarstjórnarmál. Þrátt fyrir að aðeins eitt ár væri liðið frá síðasta flokksþingi var tímabært að uppfæra ályktanirnar og sérstaklega í ljósi komandi kosninga.
Ályktanir 34. flokksþings Framsóknarmanna