Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009
Sunnudagur, 8.2.2009
Rafrænt kosningakerfi gæti auðveldað þjóðaratkvæðagreiðslur til muna
Nýlegir stórviðburðir í stjórnmálaheimi landsins þar sem ríkisstjórn þurfti að víkja í kjölfar mikilla almennra mótmæla sýna svo ekki verður um villst að á einhvern hátt þarf lýðræðið að vera virkara en það er og stjórnvöld að geta endurnýjað umboð sitt til þjóðarinnar á skilvirkari hátt en í núverandi kerfi leiki nokkur vafi á því að það sé til staðar. Rafrænar kosningar gætu leikið þar stórt hlutverk.
Í þessu sambandi er vert að hafa í huga að vegna nútímatækni er auðveldara og raunar auðveldara en nokkru sinni áður að kanna hug þjóðarinnar. Núverandi kerfi sem byggir á handvirkri talningu atkvæðaseðla úr pappír er býsna öruggt, stendur fyrir sínu en er þungt í vöfum og dýrt. Með lítilli fyrirhöfn ætti að vera hægt að koma upp rafrænum kosningastöðvum þar sem kjósandi fær afhentan kóða. Þennan kóða myndi hann stimpla inn á tölvu og þá myndi birtast honum rafrænn atkvæðaseðill sem hann gæti merkt við og skilað.
Með nægilegri fyrirhyggju ætti að vera hægt að búa til bæði einfalt og öruggt kerfi. Að sjálfsögðu þyrfti kerfið síðan að virka þannig að ekki væri hægt að rekja einstök atkvæðaskil til staðar og tíma. Niðurstöðurnar yrðu sendar dulkóðaðar til miðstöðvar landskjörstjórnar. Hægt er að hugsa sér að nýta venjulegar tölvur til framkvæmdarinnar og ættu t.d. tölvur í skólum landsins að geta dugað í flestum tilfellum. Þannig þyrfti þjóðin ekki að leggja út í stórfelldan kostnað við tækjakaup.
Atkvæðaseðlar á pappír geta síðan verið til staðar á hverjum kjörstað ef alvarlegar tæknibilanir verða svo sem rafmagnsleysi. Rafræna kerfið ætti því að geta tekið við og talið mjög stórt hlutfall atkvæðaseðla og ólíklegt er að hlutfall pappírsseðla yrði yfir 10% af heildarfjölda greiddra atkvæða, trúlega mun lægra. Þetta fyrirkomulag myndi spara kostnað við talningu og niðurstöður gætu legið fyrir mun fyrr en í núverandi kerfi.
Með þessu fyrirkomulagi ættu þjóðaratkvæðagreiðslur að geta verið mun fyrirhafnarminni, ódýrari og því hægt að halda þær oftar en með núverandi fyrirkomulagi. Þessu þyrftu stjórnvöld að huga að.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)