Bloggfærslur mánaðarins, desember 2015

Frelsi til að velja lítið - mun nýtnihyggja leysa húsnæðisvandann?

Á síðustu öld og fram á þessa jókst fermetrafjöldi íbúðarhúsnæðis á hvern íbúa þrátt fyrir að á sama tíma hafi fjölskyldustærð minnkað. Í þessu felst þversögn sem erfitt er að skýra öðruvísi en að nýtnihyggja hafi vikið fyrir neysluhyggju.  Húsgögn, hús og lóðir fóru stækkandi og að líkindum hefur þessi eigna- og eyðslubólga haft sitt að segja í aðdraganda síðustu fjármálakreppu sem byrjaði sem kreppa húsnæðislánasjóða í Bandaríkjunum.

Þrátt fyrir afleiðingar kreppunnar á neysluhyggjan enn talsverð ítök. Hún kemur fram í þeirri skoðun að hlutir og húsnæði þurfi að vera stórir til að teljast boðlegir. Nóg framboð er af stórum eignum á húsnæðismarkaðnum en að sama skapi er lítið framboð af litlum eignum. [1] Lögð er áhersla á efnisleg gæði á kostnað áhugamála, frítíma og fjölskyldu.  

Sumarið 2014 birtist grein í Kvennablaðinu sem heitir Smáhýsahreyfingin.[2] Ég hvet fólk að lesa hana en þar má sjá dæmi um hvernig fólk hafnar neysluhyggjunni og kýs að lifa smátt. Að eiga val um þetta atriði er mikilvægt því í ljós kemur að því færri hluti sem fólk á því meiri frítíma hefur það. 

Það er frelsi fólgið í því að geta valið að verja ekki bestu árum ævinnar í að vinna fyrir vöxtum, verðbótum eða húsaleigu vegna vannýttra rúmmetra í of stórri íbúð. Í dag er þetta val um að fá að eiga eða leigja minna vandfundið á markaðnum. Það sést á því að í fjölmiðlum hefur komið fram að fólk á í erfiðleikum með að láta enda ná saman eftir að búið er að greiða húsaleigu- eða lán. Þetta gerist þrátt fyrir að yfir 2000 íbúðir séu til sölu á höfuðborgarsvæðinu og yfir 100 íbúðir á Selfossi. [3] 

Mín skoðun er sú að 20 milljónir fyrir nýja "litla" íbúð sé of hátt verð [4]. Stór hluti vandans er sú neysluhyggna hugmynd að 60 fermetrar sé lítið. Ég er samt ekki að segja að verðlagning íbúðanna sé röng eða ósanngjörn, húsnæðið er m.a. of dýrt af því það er of stórt. Minna ætti að geta verið ódýrara. [5] Þarna spila líka grænu sjónarmiðin inn en umhverfisfótspor húsa ætti að geta minnkað í hlutfalli við stærð.

Þessar aðstæður benda til að auka þurfi framboð lítilla húsa eða íbúða. En ef byggja á minna þá liggur frumkvæðið ekki endilega hjá ríkisvaldinu heldur fremur hjá lánastofnunum, fjárfestum, landeigendum, hönnuðum og sveitarfélögum. Landeigendur eða fjárfestar gætu ákveðið að ráða hönnuði til að deiliskipuleggja vistvæn smáhúsahverfi. Sveitarfélögin geta síðan lagt sitt af mörkum með því að yfirfara og samþykkja skipulagið. Nýlegar hugmyndir sem verið er að skoða á Hellu [6] sýna að þessi þróun er þegar hafin. 

 

[1]. Fasteignaleit mbl.is gaf mér í desember 2015: 20-60 fm: 12 eignir á Selfossi en 67 á höfuðborgarsvæðinu.  70-125 fm: 30 eignir á Selfossi en 841 á höfuðborgarsvæðinu. 150-300 fm: 58 eignir á Selfossi en 700 eignir á höfuðborgarsvæðinu. Hakað var við allar íbúðagerðir.
[2]. Kvennablaðið: http://kvennabladid.is/2014/08/14/smahysahreyfingin/ . Sjá einnig vefsíðuna http://www.tumbleweedhouses.com/ en þar eru dæmi um snjallar útfærslur smáhýsa. [3]. Skv. leitarvél Fasteignaleitar á mbl.is í desember. Allar gerðir íbúðarhúsnæðis voru valdar. 
[4]. M.v. byrjunarlaun myndi það taka 26 ár að greiða 20 m. kr. lán ef reiknað er með 0% vöxtum og verðbólgu ef gert er ráð fyrir að þriðjungur af nettólaunum (~190 þús, þ.e. uþb. 63 þús. á mán. eða samtals 760 þús. á ári.) fari í að greiða af húsnæðisláninu. Raunin er sú að þegar verðbætur og vextir bætast við fara greiðslur langt yfir þennan umrædda þriðjung. Í eftirfarandi tengli kemur einnig fram að alls eyðir fólk á al­menn­um leigu­markaði á bil­inu 30-70% af ráðstöf­un­ar­tekj­um sín­um í leigu­greiðslur. Æskilegt þyki hins veg­ar að þetta hlut­fall sé ekki yfir 20-25%: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/12/15/skekkt_mynd_af_leigumarkadi/
[5]. Sjá t.d. þennan fund: https://www.velferdarraduneyti.is/frettir-vel/nr/35308
[6]. Sunnlenska fréttablaðið, 9.des.2015 bls. 7: "Hugmyndir að umhverfisvænu smáhúsahverfi á Hellu": http://www.sunnlenska.is/frettir/18157.html

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband